Í lok janúar síðastliðins greindi Kjarninn frá stöðuuppfærslu sem birst hafði á Twitter. Í henni sagði Haraldur Þorleifsson, stofnandi hugvitsfyrirtækisins Ueno, að allir skattar vegna sölu fyrirtækisins til Twitter yrðu greiddir á Íslandi. Haraldur var eini eigandi fyrirtækisins og kaupverðið er talið hlaupa á milljörðum króna, þótt það hafi ekki verið gefið upp nákvæmlega hvað það var.
Haraldur sagðist hafa tekið þessa ákvörðun þar sem hann hafi fæðst á Íslandi og að foreldrar hans hafi verið lágtekjufólk. Auk þess glími hann við alvarlega fötlun, en hann er með meðfæddan vöðvarýrnunarsjúkdóm sem gerir það að verkum að Haraldur hefur notast við hjólastól frá 24 ára aldri. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heilbrigðisþjónustu þá gat ég ég dafnað,“ sagði Haraldur í stöðuuppfærslunni.
Hann fór svo í viðtal í Kastljósi í vikunni og greindi nánar frá þessari ákvörðun. Þar sagði Haraldur frá því að þegar hann hafi áttað sig á því að mögulegt væri að greiða skatta af sölunni hérlendis þá hafi hann átt tíu sekúndna samtal við eiginkonu sína „þar sem ég sagði „heyrðu ég var að komast að því að við getum borgað alla skatta á Íslandi, eigum við ekki að gera það? og hún sagði jú.“
Ráðlagt að greiða minni skatta
Í söluferlinu hafi honum verið ráðlagt hvernig væri hægt að komast hjá því að greiða skatta af hagnaðinum með löglegum hætti – sem í daglegu tali kallast skattasniðganga eða skattahagræði og er í hugum einhverra annars eðlis en skattsvik – en hann sagðist einfaldlega ekki hafa haft áhuga.
Ofan á þetta hefur Haraldur strax látið til sín taka á Íslandi á ýmsan annan hátt. Hann er í forsvari fyrir átaksverkefni ýmissa fyrirtækja og Reykjavíkurborgar um að byggja eitt hundrað hjólastólarampa í höfuðborginni til að bæta aðgengi og keypti stóra jarðhæð við Tryggvagötu þar sem hann ætlar að opna kaffihús með litlum kvikmyndasal.
Þá hefur Twitter opnað sérstakt útibú á Íslandi utan um Harald og starfsemi hans, svo hann geti búið áfram hérlendis.
Þetta eru samfélagslegu áhrifin sem þessi eini einstaklingur sem efnaðist skyndilega hefur haft á samfélagið sem hjálpaði við að búa hann til.
Eðlilegra viðhorf að vilja ekki borga skatta
Framferði Haraldar þykir óvenjulegt. Hinn viðurkenndi þankagangur þeirra sem verða fjármagnseigendur er, af einhverri ástæðu, sá að þeir eigi að gera allt sem í sínu valdi stendur til að greiða sem minnstan skatt af ávinningi sínum.
Frá því seint á síðustu öld hefur það tíðkast að íslenskt fjármálafyrirtæki og innlendir skattasérfræðingar hafa hjálpað til við þessa iðju. Fyrst var það gert í gegnum dótturfélög útrásarbanka í Lúxemborg. Réttlætingin var upphaflega meðal annars sú að fjármagnstekjuskattar voru háir á Íslandi í samanburði við ýmis önnur lönd. Íslenskir skattgreiðendur þurftu að greiða tíu prósent skatt af hagnaði upp að 3,2 milljónum króna. Af hagnaði umfram það var greiddur 45 prósent skattur. Til að komast hjá því að greiða þennan 45 prósent skatt sáu margir fjárfestar mikinn hag í því að geyma ávinning af hlutabréfasölu sinni í hlutafélögum sem voru skráð til heimilis annarsstaðar en á Íslandi.
Uppáhalds aflandssvæði Íslendinga var eyjan Tortóla, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum. Á eyjunni búa um 24 þúsund manns. Þar voru að minnsta kosti 700 þúsund eignarhaldsfélög skráð í eigu aðila víðsvegar að úr heiminum þegar efnahagskerfið hrundi haustið 2008.
Félög sem skráðu heimilisfesti sitt á eyjunni þurftu hvorki að greiða skatta, lögbundin gjöld né aðrar opinberar álögur. Eini kostnaðurinn sem fylgdi rekstri félags á Tortóla var árleg endurnýjum á skráningu þess sem kostaði um 300 dali. Óhemjusterk bankaleynd, sem í fólst fyrst og síðast að vita nákvæmlega ekkert um félögin sem skráð voru á Tortóla, var við lýði og nánast ómögulegt var að nálgast upplýsingar þaðan um raunverulega eigendur þeirra félaga sem þar voru skráð.
Milljarðatap samfélagsins á ári
Þegar Panamaskjölin voru opinberuð 2016 kom umfangið í ljós. Þótt þau vörpuðu einungis týru á lítinn hluta þeirra aflandsfélaga sem sett höfðu verið upp fyrir Íslendinga – þeirra sem nýttu sér þjónustu Mossack Fonseca – lá ljóst fyrir að við vorum einhverskonar heimsmeistarar í slíkum æfingum miðað við höfðatölu.
Í skýrslu sem starfshópur sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lét skipa í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalana, og var skilað í september 2016 en ekki birt opinberlega fyrr en í janúar 2017, eftir að þingkosningar voru afstaðnar, var sú stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar greind. „Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni,“ segir í skýrslunni.
Í henni kom fram að fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nam einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna, samkvæmt skýrslu starfshópsins.
Peningarnir ekki sóttir, heldur hleypt aftur inn
Lítið sem ekkert hefur verið gert til að endurheimta þá fjármuni sem skotið var undan með þessum hætti eða til að girða fyrir að þetta gæti gerst aftur. Seðlabankinn setti þess í stað upp fjárfestingarleið sína til að fá aukinn gjaldeyri inn í landið eftir bankahrunið. Með þeirri leið, sem kannaði ekki uppruna fjármuna með neinum viðunandi hætti, var þeim sem áttu „skítuga“ peninga gert kleift að gera þá lögmæta með stimpli frá seðlabanka.
Líkt og Kjarninn hefur ítrekað fjallað um á undanförnum árum þá liggur fyrir að íslenskir einstaklingar sem áttu aflandsfélög, hafa verið dæmdir fyrir efnahagsbrot, stýrðu gjaldþrota fyrirtækjum, hafa verið í rannsókn hjá skattyfirvöldum eða hafa verið gerðir upp án þess að kröfuhöfum þeirra hafi verið gerð grein fyrir aflandsfélagaeignum þeirra voru á meðal þeirra sem nýttu sér leiðina.
Það hefur líka verið greint frá því að eftirlit íslenskra fjármálastofnana á þessum árum með peningaþvætti var lítið sem ekkert.
Hér er ekkert að sjá, og hættið að horfa
Í stað þess að rannsaka þessar gríðarlegu fjármagnstilfærslur út úr íslensku samfélagi þá hefur kerfisbundið verið látið fenna yfir þetta hneyksli.
Tilraun allra þingmanna Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar um að láta skipa rannsóknarnefnd um fjárfestingarleiðina dó í raun í fyrrasumar þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, skilaði umsögn um málið þar sem hann vildi að kannað yrði hvort „önnur rannsóknarúrræði“ myndu ekki duga.
Vandamálið við þessa afstöðu er að ekkert annað embætti sem ætti að hafa áhuga á að rannsaka fjárfestingaleið Seðlabankans hefur sýnt vilja eða frumkvæði til að gera það. Fyrir liggur til að mynda að á þeim tíma þegar leiðin var opin, á árunum 2011 til 2015, voru peningaþvættisvarnir þeirra sem áttu að kanna færslur á fé í gegnum leiðina, íslensku bankanna, í lamasessi og Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með vörnum bankanna, brást með engu við á þeim tíma.
Þá hafa skattayfirvöld ekki framkvæmt neina tæmandi rannsókn á því hvort skattasniðganga hafi átt sér stað. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í umsögn sinni um málið, sem skilað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar snemma árs í fyrra, að embætti hennar hafi ekki haft tök á því að rannsaka að fullu þau gögn sem það hefur fengið afhent um þá aðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands vegna manneklu og „annarra aðkallandi verkefna“.
Embættið hefur einungis framkvæmt úrtakskönnun sem náði til ellefu einstaklinga sem búsettir voru hérlendis og úr þeirri könnun tekið eitt mál til frekari rannsóknar, þar sem grunur var um undanskot á fjármagnstekjum er nemur á þriðja hundrað milljóna króna. Því máli var vísað til héraðssaksóknara í maí 2020 vegna þess að skattrannsóknarstjóri taldi að þar hefði átt sér stað refsiverð háttsemi. Sú niðurstaða hefur þó ekki leitt af sér frekari rannsóknir á öðrum sem nýttu fjárfestingarleiðina.
Snyrtilegar leiðir til að draga úr skattgreiðslum
Það eru ekki bara fyrirhrunspeningar sem hafa verið færðir til annarra landa en þar sem þeir urðu til. Fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður hérlendis á undanförnum árum og er nú 22 prósent. Í ljósi þess að hér er rekið velferðarsamfélag eru aðrir skattar á arðsemi fyrirtækja líka hærri en í mörgum ríkjum sem auglýsa sig sem skattaparadísir. Þetta hefur leitt til þess að mörg íslensk fyrirtæki hafa leitast eftir því að skilja hagnað sinn eftir annarsstaðar en á Íslandi, og greiða fyrir vikið lægri skatta.
Eitt þeirra fyrirtækja er sjávarútvegsrisinn Samherji. Kýpur hefur verið nokkurs konar heimahöfn alþjóðlegrar starfsemi Samherja um margra ára skeið. Stundin birti fyrir nokkrum árum tölvupóst frá Baldvini Þorsteinssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Afríkuútgerðar Samherja og núverandi forstjóra Samherja í Evrópu, frá árinu 2009 um uppsetningu á Kýpurstarfseminni þar sem stóð: „Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“
Ef þú leitar ekki, þá er það ekki til
Yfirvöld hérlendis sýna svona ástandi þó lítinn áhuga. Árið 2013, þegar ný ríkisstjórn tók við völdum, voru framlög til embættis sérstaks saksóknara (nú héraðssaksóknara) skert um 774 milljónir króna sem gerðu það að verkum að embættið gat ekki klárað rannsókn á fjölmörgum hrunmálum. Sama ríkisstjórn tók ákvörðun um að flytja Fiskistofu til Akureyrar með þeim afleiðingum að margir lykilstarfsmenn hættu og mikil sérfræðiþekking tapaðist út úr stofnuninni.
Árum saman vann einn maður í hlutastarfi við að taka á móti peningaþvættistilkynningum hérlendis. Það fyrirkomulag leiddi til þess að ekkert virkt eftirlit var með peningaþvætti hérlendis fyrr en FATF setti okkur á gráan lista og heimtaði úrbætur. Meltið það aðeins; að árum, og áratugum saman, var stefna Íslands í peningaþvættismálum sú að fullyrða að hér væri ekki verið að stunda stórfellt peningaþvætti með fjármunafærslum inn og út úr landinu, vegna þess að engin dæmi um slíkt hefðu fundist. En ástæðan var sú að bókstaflega ekkert var leitað. Sú afstaða, að ef þú lítur meðvitað undan einhverju þá eigi það sér ekki stað, er engu viti bornu fólki boðleg.
Staðan hefur ekkert skánað mikið á þessu kjörtímabili. Hér hafa frekar verið sett lög sem draga tennurnar úr samkeppniseftirliti og lögð fram drög að frumvarpi um að brjóta upp embætti skattrannsóknarstjóra sem allir sérfræðingar í málaflokknum sem rætt er við, og gæta ekki hagsmuna sérstakra áhugamanna um „skattahagræði“, eru sammála um um að veiki skattrannsóknir verulega.
Það er pólitísk ákvörðun að haga málum með þessum hætti.
Þess vegna er Haraldur óvenjulegur
Samandregið þá er það einhverskonar þjóðaríþrótt á Íslandi að líta framhjá stórfelldum skattsvikum, og hjá fjármagnseigendum er ákvörðun um að stunda „skattahagræði“ jafn eðlileg og morgunsturtan. Það að nýta sér ekki glufur og hugsa samfélagslega er talið vera veikleiki. Hlægileg og barnaleg afstaða í darwinískum hugarheimi einstaklingshyggjunnar.
Kerfin okkar sveigjast mun frekar í átt að umbera þetta atferli. Stefnan virðist vera sú að ef eitthvað er ekki skoðað, þá á það sér ekki stað. Því virðist fátt rata í rannsóknir annað en það sem kerfisbundið fjársveltir fjölmiðlar opinbera.
Sá þankagangur ríkir hjá allt of mörgum að skattar séu bara neikvæðir. Það sé verið að færa peninga frá þeim sem afla þeirra til einhverra annarra sem hafi ekki lagt sig jafn mikið fram. Frá hinum sterku til hinna veiku.
Það er nánast fyndið viðhorf í ljósi þess að flestir sem efnast á Íslandi hagnast ekki vegna hugvits eða hæfileika – ekki af því að búa eitthvað til – heldur vegna óskammfeilni og þess að þeir hafa haft betri aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra. Störf hérlendis eru verðlögð þannig að þeir fá einna mest í sinn hlut sem færa annarra manna fé, að uppistöðu lífeyrissjóðspeninga í eigu almennings, á milli staða. Það er öllu öðru fólki en þeim sem hrærast í þeim heimi gjörsamlega óskiljanleg forgangsröðun.
Þess vegna er það svo óvenjulegt þegar maður eins og Haraldur Þorleifsson ákveður í tíu sekúndna símtali við eiginkonu sína að borga alla skattanna sína til samfélagsins sem hann telur sig skulda fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu og annan stuðning. Skattarnir fara nefnilega í að reka það samfélag og gefa fólki eins og Haraldi, sem raunverulega skapaði verðmæti en færði ekki bara peninga frá A til Tortóla, tækifæri.
Við værum á mun betri stað ef fleiri nálguðust veruleikann á sama hátt og hann.