Fyrr í dag sendu framkvæmdastjórar allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir andúð á óhróðri og undirróðursstarfsemi í kosningabaráttu og ásettu sér að vinna gegn slíku.
Þar sagði að kosningabarátta væri „lykilþáttur í lýðræðislegri stjórnskipan og mikilvægt að hún sé málefnaleg og reglum samkvæm svo að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun. Nafnlaus óhróður eða undir fölsku flaggi á ekki að líðast.“
Framkvæmdastjórarnir, eða annars konar fulltrúar flokkanna átta sem sæti eiga þingi sem skrifa undir yfirlýsinguna, segjast sammála um að girða þurfi fyrir að „áróður og óhróður, sem enginn veit hver hefur í frammi eða kostar, birtist um alla samfélags- fjölmiðla- og myndbandaveitur, án þess að hægt sé að kalla neinn til ábyrgðar.“
Þetta er allt gott og blessað. En fjarri því nóg.
Ólöglegur áróður
Í 6. grein laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda segir að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum. Fyrir síðustu tvær kosningar, sem fram fóru haustið 2016 og haustið 2017, var nafnlausum áróðursvélum beitt miskunarlaust. Sú sem var umsvifamest kallaði sig „Kosningar 2016“ og svo „Kosningar 2017“. Henni var augljóslega stýrt af fólki sem gekk erinda Sjálfstæðisflokksins. Hvort flokkurinn lagði blessun sína yfir það er ekkert hægt að fullyrða um en allt efni vélarinnar, sem flakkaði frá því að vera skrumskæling eða hálfsannleikur yfir í að vera rætin ósannindi um stjórnmálaflokka, stjórnmálamenn og fjölmiðla sem nafnlausu stjórnendurnir töldu ógn, hafði það markmið að bæta stöðu Sjálfstæðisflokksins. Um þetta er enginn vafi.
Hér er dæmi um myndband frá „Kosningum 2017“ sem hefur verið horft á tæplega 31 þúsund sinnum:
VG Hverjum treystir þú?Ósvikin loforð eru nánast uppseld hjá VG en þó er eitt eftir sem aldrei verður svikið.
Posted by Kosningar on Thursday, October 27, 2016
Umrædd síða hefur haldið áfram starfsemi sinni. Nú er kastljósinu meðal annars beint að fjölmiðlum sem fjalla með gagnrýnum hætti um efnahagsmál á Íslandi, ráðandi meirihluta í Reykjavíkurborg, og Borgarlínu. Augljóst er því að þegar hefur verið settur út áróður sem er ætlað að hafa áhrif á komandi borgarstjórnarkosningar. Yfirlýsing stjórnmálaflokkanna er því marklaus þar sem kosningabaráttan er þegar orðin ósönn, ógagnsæ og ómálefnaleg.
BorgarlínaMiðstýrður áætlunarbúskapur er flestum stjórnmálamönnum hugleikinn. Nú þegar sjálfsprottnar tækniframfarir eru að valda byltingu í samgöngumálum - í senn í formi stórlækkaðst tilkostnaðar og aukinna afkasta, ganga hugmyndir sem að grunni til byggjast á 300 ára gamalli hugmyndafræði sporvagna í endurnýjun lífdaga.
Posted by Kosningar on Saturday, January 20, 2018
Svo virðist á efni áróðurssíðunnar að henni sé sérstaklega uppsigað við Kjarnann og efnistök hans. Það er staðfesting á því að við séum að gera rétt.
Þeir sem nýta smugur
Í áðurnefndum lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda segir einnig að hámarksframlög lögaðila sem megi gefa stjórnmálasamtökum eða frambjóðendum séu 400 þúsund krónur. Stjórnmálasamtök skulu halda samstæðureikning fyrir allar einingar sem undir þau falla, svo sem sérsambönd, kjördæmisráð, eignarhaldsfélög og tengdar sjálfseignarstofnanir.
En það er hægt að fara fram hjá þessum reglum líka. Það gera til dæmis Samtök skattgreiðenda, frjáls félagasamtök sem berjast fyrir skattalækkunum og eru skipuð þekktu sjálfstæðisfólki, í aðdraganda kosninga þegar þau kaupa auglýsingar í útvarpi og á samfélagsmiðlum sem beinast gegn skattatillögum annarra flokka sem eru í framboði. Kostnaður við þetta var um ein milljón króna. Þetta atferli hefur einfaldlega fengið að líðast og litið á það sem kostulega smugu fram hjá lögum um stjórnmálaflokka. Hægt er að sjá auglýsingu frá Samtökum skattgreiðenda hér að neðan.
Venjuleg fjölskylda mun þurfa að greiða hálfa milljón króna á ári ef skattahækkanir VG verða að veruleika.
Posted by Samtök skattgreiðenda on Friday, October 20, 2017
Það voru fleiri hópar sem stóðu í svona ömurlegum mokstri. Sumir þeirra voru til vinstri og herjuðu á t.d. Sjálfstæðisflokkinn og aðra á hægri væng stjórnmálanna. Þar má nefna Kosningavaktina og Jæja-hópinn. Þótt umfangið hafi verið mun minna, kostnaðurinn mun minni og skipulagning áróðursdreifingarinnar ekki jafn áhrifarík og hjá ofangreindum þá var atferli þeirra heldur ekki í lagi. Það ætti líka að rannsaka sem lögbrot.
Allt ofangreint var talið það alvarlegt að í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem birt var í kjölfar alþingiskosninganna árið 2017 kom m.a. fram að umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi.
Borgaðar varnarsíður með pólitískum áróðri
Það eru fleiri leiðir sem hafa verið farnar til að fara fram hjá leikreglum kosninga á Íslandi. Í gær var birtur dómur í héraði í máli almannatengils sem taldi Framsóknarflokkinn skulda sér pening fyrir að hafa unnið við að lagfæra ímynd flokksins og þáverandi formanns hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í kjölfar þess að Sigmundur Davíð var opinberaður sem aflandsfélagaeigandi sem greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur í Panamaskjölunum á árinu 2016.
Umræddur maður, Viðar Garðarsson, setti meðal annars á fót tvær varnarvefsíður fyrir Sigmund Davíð. Sigmundur Davíð greiddi honum sjálfur rúmlega eina milljón króna fyrir vinnuna og vann sjálfur hluta þess efnis sem sett var inn á síðurnar. Auk þess taldi Viðar að hann ætti inni 5,5 milljónir hjá Framsóknarflokknum.
Á vefsíðunum tveimur komu ekki fram nöfn þeirra sem að þeim stóðu heldur stóð að önnur þeirra, Panamaskjolin.is, væri á vegum stuðningsmanna Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans. Sú síðari, Islandiallt.is, var sagður vera rekinn af hópi einstaklinga úr ýmsum áttum, með ólíkar stjórnmálaskoðanir, sem eigi það sameiginlegt að vera stuðningsmenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Báðar vefsíðurnar voru skýr kosningaáróður í aðdraganda kosninga. Kjósendur voru blekktir með því að rangar upplýsingar voru settar fram um hverjir stóðu af þessum vefsíðum. Fjármögnun þeirra er í andstöðu við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Málið ætti að rannsaka sem lögbrot af viðeigandi yfirvaldi.
Lögbrot á kosningadag
Þá er ótalið athæfi Flokks fólksins og Miðflokksins í aðdraganda síðustu kosninga. Í lok síðasta árs komst Póst- og fjarskiptastofnun að því að þessir tveir flokkar hefðu brotið gegn lögum þegar þeir komu kosningaáróðri á framfæri við fólk í kringum kosningarnar 2017.
Flokkur fólksins sendi 80.763 sms-skilaboð 27. október, daginn fyrir kjördag, með hvatningu um að kjósa flokkinn. Í skilaboðunum stóð: „Ertu med kosningarett? – Nyttu rettinn! Afnemum fritekjumark og haekkum skattleysismork. Kaer kvedja! Flokkur folksins X-F.“
Miðflokkurinn sendi 57.682 skilaboð á kjördag, 28. október. Í skilaboðunum stóð annars vegar: „Skyr framtidararsyn fyrir Island og kraftur og thor til að koma henni í framkvaemd. X-M. Vid stondum við storu ordin. Midflokkurinn.“ Og hins vegar: „I dag er fagur dagur, Ja godur við finnum þad. Vertu Memm settu X við M“.
Þetta ólöglega athæfi hefur mjög líklega gert það að verkum að þessum flokkum tókst að virkja kjósendum til að mæta á kjörstað. Það skilaði þeirri niðurstöðu að báðir flokkarnir fengu meira upp úr kjörkössunum en kannanir höfðu bent til. Þessum lögbrotum var með öðrum orðum beitt til að hafa áhrif á framgang kosninga.
Í krafti samtryggingar
Það er engin óþarfa dramatík að kalla allt ofangreint aðför að lýðræðinu. Það er einfaldlega raunveruleikinn. Stjórnmálaflokkar og fólk á þeirra vegum hefur svindlað og brotið lög til að bæta gengi sinna flokka í kosningum.
Það þarf að taka mjög alvarlega á þessari stöðu með ítarlegri rannsókn, gagngerum breytingum á lögum og með því að draga þá til ábyrgðar sem stóðu að hinu ólöglega athæfi. Um er að ræða kosningasvindl, hreint og klárt. Og sameiginleg yfirlýsing um að öll dýrin í skóginum ætli að haga sér skikkanlega héðan í frá er ekki boðlegt innlegg í þessa mjög alvarlegu umræðu.
Til að gera málið enn óskammfeilnara þá hækkuðu stjórnmálaflokkarnir framlög til síns sjálfs um 127 prósent í lok síðasta árs án þess að nokkur opin umræða ætti sér stað. Þeir skipta nú á milli sín 648 milljónum króna á ári. Ekkert var fjallað um þegar orðið kosningasvindl í greinargerð sem fylgdi með erindinu. Ekkert var gert til að skilyrða framlög skattgreiðenda til stjórnmálaflokka við það að þeir færu að lögum. Skattfé var bara tekið og fært til flokka án umræðu.
Svo má minna á það að heilu fjölmiðlasamsteypunnar hafa fengið að reka sig kolólölega árum saman með huldufé og stunda svæsinn pólitískan áróður með ólöglegum lánum frá skattgreiðendum og starfsfólki, stéttarfélögum og lífeyrissjóðum þeirra.
Með sameiginlegri yfirlýsingu sinni í dag eru stjórnmálaflokkarnir allir að samþykkja að það megi fenna yfir fyrri myrkraverk, sem eru andlýðræðisleg og alvarleg. Þau fá í raun uppreist æru. Í krafti samtryggingar lofa allir að gera bara betur næst.