Klausturmálið fór á þann veg sem við var búist. Í afstöðubréfum þeirra fjögurra þingmanna Miðflokksins – hóps sem mannar einnig stjórn þess flokks – er því lýst að gerendur séu þolendur. Að fólkið sem klæmdist um og níddist á samþingmönnum á Klaustri, lét niðurlægjandi orð falla um fatlaða baráttumanneskju, samkynhneigðan tónlistarmann og ýmsa fleiri, væru fórnarlömb pólitísks samsæris. Formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði reiður og hneykslaður í fréttum RÚV í gær að hann hefði verið „meginskotmarkið í þessari aðgerð“.
Við lestur afstöðubréfanna þá setur mann stundum hljóðan yfir því hversu óskammfeilin þau leyfa sér að vera gagnvart fólki sem þingmennirnir atyrtu sannarlega í samtalinu sem átti sér stað 20. nóvember. Jafnvel þótt það sé tekið út fyrir sviga hvort að í lagi hafi verið að taka upp samtalið, hvort þetta mál eigi heima í siðanefndarferli á Alþingi og hvort að það ferli sé boðlegt eða ekki þá situr eftir að þingmennirnir fjórir sögðu það sem þeir sögðu.
Það líta þeir á sem algjört aukaatriði, og í einhverjum tilvikum sé það einungis túlkun óbilgjarnra einstaklinga sem leiði að því að samtal þeirra sé hægt að sjá með neikvæðum formerkjum.
Ásökuð um að misnota orðið ofbeldi
Sigmundur Davíð segir í sínu afstöðubréfi: „Það hlýtur að slá einhvers konar met í aðför að persónu- og málfrelsi þegar í fyrsta lagi er leitast er við að nýta ólögmæta upptöku af einkasamtali. Í öðru lagi er svo metið hvort ekki megi gera ummæli sem eru til þess ætluð að hæðast að neikvæðu og jafnvel fordómafullu viðhorfi annarra að yfirlýstum viðhorfum eða stefnu hins hleraða.“
Það sem Gunnar Bragi sagði um Lilju á Klaustri var eftirfarandi: „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ Gunnar Bragi sagði í svarbréfi sínu að þau orð sem viðhöfð voru um Lilju ættu sér „rætur í vonbrigðum og reiði vegna persónulegs máls. Það er hins vegar al íslenskt að nota þau orð sem þarna voru höfð uppi og hafa ekki til þessa talist ósiðleg en klárlega skammarorð.“
Siðanefnd tók líka fyrir tvenn ummæli Bergþórs Ólasonar, varaformanns þingflokks Miðflokksins, um Lilju. Önnur voru eftirfarandi: „Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða.“
Um þau segir Bergþór, í afstöðubréfi sínu, að ummælin séu „augljóslega sögð í stríðnistóni, þar sem gert er grín að góðum vinum sem hafa látið stjórnmálamann teyma sig á asnaeyrunum að mati undirritaðs.“ Þetta væri það sem á ensku kallaðist „banter“.
Síðari ummæli Bergþórs um Lilju sem tekin voru fyrir voru: „Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í.“
Bergþór rengir í bréfi sínu að þessi ummæli hafi raunverulega fallið. Hann lesi ekki Stundina, sem birti frétt um þau á sínum tíma, og segir að ummælin birtist ekki í handriti Alþingis af Klaustri. Hægt er að hlusta á upptöku sem Stundin birti á sínum tíma til að heyra skýrt að ummælin féllu sannarlega. Hana er hægt að nálgast hér.
Hin hlægjandi fórnarlömb
Varðandi ummæli sem Gunnar Bragi og Bergþór létu falla um Albertínu F. Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, þar sem hún var vænd um kynferðislegra áreitni og tilraun til nauðgunar, þá vottar ekki á neinni eftirsjá hjá þingmönnunum tveimur. Gunnar Bragi segir að hann standi við allt það sem hann hafi sagt „en vil þó taka fram, líkt og ég gerði við viðkomandi, að notkun á orðinu „nauðgun” var of gróft og var hún beðin afsökunar á þeirri orða notkun.“ Auk þess segir hann að samflokkskona hans hefði rifjað upp annað áreitisatvik af hendi Albertínu, eftir að Klaustursmálið kom upp. Gunnar Bragi útskýrir þá málavexti ekki í bréfinu en segir að það sé „hreint með ólíkindum að nefndin telji að frásögn af því sem verður ekki skýrt með orðum en sem lýsingu á áreiti sé brot á siðareglum. Er nefndin að hvetja til þess að slík mál séu ekki rædd af þingmönnum við vini eða kunningja ef tilefni er til?“
Bergþór segir í sínu bréfi að hann hafi hvorki dregið orð sín um Albertínu til baka né beðist afsökunar á þeim. „Ástæðan er sú að þarna var í engu orðum aukið það sem átti sér stað og í raun alveg galin staða að vera útmálaður í hlutverki geranda í þessu máli, þegar raunin er þveröfug.“
Þegar hlustað er á upptökurnar af Klaustri 20. nóvember heyrist að þegar ummæli um Albertínu eru látin falla er hlegið. Mikið. Hvorugur mannana virðist hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna málsins heldur finnst það fyndið. Og formaður þeirra sagði: „Það voru ýmsir sem sögðu ‘take one for the team’ en Beggi var ekki til,“ og uppskar hlátur.
Bergþór telur sig samt sem áður vera fórnarlamb og skrifar að það veki „undrun og óhug ef það að ég leyfi mér að fá dálitla útrás fyrir það sem ég hef gengið í gegnum og tjái mig um málið með þeim hætti sem ég treysti mér til, að því er ég taldi í öruggu umhverfi, sé það notað gegn mér í pólitískum réttarhöldum. Það er óhugnanlegt að eftir að ég opnaði mig á þann hátt sem ég gerði skuli það samtal hafa verið tekið upp með ólöglegri aðgerð og því útvarpað endalaust um allt land með þeim hryllingi sem því fylgdi fyrir mig, vini mína og vandamenn. En að svo skuli nefnd Alþingis ætla sér að nýta þann glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrots hryggir mig ósegjanlega.“
Ekki kynferðislega minna „hot“
Um Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sagði Bergþór á Klaustri: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Í bréfi sínu segir hann þetta ekki vera neikvæð ummæli og snúist ekki um útlit hennar eða kyn. Bergþór skrifar þar að það þurfi „sérstakan vilja til að heyra aðeins kynferðislegan undirtón í þessum ummælum. Þarna er einfaldlega verið að lýsa breyttri stöðu fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hvað möguleika hennar á að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í næstu alþingiskosningum varðar.“
Anna Kolbrún Árnadóttir kallaði Freyju Haraldsdóttur „Freyju eyju“ í drykkjusamlætinu á Klausturbar. Freyja glímir við sjaldgæfan beinsjúkdóm sem takmarkar hreyfigetu hennar nánast algjörlega.
Anna Kolbrún útskýrir ummæli sín þannig að hún hafi ekki átt við Freyju „sjálfa heldur urðu þau til í Alþingi í kjölfar þess að breytingar þurfti að gera á húsnæði Alþingis til þess að fatlaðir sem notast við hjólastól gætu haft þar aðgengi.“ Á þetta fellst siðanefndin og telur Önnu Kolbrúnu meðal annars ekki vera að kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með því að kalla fatlaða baráttukonu, sem glímir við hreyfihömlun, „Freyju eyju“.
Pólitískar ofsóknir
Í afstöðubréfum sínum, og í sameiginlegu bréfi sem þingmennirnir fjórir sendu til forsætisnefndar, kemur ítrekað fram að þau telji sig fórnarlömb pólitískra ofsókna andstæðinga sinna innan og utan þings í málinu. Þeir andstæðingar, eða fjandmenn eins og þeir eru einnig kallaðir, eru meðal annars þingmenn allra annarra flokka, siðanefndin og nokkrir nafngreindir fjölmiðlar.
Gunnar Bragi segir til að mynda í sínu bréfi að um pólitíska vegferð siðanefndar og pólitískra andstæðinga Miðflokksins sé um að ræða. Bergþór segir í sínu að allir sem fylgist með íslenskum stjórnmálum viti að Stundin, DV og Kvennablaðið – þeir þrír miðlar sem fengu upptökurnar af Klaustri og birtu úr þeim fréttir – fari „nærri því að hatast við Miðflokkinn og þingmenn hans.“ Anna Kolbrún segir að ekki sé hægt að álykta annað en að „forseti Alþingis sé á persónulegri pólitískri vegferð.“
Þegar í ljós kom að það fengi ekki staðist ákváðu ólöglega kjörnir fulltrúar Alþingis að styðjast við umfjöllun fjandmanna þeirra sem sótt var að um málið og byggja málareksturinn á henni, jafnvel frá aðilum sem mega teljast þátttakendur í brotinu.[...]Ef þingið ætlar raunverulega að byggja afstöðu sína á fjölmiðlaumfjöllun andstæðinga má þá vænta þess að mögulegt verði að kæra aðra þingmenn til siðanefndar fyrir það sem sagt hefur verið um þá í sömu fjölmiðlum?“
Skaðinn lenti á þeim og fjölskyldum þeirra
Fjórmenningarnir segja Klausturmálið vekja óhug af fjölmörgum ástæðum, en engin þeirra sem þeir telja til snýst um það sem þeir sögðu þetta kvöld á Klausturbarnum. Þvert á móti snúast allar þeirra aðfinnslur um að með því ferli sem lauk í gær sé verið að refsa þolendum glæps, þeim sjálfum. „Það er rekið áfram af pólitískum andstæðingum þeirra sem fyrir urðu og löggjafarsamkoman notuð í þeim tilgangi. Eðlilegri málsmeðferð hefur hvergi verið fylgt. Farið hefur verið á svig við lög eftir að upphaflegir aðilar höfðu gert sig vanhæfa. Hinir sömu hafa þó áfram hlutast til um málsframvinduna. Samræmis er hvergi gætt. Tilgangurinn helgar meðalið. Skaðinn fyrir okkur og fjölskyldur okkar er mikill en verst er að þeir sem fara með vald skuli hafa leitast við að misnota það með svo alvarlegum hætti. Við verðum að vona að slíkt sé ekki til marks um það sem koma skal í íslensku samfélagi.“
Eina manneskjan sem einhver Klausturmanna telur sig þurfa að standa skuldaskil við er móðir Bergþórs Ólasonar, sem skammaði hann víst í desember síðastliðnum fyrir ósæmilegt orðalag. Sú lota þykir honum viðeigandi refsing fyrir sitt háttarlag. Í bréfi Bergþórs segir að lokum að sú „opinbera smánunarherferð sem keyrð hefur verið áfram er refsing sem er margfalt verri fyrir þá sem í lenda, en hinar hefðbundnu refsingar sem siðuð samfélög telja forsvaranlegar. Það eru ekki bara stjórnmálamennirnir sjálfir sem verða fyrir, heldur fjölskyldan og nærumhverfið. Ég vil því enda þessar athugasemdir mínar á að segja, aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
Raunveruleg fórnarlömb verða að gerendum
Í framgöngu Miðflokksmanna í þessu máli kristallast að þeim er nokkuð sama um aðrar sálir. Þeir hafa sýnt að þeir hafi enga sómakennd. Aðrir skipta engu máli og það sem satt er verður aukaatriði. Þeir sýna enga eftirsjá, enga auðmýkt. Gerendur verða fórnarlömb pólitískra árása andstæðinga. Þeir andstæðingar eru meðal annars öryrkinn sem tók þá upp, flestir fjölmiðlar landsins, þingmenn annarra flokka, siðanefnd og sérstaklega forseti Alþingis. Svart verður hvítt. Upp verður niður. Og svo framvegis.
Raunverulegu fórnarlömb þeirra, þau sem urðu fyrir orðræðu Miðflokksins á Klaustri, verða líka gerendur í meðförum þingmannanna. Lilja Alfreðsdóttir er sögð hafa misnotað sér það að vera kallaður skrokkur sem væri kynfærum samþingmanns samboðin í pólitískum tilgangi. Albertína F. Elíasdóttir er vænd um að hafa brotið á þeim, ekki öfugt.
Lilja orðaði það ágætlega þegar hún sagði enn dapurlegra en ummælin sjálf vera að þeir séu enn að reyna að að réttlæta þau. „Leitt að þeir sjái ekki sóma sinn í að líta í eigin barm. Ummælin verða þeim til ævarandi skammar.“
Á þessu öllu mátti eiga von, og við hefur blasað frá því snemma á þessu ári að þetta yrði vegferðin sem Miðflokksþingmennirnir myndu fara í. Á sama tíma hafa þeir fært sig enn frekar út á jaðarinn í sinni pólitík og stunda nú sem aldrei fyrr það að reka fleyga þar sem þeir geta. Það gera þeir með óboðlegri orðræðu um útlendinga, með óboðlegri umræðu um loftlagsmál, með óboðlegri umræðu um þungunarrof og með því að segja beinlínis ósatt trekk í trekk í málum sem snerta til að mynda losun aflandskróna og síðar þriðja orkupakkann. Hratt ferðalag Miðflokksins í hörkuna á jaðrinum, þar sem markmiðin skipta ein máli en sannleikurinn og afleiðingarnar ekkert annað en viðeigandi fórnarkostnaður.
Hið óboðlega hefur engar afleiðingar
Þessi vegferð hefur skilað Miðflokknum miklum árangri. Einn af helstu pólitísku markmiðum hans er að grafa undan ríkjandi stjórnkerfi sem formaður flokksins segir ítrekað að sé ólýðræðislegt í greinum sem hann skrifar. Mun lýðræðislegra væri að mikil völd myndu safnast á hendur fárra kjörinna fulltrúa. Geðþóttavald yfirburðamanna fram yfir valddreifingu og sérfræðinganotkun. Og eini yfirburðarmaðurinn í huga Sigmundar Davíðs er hann sjálfur. Sjálft skotmarkið í þessari aðgerð kerfisins.
Hin sýnilegi árangur Miðflokksins birtist í skoðanakönnunum, þar sem fylgi flokksins mælist í sumum þeirra yfir 14 prósent og hefur aldri mælst hærra. Ljóst er á niðurbroti kannana að flestir þeir kjósendur sem fylkja sér nú á bak við Miðflokkinn koma frá Sjálfstæðisflokknum, eru eldri en 60 ára og eru margir hverjir búsettir í Suðurkjördæmi. Þennan árangur má þakka þeirri ákvörðun Miðflokksins gefa eftir allar væntingar um að ná skynsömum kjósendum með siðferðisþröskuld um borð í sinn bát, og fara að reka pólitík sem byggist á því að játa aldrei mistök, segja annað hvort ekki satt eða festa sig í hálfbökuðum útúrsnúningum og ala á hræðslu eða vanþekkingu til að afla sér atkvæða.
En stóri lærdómurinn sem er falinn í Klaustursmálinu finnst ekki í framferði Miðflokksmanna. Hann er fólgin í því að nú er staðfest að svona hegðun – það sem sagt var á Klaustri og viðbrögð þeirra sem það sögðu – hefur engar raunverulegar afleiðingar. Alþingi og þeir flokkar sem þar sitja bera sameiginlega ábyrgð á því að hafa ekki ráðið við verkefnið að auka traust á mikilvægustu stjórnsýslueiningu lýðveldisins.
Þeir hafa sýnt það svart á hvítu, með því að leyfa Miðflokknum að vinna með frekju, yfirgangi og ömurlegheitum, að allir íslensku stjórnmálaflokkarnir, ekki bara Miðflokkurinn, eru hluti af vandamálinu, en alls ekki lausnin.