Í síðustu viku voru birtar niðurstöður Alþjóðlegu viðhorfskönnunarinnar, sem Íslendingar taka þátt í. Í þetta sinn var verið að skoða viðhorf íbúa í fjölmörgum löndum til ójöfnuðar.
Helstu niðurstöðurnar á Íslandi voru eftirfarandi: 82 prósent landsmanna telja að tekjumunur sé of mikill á Íslandi. Sérstaklega finnst þeim forstjórar í stórfyrirtækjum og ráðherrar vera með tekjur sem eru hærri en æskilegt væri.
Alls segja 62 prósent landsmanna að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr tekjumun og einungis 3,1 prósent segja að það þurfi ekki að draga úr honum.
50,7 prósent landsmanna segja að skattar á hátekjufólk séu of lágir og 78 prósent segja að hátekjufólk eigi að borga stærri hlut af því sem situr eftir hjá því í skatt. Í báðum tilvikum hefur hlutfall þeirra sem hafa þessar skoðanir aukist frá árinu 2009, árinu eftir bankahrunið mikla.
Þegar þátttakendur voru spurðir hvaða atriði skiptu máli til að komast lengra en aðrir í þjóðfélaginu voru niðurstöðurnar sláandi. Alls sögðu 83,6 prósent að það skipti máli að þekkja rétta fólkið. 50,2 prósent sögðu að pólitísk sambönd skiptu máli og 52,2 prósent að það að koma úr ríkri fjölskyldu skipti máli. Í öllum tilfellum hefur þeim hlutfallslega fjölgað sem hafa þessar skoðanir síðan að könnunin var síðast framkvæmd hér, fyrir rúmum áratug. Athygli vekur að við erum nær almenningi í löndum eins og Rússlandi þegar kemur að þessum skoðunum en nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum.
Er tekjujöfnuður á Íslandi?
Það er vert að hugsa um hvað valdi því að íslenska þjóðin upplifi svona skýran ójöfnuð og óréttlæti. Að hún sjái ekki veisluna, stöðugleikann, land tækifæranna, sem ráðandi öfl í stjórnmálum og hagsmunagæslu stórfyrirtækja klifa á. Er íslensk þjóð kannski bara svona vitlaus að hún veit ekki hvað er sjálfri sér fyrir bestu?
Launamunur er nefnilega almennt lítill hérlendis, að meðaltali, í alþjóðlegum samanburði. Þegar krónan er veik, sem er sögulega nokkuð algengt, þá eru laun hérlendis lág í samanburði við önnur svæði í kringum okkur. Það á jafn við um háu og lágu launin. Raunar má færa sterk rök fyrir því að launamunur hér sé of lítill. Menntun er til að mynda ekki metin nægilega mikið til launa til að það felist hvati í því að sækja sér hana.
Mánaðarlaun starfsfólks í ráðgjöf og sölu verðbréfa voru yfir 1,7 milljónir króna á mánuði í fyrra. Um er að ræða laun þeirra sem hjálpa öðrum við að kaupa hlutabréf og skuldabréf og taka þóknun fyrir. Þetta eru hærri meðallaun en dómara hafa, sem bera ábyrgð á viðhaldi réttarríkisins, og sérfræðilæknar, sem vinna margir hverjir við að bjarga mannslífum. Verðbréfamiðlararnir eru með næstum 1,1 milljón króna meira í heildarlaun á mánuði en kennarar að meðaltali. Til viðbótar eru margir innan fjármálageirans með fjarstæðukennda kauprétti sem auka ekkert virði hluthafa þeirra (að hluta almenningur í landinu í gegnum lífeyrissjóði) en færa þeim reglulega mörg hundruð milljónir króna þegar kemur að nýtingu þeirra. Þessi firra virðist nær einungis tengd við þá sem vinna við að færa peninga (aðallega almennings í gegnum lífeyrissjóði) frá A til B í fákeppnislandinu Íslandi og taka háar þóknanir fyrir.
Það er þessi verðlagning á framlagi fólks til samfélagsins sem stuðar Íslendinga, og þeir eiga erfitt með að sætta sig við.
Er eignum misskipt á Íslandi?
En mest brennur ójöfn eignaskipting. Hagsmunasamtök sem gæta hagsmuna eignarmesta fólksins á Íslandi hafa lengi haldið því fram að eignajöfnuður á Íslandi sé að aukast. Það hefur árum saman bent á að að hlutfallslega hafi til dæmis hlutfall eigin fjár ríkasta eins prósents landsmanna, þess hluta sem nokkrir stjórnmálaflokkar vilja skattlega umfram aðra, af heildar eigin fé þjóðarinnar (í eigu einstaklinga fyrir utan eignir lífeyrissjóða) til að mynda farið úr 10,2 prósent árið 2010 í 7,7 prósent árið 2013 og í 5,5 prósent í fyrra. Kakan sé að stækka og sneið þeirra sem borði mest af henni sé fyrir vikið hlutfallslega minni, þótt hún sé stærri að umfangi. Þetta er ekki rangt.
Þetta er hins vegar bæði ófullkomin framsetning vegna þess að framsettar hagtölur um eignir á Íslandi eru einfaldlega lélegar og sannarlega ekki eina leiðin til að horfa á misskiptingu. Það er nefnilega líka hægt að horfa á hvernig nýr auður skiptist eftir krónutölu.
Þá birtist önnur mynd. Hún er þessi: Á árinu 2020 óx eigið fé 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar um 10,8 milljarða króna. Alls hefur það vaxið um 131 milljarð króna frá árinu 2010, eða um 81 prósent.
Ríkasta eitt prósentið, alls um 2.400 fjölskyldur, bættu 37,3 milljörðum króna við eigið fé sitt í fyrra, eða um 30 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á því ári. Þessar fjölskyldur áttu samtals 902,2 milljarða króna í lok árs 2020. Auður þessa hóps hefur vaxið um 453 milljarða króna á áratug. Það þýðir að tæp 13 prósent af öllum nýjum auði sem varð til á Íslandi á tímabilinu skilaði sér til þessa hóps. Um 2.400 framteljendur tóku til sín 453 milljarða króna, tæplega 238 þúsund skiptu með sér 3.611 milljörðum króna. Hver eining í fyrri hópnum jók auð sinn að meðaltali um tæplega 189 milljónir króna á einum áratug. Hin 99 prósent þjóðarinnar juku auð sinn, aðallega í gegnum hækkun á fasteignaverði heimila sinna, að meðaltali um 15,2 milljónir króna á sama tímabili.
Hverjir hagnast mest á fasteignum og hlutabréfum?
Svo skulum við renna í gegnum það að eignir þorra annars hópsins, þess fjölmenna, eru að mestu rétt metnar á meðan að eignir hins hópsins, þess ríka og fámenna, eru verulega vanmetnar í þessum tölum.
Byrjun á fasteignum. Af þeirri upphæð sem Íslendingar áttu í eigið fé árið 2010 var 1.146 milljarðar króna bundnir í steypu, eða 73,2 prósent. Á þeim tíma sem er liðinn síðan þá hefur fasteignabóla verið blásin upp á Íslandi og fasteignaverð hækkað gríðarlega. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði það til að mynda um 126 prósent frá 2010 og fram að síðustu áramótum. Þetta hefur skilað því að eigið fé sem bundið er í fasteignum hefur aukist um 3.020 milljarða króna, eða næstum þrefaldast. Ef einungis er skoðað hvað ríkustu tíu prósent landsmanna (það eru ekki birtar tölur um hversu mikið fer til efsta prósentsins) þá fór um 44 prósent af allri hækkun á fasteignaverði til þess hóps. Óhætt er að draga þá ályktun að flestar fasteignir í eigu einstaklinga utan þeirra sem fólk býr sjálft í séu í eigu þessa hóps.
Næst skulum við skoða verðbréf. Í áðurnefndum tölum Hagstofu Íslands um eigið fé landsmanna er virði hlutabréfa í innlendum og erlendum hlutafélögum reiknað á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Það þýðir t.d. að ef einstaklingur keypti hlut í skráðu félagi sem hefur tífaldast í verði fyrir einhverjum árum á 100 milljón króna þá er það virðið sem reiknað er inn í tölur Hagstofunnar, ekki einn milljarður króna, sem er verðið sem viðkomandi myndi fá ef hann seldi hlutabréfin.
Hlutabréfaverð hefur hækkað gríðarlega á skömmum tíma. Frá mars í fyrra og til byrjun septembermánaðar hækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands til að mynda um 117 prósent. Hækkun hlutabréfa hefur verið meiri innan árs hérlendis en nokkurs staðar í heiminum. Einungis þeir einstaklingar sem eiga hlutabréf, að uppistöðu ofangreindur hópur, taka til sinn í þessa hækkun og geta leyst hana út. Hún vigtar ekki inn í hlutfallslegar tölur Hagstofunnar sem talsmenn atvinnulífsins vísa í þegar þeir hafna því að hér sé eignarjöfnuður að aukast.
Varla ætlar einhver að halda því fram að útvöldu fólki hafi ekki verið færð tækifæri vegna pólitískra ákvarðana til að efnast á Íslandi í gegnum tíðina. Bankasölur, sölur annarra ríkiseigna og fjölmörg dæmi um skítadíla sem kokkaðir eru upp bakvið luktar dyr í þeim eina tilgangi að gera fólk í réttum flokkum ríkt, eða enn ríkara, eru ekki ímyndun. Þessir gerningar eru íslenskur raunveruleiki.
Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum ýttu svo verulega undir hækkun á tveimur eignaflokkum: fasteignum og hlutabréfum. Það skilaði litlum hópi landsmanna, ríkustu prósentum landsmanna, nokkuð augljóslega gríðarlegri eignaaukningu umfram alla aðra.
Hverjir hagnast á nýtingu þjóðarauðlindar?
Að lokum skulum við skoða sjávarútveg. Kvótakerfinu var komið á með lögum árið 1983. Við úthlutun kvóta var miðað við aflareynslu síðustu þriggja ára og hann afhentur án endurgjalds. Framsal á kvóta var síðan gefið frjálst sem gerði það að verkum að viðskipti fóru að vera með þessa vöru sem var í upphafi lánuð án greiðslu. Árið 1997 var svo gefin heimild til að veðsetja aflaheimildir fyrir lánum, sem voru notuð til að kaupa upp kvóta eða eftir atvikum aðrar eignir. Fyrir vikið hækkuðu aflaheimildirnar hratt í verði og mjög margir urðu mjög ríkir.
Í fyrstu grein laga um fiskveiðar segir að „nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Ef horft er á tímabilið frá lokum árs 2008 og áratuginn á eftir þá vænkaðist hagur sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi – aukning á eigin fé þeirra og arðgreiðslur – um 479,2 milljarðar króna eftir að geirinn var búinn að greiða veiðigjöld. Frá árinu 2011 þegar veiðigjöld voru fyrst lögð á og til loka ofangreinds tímabils greiddi sjávarútvegurinn 70 milljarða króna í þau. Tæplega 13 prósent af „kökunni“ fór til eigenda auðlindarinnar en 87 prósent fór til þeirra sem eigandinn fól að nýta hana.
Engin opinber vitræn skrá er til um virði aflaheimilda, enda eru þær ekki seldar á eiginlegum markaði til hæstbjóðanda heldur í beinum viðskiptum milli þeirra sem fengu þær frítt frá ríkinu eða hafa keypt sig inn í kerfið, og þeirra sem vilja geta veitt meira. Miðað við síðustu gerðu stóru viðskipti með kvóta er markaðsvirðið þó um 1.200 milljarðar króna.
Stærstu útgerðarfyrirtæki landsins bókfæra þessa þjóðareign sem eign í bókum sínum og nánast án undantekninga á miklu lægra verði en það myndi kosta að kaupa þær. Ef við tökum til dæmis Síldarvinnsluna, sem er skráð á markað, sem dæmi þá eru aflaheimildirnar sem hún heldur á bókfærðar á 34 milljarða króna. Miðað við síðustu gerðu viðskipti með kvóta, sem dótturfélag Síldarvinnslunnar gerði, má ætla að markaðsvirðið sé 92 milljarðar króna.
Til að setja þessa tölu í betra samhengi þá má nefna að heildarmarkaðsvirði Síldarvinnslunnar er um 116 milljarðar króna. Upplausnarvirði kvótans sem félagið heldur á er því næstum 80 prósent af markaðsvirði Síldarvinnslunnar.
Þurfa bara ekki allir að vera duglegri?
Í niðurstöðuhluta nýrrar bókar eftir Gunnar Helga Kristinsson, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem ber heitið „Elítur og valdakerfi á Íslandi“ er, líkt og nafnið gefur til kynna, elítur og valdakerfi. Þar segir: „Ísland er lítið land og markaðurinn grunnur – samkeppni er víða takmörkuð og fákeppni ríkjandi. Sjávarútvegurinn nýtur enn sterkrar áhrifastöðu og elítur viðskiptalífsins keppast um yfirráð yfir fjölmiðlum. Fyrirgreiðsla gegnir ennþá nokkru hlutverki við stöðuveitingar, bæði til að tryggja tök flokkanna á mikilvægum embættum og til að verðlauna dygga bandamenn [...] Kynjasamsetning elítanna er enn verulega ójöfn á Íslandi, þar sem nær tveir þriðju hlutar þeirra eru karlkyns.“
Á Íslandi hefur of lengi verið ráðandi sú skoðun að ef kakan stækkar þá eigi enginn að fetta fingur út í það að einhverjir taki sér sífellt stærri sneið. Það er selt sem norm og þeir sem horfa á brauðmola-aðferðarfræðina sem óréttláta eru oftar en ekki málaðir sem rugludallar. Fífl sem skilji ekki hvað sé best fyrir þá. Illa þjökuð af veislublindu. Hópur sem er þjakaður af öfund og skort á duglegheitum til að ná árangri í peningakapphlaupinu.
En þetta er ekki ráðandi norm. Alþjóðlega viðhorfskönnunin sýnir það svart á hvítu. Íslendingar, vel menntað og vel upplýst fólk, eru flestir á þeirri skoðun að þessi aðferðarfræði sé óréttlát og að stjórnvöld eigi að beita sér fyrir því að afleggja hana. Þeir sjá að til að komast í hóp þess eins prósents landsmanna sem á hreina eign yfir nokkur hundruð milljónum króna og ýmsir stjórnmálaflokkar stefna nú réttilega á að skattleggja meira, nægir ekkert eitt og sér að vera duglegur. Íslenskur almenningur sér þetta skýrt og rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum telja að það skipti meira máli hver þú ert og hvern þú þekkir en hvað þú getur þegar kemur að því að komast áfram í þjóðfélaginu.
Til þess að taka á þessu ólíðandi vandamáli þarf fyrst að viðurkenna tilvist þess. Og svo að beita lýðræðislegu valdi til að leysa það og skapa um leið réttlátara samfélag.