Hildur Guðnadóttir hefur opnað augu margra fyrir hlutverki listarinnar í okkar samfélagi, og það er gott og mikilvægt.
Árangur hennar er einstakur, en hann spratt ekki upp úr engu.
Eins og fram hefur komið – í viðtölum við hana sjálfa og foreldra hennar – þá hefur hún verið dugleg og frumleg í langan tíma – öguð og trú sinni listsköpun.
Hún hefur hlotið listamannalaun, verið í indí-senunni og síðan í listrænu samfélagi í Hafnarfirði, Berlín og víðar.
Það er efni í sérgrein að fjalla um hvernig jarðvegur getur orðið til fyrir framúrskarandi listamenn, sem stinga á kýlum og útvíkka samfélagsrammann, en eitthvað hlýtur hafa verið í vatninu í Hafnarfirði þarna í den tid.
Það að Hildur hafi unnið Óskarinn ætti að vera nýtt upphaf, í umræðum um list og mikilvægi hennar fyrir Ísland og samfélagið.
Jafnvel þó almennt sé fólk meðvitað um mikilvægi lista og menningarstarf, og fjölþætt áhrif, þá verður seint sagt að það sé á því góður skilningur, hversu mikil vinna getur verið að baki því sem síðan kemur fyrir augu almennings að lokum.
Ekki aðeins blóð, sviti og tár – eftir mikið tog upp Brekkuna – heldur líka pælingarnar, meðgangan.
Lýsing Hildar á því þegar hún sá snillinginn Joaquin Phoenix, dansa sig í gegnum tónlist hennar – í brjálæði Jokersins – segir manni það, að nostrið hafi verið djúpstætt og langt.
Svona getur aðeins gerst með einhverjum ægilegum kröftum og djöfulgangi í vinnu – mitt í öguninni. Fínpússunin í listinni er oft fólgin í því að gefa sér allan tíma sem þarf, og svo að fanga organíska hluti, sem koma af sjálfu sér - þegar búið að er að eyða mörgum árum í jarðvegsvinnu.
„Og það var ótrúlegt að sjá hvernig hann tengdi algjörlega inn á það sem ég hafði upplifað þegar ég var að skrifa tónlistina, og algjörlega magnað að sjá hann dansa tónlistina algjörlega organískt, án þess að við hefðum haft nein orð um það. Og þessi sena er ekkert skrifuð svona þannig að ég gat ekki ímyndað mér að hann myndi tengja algjörlega inn á hvað ég var að upplifa. Því ég hafði upplifað ótrúlega svipaðar hreyfingar, leiddar af höndunum eins og hann gerir. Þannig að það var ótrúlega magnað að sjá hann tengja inn á þetta og í raun samstarf sem ég hef aldrei upplifað áður. Yfirleitt þarf maður að „diskútera“ hlutina: „Þetta á að vera svona og þannig líður honum þarna og það þarf að klippa hér.“ Og bara æðislegt að geta unnið verkefni af þessari stærðargráðu sem er svona organískt og án samtals,“ sagði Hildur í viðtali við RÚV.
Þolinmæði og víðsýni
Sumir nenna ekki að bíða eftir niðurstöðum úr listrænu starfi. Líklega er árleg rökræða um listamannalaun – þar sem einfeldningsleg nálgun þeirra sem gagnrýna þau fær oft mikið vægi – besta dæmið um þá óþolinmæði.
Þó í sjálfu sér sé marklaust að búa til einhvers konar keppni í list, þá getur Óskarinn hennar Hildar verið gott tilefni til að ræða um ávextina sem koma upp úr frjóum listrænum jarðvegi í samfélögum.
Núna er gott tækifæri til að leggja óþolinmæðinni og þröngsýninni varanlega, og grípa þess í stað í þolinmæðina og víðsýnina - þegar kemur að stuðningi við listamenn.
Þeir þurfa ekki að vinna Óskar, til að fá viðurkenningu, en það má samt benda á samhengi verðlaunanna og viðurkenningarinnar, og nýta það til nýs upphafs.
Dans Jokersins – í tröppunum í Bronx eða inn á baðherberginu – hefði ekki orðið til nema með þrotlausri og áralangri vinnu íslensks listamanns. Það er svolítið mögnuð hugsun og segir sína sögu um landamæraleysi listarinnar. Innan hennar sjást Hvítir fílar á hæðum – þar sem listamenn vísa veginn með því að gera hlutina vel, hvað sem það kostar.