Þessa dagana eru þúsundir Íslendinga með harðsperrur í lærunum eftir að hafa hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu. Margir eru eflaust sáttir eftir að hafa náð handahófskenndum markmiðum sínum á meðan þeir sem misstu af þeim sleikja sár sín.
Þó svo að einhver egó séu löskuð og þúsundir vöðva þreyttir þá er margt til að gleðjast yfir. Sérstaklega gæska einstaklingsins og vilji okkar til þess að safna peningum og gefa peninga okkar í verðskulduð málefni. Í því tilefni safnaði ég saman gögnum af heimasíðu hlaupastyrks og ætla ég að deila með ykkur áhugaverðum staðreyndum.
Þeir sem hlaupa lengra safna meiru
Fyrsta staðreyndin sem gögnin sýndu var sú að þeir sem til eru í að pína sig meira eru líklegri til að safna meiri pening. Það er að sjálfsögðu eðlileg niðurstaða enda hefði maður haldið að ef verið er að leggja peninga til góðra málefna í samhengi við fórn safnara, að fólk sem legði fram stærri fórn (í formi uppsafnaða harðsperra) fengi meira fyrir sinn snúð.
Mynd 1: Langhlauparar eru betri safnarar
Það er ekkert merkilegt við það, að vera karlmaður
Önnur staðreyndin sem maskínan mín þrumaði út var að karlar og konur eru jafngóðir safnarar. Það er að segja, síðast þegar ég gáði, var að meðaltali hver og einn hlaupari (sem hefur fengið í það minnsta eitt áheit) búinn að safna um 32 þúsund krónum handa góðu málefni.
Mynd 2: Konur og karlar eru jafn góðir safnarar
Að setja sér markmið gæti hjálpað
Á hlaupastyrk.is setja fæstir sér markmið. Það er skiljanlegt. En kannski, ef fólk vill hámarka framlag sitt til góðgerðarmála, þá gæti verið að markmið hjálpi til við færa fólk nær því takmarki. Allavega er stór hópur fólks sem trúir á markmið og þau greinilega hjálpa fólki að hlaupa hraðar. Þegar kemur að getu fólks til að safna fyrir góðgerðafélög þá sýna gögnin það – svart á hvítu – að fólk sem setur sér hærra markmið safnar meiri pening. Að sjálfsögðu þýðir það ekki endilega að markmið hjálpi fólki að safna meira, líklegra er jafnvel að fólk sem setji sér hærri markmið séu almennt betri safnarar. En, kannski á jaðrinum hjálpa markmiðin. Kannski.
Mynd 3: Þeir sem setja markið hátt ná ekki alltaf markmiðinu – en eru samt betri safnarar
Þegar þetta er skrifað eru hlaupara búnir að safna rúmlega 162 miljónum króna. Góðgerðafélögin sem þetta frábæra fólk er að safna fyrir eru af ýmsum toga; t.d. barnaspítalar, krabbameinssamtök, og Parkisonsamtök. Og eru þau öll vel að þessu komin.
Þetta er síðasti af þremur pistlum sem ekki beint tengjast hagfræði, en hafa meira með aðferðir úr tölfræði að gera. Tilefnið er að sjálfsögðu Reykjavíkurmaraþonið sem haldið var fyrir stuttu. Höfundur biður lesendur sem ekki eru hlauparar velvirðingar og þakkar þeim þolinmæðina. Eikonomics snýr aftur í sýnu hefðbundna horfi í september.