Reykjavík fær nýjan borgarstjóra í upphafi árs 2024 þegar Einar Þorsteinsson tekur við því embætti. Það hefðu fáir búist við því fyrir ekki svo löngu síðan, en atburðarásin sýnir hvað hlutirnir geta gerst hratt í pólitík.
Einar tekur við af Degi B. Eggertssyni, sem hefur þá verið borgarstjóri í næstum áratug. Í kjölfar þess að Dagur tók við embætti borgarstjóra 2014 var hann til viðtals í Kjarnanum. Hann hafði þá leitt Samfylkinguna til mikils kosningasigur, þar sem flokkurinn fékk 31,9 prósent atkvæða, sem var 67 prósent hærra hlutfall atkvæða en Samfylkingin hafði fengið í kosningunum 2010. Á sama tíma var Samfylkingin í miklum vanda á landsmálasviðinu. Í kosningunum 2013 fékk flokkurinn einungis 12,9 prósent atkvæða og 57 prósent af fylgi sínu frá árinu 2009 þegar Samfylkingin tapaði ellefu þingmönnum.
Í aðdraganda þeirra þingkosninga hafði Dagur látið af embætti varaformanns Samfylkingarinnar og hefur ekki setið í forystu flokksins síðan þá. Ekki verður sagt að Samfylkingin hafi riðið feitum hesti frá þingkosningunum 2016, 2017 og 2021. Í þeim fyrstu datt flokkurinn næstum því út af þingi, í þeim næstu varð niðurstaðan verri en 2013 og í fyrrahaust náði hún ekki yfir tíu prósent fylgi þrátt fyrir að hafa verið í enduruppbyggingarfasa í stjórnarandstöðu í átta og hálft ár.
Í áðurnefndu viðtali var Dagur spurður hvort hann væri á leið í landsmálin. Svarið var nei. „Ég er nýorðinn borgarstjóri og hef mín verk að vinna hér [...] Ég hef lært að það er gott að vera með fimm ára plan og að maður eigi ekki að fullyrða neitt um mál sem eru lengra en tíu ár fram í tímann.“
Þegar sá tími er liðinn eru tíu ár liðin frá því að Dagur sagðist ekki á leið í landsmálin næstu tíu árin.
Varð óvart formaður en axlar ábyrgð á döpru gengi
Fyrir liggur að Samfylkingin mun halda landsfund í október á þessu ári. Logi Einarsson hefur verið formaður flokksins frá árinu 2016, þegar hann varð eini kjördæmakjörni þingmaður hans í verstu þingkosningum í sögu Samfylkingarinnar. Logi, þá eiginlega algjörlega óþekktur í stjórnmálum utan heimabyggðar, hafði boðið sig fram til varaformanns á landsfundi sama ár og unnið. Fimm mánuðum síðar sagði Oddný Harðardóttir af sér formennsku til að axla ábyrgð á hörmulegu gengi í þingkosningum – flokkurinn fékk 5,7 prósent atkvæða – og Logi var allt í einu orðinn formaður. Óvart.
Í viðtali við Mannlíf árið 2019 sagði Logi að hann hafi „svo sem ekki verið að sækjast eftir áhrifum eða leiðtogahlutverki en ég enda þar.“ Hann var í kjölfarið kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar en óvæntar kosningar 2017 leiddu til þess að flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt og lifði fyrir vikið af. Vonbrigðin með árangurinn 2021 voru hins vegar áþreifanleg. Tapað fylgi og næst versta niðurstaðan í 22 ára sögu flokksins staðreynd.
Kjósendur Samfylkingarinnar voru þeir kjósendur sem voru minnst ánægðir með frammistöðu formanns þess flokks sem þeir studdu í síðustu kosningabaráttu. Einungis 53,5 prósent þeirra sögðu Loga hafa staðið sig vel.
Á flokksstjórnarfundi í mars síðastliðnum flutti Logi ræðu þar sem hann gerði upp vonbrigðin. „Ef við horfum gagnrýnum augum inn á við er vafalaust hægt að leita skýringa víða; aðferðir við val á lista, mótun skilaboða, samskiptaháttum, mannauð og forystu flokksins. Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð.“ Á landsfundi í október 2022 yrðu teknar „stórar ákvarðanir um framtíð flokksins.“
Þessi orð hafa verið túlkuð sem skýr vísbending um að formanns- og forystuskipti séu framundan hjá Samfylkingunni.
Barnaleg tiltrú á Vinstri græn stærstu mistökin
Í sömu ræðu sagði Logi að stærstu mistök Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar hefðu verið barnaleg tiltrú á að Vinstri græn hefðu áhuga á ríkisstjórnarsamstarfi með félagshyggjuflokkum. Þegar öllu væri á botninn hvolft þá mætti þó draga dýrmætan lærdóm af þeirri reynslu. „Hann er er sá að umbótaflokkar frá miðju til vinstri verða að koma sér upp nýju leikskipulagi – verða valkostur. Það er stórt verkefni sem okkur ber að taka alvarlega.“
Umhugsunarvert væri ef félagshyggjuflokkarnir yrði til lengri tíma áfram sitt hvorum megin víglínu íslenskra stjórnmála. „Þá verður verður erfiðara að ná fram nauðsynlegum réttlætis og umbótamálum fyrir almenning í landinu. Og afleiðingin í reynd; nær alltaf hægri stjórn áfram í landinu.“
Logi sagði umbótaflokka í stjórnarandstöðu – Samfylkingu, Pírata og Viðreisn – hafa ítrekað staðið saman að þingmálum, nefndarálitum og breytingartillögum. „Bætt samvinna þessara flokka um sameiginlegar hugsjónir er fyrsta skrefið í átt að nýju leikskipulagi og skýrum valkosti fyrir næstu kosningar. Á sama tíma og við nýtum sameiginlegan slagkraft okkar til að vinna að mikilvægum málum í þágu almennings. [...] Allir þessir flokkar aðhyllast blandað hagkerfi, með áherslu á sterkt norrænt velferðarkerfi, þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð og allir fá jöfn tækifæri til að dafna. Og þótt okkur greini kannski á um leiðir, eru markmiðin sameiginleg og okkur ber að vinna að þeim þvert á flokka.“
Ekki leið að löngu þar til að það reyndi á þetta nýja leikskipulag.
Stóru málin í höfn
Það er ekkert leyndarmál að innan Samfylkingarinnar hefur lengi verið horft til Dags B. Eggertssonar sem næsta formanns. Í aðdraganda kosninganna 2021 stóð honum til boða að færa sig yfir í landsmálin sem formaður flokksins, ef hann hefði viljað. Hann vildi, á þeim tímapunkti, ekki gera það.
Nú er staðan breytt. Búið er að tryggja að helstu umbreytingarmál sem Samfylkingin hefur unnið að í Reykjavík undanfarin tólf ár; áframhaldandi þétting byggðar og samgönguframtíð sem byggir á Borgarlínu og mannvænu/grænu samfélagi í stað áherslu á pláss fyrir einkabílinn og verktakaþjónkun, eru í höfn með myndun nýjasta meirihlutans í borginni. Þróuninni verður ekki snúið við úr þessu.
Fyrstu sýnilegu framkvæmdirnar við Borgarlínuna hefjast í sumar þegar hafist verður handa við landfyllingu fyrir nýja Fossvogsbrú. Stærsta uppbyggingarskeið húsnæðis í sögu höfuðborgarinnar mun eiga sér stað innan núverandi vaxtarsvæða, ekki með því að brjóta land í útjaðrinum. Þær framkvæmdir verða ekki rifnar upp með rótum. Meira að segja Morgunblaðið, froðufellandi af bræði yfir því að flokki þess hafi enn og aftur mistekist að ná völdum í krúnudjásninu Reykjavík, túlkar niðurstöðuna sem sigur Dags og hans stefnu.
Taki Dagur þá ákvörðun að láta ekki slag standa ætti leiðin að óbreyttu að vera greið í formannssætið fyrir Kristrúnu Frostadóttur.
Umdeildur en líka vinsæll
Dagur er umdeildur stjórnmálamaður. Ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, er hann í sennilega í sérflokki starfandi stjórnmálamanna þegar að því kemur.
Innan flokks nýtur Dagur nánast algjörs stuðnings, þótt hann geri sannarlega mistök. Margt fólk utan Samfylkingarinnar leggur hins vegar pólitíska fæð á hann og telur Dag vera holdgerving samfélagsbreytinga sem það er á móti. Birtingarmynd þess hefur stundum verið ótrúlega óvægin. Má þar nefna auglýsingaherferðir fjársterkra aðila sem beindust sérstaklega gegn honum, skotárás á bíl hans fyrir utan heimili hans og linnulausar árásir Morgunblaðsins á Dag í ritstjórnar- og fréttaskrifum árum saman. Óþolið er ekki vegna þess að Dagur sé talinn sérhagsmunagæslumaður eða spilltur. Heldur vegna þess að hann stendur í vegi fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. Dagur ógnar.
En hann nýtur líka stuðnings út fyrir eigin flokk, sem sést á því að í könnunum sem gerðar voru í aðdraganda nýliðinni borgarstjórnarkosninga kom fram að flestir kjósendur vildu sjá hann áfram sem borgarstjóra. Hlutfall þeirra sem það sögðu var mun hærra en hlutfall þeirra sem kusu á endanum Samfylkinguna.
Klókindi sem skila árangri
Borgarstjórinn hefur sýnt af sér fádæma pólitísk klókindi í gegnum tíðina. Hann vinnur jafnvel þegar hann tapar.
Þegar Besti flokkurinn hristi allverulega upp í íslenskum stjórnmálum gat hann aðlagað sig að því breytta landslagi, á baki auðmýkjandi kosningaósigurs, og fundið lykilmálefnum Samfylkingarinnar brautargengi í gegnum samstarf við flokk Jóns Gnarr, jafnvel þótt Dagur hefði þurft að setjast í aftursætið um tíma. Í þeim tveimur kosningum sem farið hafa fram í borginni síðan þá hefur Degi tekist að leggja rétt pólitískt mat á stöðuna og mynda fjölflokkameirihluta utan um sín helstu stefnumál og um leið tekist að viðhalda eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni áfram.
Samfylkingin fékk ekki það sem hún ætlaði sér í nýliðnum borgarstjórnarkosningum, þótt staða hennar á því sviði sé mun sterkari en í landsmálunum og flokkurinn áfram næst stærstur í borgarstjórn. Í flókinni stöðu, á grunni trausts sem myndast hafði milli forystufólks, myndaði Dagur bandalag með Pírötum og Viðreisn sem útilokaði Sjálfstæðisflokk frá völdum í Reykjavík og skildi Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, í raun bara eftir með einn möguleika við myndun nýs meirihluta.
Þetta þótti djarft útspil, en gekk á endanum fullkomlega upp.
Hrósaði pólitískum andstæðingum hástert
Dagur hefur líka sýnt að hann getur unnið með pólitískum andstæðingum að framfaramálum. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er þar stærsta afrekið. Því lýsti Dagur í bókinni „Nýja Reykjavík“ sem hann gaf út i vor.
Þar sló hann á þær raddir sem hafi viljað eigna honum heiðurinn af því að koma Borgarlínu og samgöngusáttmálanum á koppinn. Heiðurinn lægi ekki síður hjá bæjarstjórum og bæjarstjórnum nágrannasveitarfélaganna, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var í öllum tilfellum við völd, og samstarfsflokkum hans í meirihlutanum í Reykjavík. „Það tókst sannarlega að hefja þessi mál langt yfir flokkslínur og sveitarfélagamörk. Sigurður Ingi [Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra] fer líka í sögubækurnar sem sá samgönguráðherra sem komið hefur hvað flestu í verk og það verður aldrei frá honum tekið. Ef forystu Katrínar [Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna og forsætisráðherra] og verkstjórnar hefði ekki notið við væru þessi verkefni heldur ekki á fljúgandi ferð í undirbúningi og í framkvæmd. Hennar er heiðurinn að því. Um það er ég sannfærður og verð henni ævinlega þakklátur fyrir vikið.“
Málið sem komst í gegn er hans helsta stefnumál. Hans arfleið sem borgarstjóri. En á endanum eru pólitískir andstæðingar hans, úr öllum áttum, samsekir í glæpnum. Þeir sem voru ráðnir til að stýra framkvæmdinni eru meira að segja gegnheilir sjálfstæðismenn.
Það þarf töluverð pólitísk klókindi til að skila slíkri niðurstöðu.
Nýtt leikskipulag fyrir landsmálin teiknast upp
Að leiða Framsóknarflokkinn inn í samstarf í næst stærsta stjórnvaldi Íslands með þremur öðrum miðjuflokkum, meðal annars Pírötum, getur líka haft miklar afleiðingar á landsvísu, gangi samstarfið vel. Ljóst er að umbótasinnaðir miðjuflokkar eru hættir að horfa til Vinstri grænna sem fyrsta valkosts í samstarfi á þeim vettvangi sem hefur það markmið að leiða stórmál á borð við breytt sjávarútvegskerfi með áherslu á umbyltingu á skiptingu á arðsemi af nýtingu auðlindarinnar, stjórnarskrárbreytingar, gjörbreyttar áherslur í efnahagsmálum, aukna áherslu á loftslagsmál og önnur græn málefni, að leiða spurninguna um aðild að Evrópusambandinu til lykta og innleiða ábyrgð og gagnsæi í stjórnmál og stjórnsýslu. Hin gallsúra stemning milli Framsóknarráðherranna og forystumanna Sjálfstæðisflokksins, sem birtist meðal annars í linnulausum skeytasendingum í fjölmiðlum, gefur líka færi á myndun nýs R-lista, en í þetta skiptið á landsmálasviðinu.
Málflutningur þeirra á mun meiri hljómgrunn með þeirri orðræðu sem tíðkast nú innan Framsóknarflokksins, sem er fullur sjálfstrausts og finnur til sín eftir tvo kosningasigra í röð. Orðræða forystu Framsóknar um samvinnustjórnmál, félagshyggjuáherslur og nauðsynlegar kerfisbreytingar, sérstaklega í efnahags- og sjávarútvegsmálum, hefur ekki farið fram hjá öðrum miðjuflokkum.
Samkvæmt nýjustu könnun Gallup gætu Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn auðveldlega myndað sterkan þingmeirihluta ef kosið yrði nú, með samanlagt 55,8 prósent fylgi, á sama tíma og Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur mælast í sögulegum lægðum. Það er nákvæmlega sama fylgi og flokkarnir fjórir fengu í borgarstjórnarkosningunum í síðasta mánuði.
Það eru því nýir pólitískir möguleikar að teiknast upp á Íslandi, sem höfðu fyrir ekkert svo löngu síðan þótt óhugsandi.
Jafn óhugsandi og það var í huga flestra fyrir nokkrum mánuðum að Einar Þorsteinsson yrði borgarstjóri í Reykjavík.