Á föstudag voru undirritaðir nýir búvörusamningar. Þeir
kosta skattgreiðendur um þrettán milljarða króna á ári og eru til tíu ára. Til
viðbótar kostar sú tollavernd sem íslenskum landbúnaði er veitt með lögum um
tíu milljarða króna til viðbótar fyrir neytendur á ári. Það þýðir að næstu þrjár ríkisstjórnir hið minnsta verða bundnar af þeirri ákvörðun. Þegar
samið var um gerð þessarra samninga þá var það gert með aðkomu stjórnmálamanna
annars vegar og fulltrúa bænda hins vegar. Enginn fulltrúi neytenda var aðili
að gerð þeirra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var búinn að undirbúa sig fyrir umræðuna sem myndi fylgja undirritun samninganna. Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi fyrir skemmstu hvatti hann atvinnulífið til að hætta „að eyða kröftum í að atast í bændum eða ímynda sér að það geti verið skynsamlegt að gera Ísland að losunarstað fyrir umframframleiðslu á heimsmarkaði á meðan önnur ríki viðhalda tollum gagnvart okkur.“
Þegar fram kom gagnrýni um að nýir búvörusamningar væru skelfilegir fyrir neytendur sagði hann að samningarnir stuðluðu að lægra vöruverði til neytenda og gjaldeyrissparnaði upp á um 50 milljarða króna á ári. Í Morgunblaðinu í dag kom síðan fram að Sigmundur Davíð nennir ekkert að ræða þessi mál frekar. „Það er búið að undirrita þessa samninga og málið er frá,“ sagði forsætisráðherra þrátt fyrir að Alþingi eigi enn eftir að samþykkja þá.
Hvorki verslun né bændur gæta hagsmuna neytenda
Vert er að taka fram að ég er ekki andstæðingur íslensks landbúnaðar. Ég hata alls ekki dreifðar byggðir né er að ganga hagsmuna verslunarinnar. Málflutningur hagsmunaaðila hennar, sem oft er settur fram í nafni neytenda, er jafn fjarri því að vera það og sú fullyrðing forsætisráðherra um að yfir 20 milljarða króna árleg niðurgreiðsla og tollavernd fyrir landbúnaðinn sé gerð með hagsmuni neytenda í huga. Verslunin er fyrst og síðast að hugsa um að geta tekið til sín stærri bita af kökunni. Og stjórnmálamenn sem slá skjaldborg um sérhagsmuni bænda eru að tryggja þeim tekjur og tilveru sem byggir ekki á viðskiptalegum forsendum. Þeir sem borga óumflýjanlega kostnaðinn af þessu reipitogi eru almenningur í landinu, íslenskir neytendur.
Einn þeirra búvörusamninga sem skrifað var undir snýr að nautgriparækt, og aðallega mjólkurframleiðslu. Nú er vert að rifja upp að í fyrrasumar kom út skýrsla frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, sem laumað var út í sömu viku og haftalosunaráform ríkisstjórnarinnar voru kynnt svo umræða um hana yrði í lágmarki. Í henni kom fram að íslenskir neytendur borga rúmlega níu milljörðum krónum meira á ári fyrir mjólkurvörurnar okkar en við þurfum að gera. Í stað þess að borga 6,5 milljarða króna fyrir innflutta mjólk, að teknu tilliti til flutningsgjalda, þá borgum við 15,5 milljarða króna á ári fyrir íslenska mjólk. Átta milljarðar króna af þessari viðbótargreiðslu er tilkomin vegna þess að íslenska mjólkin er einfaldlega miklu dýrari í framleiðslu í því kerfi sem við erum með en í þeim löndum sem við gætum flutt hana inn frá. Auk þess framleiðir mjólkurframleiðslukerfi Íslands meiri mjólk fyrir innanlandsmarkað en við þurfum. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostar neytendur og ríkið því milljarð króna til viðbótar á ári.
Þennan veruleika má síðan yfirfæra yfir á aðra anga landbúnaðarkerfisins.
Fé fært úr ríkissjóði til að tryggja völd
Sitjandi ríkisstjórn hefur áður tekið ákvarðanir sem færir fé úr ríkissjóði til aðila sem tryggja henni völd. Það var gert með lækkun veiðigjalda á sjávarútveg sem hagnast hefur um hundruð milljarða króna fyrir fjármagnsliði á árunum eftir hrun. Sú lækkun á tekjum ríkissjóðs var fyrsta verk ríkisstjórnarinnar eftir að hún tók við. Viðbótartekjurnar sem renna nú í vasa sjávarútvegarins geta eigendur fyrirtækja innan hans síðan notað til að sölsa undir sig rekstur í öðrum geirum samfélagsins. Eða dælt í milljarða króna tómstundarrekstur á málgögnum.
Það er síðan örugglega bara tilviljun að sjávarútvegsfyrirtæki eru áberandi á meðal þeirra lögaðila sem styrktu stjórnarflokkanna, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, með hámarksframlögum í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Alls styrktu ellefu sjávarútvegsfyrirtæki Framsóknarflokkinn með hámarksframlagi á árinu 2014, og átta Sjálfstæðisflokkinn.
Ríkisstjórnin færði líka 80 milljarða króna úr ríkissjóði til valins hóps Íslendinga sem hafði verið með verðtryggð lán á ákveðnu tímabili. Greiðslan var órökstudd skaðabótagreiðsla fyrir verðbólguskot sem þegar var búið að leiðrétta sig í hækkandi húsnæðisverði. Tilgangurinn var að greiða fyrir það kosningaloforð um peningagjöf sem tryggði Framsóknarflokknum kosningasigur í þingkosningunum 2013.
Og nú hefur ríkisstjórnin skrifað undir samninga sem eiga að skuldbinda íslenska skattgreiðendur til að niðurgreiða kostnað við rekstur einnar atvinnugreinar um hundruð milljarða króna næsta áratuginn. Þessu á almenningur bara að kyngja og ef ráðstöfunin er gagnrýnd er sagt að viðkomandi skilji ekki hversu gott þetta fyrirkomulag sé fyrir okkur öll og því ættum við ekkert að vera að tjá okkur um það. Þegar hiti kemst í gagnrýnina þá afgreiðir forsætisráðherra síðan bara málið. Það er búið að skrifa undir og málið er frá.
Ef það lítur út eins og spilling, og lyktar eins og spilling þá...
Það er hins vegar ekki þannig að málið sé frá. Og það er sannarlega ekki þannig að íslenskir neytendur geti ekki myndað sér upplýsta skoðun á því hvort forsvaranlegt sé að gríðarlega miklu af skattpeningunum okkar sé eytt í að niðurgreiða einn atvinnuveg. Íslenskir kjósendur hafa mun betri aðgengi að upplýsingum og eru í mun betra færi til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir í dag en þeir hafa verið nokkru sinni áður. Þeir þurfa ekki á stjórnmálamönnum að halda til að taka allar slíkar ákvarðanir fyrir þá og segja þeim föðurlega að málið sé afgreitt með aðkomu örfárra sérhagsmunaaðila. Þótt okkur sé sagt að spilling sé eðlileg, og jafnvel gerð með okkar hagsmuni í huga, þá áttum við okkur á því að svo er ekki. Aukin geta okkar til að sjá í gegnum skrumið er meira að segja mæld reglulega.
Fyrir skemmstu var til að mynda birtur listi Transparency International um spillingu í heiminum. Vísitala samtakanna er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna. Samkvæmt lista samtakanna var Ísland spilltast Norðurlandanna á árinu 2015. Ástæður þess má meðal annars finn í gjörningum á borð við þá útdeildingu skattfjár sem mun eiga sér stað með nýgerðum búvörusamningum.
Það er hægt að stöðva þetta
Flest allir „hefðbundnir“ stjórnmálaflokkar eru að upplifa tilvistarkreppu um þessar mundir. Kjósendur eru að hafna þeim og aðferðafræði þeirra. Helsta ástæðan er sú að almenningur upplifir ekki að fólkið og stefnan sem flokkarnir bjóða upp á séu til fyrir sig, heldur að almenningur sé frekar einungis hreyfiafl sem sé virkjað til að komast að völdum. Þess á milli sé almenningur suð sem leiða eigi hjá sér.
Stjórnmálaflokkar hafa tvo valkosti í svona stöðu, annað hvort að breytast og aðlagast nýjum veruleika eða þverskallast við og færast sífellt meira út á jaðarinn í kjölfarið. Það ætti því að felast tækifæri fyrir stjórnmálaflokka og –menn sem vilja eiga möguleika á að endurtengja sig við kjósendur að gera það þegar búvörusamningarnir verða lagðir fyrir Alþingi.
Með því að hafna þeim og krefjast annarra vinnubragða við útdeilingu á fé almennings, þar sem fulltrúar og hagsmunir neytenda hafa jafn mikið vægi og fjárhagslegir hagsmunir bænda, Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga. Vinnubragða þar sem stjórnmálaöfl með rík söguleg tengsl við framangreinda þiggjendur skattfjár geta ekki skuldbundið þrjár ríkisstjórnir sem þau eiga mögulega ekki aðild að til að greiða hundruð milljarða króna í niðurgreiðslur til einnar atvinnugreinar. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks, þar á meðal þingflokksformaður hans, hafa sagt að þeir muni ekki samþykkja nýja búvörusamninga. Ef öll stjórnarandstaðan segir nei þá þarf bara fimm Sjálfstæðismenn til viðbótar til að hafna samningunum.
Það er hægt að stöðva þetta.