Stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð var stofnaður árið 2012. Þá var birt stofnyfirlýsing þar sem farið var yfir megininntak frjálslyndrar stjórnmálastefnu flokksins. Í lok þeirrar yfirlýsingar segir: „Allt það sem ofan greinir byrjar hjá okkur sjálfum, með ábyrgð á okkur sjálfum og því hvernig við hugsum, tölum og hlustum.“
Síðan þá hefur þessi tónn verið leiðarstef í því hvernig Björt framtíð upplifir sig sem stjórnmálaflokk. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar sem fram fóru í fyrrahaust var slagorð flokksins: „Minna fúsk, meiri Björt framtíð.“ Formaður flokksins, Óttarr Proppé, fór yfir þennan boðskap í viðtali við DV daginn fyrir kosningar. Þar sagði hann að Björt framtíð leggi áherslu á „vönduð vinnubrögð, breitt samráð og baráttu gegn fúski og sérhagsmunagæslu.“
Sami formaður sagði í ræðu á Alþingi 24. ágúst 2016, þar sem verið var að ræða störf þingsins, að honum væri „illa við fúsk og finnst ekki til of mikils mælst að keppa að því að stofnanir þjóðfélagsins starfi út frá heiðarleika, kærleika og með virðingu fyrir almenningi. Því miður fréttast sífellt dæmi af hinu gagnstæða.“
Ráðherra auglýsir vöru fyrir vinkonu sína
Í vikunni bárust dæmi um hið gagnstæða. Ráðherra í ríkisstjórn lét taka af sér mynd íklædd varningi frá vinkonu sinni í þingsal. Myndin var notuð í kynningarskyni fyrir fyrirtæki vinkonu ráðherrans, sem framleiðir og selur tískuvörur í London. Í kynningartextanum er tekið fram að fyrirsætan á myndinni sé ráðherra í ríkisstjórn, að hún sé ein af elstu vinkonum eiganda fyrirtækisins og að myndin sé tekin í þingsal Alþingis.
Viðbrögð ráðherrans, Bjartar Ólafsdóttur, við fréttaflutningi um málið, sem sett voru fram á Facebook, voru upprunalega þau að um væri að ræða árás á forsendum feðraveldisins á sig í ljósi þess að hún er ung og sterk kona í áhrifastöðu. Hún bætti síðar við færsluna að hafi einhver orðið fyrir þeim hughrifum að ráðherrann hafi vanvirt virðingu Alþingis með því að láta mynda sig í þingsal þá þætti henni það miður. Nokkrum klukkutímum síðar fann ráðherrann sig hins vegar knúna til að biðjast afsökunar og viðurkenndi að hún hafi sýnt dómgreindarbrest með því að sýna vöru vinkonu sinnar í kynningarefni með þeim hætti sem hún gerði. Uppsetningin hafi verið vanhugsuð vegna þess að hún tengdi við einkafyrirtæki.
Eftir stendur hins vegar að eðlilegt er að máta framferði ráðherrans við það sem flokkur hennar segist standa fyrir, og rakið er hér að ofan, og þær siðareglur sem ríkisstjórn hennar hefur samþykkt að undirgangast.
Ekki í takti við siðareglur
Þegar horft er á þessa hegðun blákalt þá blasir við að hún er ekki í takti við siðareglur ráðherra sem settar voru til að efla traust á stjórnsýslunni, en það hefur hríðfallið á undanförnum árum. Samkvæmt 1. grein þeirra má ráðherra ekki notfæra sér stöðu sína til „persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðila sér nákomna.“ Í 2. grein siðareglnanna segir að ráðherra skuli „forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín.“ Í 3. grein segir að ráðherra sé „ekki heimilt að hafa einkanot af gæðum starfsins nema að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa.“
Í 4. grein segir að ráðherra skuli „forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni.“ Í sömu grein er annað ákvæði sem er athyglisvert. Í því segir að ráðherra skuli gæta „þess að framganga hans gefi starfsmönnum ekki tilefni til að ætla að litið verði fram hjá brotum á lögum eða siðareglum.“
Ráðherra er semsagt gert að sýna starfsmönnum sínum það í verki að brot hans á lögum eða siðareglum hafi afleiðingar. Engar málamiðlanir verði gerðar vegna framgöngu hans frekar en annarra sem brjóta gegn þeim.
Hægt er að koma ábendingum á framfæri við umboðsmann Alþingis telji einhver að ráðherra hafi brotið siðareglur.
Einfalt en klaufalegt
Málið er einfalt, þótt það sé klaufalegt og að mörgu leyti kjánalegt. Það snýst ekki um kynferði, klæðaburð eða kjóla, líkt og Björt gaf í skyn í upprunalegri málsvörn sinni. Það snýst um að ráðherra í ríkisstjórn tók þátt í því að kynna vöru og vörumerki í eigu vinkonu hennar. Í þeirri kynningu var ráðherrastarfið og þingsalur Alþingis notuð til að gefa kynningunni aukið vægi.
Það er óþolandi að gagnrýni á ráðherra sem augljóslega misnotaði aðstöðu sína til að hjálpa vini sínum sé snúið upp í árás feðraveldis á sterka konu. Mistök Bjartrar hafa ekkert með það að gera að hún sé kona. Það var líka slæmt þegar Kristján Þór Júlíusson (karl) tók þátt í því að auglýsa vörur fyrir eiginkonu samráðherra síns fyrr á þessu ári. Eða þegar Illugi Gunnarsson (karl) tók að sér að opna viðskiptalegar dyr fyrir fyrrverandi yfirmann sinn og leigusala í Kína þegar hann gegndi ráðherraembætti. Eða þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (karl) upplýsti ekki um félagið Wintris sem hann og eiginkona hans (og síðar bara eiginkona hans) áttu á Tortóla og átti kröfur á gömlu bankana á sama tíma og ríkisstjórn hans var að semja um hvernig kröfuhafar myndu fá að yfirgefa íslenskt efnahagskerfi.
Það er margt sem þarf að laga til að rétta af stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Það þarf að tryggja þeim jafna aðkomu að völdum og áhrifum í samfélaginu, jöfn laun á við karla og halda áfram mikilvægri baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, svo fátt eitt sé nefnt. Það grefur hins vegar undan þeirri jafnréttisbaráttunni og sókninni gegn íhaldssömu, karlægu íslensku valdasamfélagi þegar ójöfn staða kvenna er notuð sem vörn fyrir dómgreindarleysi sem hefur ekkert með kynferði að gera.
Sumir mega vera fúskarar
Samkvæmt orðabók þýðir fúsk illa unnið verk eða óvandvirkni. Til að komast í ríkisstjórn leit Björt framtíð framhjá því augljósa fúski að nýr forsætisráðherra hafði stungið tveimur skýrslum með upplýsingum sem skiptu almenning miklu máli undir stól. Til að halda sér í ríkisstjórn kusu þingmenn flokksins með gerræðislegri skipan dómara í Landsrétt þrátt fyrir að tillaga dómsmálaráðherra hafi ekki verið rökstudd og hafi augljóslega verið til þess fallinn að draga úr trausti á dómskerfi landsins. Og nú á það ekki að hafa nein eftirköst að ráðherra hagaði sér í algjörri andstöðu við nokkrar greinar siðareglna sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að undirgangast. Allt ofangreint er dæmi um fúsk. Þar sem aðrir hagsmunir en almannahagsmunir eru látnir ráða ákvörðunartöku.
Það er rétt sem Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki, einn höfunda siðareglna ráðherra og formaður samtakanna Gagnsæis, sagði í Fréttablaðinu í gær. Ef sambærilegt mál og Bjartrar kæmi upp í nágrannalöndum okkar myndi það líklega þýða afsögn ráðherra. Hérlendis tíðkast hins vegar að bregðast við broti á reglum sem þessum af léttúð. Að hlægja að umræðunni og afgreiða eðlilega gagnrýni sem ofstæki. Þau viðbrögð bera með sér að reglur séu bara upp á punt. Að það eigi ekkert að hafa neina eftirmála þegar brotið er gegn þeim. Að minnsta kosti fyrir suma.
Slík viðbrögð eru líka fúsk. Þau sýna að orð og efndir fara ekki saman þegar sjálfskipað betrunarfólk kemst til valda. Það má nefnilega gera málamiðlanir þegar kemur að því sem Björt framtíð segist hafa verið stofnuð til að berjast gegn, en ætlar sér ekki að fylgja eftir af heilindum.