Nú í upphafi árs, þegar kórónuveirufaraldurinn geisar sem aldrei fyrr í mörgum ríkjum Evrópu og víðar, hefur hugmyndin um að stefna skuli að „útrýmingu veirunnar“ úr samfélaginu sumstaðar fengið aukið vægi í opinberri umræðu.
Það hefur þó ekki gerst hér á landi, þrátt fyrir að rök virðist vera fyrir því að við höfum nú á ný tækifæri til að tryggja að ný bylgja rísi ekki áður en þorri þjóðarinnar öðlast ónæmi eftir bólusetningu. Það mætti segja að við værum í dauðafæri.
Útrýming eða áframhaldandi bæling?
Stefnan um útrýmingu veirunnar (e. elimination strategy), felur í sér að útrýma fyrst smiti úr samfélaginu með hörðum aðgerðum, aflétta þeim svo í skrefum eftir að tilteknum fjölda algjörlega smitlausra daga hefur verið náð (til dæmis 15-30 dögum) og fara svo í kjölfarið að leyfa daglegu lífi að ganga að mestu sinn vanagang.
Um leið þarf að reyna að tryggja að ný smit komist ekki inn fyrir landamæri með hörðum aðgerðum; skimunum og strangri sóttkví. Sömuleiðis þarf að fylgjast vel með og grípa snöggt og ákveðið til aðgerða ef einhver smit greinast innanlands og kæfa útbreiðslu í fæðingu með öflugri smitrakningu og sóttkvíum, jafnvel staðbundnum harðari takmörkunum ef útbreiðsla virðist á leið úr böndunum.
Við virðumst ekki þurfa að breyta miklu varðandi okkar farsælu sóttvarnastefnu til þess að vera í raun komin á þessa braut, en okkar stefna hefur miðað að því að bæla niður veiruna eins og hægt er. En ekki að stefna að útrýmingu. Á þessu er munur.
Leiðarstef þeirra sem talað hafa fyrir útrýmingarleiðinni er að hugmyndir um að hægt sé að „lifa með veirunni“ og reyna að bæla hana niður með tímabundnum hörðum aðgerðum og persónulegum sóttvörnum þess á milli gangi ekki upp. Nýjar bylgjur, síendurtekin útgöngubönn og aðrar hömlur á eðlilegt líf borgaranna renna stoðum undir þetta.
Það hefur einnig árangur þeirra ríkja sem hafa farið þessa leið gert, en þetta er hafa ríki á borð við Nýja-Sjáland, Ástralíu, Taívan og Víetnam að mestu náð að gera mánuðum saman.
Hér að neðan má sjá myndband af nýársfögnuði í Nýja-Sjálandi:
Well, here on the East Coast of New Zealand we welcomed in the New Year about 19 hours ago with large crowds and no social distancing (and no community COVID) pic.twitter.com/Ig3iT8sbFh
— Tairāwhiti Doc 🏳️🌈 (@DocPNW) January 1, 2021
Eyríki með algjörlega einstaka stöðu
Eins og rakið var í umfjöllun Kjarnans í gær hefur þessi hugmynd komið af töluverðum krafti inn í meginstraums-stjórnmálaumræðuna á Írlandi að undanförnu, eftir að hafa áður verið á jaðrinum. Einnig hefur henni nokkuð verið haldið á lofti í Bretlandi, meðal annars af kjörnum fulltrúum í róttækari armi Verkamannaflokksins.
Það þarf ef til vill ekki að koma á óvart að umræða um þessa hugmynd fer aðallega fram í eyríkjum, sem eiga eðli máls samkvæmt auðveldast um vik með að stjórna flæði fólks inn og út úr landinu. Það koma jú allir með flugvélum eða bátum.
Sérfræðingar frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, sem hafa verið stjórnvöldum í þessum ríkjum til leiðsagnar, birtu afar eftirtektarverða grein í breska læknatímaritinu British Medical Journal 22. desember. Þar eru færð rök fyrir því að útrýming veiru og útilokun hennar gæti verið fýsilegasta viðbragðsleiðin, ekki bara í glímunni gegn COVID-19 nú heldur einnig farsóttum framtíðar.
Skilgreint er hvað ríki þurfi að gera til þess að ná settu marki og fram kemur að útrýming sé líklegri til þess að takast fljótt ef upplýst vísindalegt framlag og pólitískar skuldbindingar haldist hönd í hönd og gripið sé til afdráttarlausra aðgerða.
Ísland í sérstaklega einstakri stöðu
Nú þegar fá smit eru að greinast á Íslandi og bylgja haustsins loksins gengin yfir að mestu, horfir staðan við algjörum leikmanni eins og mér þannig að við séum í dauðafæri til þess að forðast aðra bylgju. Ísland eitt fyrir opnu marki.
Á Írlandi er staðan enn þannig, varðandi nýgengi smita, að langan tíma gæti tekið að komast á þann stað að ný smit í samfélaginu kæmust í námunda við núll. Það hafa verið nefnd sem rök gegn því að stefna að útrýmingu veirunnar.
Hér á landi erum við búin að vinna erfiðu vinnuna, færa fórnirnar, taka á okkur höggin og beygja þriðju bylgjuna af leið. Staðan er gjörólík.
Ísland státar nú af því að vera eina „græna svæðið“ í skilgreiningum sóttvarnastofnunar Evrópu sem horfir til 14 daga nýgengis smita. Glíman er þung nær alstaðar annars staðar.
Á Íslandi væri ef til vill hægt að kveðja möguleikann á annarri bylgju á þessu ári, með ögn hertum aðgerðum á landamærum (t.d. sóttkví á hótelum eins og mörg nágrannaríki hafa gripið til af illri nauðsyn) og með því að halda lengur út innanlands innan óbreyttra takmarkana á mannlífið.
Landsmenn gætu þá haft einskonar gulrót fyrir framan sig: Ef við héldum út örlítið lengur og næðum t.d. mánuði án samfélagssmita væru auknar líkur á að í kjölfarið þyrftum við ekki að upplifa meiri takmarkanir á lífi okkar þar til bólusetning kláraðist.
Ræðum þetta allavega
Þetta virðist vel geta verið gerlegt, ef hugur þeirra sem ráða för myndi stefna í þá áttina. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í vikunni að hann teldi að þessu yrði ekki auðveldlega stýrt með því einu að taka ákvörðun um að stefna að útrýmingu.
Hann sagðist því ekki hlynntur harðari aðgerðum á þessari tímapunkti og taldi stjórnvöld ekki vera það heldur.
Sjálfum þykir mér þessi leið hið minnsta eiga skilið alvarlega skoðun og umræðu. Nægu púðri hefur verið varið í umræðu um algjörlega óraunhæfar jaðarhugmyndir eins og Great Barrington-heilavírusinn sem þjakaði ákveðnar kreðsur hér á landi síðasta haust og langt fram eftir vetri.
Endurtökum ekki leikinn
Markmið yfirvalda í fyrstu bylgjunni var að fletja út kúrfuna og verja heilbrigðiskerfið gegn þessari ógn sem við vissum þá mun minna um en núna. Það gekk vel, fyrstu bylgjunni var grandað og í sumar nutum við ávaxta þess. Landið var meira og minna smitfrítt í maí og júní. Lengsta smitlausa tímabilið frá upphafi faraldursins var síðan í júlí, en þá liðu 20 dagar án þess að nokkur greindist með veiruna innanlands.
Rifjum upp hvernig þetta þróaðist. Í sumar opnuðum við landamærin meira og meira til þess að bjarga yfirvofandi hruni ferðaþjónustunnar og bregðast við takmarkaðri getu til landamæraskimana. Stjórnvöld blésu líka til mörghundruð milljóna króna markaðsátaks til þess að koma atvinnugreininni aftur í gang og reyna að bjarga störfum og við sögðum erlendum stórblöðum frægðarsögur af því hvernig við sigruðum veiruna.
Síðan fengum við hingað fáa ferðamenn, en þó því miður nógu marga sýkta ferðalanga sem virtu ekki sóttkví til þess að veiran kæmist á ný á flakk í samfélaginu og landið lamaðist á ný. Eftir alla samstöðuna og fórnirnar sem búið var að færa.
Innan við tveimur vikum eftir að einhverjir gulir hátalarar með öskrum frá pirruðu fólki utan úr heimi voru fjarlægðir af helstu ferðamannastöðum landsins langaði íbúum á Íslandi eflaust mörgum að öskra út í tómið. Fáránleikinn var á þeim tímapunkti stingandi.
Varnaðarorð voru sett fram fyrirfram
Ágætt er að muna að varað var við því sem síðar gerðist, áður en ákvarðanir voru teknar. Í upphafi síðasta sumars voru bæði Gylfi Zoëga hagfræðingur og Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir með erindi á ráðstefnunni Út úr kófinu, sem haldin var í fámenni og félagsforðun í hátíðarsal Háskóla Íslands.
Þau voru bæði á því máli að veirufrítt samfélag og gæðin sem því fylgdu væri mikilvægara en ferðalög og ferðamennska sem atvinnugrein. Í bili.
Bryndís talaði sem smitsjúkdómalæknir og var fremur afdráttarlaus: „Það er ekki ljóst hversu fórnfús við verðum í næstu bylgju,“ sagði hún meðal annars og klykkti út með því að segja að „við sem þjóð ættum að fá að njóta veiruleysis aðeins lengur.“
Gylfi kom því á framfæri að það væri ekki víst að það yrði í raun hagrænn ábati af því að leyfa fólki að koma til Íslands, ef svo færi að landsmenn þyrftu á móti að sætta sig við við samfélagslegar takmarkanir sem takmörkuðu umsvif innanlands á ný og þau margvíslegu gæði sem ekki er endilega auðvelt að setja nákvæmlega inn þjóðhagfræðilíkön í krónum og aurum.
Hið sama á að mörgu leyti við nú og gerði þá.
Ákvarðanir voru teknar af stjórnvöldum sem virðast í baksýnisspeglinum hafa verið rangar. Það er auðvelt að vera vitur eftir á. En það er í góðu lagi að halda því til haga að á þetta var bent áður en ákvarðanir voru teknar.
Fórnirnar mega ekki verða til einskis
Mér finnst sjálfsagt að kalla eftir því að núna, þegar strembinn hálfur vetur er að baki með undarlegum jólakúlujólum, löskuðu skólastarfi, nánast engu íþróttalífi, gríðarlegum fórnum ungs fólks og allra þeirra sem vinna með viðkvæmum hópum í samfélaginu – að ógleymdri mikilli leiðinlegri inniveru – að leitað verði leiða til þess að takmarka með öllum fýsilegum ráðum að fjórða bylgja veirunnar geti farið af stað.
Stjórnvöld ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að veita almennum borgurum þessa lands frelsi og andrými innanlands þangað til hjarðónæmi hefur náðst. Þó það þýði að þau þurfi fyrst að biðja okkur um að sætta okkur við lífið eins og það er örlítið lengur.
Það virðist vera tækifæri núna til þess að útrýma þessari veiru úr samfélaginu. Byrjum allavega að tala af alvöru um hvort það sé hægt.