Hagvöxtur hefur verið á Íslandi á hverju ári frá árinu 2011. Hann náði hámarki árið 2016 þegar hann nam 7,2 prósentum. Í fyrra var hann fjögur prósent og í ár mun hann verða lítið eitt minni. Atvinnuleysi er neikvætt þegar leiðrétt er fyrir innfluttu vinnuafli, greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar aðstoðar við íbúa landsins hafa dregist saman um þriðjung á nokkrum árum og kaupmáttur launa hefur vaxið um 25 prósent á örfáum árum.
Gríðarleg uppbygging stendur yfir hérlendis. Útgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð um 862 milljarðar króna, sem er það langmesta sem nokkru sinni hefur verið eytt úr honum. Á meðal þess sem verður gert er að auka fjárfestingar í samgöngumálum um 5,5 milljarða króna á nokkrum árum og framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verða ríflega 43,6 milljarða króna á næsta ári. Það er verið að auka fjárframlög til heilbrigðismála um 12,6 milljarða króna á milli ára sem fara meðal annars í að byggja nýjan Landsspítala. Aukin framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða 13,3 milljarðar á næsta ári og heildarútgjöld verða 216,7 milljarðar króna.
Um það er deilt hvort ofangreint sé nóg og hvort peningunum sé rétt skipt. En það er óumdeilt að verið er að fjárfesta gríðarlega mikið í innviðum fyrir íslenskt samfélag. Innviðum sem við munum eiga til framtíðar og ekki verður hægt að taka af okkur. Peningarnir koma til vegna þess að skatttekjur Íslands hafa stóraukist á örfáum árum. Í krónum talið, og án tillits til verðbólgu, hafa tekjur ríkissjóðs aukist úr 487 milljörðum króna árið 2011 í að vera 892 milljarðar króna á næsta ári. Það eru 83 prósent fleiri krónur í kassann.
Uppistaðan af þeim kemur til vegna skatttekna. Þær eru áætlaðar um 700 milljarðar króna á næsta ári, eða 43 milljörðum krónum meira en í ár. Þar af aukast greiðslur landsmanna vegna tekjuskatts og staðgreiðslu um 16,4 milljarða króna milli ára og greiðslur vegna virðisaukaskatts sem landsmenn greiða hækka um 15,8 milljarða króna.
Einn Kópavogur
Hið sjálfbæra efnahagskerfi sem okkur hefur tekist að byggja upp eftir bankahrunið fyrir áratug síðan byggir á fjórum stoðum: Orkusölu, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og öllu hinu. Mestur vöxturinn er auðvitað tilkominn vegna ferðaþjónustu þar sem ferðamönnum hefur fjölgað úr um hálfri milljón í 2,2 milljónir í fyrra, og enn fleiri í ár.
Þessi mikla og arðbæra uppbygging hefur útheimt gríðarlega miklar framkvæmdir við byggingu – til að mynda hótela – og mikið vinnuafl, sem ekki var til á Íslandi. Í raun er staðan þannig að til verða nokkur þúsund störf á ári, mest í alls kyns þjónustu við ferðamenn eða í byggingaiðnaði, sem ekki er til fólk á Íslandi til að manna. Þess vegna hefur það fólk verið sótt til annarra landa.
Vegna þessa hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 97 prósent frá lokum árs 2011 og þangað til um mitt síðasta ár. Í lok júní voru þeir 41.280 talsins og hafa auðvitað aldrei verið fleiri. Í Reykjanesbæ, þar sem fjölgunin hefur verið hröðust, hefur fjöldi útlendinga fjórfaldast á örfáum árum.
Langflestir útlendinganna eru þátttakendur á vinnumarkaði. Ungt fólk, sem leitar hefur hingað vegna þess að það sér tækifæri til að afla meiri tekna en í heimalandinu og jafnvel samfélagslega kosti þegar það getur hugsað sér að setjast hér að og ala upp fjölskyldu, verða Íslendingar.
Frá byrjun árs 2017 hefur innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði fjölgað um 11.544 – rúmlega íbúafjölda Mosfellsbæjar – og á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 fjölgaði þeim um 5.310 – rúmlega 700 fleiri en búa á Seltjarnarnesi.
Nær allir nýir skattgreiðendur eru útlendingar
Hagtölur sýna svart á hvítu að innflytjendurnir okkar eru alls ekki neins konar byrði á félagslega kerfinu okkar og glæpum hefur ekki fjölgað samhliða fordæmalausri fjölgum þeirra. Þeir hafa ekki bara séð okkur fyrir þeim höndum sem við þurfum til að ráðast í uppbygginguna sem stendur yfir – og gengið í störfin í til að mynda umönnunar- og heilbrigðisgeiranum þar sem algjör skortur er á íslensku vinnuafli – heldur hafa þeir líka greitt til okkar peninganna sem eru að hluta undirstaðan af efnahagslegu endurreisninni.
Í morgun greindum við á Kjarnanum frá því að erlendum ríkisborgurum sem greiddu hér skatta hafi fjölgað um 9.782 milli áranna 2016 og 2017, eða um 27,9 prósent. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiða skatta hérlendis um 1.166 talsins. Alls greiddu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi í fyrra sem þýðir að þeir voru 15,1 prósent allra einstaklinga sem skráðir voru í skattgrunnskrá það árið. Ári áður voru þeir 12,2 prósent slíkra. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði því rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum á skrá. Erlendir ríkisborgarar voru um 89,3 prósent fjölgunar á skrá árið 2017.
Útlendingar eru íslenska góðærið.
Kerfislægur rasismi
Og hvernig höfum við hagað okkur gagnvart þessu fólki sem hefur tryggt okkur hagsæld? Jú, við höfum mölbrotið á réttindum margra þeirra og komið fram við fólk eins og skepnur. Við höfum, sem samfélag, litið framhjá meðferð sem getur einfaldlega ekki flokkast sem annað en mansal. Hinn innbyggði rasismi í íslenskum kerfum og þjóðfélagsgerð, sem við verðum móðguð við að vera sökuð um opinberlega en gerum samt ekkert til að uppræta, tröllríður framkomu okkar gagnvart nýju íbúunum.
Í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær var þetta opinberað svo skýrt. Þar birtust útlendingar sem höfðu verið hlunnfarnir, blekktir og látnir búa við óboðlegar aðstæður. Þeir sem þetta á við um skipta þúsundum. Atvinnurekendur í röðum brjóta á starfsfólki sem hingað kemur til að vinna hörðum höndum við að bæta aðstæður og lífsskilyrði sín og sinna. Þeir sem borga laun í samræmi við kjarasamninga, sem eru sannarlega ekki allir, reyna margir hverjir að ná þeim peningum til baka með því að rukka starfsmenn sína um ónotuð líkamsræktarkort, verulega ýktan kostnað vegna atvinnuleyfa og vegna bifreiðarnotkunar sem í flestum tilfellum er bara til að koma viðkomandi frá heimili og á vinnustað svo fáein dæmi séu nefnd. En svívirðilegasta leiðin er í gegnum húsnæðiskostnað. Starfsmannaleigur eða verktakar og eigendur húsnæðis, sem í sumum tilfellum eru sama fólkið, rukka vinnuaflið um tugi þúsunda fyrir legupláss í kojum í herbergjum sem deilt er með öðrum. Og þar sem réttindum er skipulega haldið frá erlendu verkafólki – og það oftar en ekki alveg upp á vinnuveitendur sína komið – þá veit það oft annað hvort ekki að verið sé að brjóta á því eða treystir sér ekki til að gera veður út af því af hræðslu við að missa vinnuna.
Jaðarsetning
Tölum skýrt. Sem samfélag höfum við litið á erlenda ríkisborgara sem gróðatækifæri fremur en manneskjur. Hér er fjöldi einstaklinga sem hefur valið að græða mikið af peningum á því að níðast á hópi erlendra einstaklinga.
Við erum órafjarri því að mæta erlendu íbúum þessa lands þegar kemur að aðlögun að samfélaginu, t.d. í mennta- og félagslega kerfinu. Við erum ekki að nálgast það eins og við þyrftum til að vingast við það. Hjálpa því út úr vondum aðstæðum og benda því á rétt þeirra. Eða tilkynna þá sem eru skipulega og meðvitað að hagnast á eymd útlendinga, vegna þess að þeir fá að gera það.
Þetta er val
Í staðinn lítum við í hina áttina. Sumir stjórnmálamenn láta sig þessi gegndarlausu félagslegu undirboð varða í orði á tyllidögum en gera síðan ekkert meira til að rétta hlut þeirra sem verða fyrir þeim. Í sumar var t.d. birt skýrsla bandarískra stjórnvalda um mansal sem komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld uppfylltu ekki lágmarkskröfur í málaflokknum á nokkrum lykilsviðum. Enginn hefði verið ákærður eða sakfelldur sjö ár í röð hér á landi. Þekking á málaflokknum innan kerfisins væri ábótavant, sem og vernd, aðbúnaður og aðstæður sem mögulegir þolendur búi við meðan mál þeirra eru til meðferðar í réttarvörslukerfinu.
Eftirminnilegasta innlegg íslenskra stjórnmálamanna, þvert á flokka, í þær gríðarlegu breytingar sem fylgja fjölgun útlendinga á Íslandi, og vegna þeirra áskorana sem þessum fordæmalausu breytingum fylgja, er hræðsluáróður og fáfræðisraus lítils hóps þingmanna um meintan forgang sem hælisleitendur sem koma til Íslands í leit að betra lífi hafa af lífsgæðum umfram eldri borgara. Og helstu viðbrögð okkar við þessum samfélagsbreytingum snúa að því að borga sífellt færri hælisleitendum sem hingað leita fyrir að fara aftur heim til sín.
Stjórnmálamenn geta breytt þessu. Þeir þurfa bara að velja það. Velja að setja mannréttindi og -virðingu ofar rétti athafnamanna til að hagnast frjálst og án athugasemda á því að brjóta á þeim mannréttindum og stappa á þeirri mannvirðingu. Þeir geta viðurkennt að Ísland er að ganga í gegnum mestu samfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað í Íslandssögunni og að það sé óumflýjanlegt ef við ætlum að manna störf og viðhalda efnahagsvexti að flytja hingað enn fleiri útlendinga en við gerum nú þegar. Það er ekki nóg að taka við þeim sem vinnuafli. Við þurfum að tryggja að þeir þekki rétt sinn og að sá réttur sé virtur að viðurlögðum alvarlegum afleiðingum. Við þurfum að innleiða keðjuábyrgð, herða og samræma allt eftirlit og fjárfesta í því að skapa þessum nýju íbúum boðlegri aðstæður og ríkari samfélagsþátttöku.
En fyrst og síðast þurfum við að hætta að gera hræðilega hluti. Að líta framhjá hræðilegum hlutum. Og hlutir verða varla hræðilegri en þegar yfirvegaðar ákvarðanir eru teknar um að græða peninga á mannlegri eymd.