Á föstudag tók fréttastofa RÚV viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Skýrt hefur komið fram að engar fyrir fram ákveðnar forsendur voru fyrir viðtalinu né lá fyrir samkomulag um hvað yrði spurt um.
Í viðtalinu spurði fréttamaður RÚV Sigmund Davíð út í stöðuna innan flokks hans, en flokksformaðurinn hafði fyrr um daginn staðfest að samskipti við Sigmund Davíð væru slæm og sagt það vera viðvarandi verkefni að laga þau. Þá liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn þykir ekki stjórntækur í hugum annarra stjórnmálaflokka á meðan flokkurinn hefur ekki tekið á þeirri stöðu sem er uppi með Sigmund Davíð, sem lætur eins og hann sé sinn eigin formaður þótt flokkurinn hafi hafnað honum. Í viðtalinu var Sigmundur Davíð einnig spurður út í þá staðreynd að hann hefur ekki tekið þátt í þingstörfum á þessu þingi.
Viðbrögð forsætisráðherrans fyrrverandi við þessum spurningum voru eftirfarandi: Hann sagði RÚV bera ábyrgð á stöðunni innan flokks síns, brást reiður við spurningum um mætingu sína í þingsal og rauk að lokum úr viðtalinu.
Enn einn hlutinn í löngu leikriti
Það er ekkert nýtt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson neiti að líta í eigin barm og beri á torg vænisjúkar samsæriskenningar um fjölmiðla sem í slagtogi við önnur öfl séu búnir að rotta sig saman við að fella mikilmennið hann af stalli. Fyrir alla sem skoða hans mál út frá staðreyndum þá liggur hins vegar algjörlega ljóst fyrir að enginn sparkaði undan honum stólnum nema Sigmundur Davíð sjálfur.
Það var hann sem ákvað að leyna því að hann og eiginkona hans hefðu átt aflandsfélag. Hann ákvað að segja engum frá því að hann væri kröfuhafi í bú föllnu bankanna á sama tíma og hann var að vasast í úrlausn á stöðu þeirra. Það var hann sem ákvað að ljúga í viðtali við sænskan sjónvarpsmann þegar hann var spurður út í Wintris. Þess vegna voru 26 þúsund manns að mótmæla honum á Austurvelli 4. apríl og þingflokkur Framsóknarflokksins á sama tíma að ákveða að setja hann af sem forsætisráðherra.
Það var hann sem hélt fordæmalausa ræðu sem studd var ótrúlegu myndmáli á miðstjórnarfundi á Akureyri þar sem hann krafðist þess að flokksmenn mynduðu varnarvegg í kringum sig og fylgdu sér í blindni. Það var hann sem ákvað að rjúka út úr Háskólabíói eftir að flokksþing Framsóknarflokksins ákvað að gera það ekki. Og það var hann sjálfur sem ákvað að mæta ekki í vinnuna sem hann er kjörinn til að sinna.
Spurningar eðlilegar, viðbrögðin ekki
Pólitík Sigmundar Davíðs snýst öll um að búa til hetju úr sjálfum sér og strámannaher óvina sem hetjan getur slegist við. Þar er ekkert svigrúm fyrir grá blæbrigði. Allt er svart eða hvítt. Þannig er handritið í höfðinu á honum og ef einhver víkur frá því handriti, t.d. fréttamaður sem hann veitir viðtal, þá bætist viðkomandi og vinnustaður hans í óvinaherinn.
Skoðum staðreyndir. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl. Hann ákvað í kjölfarið að fara í frí, kallaði inn varamann í apríl og maí og settist ekki í neina nefnd líkt og aðrir þingmenn gera. Hann kom svo úr fríi í lok maí og greiddi síðast atkvæði í þinginu 8. júní síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur Sigmundur Davíð þegið full laun, hefur ekki kallað inn varamann, hefur einungis einu sinni síðan í júní tilkynnt fjarvist og hegðun hans er að öllu leyti í andstöðu við það sem þingskapalög segja til um. Samkvæmt þeim er þingmönnum skylt að sækja þingfundi og ef þeir komast ekki eiga þeir að tilkynna forseta þingsins um það. Á síðasta kjörtímabili var Sigmundur Davíð með næst verstu mætingu allra þingmanna í atkvæðagreiðslur og það sem af er þessu kjörtímabili er hann eini þingmaðurinn sem hefur ekki mætt í þingsal.
Það er ótrúlegt að það þurfi raunverulega að eiga sér stað umræða um að það sé fullkomlega eðlilegt að fjölmiðlar, sem vinna við að upplýsa almenning og veita stjórnvöldum aðhald, spyrji fyrirferðarmikinn stjórnmálamann af hverju hann mæti ekki í vinnuna og af hverju hann og formaður flokks hans talist ekki við. Spurningarnar voru sjálfsagðar og eðlilegar. Viðbrögð Sigmundar Davíðs, sem brást við eins og frekt barn og ásakaði í kjölfarið ótilgreindan SDG-hóp á RÚV um að vera með þráhyggju gagnvart sér, voru það ekki.
Normalísering á þvælu
Samt hefur fyrrverandi ráðherra séð tilefni til þess að hvetja til þess að kallað verði á sérfræðing til að fara yfir miðlun frétta RÚV af Sigmundi Davíð, gera skýrslu um það og birta. Fyrrverandi fréttamaðurinn Hallur Hallsson segir RÚV ekki sjálfrátt og að verið sé að leggja Sigmund Davíð í einelti með því „ryðjast inn í afmælisveislu með vangaveltur um SDG ekki verið á þingfundi eftir fjóra þingfundardaga Alþingis.“ Vefmiðillinn Eyjan kallar þetta „Deilur Sigmundar Davíðs og RÚV“ og í útvarpsþættinum Í bítinu í morgun var spurt hvort að „eitthvað væri að framkomu Sigmundar Davíðs eða er RÚV ekki á réttri braut?“ Þar töluðu þáttarstjórnendur um „stríð milli Sigmundar Davíðs og RÚV“, og að efnisinnihald viðtals sem RÚV tóku við forsætisráðherrann fyrrverandi hafi snúist um að „gagnrýna að hann var ekki búinn að mæta í þingið þessa fjóra daga sem búnir eru."
Þetta er þvæla og ofangreindir, ásamt ýmsum öðrum, eru að normalísera þvælu með því að líta á eðlilegar spurningar fréttamanns sem eitthvað annað en það. Stjórnmálamenn geta ekki gert kröfu um að svara bara spurningum sem þeir vilja svara eða ræða bara mál sem þeir vilja ræða um. Þegar fólk gefur kost á sér til trúnaðarstarfa þá verður það að lúta aðhaldi fjölmiðla, sem vinna fyrir almenning.
Þessi skoðun um að tipla eigi á tánum í kringum valdið og þá sem halda á því er lituð af eftirsjá af samfélagi sem er ekki lengur til staðar. Þar sem stjórnmálin stjórnuðu öllu, líka fjölmiðlunum, og það þótti ekki við hæfi að spyrja óþægilegra spurninga eða fletta ofan af spillingu. Þetta samfélag níunda og tíunda áratugarins er ekki til lengur. Og kemur blessunarlega ekkert aftur sama hvað nostalgíumenn rembast við að særa það til baka.
Það sem er að
Það er margt að í íslensku fjölmiðlaumhverfi í dag. Það eru eigendavandamál, blaða-og fréttamennska er orðin láglaunastarf sem fáir ílengjast í og flest viðskiptamódel fyrri tíma eru á fallandi fæti. Enn dæla hagsmunaaðilar peningum í valdar fjölmiðlablokkir til að ná fram þeim áhrifum sem þeir vilja á þjóðfélagsumræðuna. Á þessu þarf að taka og ef fólk er almennt sammála um að frjálsir fjölmiðlar leiki lykilhlutverk í lýðræðinu þá þarf hið opinbera að laga rekstrarumhverfi þeirra. Um það virðist þverpólitísk sátt og vinna er hafin við skoðun á hvernig hægt yrði að gera það. Almenningur getur auðvitað líka tekið beinan þátt í því að styðja heiðarlega og gagnrýna fjölmiðlun, t.d. með því að greiða mánaðarlegt framlag til Kjarnans hér.
En stærsta vandamál íslenskra fjölmiðla, og fjölmiðla út um allan heim, er fólk sem skilur ekki hlutverk þeirra. Sem telur að tilfinningar þeirra trompi staðreyndir og telur að fjölmiðlar eigi að þjóna því, ekki almenningi. Fólk eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þeir sem taka þátt í, og ýta undir, þann vænisjúka farsa sem árásir hans á fjölmiðla eru.