Sunnudaginn 29. apríl skrifaði Logi Bergmann pistil í Morgunblaðið þar sem hann velti fyrir sér hagfræði sjampósins í Vesturbæjarlauginni. Í grein sinni, sem er stórskemmtileg að vanda, fer Logi um víðan völl og segir okkur það að ef hann væri „hagfræðingur þá væri [hann] andvaka yfir“ sjampóinu í sturtunni í Vesturbæjarlauginni.
En Logi er samt betri hagfræðingur en hann heldur. Í fyrsta lagi tekur Logi eftir því að ef ekkert er rukkað fyrir sjampó þá notar fólk of mikið af því. Þetta er vandamál sem hagfræðingar pæla í daginn út og inn (til dæmis talaði ég um þetta hér fyrir stuttu). Svo sýnir Logi sitt hagfræðilega innsæi aftur seinna í greininni þegar hann stingur upp á því að einfaldlega rukka þá sem nota sjampó fyrir það. Ef þessi stefna væri tekin upp, og þeir sundlaugargestir sem ekki koma með eigið sjampó (ólíkt Loga sem kemur með eigið sjampó), væru rukkaðir fyrir sjampóið þá er það mögulegt að sjampó spreð myndi minnka. Sem sagt, hver myndi þá borga sinn skerf og minna sjampó væri skolað út í sjó. Sem er bara nokkuð sanngjörn og góð útkoma.
Logi heldur áfram að sanna sig og seinna í greininni bendir hann á það vandamál að ef við byrjum að rukka fyrir sápu, þá eiga mögulega einhverjir baðgestir eftir að sleppa því að þvo sér. Og ef það gerist þá þurfa aðrir, vel sápaðir sundlaugargestir, að baða sig í skít þeir sem tíma ekki tíma að borga fyrir sjampó. Sem er ósanngjörn og slæm útkoma.
Í raunveruleikanum er þó spurning hversu mikil áhrif það hefði að rukka fyrir sjampó. Í fyrsta lagi , samkvæmt mínum útreikningum, nemur sjampó í mesta lagi um 1% af heildarútgjöldum sundlauga Reykjavíkurborgar. Í annan stað, ef sjampónotendur væru rukkaðir fyrir fulla lúku, þá myndi það aðeins spara Loga í mesta lagi um 10 krónur í hvert skipti sem hann færi í sund.
Áður en ég útskrifa Loga sem hagfræðing þarf ég að benda honum á nokkur atriði. Seinna í greininni talar hann um götusópun. Logi bendir á það að þegar hann koma heim úr sundi einn daginn var ekki búið að sópa gangstéttina fyrir utan heima hjá honum. Þar sem hann kann að meta hreinar gangstéttir þótti honum þetta leiðinlegt og spyr því næst lesandann: „Á ég að sópa sjálfur fyrir framan garðinn minn, þegar ég er búinn að borga fyrir það sjálfur með útsvarinu?“ (svarið er já ef það er tíma þíns virði, útsvarið sem þú ert búinn að borga sokkinn kostnaður). Logi sér þó lausn á þessu vandamáli sem er sú að Reykjavíkurborg hætti götusópun, borgarbúar sjái um það sjálfir og í staðinn borgi minni skatt.
En þar klikkar Logi á einu: götusópun og sjampó er að vissu leyti sama vandamálið. Það er að segja, ef við hættum að borga borginni fyrir að sópa, þá er fullt af fólki sem myndi ekki sópa, og rétt eins og í sundinu þar sem annar hver sundgestur væri skítapési, væri önnur hver gangstétt ósópuð. Og því ef þessum tveimur markaðslausnum sem Logi stingur upp á væri beitt, þá þyrfti Logi að labba á skítugum götum á leið sinni í drullupottinn Vesturbænum. (Einnig, sem sérstakur hagfræðiráðgjafi Loga, myndi ég benda honum á þá skalahagkvæmni sem eflaust leynist í því að láta borgina sópa, en sú útskýring er efni í heila aðra grein.)
En í dag borgar Logi útsvar, eins og við öll hin, labbar á hreinum götum (á sumrin) niður í Vesturbæjarlaug, þar sem hann baðar sig með vel sápuðum sundlaugargestum. En það er eitt sem mig langar að benda Loga á, og það er það að sundlaugar Reykjavíkur eru líka sjampó. Það er að segja, þær eru reknar með miklu tapi og sundlaugargestir í Reykjavík borga aðeins um 43% af því sem það kostar að reka sundlaugar borgarinnar. Og þá væri ekki óeðlilegt að þeir Reykvíkingar sem aldrei fara í sund, en þurfa að borga með sínu útsvari til að halda upp sundlaugum sem við Logi böðum okkur í, myndu spyrja sig: „á ég að borga fyrir það?“