Þær eru sláandi frásagnir kvenna af erlendum uppruna sem Kjarninn birti í dag í tengslum við #metoo-byltinguna.
Raunar hafa þær allar verið sláandi frásagnir mismunandi kvennastétta sem birst hafa þjóðinni jafnt og þétt frá því stjórnmálakonur riðu á vaðið í lok nóvember. Frásagnir sem hafa lagst eins og snjóflóð yfir það sem talið var vera það samfélag heimsins sem lengst er komið í jafnréttismálum. Það var og.
Sögur kvennanna sem birtust í dag skera sig þó úr að því leiti að við hin, sem erum íslensk að uppruna, flest ljós á hörund og þéttvafin okkar fjölskyldu- og vinaneti, getum ekki tengt við þær með sama hætti og hinar frásagnirnar.
Sögur stjórnmálakvenna, íþróttakvenna og kvenna í atvinnu-, fræða- og listasamfélaginu, voru hörmulegar. En þær voru þannig að við lestur þeirra gat hver einasta kona á landinu séð sjálfa sig, vinkonur sínar eða fjölskyldu sína í hlutverki persóna frásagnanna. Það sem hefur einmitt helst komið út úr byltingunni er samhugurinn, samstaðan, skilningur á umfang og víðfeðmi vandans. Hvað hann hefur orðið hversdagslegur og því miður eðlilegur hluti af veruleika íslenskra kvenna. Við höfum allar verið þarna.
Ekki aðeins ofríki karla heldur rasismi
En við skiljum ekki einsemdina, vonleysið og varnarleysið sem felst í því að verða undir í samfélagi þar sem tengslanetið er veikt. Þar sem tungumálið er framandi. Þar sem menningin er framandi. Þar sem allir hinir virðast vera ein fjölskylda sem þú stendur utan við. Við getum ekki tengt með sama hætti við frásagnir kvenna af erlendum uppruna af því þær eru ekki okkar sögur. Þær eru verri en okkar sögur.
Frásagnir kvennanna lýsa mansali, nauðgunum, andlegu og líkamlegu ofbeldi, nauðung, mismunun og niðurlægingu. Þær sýna fram á algjöran vanmátt, varnarleysi og úrræðaleysi.
Í þeim er ekki aðeins sýnt fram á vanda kvenna sem eru beittar ofríki af karlmönnum, þó sannarlega sé það þannig í frásögnum kvennanna. Í þeim kristallast ekki síður hreinn og beinn rasismi íslensku þjóðarinnar. Þess vegna eru þær verri en það sem við höfum séð hingað til.
Konurnar á bak við yfirlýsinguna og frásagnirnar sem birtar voru í dag lýsa kerfisbundnum fordómum. Upplifun sinni af því að leita sér aðstoðar stjórnsýslu sem sýnir þeim vanvirðingu. Upplifun af vinnustöðum þar sem komið er fram við þær eins og þriðja flokks borgara. Þær lýsa samfélagi þar sem enginn leggur sig fram við að kynnast þeim, hjálpa þeim, vernda þær. Enginn. Ekki nágrannar, ekki vinnufélagar, ekki neinn.
Á ekki að koma á óvart
Eins sárt og það er að lesa frásagnirnar þá koma þær ekki á óvart. Þótt fæst séum við að beita konur af erlendum uppruna ofbeldi eða níðast á þeim í leik og starfi þá þekkjum við sannarlega fordómana. Alltof oft heyrum við gömlu tuggurnar um að konur af erlendum uppruna hafi verið keyptar, séu svart vinnuafl eða vændiskonur. Alltof oft lesum við kvartanir um konur af erlendum uppruna sem eru búnar að vera hér það lengi að þær eigi bara að hunskast til að læra almennilega íslensku. Slíkar athugasemdir um stöðu eða getu þessara kvenna eru aldrei settar fram af umhyggju eða áhyggjum af hlutskipti þeirra. Svona athugasemdir eru upphafning á eigin stöðu og yfirburðum. Dæmin eru óteljandi og eflaust oft sett fram í hugsanaleysi. En núna, þegar við vitum að þessir fordómar kynda undir ótrúlegt misrétti, hvað ætlum við eiginlega að gera?
Eitt af því sem #metoo-byltingin hefur áorkað er almenn vitundarvakning meðal karlmanna um klúrt orðfæri og niðurlægjandi athugasemdir í garð kvenna. Flestir karlmenn kannast við að hafa heyrt slíkar athugasemdir frá kynbræðrum sínum án þess að hafa gripið inn í eða gert nokkuð. Margir þeirra skilja núna að þessi léttvæga meðvirkni var líklega til þess fallinn að styrkja þá skoðun skemmdu eplanna í þeirra hópi að þessi hegðun væri ásættanleg.
Í tilfelli kvenna af erlendum uppruna þá snýst þetta ekki um vitundarvakningu á meðal hins þögla meirihluta „góðra“ karlmanna heldur okkar allra. Ef við höldum áfram að samþykkja athugasemdalaust þessa fordóma, þetta orðfæri, þessa niðurlægingu og förum ekki að koma fram við konur, hvaðan sem þær kunna að koma, af þeirri virðingu sem þær eiga skilið þá erum við hluti af vandanum, ekki lausninni.
Hvað ætlum við að gera?
Síðan er það stóra spurningin. Hvernig ætlum við að verja þessar konur? Það að við horfumst í augu við eigin fordóma og hættum allri meðvirkni gagnvart fordómum annarra er vissulega skref í rétta átt.
En við þurfum einnig atbeini stjórnvalda. Allar stofnanir, hvort sem um er að ræða í löggæslu, vinnueftirliti, verkalýðshreyfingum eða öðru, þurfa - rétt eins og við - að horfast í augu við eigin fordóma og veita þessum konum vernd. Það þarf að grípa utan um þær og gera fullnægjandi ráðstafanir svo þær þekki hver ein og einasta allan þann rétt sem þær eiga hér á landi, hvert þær og börn þeirra geti leitað lendi þau í hvers kyns vanda og að þar sé fólk sem trúir þeim og treystir.
Samfélög eru dæmd af því hvernig þau koma fram við þá sem minnst mega sín, þá sem eru varnarlausir og þá sem þurfa skjól. Hvernig samfélagi vilt þú búa í?