Þetta var árið sem maður heyrði í fyrsta sinn úr ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna: Við munum ekki ná Heimsmarkmiðunum 2030. Heimur án hungurs árið 2030 er þá bara draumsýn eins og maður þóttist reyndar sjá sjálfur fyrir löngu. Afnám sárafátæktar ekki heldur innan seilingar. Var nokkurn tíman raunsætt að 17 Heimsmarkmið með 170 undirmarkmiðum til að fullgilda samfélagssáttmála fyrir alla jarðarbúa myndu nást á fimmtán árum? Varla. Og nú þarf að forgangsraða.
Þetta var líka árið sem menn sögðu upphátt það sem löngu var ljóst: Markmið Parísarsáttmálans (2015) um að halda hlýnun innan við 1,5 gráður miðað við iðnvæðingu mun ekki nást. Reyndar skakkar svo miklu að á Loftslagsráðstefnunni um daginn (númer 27) sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, að við værum á „hraðleið til helvítis“.
Ég hafði reyndar notað svipað orðalag sjálfur í bók sem fór í prentun nokkru áður og heitir Heimurinn eins og hann er. Til að ekkert fari nú milli mála um að höfundurinn telur raunsæi dyggð á okkar tímum.
Raunsæi - bölsýni?
Raunsæi jafngildir ekki bölsýni. Þau góðu tíðindi bárust frá annarri alþjóðaráðstefnu á eftir hinni, um líffræðilegan fjölbreytileika, að þjóðir heims gera sér grein fyrir að stríð okkar gegn náttúrunni getur ekki haldið áfram. Þau tíðindi eru hve ógnvænlegust frá heiminum eins og hann er að við sem köllumst mannkyn höfum eytt 70% af dýrum og plöntum á fimmtíu árum. Æviskeið mitt og jafnaldra minna kallast „sjötta útrýmingin“. Fyrir tveimur árum lýstu 90 þjóðarleiðtogar yfir að „neyðarástand ríkti í vistkerfum jarðar“.
Það var því bæði raunsætt og bjartsýnt af þeim sem sóttu ráðstefnuna um líffræðilegan fjölbreytileika nú í desember að semja um að vernda 30% lands og hafs. En, því miður. Það er raunsætt og bölsýnt að reikna með því að slík markmið muni ekki nást frekar en önnur. Því ef eitthvað gefur góða vísbendingu um frammistöðu í framtíðinni er það reynslan af fortíðinni. Og hún er hreint út sagt hræðileg.
Framtíðin?
Nánasta framtíð er dökk. Sem ég skrifa þessa grein berst fréttaskeyti frá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme) um að matvælakreppan 2022 verði mun verri 2023. Eins og höfundur bókarinnar um heiminn þreytist ekki á að rifja upp: Allt tengist. Kreppa matvælakerfa fyrir átta milljarða manna, loftslagsváin og hrun vistkerfanna. Allt tengist. Og nú bætast við margfaldarar af áður óþekktum krafti: Orkuverð, fjármálakreppa, stríð um veröld víða.
Vegna þess að þetta er síðasta grein mín í þessum flokki fyrir Kjarnann langar mig að segja frá nokkru sem kom höfundi bókarinnar Heimurinn eins og hann er nokkuð á óvart þessar síðustu vikur. Fólk hefur í raun og sann áhyggjur. Margt fólk. Áhyggjur af heiminum eins og hann er og framtíðinni sem kann að verða. Þetta hef ég fundið á málstofum og spjallfundum. Mun fleira fólk en ég bjóst við langar að vita meira og fræðast, eftir ýmsum ólíkum leiðum. Og vegna þess að eilíft er fjandskapast út í samskiptamiðla þá hef ég tekið eftir mjög góðum spjallþráðum þar sem ýmsir einstaklingar sem hvorki eru þekktir úr fræðasamfélagi né fjölmiðlalandslagi láta margt gagnlegt og fróðlegt frá sér fara.
Þetta veit á gott.
Á sumum þessara funda hef ég verið beðinn um lausnir eftir að hafa lýst dökkum horfum. Þær hef ég auðvitað ekki og ber engin skylda til þess. Því, eins og ég sagði einhvers staðar í þeim þönkum sem urðu að frásögn í bók: Þessir fordæmalausu tímar eru með svo knýjandi viðfangsefni að mannkyn hefur aldrei staðið frammi fyrir nokkru slíku áður.
Svo grimmt er það.
Við þurfum að ímynda okkur heiminn eins og hann verður – alveg upp á nýtt. Og úr því að þessi áramótahugvekja í Kjarnanum er að breytast í trúnaðarsamtal fann ég upp á því við frekar dapra fundargesti einhvern tímann að segja: Þetta eru ekki ofvaxin vandamál. Þetta er risastórt viðfangsefni. Við þurfum að ímynda okkur NÆSTA STÓRA SKREFIÐ Í FRAMÞRÓUN MANNKYNS.
Ekkert minna dugar.
Þakkir og kveðja
Um leið og ég þakka lesendum Kjarnans samferðina síðustu mánuði og óska Kjarnasamrunanum við Stundina alls hins besta sendi ég stytta útgáfu af lokakaflanum í bókinni Heimurinn eins og hann er. Þar er raunsæja árið í hnotskurn. Það var nokkurn veginn svona:
„Ég hélt að þeir kæmu ekki svo auðveldlega aftur, þessir dagar þegar skjáspjótin sækja að manni úr öllum áttum í einu: Stríðsaparnir skildu eftir sig lík almennra borgara í hrönnum innan um eigin kolbrunnar vígvélar í löngum röðum þar sem eitt sinn var friðsælt rjóður af manna völdum og kallaðist Bucha.... „Hvað er hægt að gera?“ spyr Pétur Gunnarsson heimspekingur og skáld í aðsendri örvæntingu til Kjarnans: „Þarf virkilega þriðja heimshrunið áður en siðað samfélag manna verði að veruleika?“ Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna valdi einmitt þann dag til að segja á nokkur þúsund blaðsíðum: Það er núna eða ekki. Ef við mannverur umturnum ekki lífsháttum steikja okkur eldar. Tíminn rennur út. Og enn ein frétt í sömu andrá, sama dag: Það er einmitt núna sem 25 milljónir manna á Horni Afríku svelta til bana ... Þurrkarnir eru þeir verstu í 40 ár.
Á hverjum degi deyja 17.000 manns úr hungri. Risavaxin matvælakreppa skríður eins og kólgubakki yfir lönd og álfur vegna stríðsins.
Svo mikil er trú manns á framtíðina að sama dag fengum við lítinn hvolp.
Og fólk heldur áfram að eiga börn úti um allt. Tveggja milljarða barna biðröð inn í samfélag manna á jörð á næstu áratugum. Þau koma allslaus inn um hlið sem gætu kallast Væntingar og Þrár. Djöfulsins snillingar eru ónæmir fyrir því: Hvað hafa börn framtíðarinnar gert fyrir okkur? Ekki neitt! En þau gætu spurt hvers vegna við gerðum þau munaðarlaus fyrir fram. Rændum þau móðurástinni. Gerðum út af við Móður jörð.
Merkilegt er að Svetlana Aleksíevítsj kallar bókina sína um Tsjernóbyl-bænina „framtíðarannál“. Er þá stærsta umhverfisslys sögunnar forspá eins og ég hélt?
Svetlana segir á einum stað:
List okkar snýst eingöngu um ástir og þjáningu mannsins í stað þess að fjalla um allt sem lífsanda dregur. Allt snýst um manninn! Við hættum okkur ekki niður á plan dýranna, plantnanna … Í annan heim. Og samt er maðurinn þess megnugur að rústa þessu öllu. Má út allt líf. Í dag flokkast slíkt víst ekki lengur undir vísindaskáldskap.
Í ræðu litla rakarans sem Chaplin skrifaði í bíómyndinni um Einræðisherrann fyrir nær hundrað árum segir hann það sem enn er satt:
Það er nóg pláss fyrir alla í heiminum. Og Jörðin okkar góða er auðug og getur séð fyrir öllum. Við getum lifað frjáls og fallega en höfum týnt okkur.
Svo heldur litli rakarinn áfram af stalli hins fallna einræðisherra:
Þrautirnar sem þjaka okkur nú eru bara græðgin í dauðateygjum, biturleiki manna sem hræðast framfarir mannkyns. Hatrið mun hverfa, einræðisherrar deyja og valdið sem þeir stálu frá fólkinu hverfur aftur til fólksins!
Þess er vart að vænta næstu misserin að við sjáum lengra en sem nemur þjáningu mannsins meðan sprengjur springa og fólk deyr... Hugmyndir hafa afl en verkin tala. Það er erindi mitt. Á meðan mylla mennskunnar malar sitt smáa korn svo hægt að varla má greina heldur gjöreyðingin áfram af fítonskrafti sem er langt handan við það sem við megnum að ímynda okkur.
Ég skrifaði hér að framan þegar ég vissi miklu minna en ég veit nú: Það er ekki eitt, það er allt.
Sem tengist.”
Stefán Jón Hafstein er höfundur bókarinnar Heimurinn eins og hann er og tók saman greinaflokk fyrir Kjarnann síðustu mánuði þar sem hann tengir efni bókarinnar við málefni líðandi stundar. Myndir eru höfundar.