Seðlabanki Íslands hefur undanfarna mánuði birt tvær skýrslur þar sem hann rannsakar sjálfan sig. Sú fyrri, sem fjallaði um 500 milljón evra neyðarlán til Kaupþings á neyðarlagadaginn 6. október 2008, var fjögur ár í vinnslu. Þegar hún kom loks út í lok maí 2019 var niðurstaða hennar aðallega sú að eftir á að hyggja hefði ekki átt að veita lánið, en að það hafi þó ekki verið „rangt sjónarmið miðað við aðstæðurnar og þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Allt orkar tvímælis þá gjört er og ekki er alltaf viðeigandi að nota einungis mælistikur upplýsinga síðari tíma þegar einstakar ákvarðanir eru metnar.“
Í skýrslunni voru sáralitlar nýjar upplýsingar um veitingu lánsins og ráðstöfun þess, en rúmur helmingur þess, 36 milljarðar króna, tapaðist. Niðurstaða bankans var að ekki sé hægt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun lánsins á grundvelli þeirra upplýsinga sem bankinn aflaði sér. Hvorki var skoðað saknæmi þeirra ráðstafanna sem stjórnendur Kaupþings gripu til við ráðstöfun á neyðarláninu né var kannað til hverra stór hluti fjármunanna fór. Ekkert var farið yfir ráðstafanir sem gerðar voru innan Kaupþingssamstæðunnar daganna eftir að neyðarlánið var veitt, og þangað til að bankinn féll, annað en að kanna hvert fjármunir fóru út af þeim reikningi sem lagt var inn á.
Þar er til að mynda ekkert fjallað um Lindsor-málið, sem lögreglan í Lúxemborg lauk rannsókn á í október 2018 og liggur nú hjá rannsóknardómara þar í landi til ákvörðunar um hvort að stjórnendur Kaupþings verði saksóttir vegna þess eða ekki. Málið snýst um lán til félagsins Lindsor Holding upp á 171 milljón evra 6. október 2008. Lindsor var, samkvæmt gögnum rannsakenda hjá embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitinu og yfirheyrslum yfir þeim sem að málinu komu, stýrt af stjórnendum Kaupþings. Hægt er að lesa allt um Lindsor-málið hér.
Önnur réttlætingarskýrsla
Síðari skýrslan fjallar um gjaldeyrisútboð sem Seðlabankinn stóð fyrir á árunum 2011 til 2015. Tilgangur útboðanna var að vinna á hinni svokölluðu snjóhengju. Þ.e. íslenskum krónueignum í eigu erlendra aðila sem vildu út úr íslensku hagkerfi en gátu það ekki vegna þess að höft meinuðu þeim það. Ef höftin væru ekki til staðar, og krónurnar fengið að flæða óhindrað út, myndi það hafa alvarleg áhrif á greiðslujöfnuð Íslands. Þess utan átti Seðlabankinn ekki gjaldeyri til að skipta snjóhengju íslensku krónanna í.
Um var að ræða tvenns konar útboð. Annars vegar þar sem ríkisskuldabréf voru seld, aðallega til lífeyrissjóða. Hins vegar var mun umfangsmeiri leið, fjárfestingarleiðin, þar sem nánast allir sem áttu upphaflega 50 þúsund evrur í lausu – lágmark sem síðar var lækkað í 25 þúsund evrur – gátu fengið að ferja peninga inn í íslenskt hagkerfi.
Leiðin bauð upp á allskyns ávinning. Í fyrsta lagi fengust krónurnar sem evrunum var skipt í á allt að 20 prósent afslætti. Þ.e. viðkomandi fékk mun fleiri krónur fyrir evrurnar sínar með þessum hætti en ef hann myndi reyna að skipta þeim á skráðu gengi Seðlabankans. Bankinn var milligönguaðili fyrir þessi viðskipti en þeir sem tóku tapið voru eigendur krónanna sem vildu út. Vert er að taka fram að nær allir eigendur slíkra króna hafa þurft að taka á sig annað gengi en skráð gengi við útferð. Munurinn er sá að í fjárfestingarleiðinni sat ávinningurinn eftir hjá völdum hópi einstaklinga, en í hinum leiðinum sat hann eftir hjá hinu opinbera.
Í öðru lagi gátu þeir sem komu peningum undan frá Íslandi fyrir bankahrunið, og gengisfallið sem fylgdi, leyst út gríðarlegan gengishagnað á meðan að venjulegt fólk sem kom engu undan þurfti að fara með flugmiðann sinn í bankann til að kaupa gjaldeyri.
Í þriðja lagi bauð leiðin upp á það að aðilar sem áttu „skítugt fé“, þ.e. peninga sem ekki höfðu verið greiddir réttmætir skattar af, voru afrakstur glæpastarfsemi eða áttu að vera réttmæt eign kröfuhafa viðkomandi, gátu komist í þvottavél fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands og komið út tandurhreinir og tilbúnir til notkunar.
Ekki bara „umdeildir auðmenn“
Samtals komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðar eða 206 milljarðar króna. Meginþorri þeirra sem nýttu sér hana, 794 af 1.074 aðilum, voru Íslendingar, samkvæmt skriflegu svari til Alþingis frá sumrinu 2017. Alls fékk allur þessi hópur 31 milljarða króna virðisaukningu fyrir það að nýta sér leiðina. Af þeim fóru um ellefu milljarðar króna af virðisaukningunni til Íslendinga en um 20 milljarðar króna til erlendra aðila. Þessir aðilar notuðu svo fjármunina í einhverjum tilfellum til að kaupa upp eignir á Íslandi á útsöluverði eftirhrunsáranna. Í mörgum tilfellum var um sömu aðila að ræða sem báru mikla ábyrgð á því að sigla íslensku efnahagslífi í strand árið 2008.
Í skýrslunni segir að rétt sé að „halda því til haga að það voru ekki eingöngu umdeildir auðmenn sem voru í þeirri stöðu að eiga óskilaskyldan gjaldeyri. Töluverður fjöldi Íslendinga sem áttu fasteignir erlendis vegna búsetu seldu fasteignir í tengslum við búferlaflutninga til Íslands og tóku þátt í fjárfestingarleiðinni. “
Þá blasir við að fjárfestingarleiðin var aðlaðandi tækifæri fyrir ýmsa aðra en „umdeilda auðmenn“ til að þvo peninga. Augljóst er að leiðin gat líka gagnast til að mynda erlendum glæpamönnum við að koma peningum úr svarta hagkerfinu í vinnu og öðlast þannig lögmæti.
Afleitt eftirlit með peningaþvætti
Til að fá að taka þátt í fjárfestingarleiðinni þurfti að uppfylla nokkur skilyrði. Á meðal þeirra var að það þurfti að fylgja með staðfesting þess að áreiðanleiki viðkomandi hefði verið kannaði samkvæmt lögum um peningaþvætti.
Í skýrslu Seðlabankans segir að „staðfestingin skyldi gerð af hálfu milligönguaðila eða annars aðila sem fullnægði kröfum laganna eða laut að mati Seðlabankans bæði sambærilegum kröfum og lögin gera og eftirliti sambærilegu því sem íslensk fjármálafyrirtæki lúta. Fjármálafyrirtæki báru því einnig þá skyldu að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga[...]um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta áreiðanleika þeirra gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankanum er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við starfsemi milligönguaðila hvað varðar peningaþvættiskannanir.“
Þetta ferli fór í meginatriðum þannig fram að fjárfestir leitaði til íslensks banka og bað hann um að vera millilið í að færa peninganna sína í gegnum fjárfestingarleiðina. Hann undirritaði síðan peningaþvættisyfirlýsingu um að hann væri raunverulegur eigandi fjármunanna sem verið var að færa og staðfestingu á því að hann hefði ekki verið ákærður fyrir brot á lögum um gjaldeyrismál.
Vandamálið við þetta er að peningaþvættiseftirlit íslenskra banka, og stjórnvalda, hefur nánast ekkert verið árum saman. Það fékk falleinkunn hjá alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task Force (FATF) í fyrra sem kröfðust þess að umfangsmiklar úrbætur yrðu gerðar, annars yrði Ísland sett á lista yfir ósamvinnuþýð ríki. Fjármálaeftirlitið hefur frá þeim tíma framkvæmd athuganir á því hvernig fjármálafyrirtæki hafi staðið sig í vörnum gegn peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöðu úr einni athugun, á stöðu mála hjá Arion banka. Sú niðurstaða, sem lá fyrir í janúar síðastliðnum, var á þá leið að fjölmargar brotalamir væru á þeim vörnum hjá bankanum. Meðal annars hefði bankinn ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi.
Ísland var galopið fyrir peningaþvætti. Og Seðlabankinn bauð upp á kjörleið fyrir þá sem vildu stunda það.
Viðurkennir „neikvæð hliðaráhrif“
Í skýrslu bankans um fjárfestingarleiðina gengst bankinn við því að aðgerðinni hafi fylgt „ýmis neikvæð hliðaráhrif, eins og algengt er um aðgerðir af þessu tagi en þau jákvæðu áhrif sem að var stefnt með aðgerðunum vega þó þyngra á vogarskálunum.“ Tilgangurinn, að létta á snjóhengjunni, hafi því helgað meðalið. Það sé ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeila réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“ Það sé ekki úrlausnarefni hans. „Þótt deila megi um sanngirni þess var fátt sem Seðlabankinn gat gert til þess að stuðla að sanngjarnari útkomu innan þess lagaramma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því markmiði aðgerðanna að stuðla að stöðugleika.“
Bankinn segir enn fremur að það sé ekki hans að taka afstöðu til þess hvort að fjárfestingarleiðin hafi leitt til misskiptingar auðs og tekna og jafnvel fært auð til auðkýfinga á lágskattasvæðum. Það sé Alþingis að gera það. Seðlabankinn gengst hins vegar við því að ekki sé hægt að útiloka að aðgerðin hafi skekkt skiptingu tekna og auðlegðar með einhverjum hætti.
Seðlabankinn viðurkennir einnig að gagnrýni á heimild félaga með aðsetur á lágskattarsvæðum til þátttöku í fjárfestingarleiðinni hafi verið eðlileg í ljósi sögunnar.
Í raun tekur Seðlabankinn undir alla gagnrýnina um sem sett hefur verið fram á þessa opinberu aðgerð í skýrslunni. Að hún hafi ekki gætt jafnræðis, að hún hafi stuðlað að neikvæðum áhrifum á eignaskiptingu, að hún hafi mögulega opnað á peningaþvætti, að hún hafi gert „óæskilegum auðmönnum“ kleift að flytja hingað fé úr skattaskjólum. Og svo framvegis.
En samt finnst Seðlabanka Íslands, stofnun í eigu almennings, aðgerðin hafa verið í lagi.
Firring
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands er eitt mesta hneyksli síðustu ára hérlendis. Kjarninn hefur verið leiðandi í umfjöllun um hana árum saman og dregið fram, oft með gríðarlegum erfiðleikum, miklar upplýsingar um það óréttlæti og samfélagsskaða sem hún leiddi af sér. Enda gríðarlegir almannahagsmunir undir í málinu.
Í samfélagi sem tekur sig alvarlega, og telur sig siðað, er ekki hægt að lifa með því að sú stofnun sem fer með stjórn peningamála bjóði upp á leið til að þvo peninga, að skammta völdum hópi þegna gríðarlegum tækifærum til aukinnar eignamyndunar og neiti árum saman að veita fjölmiðlum upplýsingar um sjálfsagða þætti starfsemi sinnar. Afstaða Seðlabankans til eigin verka lýsir einhvers konar firringu. Hann gengst við því sem hann gerði, en honum finnst það allt í lagi.
Með því að umbera hana verður löggjafinn, Alþingi, samsekur í þeirri firringu.