Ólafur Ólafsson hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir það að Alþingi hafi skipað rannsóknarnefnd til að upplýsa um það að hann og samstarfsfélagar hans hefðu beitt ríkið, fjölmiðla og almenning allan stórkostlegum blekkingum til að komast yfir Búnaðarbankann árið 2003.
Ólafur telur að vinna og birting á skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi vegið „alvarlega að orðspori og æru“ hans án þess að hann hefði nokkurt tækifæri til að koma við vörnum, að þar hafi verið settar fram einhliða ásakanir á hann sem í engu væru réttlætanlegar og að friðhelgi einkalífs hans hafi verið skert með því að kaup hans á ríkisbanka hafi verið rannsökuð af opinberri nefnd.
Sú rannsóknarnefnd, sem skilaði afgerandi og vel rökstuddri niðurstöðu árið 2017, upplýsti um að Ólafur og eigendur annars aflandsfélags, sem íslensk yfirvöld eru sannfærð um að séu bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, hefðu hagnast stórkostlega persónulega á því að láta þýska einkabankann Hauck & Aufhäuser þykjast vera í kaupendahópnum og leyna því þar með að Kaupþing, sem síðan sameinaðist Búnaðarbankanum, hefði fjármagnað viðskiptin.
Þegar málið var loks rannsakað, 14 til 15 árum eftir að fléttan var ofin, og átta og hálfu ári eftir að þeir höfðu steypt honum, og íslensku samfélagi, fram af hengibrún lá fyrir að öll möguleg lögbrot voru fyrnd. Menn yrðu ekki látnir svara til saka fyrir dómstólum fyrir blekkingarnar.
Við rannsóknina reyndust viðföngin afar ósamvinnuþýð. Þau annað hvort mundu ekkert, slepptu því að svara spurningum eða borguðu almannatenglunum sínum vel til að spinna fáránlega spuna sem var svo haldið að fjölmiðlum.
Ólafur sjálfur sagði í vitnisburði sínum fyrir dómi, þar sem hann svaraði spurningum rannsóknarnefndarinnar, að eftir því sem hann best vissi hefðu allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar um kaupin, og kynntar voru í fjölmiðlum samhliða kaupum, verið réttar og nákvæmar. Gögn sem nefndin hafði undir höndum sýndu með óyggjandi hætti fram á að svo er ekki. Ólafur var leiðandi í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin.
Til viðbótar fékk falið félag Ólafs, Marine Choice, 3,8 milljarða króna vegna þeirrar fléttu sem ofin var á bak við Hauck & Aufhäuser-grímuna. Hitt félagið, Dekhill Advisors, sem er talið í eigu Bakkavararbræðranna Ágústs og Lýðs, fékk 2,9 milljarða króna.
Málsvörn þess sem er yfir lög hafin
Í aðdraganda þess að rannsóknarnefndin ætlaði að kynna niðurstöðu sína á þessu stóra máli var almannatengsladeild Ólafs, innan almannatengslafyrirtækisins KOM og lögmannahópsins sem ver hann, búin að undirbúa málsvörn. Hún fólst í því að reyna markvisst, bæði opinberlega og óformlega, að reyna að hafa áhrif á það hvernig fjallað yrði um málið, meðal annars með að gefa í skyn að nefndin hefði ekki komist að neinu sem máli skipti. Þremur mánuðum áður en að nefndin skilaði skýrslu sinni sendu lögmenn Ólafs til að mynda frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir sögðu að allt í kringum rannsóknarferlið á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut í Búnaðarbankanum á sínum tíma væri „undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.“
Heimasíða þar sem málsvörnin yrði sett fram hafði verið tilbúin mánuðum saman og þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom loksins út var tekið upp 50 mínútna málsvarnarávarp. Í niðurlagi þess sagði Ólafur að niðurstaða skýrslunnar væri hvorki sanngjörn né rétt „gagnvart þjóðinni og alls ekki gagnvart mér persónulega.“
Málsvörn Ólafs byggðist á þeirri veiku von að fjölmiðlar og almenningur myndu ekki kynna sér málið eða þau gögn sem niðurstaða rannsóknarnefndarinnar byggði á. Hann taldi það ekki blekkingu eða lygi að segja ósatt í tilkynningum til Kauphallar, í viðtölum og yfirlýsingum sem sendar eru á fjölmiðla, eða í svörum sínum fyrir rannsóknarnefnd eða Ríkisendurskoðun. Það væru einfaldlega viðskipti. Ríkið hefði fengið þann pening sem samið var um í kaupunum og ekkert annað skipti máli né kæmi neinum við.
Líklega má slá því föstu að þessi almannatengslaherferð hafi verið ein sú verst heppnaðasta í manna minnum. Fórnarlambasamúð með Ólafi var, og er, áfram sem áður engin utan þrengsta hringsins í kringum hann. Frekar dró úr henni á meðal almennings en hitt.
Sú herferð sem nú stendur yfir er endurtekning á hinni fyrri. Sérfræðingarnir sem Ólafur borgar vel fyrir að reka hana áfram telja greinilega að hún eigi nóg inni þrátt fyrir að hún hafi beðið skipsbrot fyrir tveimur og hálfu ári.
Var og er einn ríkasti maður landsins
Yfirráðin yfir sameinuðum Búnaðarbanka/Kaupþingi gerðu Ólaf Ólafsson að einum ríkasta og valdamesta manni landsins. Í árslok 2003 voru eignir Kjalars, fjárfestingafélags Ólafs, metnar á 3,2 milljarða króna. Tveimur árum síðar voru þær metnar á 85 milljarða króna.
Alls tókst Ólafi og tengdum félögum að safna upp skuldum upp á 147 milljarða króna við íslensku bankana fram að hruni þeirra. Mest skulduðu félög Ólafs Kaupþingi, bankanum sem Ólafur var næst stærsti eigandinn að, alls 96,1 milljarð króna.
Það er ekki að ástæðulausu að því sé oft haldið fram að besta leiðin til að ræna banka sé að eignast hann.
Ólafur Ólafsson hefur hlotið einn dóm, í Al Thani-málinu svokallaða. Þar var hann dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Hann hefur aldrei sætt sig við þá niðurstöðu og hefur reynt að fá henni hnekkt á allan mögulegan hátt, jafnt innanlands sem erlendis. Meðal annars fyrir sama Mannréttindadómstóli Evrópu. Þær aðfinnslur snúast ekki um efnisatriði málsins, enda blasa þau við öllum sem lesa dóm Hæstaréttar Íslands í málinu, heldur um hvort dómarar hafi verið vanhæfir vegna þess að þeir áttu sparnað í sjóðum Glitnis eða hlutabréf í þeim banka, sem Ólafur átti ekkert í.
Ólafur lenti þó kyrfilega á fótunum fjárhagslega eftir hrun. Árið 2011 gerði hann skuldauppgjörssamkomulag við Arion banka sem í fólst að Ólafi var sleppt við að greiða 64 milljarða króna af skuldum sínum en þurfti í staðinn að láta af hendi valdar eignir, meðal annars hlut í útgerðarrisanum Brim. Ólafur hélt hins vegar fyrirtækinu sem hann er oftast kenndur við, Samskipum, auk fjölda annarra eigna. Almennt er talið að hann sé á meðal ríkustu lifandi Íslendinganna og hann hefur verið umsvifamikill hérlendis síðustu ár, meðal annars í fasteignaviðskiptum.
Þess má geta að allir fimm dómarar Hæstaréttar voru sammála um niðurstöðuna í málinu og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð íslenska ríkisins í Al Thani málinu hafi verið eðlileg fyrir utan að vafi gæti verið á óhlutdrægni eins dómarans vegna þess að sonur hans hafði starfað fyrir slitabú Kaupþings. Ólafur fékk 277 þúsund krónur í bætur.
Alvöru lög dæma ekki svona menn í fangelsi
Í frægu viðtali við Stöð 2 fyrir nokkrum árum, þegar Ólafur afplánaði dóm á Kvíabryggju, sagði hann að samfélagið væri að bregðast ákveðnum þjóðfélagshópi, legði hann í einelti. Sá þjóðfélagshópur væru menn eins og hann. Fjármálamenn sem sátu í fangelsi. „Í mínum huga eru þetta ekki alvöru lög sem unnið er eftir.“
Nú eru það ekki bara lögin sem eru Ólafi ekki samboðin, heldur ofbýður honum að rannsóknarnefnd hafi ráðist í að skoða hvort að íslenska ríkið hefði verið blekkt af honum og viðskiptafélögum hans þegar það seldi þeim ríkisbanka.
Niðurstaðan var, líkt og áður sagði, afgerandi sú að Ólafur og félagar hefðu blekkt land og þjóð til að komast yfir bankann og hagnast verulega persónulega um leið. Gögn og vitnisburðir sýndu það svart á hvítu.
Ólafur kærði málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar til Mannréttindadómstóls Evrópu um miðjan júlí 2017, skömmu eftir að niðurstaðan var birt.
Vandamálið við þessa vegferð er að lög um rannsóknarnefndir eru nokkuð skýr. Þar segir að meginhlutverk rannsóknarnefnda sé að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í máli. „Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara það sem ákveður hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.“ Það liggur því fyrir, í lagatextanum, að ekki er um að ræða sakamálarannsókn.
En Ólafi finnst það samt vegna þess að niðurstaða nefndarinnar, sem fólst einvörðungu í því að upplýsa um hvað hefði átt sér stað, væri ígildi refsingar. Þá truflar það hann að sjónarmið hans, manns sem varð meðal annars uppvís að því að ljúga við vitnaleiðslur í málinu, væru ekki meira ráðandi í niðurstöðu nefndarinnar.
Vert er að rifja upp að ef um lögbrot var um að ræða þá voru þau fyrnd, svo lengi tókst að halda fléttunni leyndri. Þeir komust upp með þetta og urðu svívirðilega ríkir. En samt finnst Ólafi að honum hafi verið refsað.
Spuni til að afvegaleiða
Líkt og greint var frá í frétt RÚV um málið í gær þá bárust um 50 þúsund erindi um upptöku mála til Mannréttindadómstólsins í fyrra. Tæplega 80 prósentum mála er vísað frá, um 7.600 mál fá nánari skoðun en um 2.700 mál enda með dómi, eða 5,4 prósent. Það að dómstóllinn hafi kallað eftir svörum segir því ekkert um að líklegt sé að málið verði tekið þar til meðferðar, heldur einungis það að Ólafur Ólafsson á nóg af peningum til að borga lögmönnum til að senda svona þvælu til alþjóðadómstóls. Íslenska ríkið mun svara þessum spurningum, segja með vísun í landslög að þetta hafi sannarlega ekki verið sakamálarannsókn, og málinu mun að öllum líkindum þá ljúka.
Það blasir við öllu skynsömu fólki að kæran er enn einn anginn í afar illa ígrunduðum og herfilega framkvæmdum spuna Ólafs Ólafssonar, almannatengla og lögmanna hans og síendurteknum tilraunum þeirra til að grafa undan trúverðugleika dómstóla og ríkja sem dæma menn eins og hann í fangelsi. Það sem hins vegar liggur fyrir er að þessir menn, sem telja aðrar reglur en hinar hefðbundnu gilda um sig, eru ekkert hættir að sparka í stoðirnar.
Þá reynir á að þeir sem vita betur, og sjá í gegnum þennan ljóta leik, standi upp og bendi á að sama hversu mikla peninga þeir eiga, og sama hversu mikla peninga hjálparhellurnar eru til í að þiggja fyrir að bera málflutning Ólafs á torg, séu þeir kviknaktir. Orðræða þeirra byggir einvörðungu á því að reyna að afvegaleiða með fórnarlamba harmakveinum og treystir á að sem fæstir kynni sér málavexti í raun.
Samandregið liggur nefnilega fyrir að Ólafur Ólafsson er ekki saklaus maður. Hann er dæmdur glæpamaður sem olli miklum samfélagslegum skaða með atferli sínu og ákvörðunum. Réttur hans til að halda blekkingum sínum leyndum getur ekki verið sterkari en réttur almennings, sem sat uppi með afleiðingar þeirra, til að vita um þær. Og það að svipta hulunni af Ólafi með löglega skipaðri rannsóknarnefnd getur ekki talist refsing gagnvart honum.