Rúmlega 1.800 félagsmenn í Eflingu sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru í verkfalli. Alls samþykktu 95,5 prósent þeirra að fara í aðgerðirnar í aðdraganda þess að ráðist var í þær.
Það hefur víðtæk áhrif á starf leikskóla í borginni, hjúkrunarheimila og sorphirðu, svo fátt eitt sé nefnt. Áhrifin á leikskólana hafa svo mikil áhrif á atvinnulífið almennt, þar sem foreldrar þurfa eðlilega að vera mikið fjarverandi frá vinnu vegna verkfalla starfsmanna þar.
Krafa Eflingar í kjaradeilunum er að launakjör lægst launuðustu stéttanna, sérstaklega þau sem eru á leikskólum og við umönnun, verði leiðrétt. Ef heildarlaun t.d. ófaglærðra starfsmanna á leikskóla eru skoðuð þá eru þau lægstu launin sem hægt er að fá á íslenskum vinnumarkaði, eða 375 þúsund krónur á mánuði. Það þýða ráðstöfunartekjur upp á 288 þúsund krónur á mánuði. Þetta eru launin sem fólkið sem við treystum fyrir stórum hluta af uppeldi barnanna okkar fær.
Um 15.400 félagsmenn í BSRB munu fara í verkfall eftir um tvær vikur, verði ekki samið fyrir þann tíma. Um 87,6 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslum um það samþykktu boðun verkfalls hjá sínu félagi. Það verkfall mun lama samfélagið.
Á meðal þess sem farið er fram á þar er að laun milli opinberra og almenna vinnumarkaðarins verði jöfnuð í samræmi við samninga frá árinu 2016, þegar opinberir starfsmenn samþykktu að gefa eftir aukin lífeyrisréttindi gegn því að 16 til 20 prósent launamunur milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði yrði „leiðréttur“ á sex til tíu árum. Nú, nokkrum árum síðar, er það mat BSRB að engar leiðréttingar hafi enn átt sér stað.
Þarna er ekki um einhverja „æsingamenn“ í forystu félaganna að ræða, sem séu illa haldnir af meintri vanstillingu. Nær algildur stuðningur er við aðgerðirnar á meðal félagsmanna og flest önnur stærstu stéttarfélög landsins hafa lýst yfir stuðningi við þær.
„Leiðrétting“ millistéttarinnar
Síðastliðinn áratug, frá því að bankakerfið hrundi með tilheyrandi afleiðingum, hefur margt verið gert fyrir marga á Íslandi, og margt verið „leiðrétt“.
Yfirskuldsettir fengu að fara 110 prósent leiðina svokölluðu þar sem tugir milljarða króna af eignum voru færðir til eignameiri hluta þjóðarinnar, rúmlega tvöfaldaðist virði húsnæðisins sem viðkomandi fengu að halda á nokkrum árum í kjölfarið. Þessi yfirfærsla var úr fjármálastofnunum og af eigin fé þeirra sem að uppistöðu varð síðar eign íslenska ríkisins.
Móðuraðgerðin, sem var bara kölluð „Leiðréttingin“, kom svo til skömmu síðar. Í henni fólst skaðabótagreiðsla til þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, upp á 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði til valins hóps landsmanna. Þar af fékk eignameiri hópur landsmanna 52 milljarða króna (72 prósent hennar), tekjuhæsta tíund landsmanna fékk 21,6 milljarð króna (30 prósent hennar) en tekjulægri helmingur þjóðarinnar skipti á milli sín rúmum tíu milljörðum króna (um 14 prósent hennar) sem ríkið greiddi út vegna þessa.
Hluti af leiðréttingunni var líka að heimila skattfrjálsa notkun séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán. Fyrir lá að tekjuhærri landsmenn myndu mun frekar nýta sér úrræðið en hinir sem minna hafa á milli handanna. Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun kom fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri miklu hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orðrétt í skýrslunni.
Þessar aðgerðir hafa fært há- og millistéttinni hérlendis gríðarlegar eignir. Þegar ofangreindum aðgerðum er bætt ofan á rúmlega tvöföldun á húsnæðisverði, sögulega lágum húsnæðislánavöxtum og lítilli verðbólgu yfir langt skeið þá er augljóst að átt hefur sér stað einhver mesta eignatilfærsla Íslandssögunnar. Látið mig þekkja það, því ég er einn þeirra sem nýt hennar.
Samkvæmt kynningu Eflingar á kröfugerð sinni í lok janúar er farið fram á sérstaklega launaleiðréttingu upp á 22 til 52 þúsund krónur á mánuði fyrir laun undir 445 þúsund á mánuði. Þessi leiðrétting myndi, samkvæmt útreikningum Eflingar, kosta um 1,2 milljarða fyrir Eflingarfélaga og svipað fyrir Sameykis-fólk á ári. Hún ætti að koma til viðbótar við launahækkanir sem yrðu í takt við lífskjarasamningana.
Krafan er því að nokkur þúsund manns, á lægstu laununum, sem fengu ekkert eða lítið af síðustu opinberri „leiðréttingu“, þegar tugir milljarða króna voru færðir úr opinberum sjóðum að mestu til betur settra þjóðfélagsþegna, fái „sína leiðréttingu“. Ef kostnaður vegna hennar er um 2,4 milljarðar króna á ári, líkt og Efling telur, myndi það taka rúm 37 ár fyrir kostnaðinn að ná sömu upphæð og hið opinbera hefur greitt út undir hatti „Leiðréttingarinnar“ í formi skaðabóta og skattaeftirgjafar.
„Leiðrétting“ fjármagnseigenda
Frá bankahruni hefur ýmislegt verið gert til að tryggja hagsmuni íslenskra fjármagnseigenda. Í neyðarlögunum voru til að mynda innstæður gerðar að forgangskröfum. Alls námu innstæður íslenskra einstaklinga 530 milljörðum króna í lok október 2008. Um 60 prósent innlána voru í eigu tíu prósent ríkustu landsmanna. Auk þess áttu innlendir lögaðilar, fyrirtæki og eignarhaldsfélög, um 770 milljarða króna í innstæðum á þessum tíma. Í ljósi þess að um 70 prósent af öllum fjármagnstekjum sem verða til á Íslandi fara að jafnaði til ríkustu tíundar þjóðarinnar má vel ætla að þorri fyrirtækjanna og eignarhaldsfélaganna sé í eigu þess hóps.
Hið opinbera hefur líka selt gríðarlegt magn eigna sem það fékk í sinn hlut eftir hrunið, og svo eftir að stöðugleikasamningarnir voru gerðir. Þar er um að ræða eignir með samanlagt virði upp á mörg hundruð milljarða króna. Litlar sem engar upplýsingar hafa fengist um hvernig þeim eignum sem vistaðar voru inn í Eignasafni Seðlabanka Íslands og dótturfélögum þess var ráðstafað, hverjir fengu að kaupa þær og á hvaða verði. Þorri þeirra var enda seldur bakvið luktar dyr og án þess að venjulegum Íslendingum gæfist færi á að bjóða í þær. Á meðal eigna sem þarna um ræðir eru fjölmargar fasteignir.
Sömu sögu er að segja af Lindarhvoli, félagi sem sett var á fót til að selja eignir sem féllu ríkinu í skaut vegna stöðugleikasamninganna, en skýrsla ríkisendurskoðunar um það félag hefur verið tilbúin frá því á síðasta ári en hefur enn ekki verið birt.
Það liggur í hlutarins eðli að þeir sem líklegastir eru til að hafa geta keypt eignir úr þessum „svörtu kössum“ eru þeir sem eiga mikið af fjármagni. Því hefur hið opinbera fært fjármagnseigendum kauptækifæri á eignum sem öðrum bauðst ekki og án viðunandi gagnsæis til að fyrrverandi eigendur eignanna, skattgreiðendur landsins, fái að vita hvort sanngjarnt verð hafi fengist fyrir þær eða ekki.
Til viðbótar má auðvitað bæta fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem opnaði leið aftur heim fyrir fjármagn sem meðal annars hafði verið vistað í aflandsfélögum eða verið komið undan réttmætri skattheimtu. Eigendur þess fjármagns gátu leyst út gríðarlegan gengishagnað, fengið allt að 20 prósent virðisaukningu á fé sitt og keypt upp eignir á hrakvirði þegar peningarnir voru komnir til Íslands.
„Leiðrétting“ efsta lags ríkisstarfsmanna
Annað orð sem mikið er notast við er höfrungahlaup. Í því felst að ef einhver hópur fær launahækkun þá muni næsti hópur fylgja eftir og krefjast þess sama. Þetta er ekki gripið úr lausu lofti. Íslensk kjaramálasaga sýnir að þetta er eitthvað sem raunverulega gerist.
Þess vegna er afar nauðsynlegt að allir taki þátt í því að reyna að festa augun á kaupmáttaraukningu, en ekki krónunum sem þeir fá í launaumslagið, en falli ekki í freistni að skammta sér umfram.
Sú krafa virðist þó í orði einungis eiga við um fjölmennar launastéttir, sem flestar eru með afar lág laun. Hún nær ekki yfir þingmenn sem hækkuðu grunnlaun sín (þeir fá allskyns aðrar sporslur sem hlaupa oft á hundruðum þúsunda, til dæmis vegna aksturs, á mánuði) um 44,3 prósent með einni ákvörðun pólitísks skipaðs kjararáðs. Eða ráðherra sem hækkuðu um vel yfir 30 prósent. Eða aðstoðarmenn ráðherra sem hækkuðu um 35 prósent. Eða skrifstofustjóra í ráðuneytum sem hækkuðu um sömu prósentutölu.
Eða biskup Íslands sem hækkaði um tugi prósenta. Eða forstjóra fjölda ríkisfyrirtækja sem kjararáð hækkuðu líka um tugi prósenta. Eða stjórnarformenn sömu fyrirtækja sem fengu líka launahækkanir úr öllum takti við það sem er lagt til grundvallar í samningum við venjulegt fólk. Allir sem tilheyra þessum hópi sem farið er yfir hér að ofan eru með meira en eina milljón króna í laun á mánuði. Flestir umtalsvert meira en það. Launahækkanir þeirra, sem áttu að vera einhverskonar leiðrétting á kjörum, hlupu á mörg hundruð þúsund krónum á mánuði í flestum tilfellum.
Nýjasta dæmið um þessa sjálftöku er gjörsamlega makalaust samkomulag sem þáverandi ríkislögreglustjóri gerði við nokkra undirmenn sína í ágúst í fyrra, tæpum fimm mánuðum eftir að lífskjarasamningarnir voru undirritaðir og þegar yfirstandandi kjarabarátta opinberra starfsmanna var þegar hafin af fullri alvöru, um að hækka laun þeirra um 48 prósent. Samtals hækkuðu þeir grunnlaun sín um 314 þúsund krónur á mánuði, og nemur hækkunin því öllum þeim grunnlaunum sem lægst launuðustu starfsmenn leikskóla hafa, auk fjögur þúsund krónum til viðbótar. Með samkomulaginu færðust 50 yfirvinnustundir inn í föst mánaðarlaun starfsmannanna, og með því aukast lífeyrisréttindi þeirra sem greiða iðgjöld í B-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Heildaráhrif þeirrar aukningar er metin 309 milljónir króna.
Vopnahléi er lokið
Það hafa margir verið „leiðréttir“ með sértækum aðgerðum á Íslandi á undanförnum áratug. Einn hópur hefur þó setið þar eftir og það eru þeir sem lægstu launin hafa. Að uppistöðu er þar um að ræða stórar kvennastéttir sem margar hverjar gegna mikilvægu hlutverki í að láta samfélagsgangverkið virka. Fyrir því erum við byrjuð að finna með yfirstandandi verkfallsaðgerðum og fyrir því munum við finna enn frekar á næstu vikum þegar það bætist allverulega í þær aðgerðir.
Það má færa rök fyrir því að staða þessa hóps hafi þvert á móti versnað til muna vegna „leiðréttinga“ á kjörum annarra. Hin mikla hækkun á húsnæðismarkaði hefur til að mynda ekki gert neitt fyrir þá sem þurfa að leigja húsnæði annað en að hækka leiguna þeirra mjög mikið. Áður hafði verið tekin kerfisbundin ákvörðun um að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið með hörmulegum afleiðingum fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman til að tryggja þak yfir höfuðið. Millifærslukerfin, besta leiðin til að draga úr ójöfnuði og skila opinberum fjárstuðningi til þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda, hafa verið látin hætta að virka. Fjölskyldum sem fengu barnabætur hér á landi fækkaði til að mynda um tæplega tólf þúsund milli áranna 2013 og 2016. Samhliða öllu þessu þá hefur skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags aukist mest allra hópa frá 1998 og dregið hefur verulega úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
Það er flókið viðfangsefni að viðhalda stöðugleika, takast á við efnahagslegar áskoranir vegna áfalla síðustu ára og reyna að verja kaupmáttaraukningu launa á sama tíma. Það skilja allir.
En það gengur einfaldlega ekki upp að fara í allskyns sértækar aðgerðir til að gefa þeim sem ekki þurfa á því að halda peninga úr ríkissjóði, að leiðrétta laun hálaunafólks umfram alla eðlilega launaþróun og færa fjármagnseigendum hvert tækifærið á fætur öðru til að auka auð sinn og ítök í samfélaginu en ætla svo alltaf að láta þá sem verst standa í samfélaginu standa eina eftir „óleiðrétta“.
Í fyrra var samið um vopnahlé í stéttastríði við fordæmalausar aðstæður.
Því vopnahléi er lokið.