Í síðustu viku varð mér á í messunni. Ég missti út úr mér ógeðslegan brandara sem betur hefði átt heima í pistli sem þessum, í viðtali eða á uppistandskvöldi en alls ekki í beinni útsendingu rétt fyrir fréttalestur á Rás 2. Brandarinn var útúrsnúningur á orðum Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.
Fyrst hugsaði ég með mér „skilduð þið ekki djókið hehe?“ eins og versti typpastrákur sem sakar aðra um að skilja ekki ömurlegu brandarana hans. Svipað hefur eflaust farið í gegnum huga Páleyjar (beygt svo samkvæmt Árnastofnun) þegar við „landkrabbarnir“ skildum ekki grafalvarleg ummæli hennar sem hún sagði að hefðu verið tekin úr samhengi. Við eigum það því sameiginlegt að hafa gert okkur of seint grein fyrir því að „ef allir virðast misskilja, þá ertu að segja röngu hlutina á vitlausum stað og á vitlausum tíma.“
Nauðgunarbrandarar eru ekki fyndnir. Nema hjá Amy Schumer.
Ég var skömmuð og skrifaði afsökunarbeiðni, sem mér skilst á einhverjum að hafi verið prump. Jæja. Hún kom nú samt frá hjartanu. En nú ætla ég að kryfja viðbrögðin. Ekki til að bjarga eigin skinni, það er alltof seint.
Viðbrögðin sem ég fékk voru langflest mun yfirvegaðri en mistökin sem ég gerði. Það er alltaf erfitt, rétt eins og það er erfiðara að heyra foreldra segja: „Við erum vonsvikin og sár“ í staðinn fyrir: „Við erum reið og það er hægt að spæla egg á höfðinu á okkur.“ Þó urðu viðbrögð sumra til þess að ég sættist við að hafa orðið á þessi mistök því nú er hægt að læra af þeim, og kryfja nokkur þeirra:
Í fyrsta lagi ber að nefna hin klassísku Reykjavík gegn landsbyggðinni-viðbrögð sem eru á afar lágu plani: „Í júní voru 23 nauðganir tilkynntar í Reykjavík. Eigum við ekki að loka djamminu þar?“ Varðandi tölfræðina um 23 nauðganir í Reykjavík er fínt að hafa í huga að upplýsingarnar liggja fyrir af því að þær hafa verið birtar opinberlega – þvert á það sem Páley ætlaði sér. Með öðrum orðum þá er þessi fjöldi til umræðu af því að fjallað hefur verið um hann í fréttum. Það eru víst 300.000 manns á höfuðborgarsvæðinu í júní. Um það bil einum af hverjum 13.000 er því nauðgað á mánuði í höfuðborginni en í fyrra var um það bil einum af hverjum 3.200 nauðgað í Eyjum á einni helgi. Hvergi á Íslandi, eða nokkurs staðar annars staðar, er til fullkomin viðbragðsáætlun vegna kynferðisbrota, hvað þá forvarnir sem virka 100%. Landspítalinn er með ákveðna viðbragðsáætlun og Stígamót eru tilbúin að taka við þolendum. Hvernig farið er með kynferðisafbrot í kerfinu er síðan einn stór brandari því að ... (hef ég tíma til að útskýra það?). Rekstur KR, Vals og KF Mjaðmarinnar stendur ekki og fellur með djamminu í Reykjavík.
Niðurstaða: Öll kynferðisbrot eru ógeðsleg. Ég er ekki #teamnauðganiríRVK; Ég hef tjáð mig og mun tjá mig meira um kynferðisbrot og áreitni í Reykjavík og annars staðar. Hér eru til dæmis tvö dæmi um slíkt:
Stelpustjarfinn. Pistill Margrétar Erlu 4. nóvember 2015
Íslenskar Almannagjár. Pistill Margrétar Erlu 12. júní 2014
auk þess sem ég hef tjáð mig um að hafa verið byrlað nauðgunarlyf á Airwaves - og þarna er haft eftir mér: „Mér fannst mjög óþægilegt að einhver gæti haft svona mikil áhrif á skynjun mína og meðvitund og að það sé bara eitthvað „beisikk“ að „þetta gerist bara á svona hátíðum“.“
Önnur viðbrögð við mistökunum sem mér varð á í útvarpinu um daginn voru að spyrja mig hvernig mér dytti í hug að láta þessi orð út úr mér á RÚV. Í sannleika sagt gerðist þetta í stundarbrjálæði en það er auðvitað engin afsökun. Ég vildi samt óska þess að þau hefðu frekar fallið í pistli sem þessum eða í viðtali. Þau áttu ekki heima þarna. Kynferðisbrot eru ekki pólítískt mál, og að tjá sig um þau er ekki það sama og að dagskrárgerðarmanneskja á RÚV segi „hehehe Sigmundur Davíð er nú meiri ha.“
Þriðju viðbrögð snerust um foreldra og ömmur og afa sendanda sem væru hneyksluð á mér. Við því á ég eitt svar: Stórkostlegt að kynslóðirnar séu að ræða kynferðisbrot. Þið megið og eigið að vera reið vegna smekklausra ummæla. Ég er tilbúin að fleygja mér undir Herjólf fyrir þennan málstað.
Samt ekki.
Fjórðu viðbrögð snerust um hvað Stígamót væru „ómerkilegt batterí.“ Strax á miðvikudagskvöldinu hitti ég þrjá Vestmannaeyinga sem héldu því fram að Stígamót hefðu heimtað ferðakostnað, svítu og algjört „prinsessutrítment“ fyrir að koma til Eyja. Sorrí, ég skil það bara mjög vel ef satt er. Til að geta sinnt þolendum ofbeldis þarf að hvílast vel á milli vakta. EN: Á sama sólarhring bárust mér bæði tölvupóstar og facebookskilaboð um að Stígamót hefðu ALDREI sýnt því áhuga að koma. Ég veit ekki hvoru ég á að trúa, en kids, samræmið þetta hjá ykkur.
Fimmtu viðbrögð snerust um það að þetta væri nú fyrst og fremst fjölskylduhátíð. Hún er það alveg pottþétt að einhverju leyti en ég efast um að meirihluti 15.-20.000 gestana séu sammála. Ég skal trúa því um leið og ég frétti af fjölskyldu sem gistir inni í Dal allar þrjár næturnar með minnst tvö börn undir tíu ára. Auðvitað er allt fjölskyldunæs ef hægt er að segja bæbæ á skynsamlegum tíma og sofa í alvöru rúmi fjarri skarkala skemmtanalífsins, baða sig og fara í þurra sokka. Ég hef sest niður með 9 ára frænku minni á Kaffibarnum um eftirmiðdag. Það þýðir ekki að Kaffibarinn sé fjölskylduskemmtistaður og merktur „good for kids“ á Tripadvisor.
Sjöttu viðbrögð snúast um hvernig ég geti sagt þetta um Vestmannaeyinga. Ég þekki þetta fólk af góðu einu - elska bæjarstjórann sem hatar listamannalaun en í sömu viku og hann tjáði sig um þau samþykkti bærinn að splæsa vel í fararkostnað fyrir listamenn til að koma fram á Goslokahátíð og styrkja vel að öðru leyti. Takk fyrir mig og okkur! En svona í alvöru: Nauðgarar eru alls konar fólk. Þeir eru Vestmannaeyingar, Reykvíkingar og meira að segja Akureyringar. Þetta er fólk sem á fjölskyldur, mætir í jólaboð og fer með föt í hreinsun, ekki einhver eintómur skríll sem steypir botnlausum TAL-tjöldum yfir varnarlausar konur.
Sjöundu viðbrögð voru þau að ég skildi ekki hvernig það væri að vera þolandi kynferðisofbeldis og hversu hræðileg skömm fælist í því að þurfa að fara upp í bíl og bíða þar eftir fari heim með hinum þolendunum. Jú, ég skil það vel, sjá næstu klausu. Hins vegar benti mamma mín á (því að oft fær fólk ekki samúð með þolendum fyrr en sagt er ÞETTA ER DÓTTIR EÐA SONUR EINHVERS) að ef hún hefði leyft unganum sínum að fara á einhverja hátíð, vildi hún fá fréttir um ofbeldisverkin og fíkniefnabrotin sem þar væru framin. Það er enginn að tala um að flytja fréttir af því að Margréti Erlu, 32 ára hafi verið nauðgað kl. 1:05 á föstudagskvöld, heldur bara eðlilega upplýsingagjöf. Og plís: Niðurfelling kæru þýðir ekki að þolandi hafi verið að ljúga.
Áttundu viðbrögð voru hin klassísku ÞAÐ ÞYRFTI NÚ BARA AÐ NAUÐGA ÞÉR. Ég fékk samtals fern svoleiðis skilaboð tvö á feisaranum og tvo tölvupósta, en þessi voru uppáhalds því að þau kjarna þetta allt svo fallega, auk þess sem þau eru þau einu sem voru rétt skrifuð:
Kæri vinur, það er bara búið að því, fyrir 15 árum síðan, og ekki hjálpar það mér til að halda kjafti í dag. Þess ber að geta að ég og nauðgarinn minn höfum farið yfir þetta mál og talað út um það. Hann hefur beðist afsökunar og axlað ábyrgð. Þið sem senduð þetta eruð sjálfum ykkur til skammar og eyðileggið fyrir öllum þeim Vestmannaeyingum sem ég á eftir að matcha við á tinder í framtíðinni og í guðanna bænum ef þú ætlar að senda konum úti í bæ nauðgunarhótanir, hættu að nota bleika fílinn sem prófílmynd.
Djamm- og djúshátíðir snúast um þrennt: Drekka, dópa og ríða. Mér finnst allt þetta bara mjög spennandi. Hins vegar er hræðilegt fyrir PR-ið ef neðanbeltisgamanið kárnar. Þess vegna skynja ég svo afar heitt að ákvörðun um að geyma upplýsingar um kynferðisbrot snerist ekki um að vernda fórnarlömb, heldur að bíða eftir að fallið yrði frá kærum – og því hægt að segja frá færri brotum en voru fyrst tilkynnt. Það væri nefnilega svo bagalegt að sjá nafn hátíðarinnar og orðið „nauðgun“ í sömu setningu. Ég efast ekki um að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum eigi allt sitt hæp skilið í ákveðnum kreðsum en það er orðið of seint. Í hugunum í 101-píkukúlunni minni eru þessi hugrenningartengsl til staðar:
Málið snýst þó ekki eingöngu um Vestmannaeyjar og viðbrögðin þar. Verslunarmannahelgin og nauðganir eru fyrir löngu komin í sama hugsanaklasa í höfðinu á mér. Þetta snýst um að það sé orðið sjálfsagt að kynferðisbrot eigi sér stað þegar fólk komi saman til að skemmta sér og að enn finnist okkur of vandræðalegt að ræða þetta mál til að geta komið í veg fyrir brotin, hvað þá hugað almennilega að þolendum.
Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér og enginn nauðgi um helgina, hvorki í Vestmannaeyjum né annars staðar. Og ef þér, kæri lesandi, verður nauðgað þá skemmir þú ekki partýið með því að tilkynna glæpinn.