Á árinu 2017 voru 66 þingfundardagar á Alþingi. Auk þess voru alls 14 dagar teknir frá undir nefndarfundi. Líklega hafa þingmenn sjaldan, eða aldrei, þurft að mæta jafn lítið í vinnuna og þeir gerðu á árinu 2017. Ástæðan er augljós: stjórnarmyndunarviðræður, stjórnarslit og kosningar. Og svo auðvitað sú staðreynd að þingið fer í langt páskafrí, langt jólafrí og ótrúlega langt sumarfrí.
Samt tókst einum þingmanni, Ásmundi Friðrikssyni, að keyra 47.644 kílómetra vegna starfs síns sem alþingismaður á árinu. Ásmundur skráði þá keyrslu niður og fékk kostnað vegna hennar endurgreiddan frá ríkinu. Sú endurgreiðsla nemur 4,6 milljónum króna, eða um 385 þúsund krónum á mánuði. Keyrsla Ásmundar er í sérflokki á meðal þingmanna, enda er hún á við það að hann hafi keyrt hringinn í kringum landið tæplega 36 sinnum.
Ef einhver ætlaði að keyra þessa vegalengd án þess að stöðva þá tæki það viðkomandi 22 sólarhringa að gera það, ef keyrt væri á hámarkshraða á þjóðvegi, eða 90 km/klst. Ef keyrt væri á 50 km/klst. hraða tæki það viðkomandi 33 sólarhringa. Án þess að sofa.
Ef millivegurinn er farinn, og miðað er við að viðkomandi keyri átta klukkustundir á dag, sem er hefðbundinn vinnudagur, þá tekur það hann 85 átta tíma vinnudaga að keyra þessa vegalengd á 70 km/klst. hraða.
Ásmundur býr á Suðurnesjum og keyrir til vinnu. Frá heimabæ hans, Garði, og til Reykjavíkur, er um 57,5 kílómetra leið. Það má því ætla að Ásmundur hafi keyrt 9.200 kílómetra til og frá vinnu miðað við þá þingfundi og nefndarfundi sem haldnir voru í fyrra. Það er tæplega 20 prósent af þeim kílómetrafjölda sem hann fékk endurgreitt fyrir að keyra.
Ásmundur sagði í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í gær að kjördæmi hans væri 700 kílómetra langt og að hann væri að sinna erindum í því flestar helgar. Í því fælist að fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo séu sumrin upptekin af „allskonar bæjarhátíðum.“ Þá hafi tíðar kosningar á undanförnum árum kallað á aukin ferðalög.
Lítið gegnsæi
Þingmenn fá rúmlega 1,1 milljón króna í laun á mánuði auk þess sem margir þeirra fá ýmsar viðbótarsporslur vegna formennsku eða varaformennsku í fastanefndum. Þar er um að ræða 5-15 prósent álag ofan á þingfararkaup. Þingmenn landsbyggðarkjördæma fá síðan 134.041 krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað ef viðkomandi heldur ekki annað heimili á höfuðborgarsvæðinu. Allir þingmenn fá greiddar 30 þúsund krónur á mánuði í fastan ferðakostnað og 40 þúsund krónur í svokallaðan starfskostnað.
Þingmaður eins og Ásmundur, sem býr á Suðurnesjunum og er annar varaformaður í einni nefnd, ætti samkvæmt þessu að fá 1.360 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun. Þegar við bætast 385 þúsund krónur vegna aksturskostnaðar eru heildarlaunin um 1.745 þúsund krónur á mánuði.
Til samanburðar má nefna að lágmarkslaun á Íslandi eru 280 þúsund krónur á mánuði og miðgildi heildarlauna árið 2016 voru 583 þúsund krónur á mánuði.
Almenningur á ekki að borga fyrir veru á bæjarhátíðum
Það skal tekið fram að Ásmundur virðist ekki vera að brjóta neinar reglur. Hann hefur bent á að það sé einfaldlega hans réttur að fá þennan kostnað endurgreiddan og að hann hafi aldrei fengið eina einustu athugasemd vegna kröfu um þá endurgreiðslu.
Það er samt sem áður augljóst að þingmenn geta misnotað endurgreiðslukerfið vegna aksturs og að eftirlit með því hvernig þeim fjármunum sem veitt er í þessar endurgreiðslur er skammarlega lítið. Það virðist nægja að þingmenn skili einfaldlega inn upplýsingum um hvað þeir keyri og svo er borgað.
Fyrir nokkrum árum síðan skók hneyksli bresk stjórnmál. Um var að ræða svokallað fríðindahneyksli sem í fólst að fjölmargir þingmenn og ráðherrar fengu endurgreiðslur vegna kostnaðar frá breska þinginu sem átti ekki rétt á sér. Eftir að þetta var opinberað fylgdi skæðadrifa afsagna ráðherra og þingmanna. Sumir voru sóttir til saka og dæmdir til fangelsisvistar fyrir misnotkun á opinberu fé. Upphæðirnar sem voru þar undir voru í flestum tilfellum mun lægri en þær sem greiddar eru í endurgreiðslu vegna aksturs þingmanna á Íslandi. Fullt tilefni er því til að taka endurgreiðslukerfið til endurskoðunar og kanna gaumgæfilega hvort einhver misnotkun hafi átt sér stað.
Jafnvel þótt að ekki sé til staðar nein misnotkun á kerfinu þá er samt ekki í lagi að skattgreiðendur greiði þingmanni, sama hvað hann heitir eða í hvaða flokki hann er, 385 þúsund krónur á mánuði í launauppbót svo hann geti keyrt um kjördæmi sitt eða sinnt kosningabaráttu, til þess að hann geti tryggt áframhaldandi setu sína á Alþingi. Að það sé eðlilegt að almenningur greiði fyrir veru Ásmundar á bæjarhátíðum í kjördæmi hans.
Mál Ásmundar ætti að verða til þess að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við þessu. Það er ekki skattgreiðenda að greiða háar fjárhæðir fyrir kosningabaráttu einstakra þingmanna til viðbótar við þær 648 milljónir króna sem renna til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði árlega til að standa straum af rekstri þeirra. Þegar það framlag var hækkað um 362 milljónir króna á síðustu fjárlögum var það nefnilega meðal annars rökstutt með miklum viðbótarkostnaði vegna reglulegra alþingiskosninga. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ásmundur Friðriksson keyri fram og aftur um kjördæmi sitt í kosningabaráttu þá getur flokkurinn einfaldlega greitt fyrir þann herkostnað með hluta þeirra 166 milljóna króna sem hann fær úr ríkissjóði á ári.
Óboðleg leynd
Og það sem er alls ekki í lagi er að leynd ríki yfir þeim greiðslum sem þingmenn fá umfram hefðbundin laun. Í svari forseta Alþingis vegna fyrirspurnar um aksturkostnað þingmanna var nefnilega tekið fram að ekki yrði gefið upp hvaða þingmenn þiggi umræddar greiðslur né hversu mikið hver þingmaður þiggi. Það væru of persónulegar upplýsingar til að þær ættu erindi við almenning.
Reynt hefur verið að laga þessa stöðu. Í október 2015 lögðu þáverandi þingmenn Bjartrar framtíðar fram frumvarp sem í fólst að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna yrðu gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. Í greinargerð frumvarpsins var bent á fordæmi erlendis frá, meðal annars í Bretlandi, þar sem þetta hefði verið gert. „ Með slíkum breytingum má gera ráð fyrir að gagnsæi starfa alþingismanna aukist og væri það liður í að auka traust almennings til Alþingis.“ Þetta frumvarp var aldrei tekið til þinglegrar meðferðar.
Ásmundur upplýsti sjálfur um að hann væri sá sem fær mest endurgreitt eftir að ópersónugreinanlegar upplýsingar voru birtar. Hann hafði reyndar áður verið spurður um það af fjölmiðlum hversu mikið hann hefði ekið og hversu háar upphæðir hann hefði fengið greiddar vegna þeirra. Það gerðist í byrjun nóvember 2017. Þá var Ásmundur ekki tilbúinn til að veita þær upplýsingar.
Færum ábyrgðina yfir á fjölmiðla og almenning
Leynd yfir greiðslum til þingmanna er hluti af stærra vandamáli, sem er viljaleysi stjórnsýslunnar og stjórnmálanna til að veita tæmandi upplýsingar um allt sem þar fer fram og varðar ekki beinlínis við þjóðaröryggi. Almenningur, vinnuveitandi stjórnmálamanna og embættismanna, á að eiga fullan rétt á því að fullkomið gegnsæi ríki í ríkisrekstri.
Þótt lítil skref hafi verið stigin í rétta átt á undanförnum árum þá eru upplýsingalögin enn ófullkomin og afhending upplýsinga enn háð vilja ráðamanna til að láta þær af hendi. Því þarf að breyta og gera þarf allar nauðsynlegar upplýsingar opinberar, líka þær sem ekki hefur verið spurt sérstaklega um. Samhliða þarf síðan að innleiða skýrar línur um pólitíska ábyrgð svo að slík verði loks hluti af pólitískri menningu á Íslandi.
Með því snúum við dæminu við. Í stað þess að fjölmiðlar og almenningur þurfi að sækja allar upplýsingar, og tortryggni skapist um þær sem ekki eru látnar af hendi eða birtast seint og illa, þá verður það ábyrgð fjölmiðla og almennings að fylgjast með þeim upplýsingum sem birtar eru og vinna úr þeim.
Það er ábyrgð sem við erum mjög tilbúin að taka á okkur. Og verður án nokkurs vafa til þess að traust á stjórnmál og stofnanir fer loksins aftur að aukast.