Í síðastliðinni viku birtust fréttir þess efnis að 100 franskar konur hefðu skrifað undir opið bréf þar sem þær gagnrýna #metoo-byltinguna og kalla hana nýja hreintrúarstefnu. Í bréfinu tala þær um nornaveiðar sem geti ógnað kynferðislegu frelsi fólks.
„Nauðgun er glæpur,“ segja þær en líta aftur á móti á að það að reyna að tæla einhvern, hvort sem það er gert ítrekað eða ekki, sé ekki glæpur.
Franska leikkonan Catherine Deneuve er ein þeirra sem skrifaði undir bréfið og hefur hún verið mikið í kastljósinu í kjölfarið. Hún segir sem sagt að karlar megi reyna við konur á sama tíma og kynferðislegt ofbeldi sé glæpur.
Kerfisbundið valdaójafnvægi
Eins og það er foráttuheimskulegt að segja kynferðislega áreitni vera viðreynslu þá er nauðsynlegt að ræða allar hliðar og þræða sig í gegnum röksemdafærsluna. Fyrsta skrefið er að lesa frásagnirnar sem um ræðir. Er eitthvað í þeim sem segir okkur að konur séu að gera of mikið úr því sem þær upplifa? Lýsa þessar sögur „eðlilegum“ samskiptum milli kynjanna?
Nærtækast er að skoða sögur íþróttakvenna á Íslandi sem birtust í vikunni. Óþarft er að tilgreina eða taka út einstakar sögur en þess í stað nauðsynlegt fyrir hvern og einn með að kynna sér vel þessar frásagnir.
Þessar frásagnir byggja ekki á saklausum athugasemdum, heldur kerfisbundnu valdaójafnvægi og níðingsskap. Auðvitað eru þær misgrófar en áreitni er einmitt þannig: misgróf.
En er hér verið að tala sama tungumál og frönsku konurnar? Erum við öll með sama viðmið á hvað sé „eðlilegt“ og hvað ekki?
Viðmið ólík milli menningarheima
Viðhorfið sem birtist í bréfi frönsku kvennanna virðist ekki einungis eiga við Frakkland; nokkrar íslenskar konur hafa lýst áhyggjum sínum af því að gengið sé of langt, þó ekki hafi raddir þeirra farið hátt, það er að það sé í góðu lagi að leggja hönd á hné eða stela kossi.
Þó get ég staðfest af persónulegri reynslu að viðmið eru ólík milli menningarheima og fann ég það glögglega þegar ég var tvítug „bionda“ nýkomin til Ítalíu og hafði ekki hugmynd um hvað kynferðisleg áreitni gæti orðið gróft og ömurlegt.
Ég tók strax eftir því að karlmenn hegðuðu sér öðruvísi í litla bænum sem ég bjó í rétt hjá Flórens miðað við það sem ég var vön hér á landi. Ekki þótti tiltökumál þegar þeir blístruðu á eftir konum, gláptu, blikkuðu og í grófari tilfellum klipu í rass eða struku læri. Eftir ákveðið menningarsjokk þá vandist áreitnin óhemju fljótt.
Aldrei upplifði ég þó grófa áreitið sem viðreynslu. Alltaf leið mér bagalega á eftir, ég hristi tilfinninguna af mér og hélt áfram veginn. Ég var ung og hélt að þetta ætti að vera svona.
Blússandi aðlögunarhæfni
Eftir nokkuð marga mánuði var ég komin með góðan skráp fyrir þessu. Ég hunsaði blístrin, köllin og þegar karlar reyndu að fara með höndina undir pilsið hjá mér í vinnunni, þar sem ég starfaði sem gengilbeina, var ég fljót að vippa mér frá, annað hvort láta eins og ekkert hefði í skorist eða hlæja vandræðalega.
Eftir ársdvöl var förinni heitið heim á ný og þar tók við annað menningarsjokk. Enginn blístraði eða kallaði á eftir mér úti á götu og allra fyrstu viðbrögðin voru að pæla í því af hverju svo væri; er ég ekki nógu falleg fyrir þessa gosa til að fá kall eða svo? Aðlögunarhæfnin var svo gríðarleg að þetta áreiti varð mitt norm. Fyrir mér var þetta orðið „eðlilegt“ og þrátt fyrir óþægindin var ég farin að sætta mig við þetta. Konur láta sig hafa það að komið sé fram við þær á ákveðinn hátt til þess að geta funkerað í daglegu lífi.
Þetta tímabil varði í mjög stuttan tíma, því léttirinn tók nánast strax við. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikið þetta reyndi á mig fyrr en ég komst út úr aðstæðunum.
Allir mega reyna við alla
Þrátt fyrir ólíkar birtingarmyndir þá komst ég að því næstu ár að áreitni væri auðvitað líka til staðar á landinu mínu. Það lýsti sér einungis öðruvísi. Ég vann við þjónustustörf í fjölda ára á kaffihúsum og veitingastöðum og þar fann ég dálaglega fyrir áreitninni. Lúmskara var hún en alls ekki betri.
Þannig að þegar einhver segir að karlar megi nú alveg reyna við konur, að þessi #metoo-bylting sé komin út í öfgar, þá má og á jafnvel að ræða það. Og segja: auðvitað mega karlar reyna við konur. Og konum er líka velkomið að reyna við karla. Og karlar við karla og konur við konur. En viðreynsla mun aldrei gefa þetta óbragð í munni og vanlíðan á sama hátt og áreitnin gerir. Tilfinningin gefur til kynna hvort um áreitni sé að ræða eða saklaust daður og hægt er að treysta þessari tilfinningu.
Hvernig geta það verið nornaveiðar þegar konur lýsa tilfinningum, reynslu og upplifun af ákveðinni hegðun? Er það einmitt ekki klassísk aðferð þeirra sem vilja kenna fórnalömbum um? Allavega er ég sannfærð, eftir að hafa lesið þessar hundruð sagna sem komið hafa fram í síðustu misserum, að áreitnin, ofbeldið og mismununin er raunveruleg en ekki hluti af „eðlilegum“ samskiptum milli kynjanna.