Ísland hefur farið í gegnum miklar sveiflur á þessari öld. Í nokkur ár, eftir einkavæðingu bankakerfisins, var tíðarandinn þannig að eðlilegt regluverk og eftirlit þótti byrði á nýuppgötvuðum hæfileikum þeirra manna sem stýrðu málum í íslensku atvinnulífi, og íslensku samfélagi, á því tímabili.
Ný stoð varð til undir efnahagslífið, til hliðar við orkusölu og fiskveiðar. Fjármálastoðin. Innan hennar störfuðu þúsundir manna á áður óþekktum launum við að smíða nýjar fjármálaafurðir og færa til peninga. Um tíma leit út fyrir að Íslendingar hefðu leyst úr læðingi hæfileika sem við hefðum ekki áttað okkur á að væri okkur í blóð borinn. Hæfileikann til að stunda fjármálastarfsemi á arðbærari hátt en allir hinir, sem höfðu þó margir hverjir miðlað fjármagni öldum saman.
Reyndir bankamenn segja að þegar eitthvað er of gott til að vera satt þá er það vegna þess að þá er einhver að svindla. Það á sérstaklega við í fjármálageiranum. Þar eru allir að reyna að gera það sama og mikið af því, græða peninga. Ef einhver einn aðili fer allt í einu að græða miklu meira en sá næsti á því að gera nákvæmlega það sama, og vaxa margfalt á skömmum tíma, þá er það merki um að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Sérstaklega þegar um nokkra banka frá örþjóð með enga bankareynslu og barnunga stjórnendur er að ræða.
Sérstakir hæfileikar
Það kom enda í ljós að allt byggði þetta á sandi. Einu sérstöku hæfileikarnir sem íslensku bankamennirnir höfðu voru áður óþekkt áhættusækni, skeytingarleysi og bíræfni. Það var verið að svindla, og á endanum að fremja lögbrot. Slíkt hefur verið margstaðfest í rannsóknarskýrslum, dómsmálum, í umfjöllun fjölmiðla og bókarskrifum.
Hin meinta snilld fólst fyrst og síðast í því að finna nýjar leiðir til að nálgast erlent lánsfjármagn. Skuldir íslenskra aðila við lánveitendur banka sexfölduðust á árunum 2004-2008 og stóðu í um níu þúsund milljörðum króna um mitt seinna árið. Þessum peningum var miðlar af reynslulausum bankamönnum til reynslulausra fjárfesta sem nýttu þá til að ryksuga til sín eignir á yfirverði, innanlands og utan. Þegar kom að skuldadögum gátu fæstir þeirra borgað. Þá var hafist handa við að blekkja.
Gömlu stjórnunarhættirnir að snúa aftur
Nýverið greindi Kjarninn frá rannsókn Ástu Dísar Óladóttur og Gylfa Magnússonar um stjórnarhætti á Íslandi sem byggði á viðtölum við 42 stjórnendur sem vinna hjá einhverjum af 300 stærstu fyrirtækjum landsins. Þau birtu grein um niðurstöður hennar í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál sem bar heitið: „Var Adam ekki lengi í helvíti? Hafa stjórnunarhættir á Íslandi breyst eftir hrunið 2008?“
Niðurstaðan var sú að fyrst eftir bankahrunið hafi stjórnunarhættir breyst. Óttinn við að gera mistök varð allsráðandi og mikið dró úr áhættusækni. Nú sé sá tími hins vegar liðinn. Íslenskt viðskiptalíf stefnir í svipað horf þótt „bægslaganginum sé þó núna að mestu haldið bak við tjöldin,“ líkt og sagði í grein þeirra.
Það væri einfaldlega allt komið á fulla ferð aftur og að ástandinu svipaði að sumu leyti til þess sem hefði verið fyrir hrun. „Þetta töldu stjórnendur að mætti greina á boðum í utanlandsferðir og á launaþróun, að bankastjórar og stjórnendur stærstu fyrirtækja væru aftur komnir með ofurlaun.[...]Þá nefndu stjórnendur að fjárfestar væru farnir að sölsa undir sig stöndug félög sem bjargað var eftir hrunið og svipað ferli væri í gangi og fyrir hrun ,,Það koma einhverjir misgáfulegir fjárfestar og reyna að sölsa undir sig banka og tryggingafélög.“
Braski hampað sem snilld
Það er margt sem bendir til þess að niðurstaða Ástu Dísar og Gylfa eigi við rök að styðjast. Í nýlegri úttekt dómnefndar Markaðarins, sem í sátu 36 karlar og sex konur að mestu með svipaða áferð og úr sömu tengslahólfum atvinnulífsins, á bestu og mikilvægustu viðskiptum síðasta árs kom í ljós að lítið var um að raunveruleg verðmætasköpun, sem hefði samfélagslega jákvæð áhrif, þætti eftirsóknarverð. Þess í stað var braski hampað sem snilld.
Bestu viðskipti ársins voru til að mynda valin þau þegar Kaupfélag Skagfirðinga komst yfir kvóta og græddi 1,3 milljarða króna með því að taka þátt í snúningi með hlutabréf í Brim sem lífeyrissjóður seldi og Brim keypti á endanum aftur til baka sjálft á yfirverði.
Þannig að tilfærsla á kvóta og hagnaður á hlutabréfaviðskiptum sem á sér enga stoð í undirliggjandi rekstri þess félags sem vara verið að kaupa í, voru valin viðskipti ársins. Hlutu yfirburðarkosningu. Viðskiptin áttu sér stað í september og nú, nokkrum mánuðum síðar, er markaðsvirði Brim enn ekki búið að ná því gengi sem viðskiptin fóru fram á.
Á meðal annarra viðskipta sem nefnd voru sem viðskipti ársins voru stækkun Brims, sem fór að mestu fram með því að keyptar voru eignir sem áður voru í eigu stærsta hluthafa Brims og forstjóra félagsins. Þar voru líka nefnd hlutabréfakaup Stoða í Símanum. Og ráðning nýs forstjóra og aðstoðarforstjóra í Arion banka, vegna þess að þeir væru svo miklir yfirburðamenn. Uppsagnir sem þeir hefðu ráðist í hefðu enda skilað því að nú væri hægt að fá bílastæði við höfuðstöðvar bankans, sem á móti drægi úr þörf fyrir Borgarlínu og úr losun koltvísýrings.
Að sama skapi voru verstu viðskipti ársins valin kaup á skuldabréfum í gölnum áhættusjóði hjá Gamma, sem enginn með vott að jarðtengingu hefði átt að setja pening í til að byrja með. Í öðru sæti var sala lífeyrissjóðsins Gildis á bréfum í Brim þar sem dómnefndarmeðlimir voru á þeirri skoðun að þar hafi meiri hagsmunum, að græða peninga, verið fórnað fyrir minni, góða stjórnarhætti, en Gildi seldi bréfin vegna þess að sjóðurinn sætti sig ekki við kaup Brims á sölufélögum í eigu forstjóra þess.
Bankar sem lána ekki
Ísland hefur náð miklum árangri í efnahagslegum viðsnúningi á undanförnum áratug. Það gerðist meðal annars vegna fyrst neyðarlagasetningar og svo fjármagnshafta, sem gerðu okkur kleift að taka snúning á eigendum íslenskra skulda tvisvar. Okkur hefur hins vegar ekki borið gæfa til að innleiða nægilega stóran skammt af nýju heilbrigði í atvinnulífið okkar.
Það þekkja allir sem reka lítil eða meðalstór fyrirtæki á Íslandi sem eru í vexti að sú þjónusta sem bankar eru tilbúnir að bjóða þeim er nánast enginn. Yfir 60 prósent allra nýsköpunarfyrirtækja telja til að mynda að bankaþjónusta á Íslandi hentaði illa eða mjög illa fyrir sig. Þar er mun meiri áhersla á að annað hvort að fjármagna áhættusamari stærri verkefni eða brask með hlutabréf og fasteignir. Eða bara lána lítið sem ekkert, eins og staðan er um þessar mundir.
Bankakerfið er núna að draga úr allri þjónustu við hefðbundið atvinnulíf. Útlán þess drógust saman um 60 prósent í fyrra. Á sama tíma jókst hins þegar veðsetning hlutabréfa á íslenskum markaði um 50 prósent.
Sem sagt minni útlan til atvinnulífs, meiri útlán til valins hóps einkafjárfesta með gott aðgengi að bankafólki. Seljendur þeirra bréfa sem íslensku fjárfestarnir eru að gíra sig upp til að kaupa eru líkast til að mestu erlendir fjárfestingarsjóðir sem hafa verið að leysa út hagnað sinn af rússíbanareið eftirhrunsáranna undanfarin misseri. Lítil sem enginn áhugi er sýnilegur á langtímafjárfestingu erlendra aðila hérlendis í öðru en afar umdeildu fiskeldi og málmframleiðslu sem grundvölluð er á of ódýru orkuverði.
Einn banki í tæmingu, hinir á sjálfstýringu
Einn kerfislega mikilvægur banki, Arion banki, hefur það meginmarkmið að minnka hratt og greiða út hið gríðarlega mikla eigið fé sem safnast hefur saman innan hans, frá því að bankinn var stofnaður með handafli íslenska ríkisins, til hluthafa sinna. Aukið virði eigna sem hann fékk í vöggugjöf, meðal annars lán til íslenskra fyrirtækja eða fyrirtækin sjálf, mynduðu það eigið fé.
Þeir sem eiga nú bankann eru að mestu erlendir fjárfestingarsjóðir með órekjanlegt endanlegt eignarhald, en líka íslenskir einkafjárfestar sem sáu stórt tækifæri í því að vinda banka, borga sér út mikla fjármuni og nota þá í aðrar fjárfestingar. Óljóst er hvers konar Arion banki á að standa eftir þegar þessari útgreiðsluvegferð er lokið.
Það er einfaldlega lítill, eða enginn, markaður fyrir það að selja banka þessi misserin í heiminum, sérstaklega litla banka með nánast allan sinn efnahagsreikning í íslenskum krónum, og alla sína starfsemi á örmarkaði. Alþjóðlegir bankar eru ekki að kaupa banka og óumflýjanleg innreið stærstu tæknifyrirtækja heims, sem eiga nánast óraunverulegt magn af eigin fé til að miðla með hagkvæmari hætti til lántaka framtíðar, inn á lánamarkað munu gera það afar krefjandi að reka banka í því formi sem þeir eru nú.
Lukkuriddarar, skammtímafjárfestar eða útgerð
Væntanlegir kaupendur gætu verið erlendir skammtímasjóðir líkt og keyptu Arion banka, og eru nú í rólegheitunum að tæma hann.
Það væri hægt að fara sömu leið og síðast þegar bankakerfið var einkavætt og selja bankana til íslenskra lukkuriddara með enga bankareynslu og litla peninga en mikla lyst fyrir áhættusækni sem þyrftu að skuldsetja sig upp í topp til að klára kaupin. Vonandi ber okkur þó gæfa til að reyna þá samfélagstilraun ekki aftur.
Það væri líka hægt að selja bankanna til eigenda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sem eru nú orðnir að einhverskonar ofurstétt hérlendis með eigið fé upp á mörg hundruð milljarða króna og ítök í nánast öllum geirum samfélagsins.
Þeir væru þá komnir með nær alla þræði í atvinnulífinu á sínar hendur, sem enginn maður með snefil af skynsemi eða samfélagsvitund getur fallist á að sé æskileg þróun í lýðræðissamfélagi.
Við þurfum betri kapítalista
Þrátt fyrir allt ofangreint er lítil sem engin opinber umræða um galla hins íslenska markaðsbúskapar, sem virðist vera rekinn áfram með sérhagsmuni að leiðarljósi, og á kostnað heildarhagsmuna. Þar er ekki verið að búa mikið nýtt til. Þess í stað öskra staðgöngumenn helstu fjármagnseigenda hérlendis á torgum um lægri tekjuskatta, minna eftirlit, einfaldara regluverk, minni eiginfjárkvaðir, fleiri skattaafslætti. Og svo framvegis. Þeir vilja gömlu góðu fyrirhrunsstemninguna aftur.
Áherslan er ekki á nýsköpun og samfélagslega verðmætaaukningu heldur á að skapa betri aðstæður til að hagnast á braski, fjármagnstilfærslum og á hlutabréfum í fyrirtækjum í þjónustugeirum á fákeppnismarkaði án mikilla vaxtatækifæra.
Við búum í lýðræðislegu markaðshagkerfi. Það er besta kerfi sem mannskepnunni hefur lukkast að koma á, sérstaklega þegar því er blandað saman við nægilegt magn af félagshyggju. Undirstaða þess á að vera jöfn tækifæri allra til að freista gæfunnar. Gangi sú hugmyndafræði eftir á allt samfélagið að geta hagnast. Lífsgæði allra geta aukist.
Vandamálið sem við búum hins vegar við eru lélegir kapítalistar. Þeir sem eru tilbúnir að vinna gegn öllum hinum ef þeir græða sjálfir. Afleiðingin verður aukin misskipting, aukin samþjöppun á valdi og áhrifum og stóraukin samfélagsleg togstreita. Kerfin fara fyrst að þjóna fáum, svo hinum.
Ef markaðsbúskapurinn á að lifa af þarf þetta að breytast. Kapítalistarnir, þeir sem stýra fjármagninu, þurfa að verða betri. Það þarf að taka miklu fleiri breytur inn í gildismatið, ekki bara hagnað hluthafa eða þeirra eigin auðlegð. Það þarf að hugsa um starfsfólk, nærsamfélagið, umhverfi. Það þarf skýra opinbera stefnu fyrir fjármálakerfið og atvinnulífið. Nægjanlega gott eftirlit og heilbrigt regluverk. Það þarf skynsemi og ríkari samfélagsvitund.
Það gerist ekki af sjálfu sér.