Landsbankinn er í 98,2 prósent eigu íslenska ríkisins. Restin er í eigu starfsmanna hans sem fengu hlutabréf fyrir góðan árangur við innheimtu tveggja lánasafna sem voru í eigu gamla Landsbankans, og þar með kröfuhafa hans.
Ríkið hefur verið ráðandi í þessum banka frá því að hann var búinn til 8. október 2008, eftir neyðarlagasetningu sem heimilaði því að gera slíkt, og lagði bankanum til 122 milljarða króna í eigið fé þegar hann var stofnaður.
Í krafti eignarhalds ríkisins á þessari stóru fjármálastofnun í íslensku efnahagskerfi skipar Bankasýsla ríkisins fulltrúa í stjórn Landsbankans. Þeim ber að framfylgja eigendastefnu ríkisins, þar sem markmið ríkisins um eignarhald í fjármálafyrirtækjum er skilgreint.
Fyrsta markmiðið sem er tilgreint í henni er að „umsýsla eignarhalds og starfsemi fjármálafyrirtækja stuðli að trausti og trúverðugleika fjármálamarkaðar.“ Þetta á meðal annars að gera með því að „Bankasýslan og stjórnarmenn sem og aðrir sem koma að starfsemi fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins skulu fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og leitast við að vera í forystu á sviði góðra stjórnarhátta, viðskiptasiðferðis og samfélagslegrar ábyrgðar.“
Í andstöðu við tilmæli ráðherra
Bankaráðið gaf þær skýringar við Fréttablaðið að verið væri að færa laun bankastjórans nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja.
Þar er væntanlega verið að vísa í laun bankastjóra Arion banka (5,9 milljónir króna á mánuði 2017 í laun og árangurstengdar greiðslur) og Íslandsbanka (4,8 milljónir króna á mánuði 2017 í laun, en 5,8 milljónir króna með lífeyrissjóðsgreiðslum). Hvorugur bankinn hefur birt ársreikning fyrir árið 2018 – þeir munu gera það síðar í vikunni – og því liggur ekki fyrir hvort launin hafi hækkað á síðasta ári.
Í eigendastefnu ríkisins segi að bankar í eigu ríkisins eigi að „setja sér starfskjarastefnu sem er samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi.“ Eftir að Íslandsbanki komst í eigu ríkisins hefur ekkert verið gert til þess að lækka laun bankastjóra hans, sem eru sannarlega leiðandi í íslensku atvinnulífi. Og varla getur það talist hóflegt að þiggja 4,8 milljónir króna í laun og lífeyrissjóðsgreiðslur, 16föld lágmarkslaun, á mánuði.
Það getur enn fremur vart haldið vatni að laun bankastjóra Landsbankans séu hófleg, þegar þau eru til að mynda mátuð við laun annarra ríkisforstjóra, þeirrar stéttar sem hefur þrátt fyrir allt tekið til sín einhverjar mestu launahækkanir allra hópa landsins undanfarin misseri.
Í lok árs 2016 var nefnilega tekin pólitískt ákvörðun um launakjör ríkisforstjóra undan kjararáði og til stjórna fyrirtækjanna, sem eru pólitískt skipaðar. Sú breyting tók gildi um mitt ár 2017. Benedikt Jóhannesson, sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra, sendi bréf til stjórna allra fyrirtækja í ríkiseigu í aðdraganda þeirrar yfirfærslu. Þar beindi hann þeim tilmælum til þeirra að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf. Í ljósi þessa er ákvörðun bankaráðs Landsbankans að hækka laun bankastjórna um 82 prósent, í 3,8 milljónir króna á mánuði, frá þeim tímapunkti beinlínis ófyrirleitin.
Ofurlaun og græðgi leiða til traustleysis
Í desember 2018 var birt Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Samhliða vinnu við gerð hennar var framkvæmd rannsókn á skoðunum eigenda ríkisbankanna tveggja, íslensks almennings, á fjármálakerfinu. Ein helsta niðurstaða hennar var sú einungis 16 prósent landsmanna treysta bankakerfinu. 57 prósent treysta því lítið eða ekkert. Þær niðurstöður sýna að annað af helstu markmiðum eigendastefnu ríkisins, að stuðla að trausti á fjármálamarkaði, hefur sannarlega ekki náðst.
Þegar fólk var spurt hvernig væri hægt að auka traust til bankakerfisins þá sagði stór hluti að það væri hægt með minni græðgi og minni ofurlaunum. Nú eða með því að lækka vexti og bjóða almenningi upp á betri kjör.
Enginn nefndi það að hækkun launa bankastjóra ríkisbanka um 82 prósent á skömmum tíma myndi auka tiltrú hans á kerfið.
Í höndum ríkisins að hagræða
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð sem sat í starfshópnum sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sagði í viðtali við 21 á Hringbraut nýverið að það felist tækifæri í því að vantraust fólks á bankakerfinu eigi ekki einungis rætur sínar að rekja til hrunsins, heldur vegna þeirra kjara sem bankarnir bjóða almenningi upp á og þeirrar háttsemi sem sé að finna innan bankanna. Það væri jákvætt vegna þess að það væri „erfiðara ef vantraustið skapast bara af einhverjum sögulegum atburðum sem við getum ekki breytt.“
Kristrún Tinna sagði það bæði vera í höndum ríkisins og bankanna sjálfra að gera breytingar sem stuðli að breytingum sem bæti kjör og lækki vexti. „Bankarnir hafa verið í miklum hagræðingaraðgerðum og það er klárlega svigrúm að mínu mati til þess að gera enn betur.[...]Þetta er þróun sem er að eiga sér stað alls staðar í heiminum og flestir stærstu bankar Evrópu hafa það efst á forgangslista sínum að draga úr kostnaði. Ég held að við þurfum klárlega að vinna að því hér á Íslandi líka.“
Í stað þess að horfa til þess hvernig ríkisbankarnir nýti augljóst svigrúm til að draga úr kostnaði til að bjóða almenningi upp á betri kjör, og sýni þar með í verki vilja til að auka tiltrú eigenda hans á bankakerfinu, var ákveðið að hækka laun bankastjóra langt umfram almenna launaþróun. Og hefja byggingu nýrra höfuðstöðva á dýrasta stað í höfuðborginni, við hlið Hörpu við Austurhöfn. Þar verður byggð 16.500 fermetra bygging auk bílakjallara. Áætlaður kostnaður er að minnsta kosti níu milljarðar króna.
Sprengja inn í kjaraviðræður
Þessi launahækkun bankastjóra Landsbankans væri taktlaust og illa ígrunduð við hvaða aðstæður sem er. En að þetta sé að gerast á hápunkti gríðarlega viðkvæmra kjaraviðræðna, þar sem atvinnurekendur og stjórnvöld eru að reyna að sannfæra verkalýðshreyfinguna um að lítið sem ekkert svigrúm sé til launahækkana, stappar nærri veruleikafirringu.
Þegar við bætist að ríkisbankinn ætlar að nota marga milljarða króna til að byggja sér fokdýra monthöll þegar ástandið á húsnæðismarkaði er þannig að stór hópur landsmanna telur sig jaðarsettann á þeim markaði þá er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að þeir sem bera ábyrgð á að eigendastefnu ríkisins séu starfi sínu vaxnir. Þeir virðast að minnsta kosti ekki skilja hugtökin „samfélagsleg ábyrgð“ og „hófsemi“, sem þó eru bæði í eigendastefnunni, neitt sérstaklega vel. Þvert á móti virðist ákvarðanir þess vera teknar úr öllu samfélagslegu samhengi.
Allir við borðið stóryrtir
Það sést vel á viðbrögðum sem komið hafa fram hversu skaðleg ákvörðun bankaráðsins um launahækkun bankastjórans er. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt að þetta væri óþolandi ástand og að skýringar bankaráðs á athæfinu séu dapurlegar. „Við græðum ekkert á flottræfilshætti í dag. Það eru allir búnir að sjá í gegn um þessa starfsemi. Fjármálakerfið þarf að sýna aðhald, auðmýkt og vilja til að vinna í samfélagslegri sátt við umhverfið.“
Sá sem situr hinu megin við samningaborðið frá Ragnari, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sakaði bankaráðið um taktleysi í Fréttablaðinu í dag. Hann sagði enn fremur að ákvörðunin væri „óskynsamleg og óverjandi“.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bættist svo í hópinn og sagði ákvörðunina óskiljanlega og úr öllum „takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir.“
Kerfi sem er til fyrir sig sjálft
Tölum íslensku. Það er sáralítil eða engin eftirspurn eftir íslenskum bankamönnum utan þess hliðarveruleika sem þeir hafa búið til fyrir sjálfan sig. Þetta eru ekki ofurmenni eða neinir sérstakir snillingar. Þeir eru ekki ómissandi og kerfið sem þeir starfa í virðist vera allt of dýrt vegna þess að það þjónar fyrst og fremst þeim sem í því starfa og einstaka fylgitunglum, ekki þorra þeirra sem þurfa að nota það.
Ríkið hefur valið að viðhalda armlengdar-stefnu gagnvart bönkunum sem það á. Í henni hefur falist að ríkisþvegnir bankar sem fengu eignir sínar í vöggugjöf og starfa bara á fákeppnismarkaði innanlands virðast nánast geta gert það sem þeir vilja, enda eigendastefnan að uppistöðu mjög almenn og hægt að túlka hana að hluta eftir hentugleika.
Í þeim hentugleika felst að greiða allt of mörgum starfsmönnum banka allt of há laun með þeim afleiðingum að rekstrarkostnaður þeirra, sem er að helmingi launakostnaður, eykur álagningu á þau kjör sem bankarnir bjóða almenningi og fyrirtækjum landsins upp á. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifaði grein um þetta í desember síðastliðnum og benti á að álagning íslenskra banka vegna þessa kostnaðar væri 45 prósent.
Það virðist ekki vera nein pólitísk samstaða um að ríkið sé að fara að selja Landsbankann og Íslandsbanka í fyrirsjáanlegri framtíð og því þarf að grípa strax til aðgerða að aðlaga þessa banka að raunveruleikanum. Það þarf að toga þá úr heimatilbúnum hliðarveruleikanum, skera niður kostnað verulega með það fyrir augum að bæta kjör til eigenda, leggja af allar hugmyndir um hallarbyggingar og hætta að láta eins og það að sitja á skrifstofu og færa til peninga sé svo ægilega flókið og mikilvægt starf að um það eigi að gilda önnur launalögmál en um aðra.
Óboðleg launahækkun bankastjóra Landsbankans er ágætis tilefni til að hefja þær aðgerðir.