Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, blandaði sér í umræður um tjáningarfrelsi og hlutverk fjölmiðla í gær þegar hún sagði, í viðtali við Morgunblaðið, að það væri ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós.
Hún sagði enn fremur að siðbót í samfélaginu ætti að felast í endurnýjun á þeim gildum sem Íslendingar hafi reitt sig á í aldanna rás og hafi verið siðferðilegur grunnur lífsviðhorfa landsmanna um langt skeið, og á þar við trúna og fylgifiska hennar. Þá fullyrti biskup að til þess að nauðsynlegt traust myndi skapast í samfélaginu að nýju þyrfti kirkjan að hafa hlutverki að gegna. „Trú er traust, sem verður ekki endurheimt nema við berum virðingu fyrir hvert öðru og sjálfum okkur,“ sagði Agnes.
Lausn biskups á traustleysi íslensku þjóðarinnar, sem hefur verið viðvarandi frá hruni, er því sú að skýla þjóðinni frá upplýsingu. Og vonast um leið til að hún halli sér aftur að Þjóðkirkjunni. Finni svörin og endurheimti traustið í trúnni. Hætti að reyna að botna í veraldleikanum.
Siðbótin í leyndinni
Það verður að teljast ansi sérstakt að biskup, sem er opinber starfsmaður á launum hjá almenningi, telji sig vera í stöðu til þess að boða að það sé siðferðislega rangt að upplýsa vinnuveitendur hans um hluti sem eiga erindi og skipta máli. Í því felst þá væntanlega að það sé siðferðislega réttara að leyna upplýsingum en að fjalla um þær.
Ef siðbót biskups hefði orðið ofan á hefði íslensk þjóð ekki fengið að vita um tugi mála í kjölfar hrunsins sem höfðu bein áhrif á það sem gerðist í október 2008 og næstu mánuði á eftir. Þau gögn úr bönkunum sem láku til fjölmiðla voru án undantekninga „stolin“ og þeir sem láku þeim voru án undantekninga að brjóta bankaleynd. En það var mikilvægara að almenningur fengi að vita af hverju samfélagsgerðin hefði farið á hliðina samhliða falli bankanna.
Ef siðbót biskups hefði verið fylgt í einu og öllu hefði mál Karl Vignis Þorsteinssonar, sem var dæmdur í sjö ára fangelsi árið 2013 fyrir gróf kynferðisbrot gegn drengjum, ekki komist upp og hann ekki hlotið dóm. Hann hefði ekki verið stöðvaður. Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan hefur nefnilega greint frá því að gögnin sem leiddu af sér þá umfjöllun nefnilega „stolin“.
Siðbót biskups hefði líkast til einnig komið í veg fyrir að fjölmiðlar hefðu unnið úr Panamaskjölunum, sem var stolið frá lögmannsstofunni Mossack&Fonseca, og eru að hluta til sömu gögn og íslenska ríkið keypti 2015. Þá hefði þjóðin ekki fengið að vita að þáverandi forsætisráðherra landsins væri kröfuhafi á föllnu bankanna og eigandi aflandsfélag, að bæði þáverandi fjármála- og innanríkisráðherra hefðu sömuleiðis tengst aflandsfélögum, að tveir borgarfulltrúar hefðu átt slík og að þúsundir Íslendinga áttu aflandsfélög troðfull af peningum sem nefnd á vegum hins opinbera hefur ályktað að hafi kostað almenning tugi milljarða króna í vangreidda skatta.
Án „stolinna“ gagna hefði Kjarninn ekki getað birt lista hæfisnefndar um umsækjendur um dómaraembætti í Landsrétti, sem sýndi hvernig dómsmálaráðherra hafði farið á skjön við niðurstöðu nefndarinnar og sleppt því að tilnefna aðila sem nefndin taldi á meðal þeirra hæfustu.
Og biskup er augljóslega á móti því að Stundin segi fréttir upp úr gögnum sem fjölmiðlar komust yfir í óþökk gjaldþrota banka sem er svo ægilega umhugað um orðspor sitt að hann fékk lögbann á fréttaflutninginn.
Fjölmörg önnur mál mætti týna til þar sem „stolin“ gögn hafa orðið andlag frétta sem hafa skipt almenning gríðarlega miklu máli.
Nálægt eitt hundrað þúsund utan þjóðkirkjunnar
Agnes vill að við sem þjóð færum okkur frá veraldrarhyggju og nær trúnni til að laga þjóðarmeinið. Trúin kostar okkur reyndar umtalsverða fjármuni, þjóðkirkjan fær milljarða króna á ári úr ríkissjóði. Upphæð sem kirkjan telur reyndar allt of lága og er sífellt að fara fram á að verði aukin.
En er þetta mögulegt? Getum við snúið aftur í einföldu svörin blindu trúnna árið 2017? Og viljum við það yfir höfuð? Svarið við báðum spurningunum er, miðað við hagtölur og kannanir, nei.
Þjóðin er hægt og rólega að yfirgefa Þjóðkirkjuna. Og ummæli á borð við þau sem Agnes lét falla í gær flýta þeirri óumflýjanlegu þróun. Þegnum kirkjunnar hefur fækkað mjög hlutfallslega á undanförnum árum. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Á árunum fyrir hrun fjölgaði alltaf lítillega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjuna á milli ára þótt þeim Íslendingum sem fylgdu ríkistrúnni fækkaði alltaf hlutfallslega. Ein ástæða þess er að skipulagið hérlendis var lengi vel þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Þeir voru 236.260 í byrjun árs 2017, eða 69,9 prósent mannfjöldans. Það er í fyrsta sinn síðan að mælingar hófust sem að fjöldi meðlima hennar fer undir 70 prósent mannfjöldans. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir eru nú nálægt eitt hundrað þúsund. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast.
Minnihluti segist trúaður og mikill meirihluti vill aðskilnað
Til viðbótar sýna allar kannanir að enn stærri hluti þjóðarinnar vill fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Gallup hefur til dæmis kannað hug landsmanna gagnvart aðskilnaði ríkis og kirkju árlega um mjög langt skeið. Í könnunum þeirra er spurningin mjög skýr: Ert þú hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju?
Í könnun fyrirtækisins frá árinu 1996 kom i ljós að 53 prósent voru fylgjandi aðskilnaði en 31 prósent á móti. Restin var óákveðin. Árið 2015 voru 55,5 prósent fylgjandi aðskilnaði en 23,9 prósent á móti honum. Restin var óákveðin. Þegar aðeins eru skoðaðir þeir sem taka beina afstöðu þá er hlutfall þeirra sem hafa verið hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju síðustu tvo áratugi yfir 70 prósent.
Í könnun sem Siðmennt lét Maskínu framkvæma í fyrra kom í ljós að árið 1996 hafi 87 prósent þjóðarinnar sagst vera trúuð en í byrjun síðasta árs voru þeir 46 prósent. Þeir sem sögðust trúlausir eða gáfu ekki upp trú voru 54 prósent þjóðarinnar. Þetta var í fyrsta skipti sem kannanir sýndu að minnihluti þjóðarinnar væri trúaður. Í yngsta aldurshópnum sögðust yfir 80 prósent vera trúlaus eða telja enga vissu fyrir tilvist guðs.
Samkvæmt ofangreindum tölum er þjóðin fyrir margt löngu búin að segja sig úr sambandi við guð og þjóðkirkju. Skilnaður að borði og sæng hefur átt sér stað. Það á bara eftir að ganga frá formsatriðunum og lögfesta aðskilnaðinn.
Felst frelsunin í fáfræði?
Tvær ríkisstjórnir hafa sprungið vegna leynimakks eða leyndarhyggju. Hvert hneykslismálið á fætur öðru, þar sem upplýsingum hefur verið haldið frá yfirmönnum stjórnmálamanna, fólkinu í landinu, hefur verið opinberað af fjölmiðlum eða þrautseigum fulltrúum almennings. Sumum sem hefur ofboðið vitneskja sem þeir hafa orðið varir við í störfum sínum, og talið að sú vitneskja eigi erindi við almenning. Þetta eru fólk sem tekur áhættu af réttum ástæðum og gerir heiminn að betri stað.
En biskup telur okkur betur borgið án allrar þessarar vitneskju. Hún telur að í fáfræðinni felist frelsunin. Því minna sem við vitum, því betur séum við í stakk búin til að endurheimta traust. Og þá væntanlega blint traust sem á að færa þjóðina nær kirkjunni og trúnni. Nær því að láta hið yfirnáttúrulega og óskiljanlega leiða sig í gegnum lífið í stað þess að beita skynseminni og dómgreind okkar sem leiðarljósi. Í guðs nafni eigum við að þegja, vita minna, treysta blint, líða betur og færast þannig nær guði.
Það má draga þá ályktun af þróun samfélagsins á undanförnum árum að meirihluti landsmanna telji að traust ávinnist einungis aftur með auknu gagnsæi og upplýsingaflæði. Með minna fúski og færri hagsmunaárekstrum. Meiri fagmennsku og að fleiri axli ábyrgð á gjörðum sínum. Ekki með því að vita minna og trúa meira.
Siðbót biskups er því í fullri andstöðu við það ákall sem hefur, meira en nokkuð annað, mótað íslenskt samfélag síðasta tæpa áratuginn hið minnsta. Hún er svipuð tímaskekkja og þjóðkirkjan er sem stofnun árið 2017.