Ráðherra fjölmiðlamála boðaði nýverið að farið yrði dönsku leiðina við það að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sem sinna fréttaþjónustu. Þar vísar hún í margháttaðar leiðir, meðal annars styrkjagreiðslur, sem Danir réðust í á fyrsta áratug þessarar aldar og hafa reynst vel. Sömu sögu er að segja af hinum Norðurlöndunum, sem öll skilgreina fréttaþjónustu sem lýðræðislega mikilvæga og hafa stutt við hana á þeim grundvelli.
Hérlendis hefur staðan verið allt önnur. Árum saman hafa verið uppi áform um að koma á einhverskonar kerfi til að mæta þeim markaðsbresti sem eru til staðar í íslenskum fréttafjölmiðlum. Birtingarmyndir brestsins eru ýmiskonar. Ein er sú að starfandi í fjölmiðlum árið 2020 voru 40 prósent af þeim sem voru starfandi 2013. Önnur að erlendir aðilar, sem greiða ekki skatta á Íslandi, hafa tekið til sín næstum 50 milljarða króna af því sem Hagstofan skilgreinir sem auglýsingafé á átta árum. Þriðja er sú að einstaklingar eða sérhagsmunahópar sökkva milljörðum í að halda úti stórum fjölmiðlum í taprekstri í viðleitni sinni við að hafa ákveðin tök á umræðu. Fjórða að tveir milljarðamæringar hafa dælt milljörðum í fjölmiðlasjoppur á bakvið tjöldin, aðallega til að klekkja á hvorum öðrum. Fimmta í því að hlutdeild RÚV í heildartekjum fjölmiðla hefur vaxið úr 21 í 26 prósent á fjórum árum og hefur ekki verið meiri frá því á tíunda áratugnum.
Sjötta birtingarmyndin sem má nefna er síðan sú að þeir aðilar sem fréttafjölmiðlar eiga að veita aðhald: t.d. atvinnulífið, stofnanir og stjórnmálaflokkar hafa stóraukið fjáraustur, meðal annars úr ríkissjóði, í sinn lobbýisma og heimatilbúinn „fréttaflutning“ sem hefur samt sem áður aldrei þann megintilgang að segja satt og rétt frá eða að upplýsa almenning heldur fyrst og síðast að láta þann sem borgar launin líta vel út og passa upp á hans hagsmuni.
Fámennur hópur stendur í vegi fyrir úrbótum
Þrátt fyrir þessa stöðu, og vinnu sem staðið hefur yfir í á sjötta ár, er það eina sem stjórnvöld hafa gert til að mæta henni styrkjakerfi sem deilir tæplega 400 milljónum króna milli þeirra einkareknu fjölmiðla sem sinna fréttaþjónustu. Ekkert er minnst á lýðræði í lögum utan um kerfið og það gildir einungis út þetta ár. Þeir sem reka fréttamiðla eru með hóflegar væntingar til þess að nýjar yfirlýsingar um aðgerðir leiði af sér eitthvað áþreifanlegt.
Fyrir vikið gerist ekkert.
Segir sjálfstæða fjölmiðla segja sig til sveitar
Sýnilegustu öflin í atvinnulífinu sem setja sig á móti þessu koma innan úr fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Símanum. Fremstur í flokki fer Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölu. Hann hefur verið duglegur að skila inn umsögnum í nafni félagsins þar sem hann leggst gegn öllum styrkjagreiðslum til fjölmiðla sem reka fréttastofur til að mæta markaðsbresti. Þess utan er hann óþreytandi á samfélagsmiðlum að halda fram sömu sjónarmiðum og ásaka aðra um að vera „keyptir“.
Í nýlegri umsögn um frumvarp Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og nokkurra félaga hans, sem fjallar um að taka RÚV af auglýsingamarkaði, skrifar Magnús langt last um styrki til einkarekinna fjölmiðla þrátt fyrir að frumvarpið snúist ekkert um þá.
Þar segir meðal annars: „Því miður hafa verið stigin þau óheillaskref að hefja ríkisstuðning við fréttamiðla í stað þess að taka hið opinbera af þeim markaði. Slíkt er að mati Símans sóun á opinberu fé [...] Þess utan má óttast að lýðræðinu stafi hætta á því, að sjálfstæðir fjölmiðlar þurfi að segja sig til sveitar sem flestir hafa nú gert.“ Samhliða leggur Magnús til að ráðist verði í breytingar sem auka fjárflæði úr ríkissjóði til atvinnurekanda hans í stað þess að greiða styrki til þeirra sem sinna fréttaþjónustu.
Þessi stærilæti hafa vakið athygli, sérstaklega í ljósi þess að Síminn rekur ekki fréttaþjónustu og endurgreiðslur vegna hennar hafa þar af leiðandi ekkert með félagið að gera.
Aðstoðarmenn kosta ríkissjóð svipað
Yfirmenn Magnúsar hjá Símanum, skráðu félagi á markaði sem er að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, deila bersýnilega framsettum skoðunum hans fyrst sölustjórinn fær að setja þær fram í nafni Símans í umsögnum sem skilað er inn til Alþingis.
Það er hins vegar nauðsynlegt að staldra við nokkrar fullyrðingar hans. Sérstaklega þá að lýðræðinu stafi hætta af því að „sjálfstæðir fjölmiðlar þurfi að segja sig til sveitar“. Þar hundaflautar Magnús um að fjölmiðlar muni ekki bíta í höndina sem fæðir þá, þrátt fyrir að hafa ekkert handbært til að byggja þann flautukonsert á.
Í fyrsta lagi má benda á að styrkir til einkarekinna fjölmiðla eru samanlagt svipuð upphæð og laun 27 aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar kosta á ársgrundvelli. Alls eru þeir um 0,035 prósent af öllum útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2022 og lægri en sú aukning sem varð á framlagi úr ríkissjóði til RÚV vegna verðbreytinga milli ára. Styrkirnir eru með öðrum orðum svo lágir að þeir skipta ekki neinu lykilmáli fyrir rekstur frjálsra fjölmiðla, þótt þeir gagnist þeim sem eru í vexti ágætlega við að þróast og stækka.
Styrkjakerfi auka fjölmiðlafrelsi
Í öðru lagi er löng hefð fyrir mun umsvifameiri styrkjakerfum vegna fréttaþjónustu á hinum Norðurlöndunum. Þar stunduðu menn með flautugetu lengi það að blístra sama lag og Magnús.
Engin starfsmaður eða sölustjóri frá Símanum var viðstaddur málþingið.
Síminn var ríkisfyrirtæki í eina öld
Síminn var ríkisfyrirtæki frá 1906 til 2005, eða í 99 ár. Innviðir þess voru byggðir upp fyrir opinbert fé allan þann tíma. Á meðal þeirra innviða er hluti þess fjarskiptakerfis sem var inni í Mílu, sem Síminn seldi nýverið til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða króna.
Stjórnendur Símans eru á fullu við að dæla peningum út úr félaginu til hluthafa. Í fyrra skiluðu þeir 8,5 milljörðum út til þeirra. Ef salan á Ardian verður samþykkt af samkeppnisyfirvöldum munu hluthafar ugglaust getað hugsað til þess að jafnvel tugmilljarðagreiðslur bíði þeirra. Byggt á sölu á innviðum út úr fyrirtæki sem var ríkisfyrirtæki í 85 prósent af þeim tíma sem það hefur verið til. Varla heldur Magnús því fram að ekkert af þessum verðmætum sem nú er verið að selja, og greiða til hluthafa, hafi orðið til vegna aðkomu og fjárfestinga ríkissjóðs á þeirri tæpu öld sem Síminn var í opinberri eigu?
Magnús þyrfti líka að svara hversu stóra upphæð þurfi úr opinberum sjóðum til að segja sig til sveitar og hvort það séu bara stuðningsgreiðslur við fréttamiðla sem séu sóun á opinberu fé. Það þarf nefnilega að skoða hvar hann situr og setja framsetta gagnrýni hans í samhengi við það.
Líkt og minnst var á hér að ofan er margt fleira endurgreitt úr opinberum sjóðum hérlendis en vinna blaðamanna á ritstjórnum fréttamiðla. Til dæmis framleiðsla sjónvarpsefnis.
Þær tölur eru opinberar og auðvelt er að leggja þær saman.
Sjónvarpsefni er niðurgreitt af skattgreiðendum
Íslenskt efni sem sýnt er í Sjónvarpi Símans, og öðrum íslenskum sjónvarpsstöðvum, er það sem dregur flesta áskrifendur og auglýsendur þeirra að. Sjónvarpsstöðvarnar kaupa annað hvort sýningaréttinn af þessu efni eða eru meðframleiðendur þess, svona svipað og að á ritstjórn fréttafjölmiðils eru annars vegar verktakar sem selja efnið sitt til birtingar eða launafólk sem vinnur það í meðframleiðslu við ritstjóra.
Íslenskt sjónvarpsefni er flest niðurgreitt úr ríkissjóði, úr vasa skattgreiðenda. Annars vegar með framleiðslu- og þróunarstyrkjum. Og hins vegar endurgreiðslum á framleiðslukostnaði vegna kvikmynda- eða sjónvarpsþáttagerðar. Ekki er þó um eiginlega endurgreiðslur að ræða. Framleiðslukostnaður greiðist ekki beint til ríkisins og því ekkert beinlínis fyrir ríkið að endurgreiða.
Endurgreiðslur er bara fínt orð sem sett var inn í lögin svo hreintrúuðu kapítalistarnir sem segja sig til sveitar með því að taka við ríkisstyrkjum geti sannfært sig um að þetta sé eitthvað annað. Þetta er styrkur. Gjöf.
Er milljarður í ríkisstyrki ekki að segja sig til sveitar?
Sú greiðsla er 25 prósent af öllum kostnaði sem fellur til við framleiðslu verkefnisins, og væntingar eru til þess að hún verði hækkuð upp í 35 prósent á þessu kjörtímabili.
Samtals hefur ríkið því niðurgreitt sjónvarpsefni sem hefur verið sýnt í Sjónvarpi Símans fyrir 1.137 milljónir króna frá árinu 2017.
Það á að styðja við íslenska framleiðslu
Ríkisstyrkir til allrar kvikmynda- og sjónvarsþáttaframleiðslu á Íslandi hlaupa alls á milljörðum króna. Þeir mynda grunninn að því að við njótum fjölbreyttrar og skemmtilegrar dagskrárgerðar hérlendis á okkar eigin tungumáli. Bókaútgáfa er niðurgreidd með ríkisfé og það er tónlistarframleiðsla líka. Ofan á þetta allt leggjast svo listamannalaun.
Þess utan fá ýmsir sem búa til tölvuleiki eða ýmiskonar öpp hlutdeild í næstum tólf milljarða króna styrkjum sem árlega eru greiddir úr ríkissjóði í rannsóknir og þróun.
Ofangreint er allt niðurgreiðsla á framleiðslu á efni. Alveg eins og fréttavinnsla, þótt sú framleiðsla sé öðruvísi vegna þess að hún hefur ekki einungis afþreyingar- eða þjónustugildi. Hún hefur mikið lýðræðislegt og samfélagslegt gildi.
Allt er þetta gott og vel. Ríkið á að leika hlutverk við að laga markaðsbresti, auka samkeppni, þroska atvinnuvegi og stuðla að fjölbreytni. Þá er sérstaklega verðugt að leggja fé í að viðhalda íslenskri tungu og efla íslenska menningu.
Vilja ekki gefa öðrum bita af ríkisstyrkjatertunni
Af einhverjum ástæðum sér sölustjóri Símans, sem byggir stóran hluta fjölmiðlastarfsemi sinnar á því að sýna efni sem er ríkisstyrkt, tilefni til að taka fréttaþjónustu út fyrir sviga í þessu samhengi. Allir ríkisstyrkirnir sem fara í að búa til afþreyingu sem Síminn hagnast svo á að sýna eru í lagi, en stuðningur við fréttamennsku er sóun á opinberu fé og ógn við lýðræðið samkvæmt honum. Með því að þiggja styrkina eru hinir miðlanir að „segja sig til sveitar“. Allt án þess að vísa í eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings.
Allt viti borið fólk sér hrópandi mótsögnina í þessari lötu framsetningu og að tilgangur hennar er tær sérhagsmunagæsla, ekki einhver hugmyndafræðilegur hreinleiki eða lýðræðisást. Magnús og félagar sitja við ríkisstyrkjaborðið og raða í sig tertusneiðum en hvæsa á aðra sem nálgast það. Í stað þess að mæta næringarskorti hinna vilja Magnús og félaga að bökuð sé stærri terta fyrir þá.
En mergurinn málsins er sá að það er ákaflega lýðræðislega mikilvægt að styðja við rekstrarumhverfi fréttaþjónustu á Íslandi og þess vegna þarf að bregðast við ofangreindum markaðsbresti fjölmiðla með margháttuðum hætti. Þannig nálgast öll önnur Norðurlönd þessa stöðu.
Fullyrðing Magnúsar Ragnarssonar um að lýðræðinu stafi hætta af styrkjum til þeirra sem reki fréttaþjónustu hittir því sjálfa sig fyrir. Þvert á móti sýnir reynslan frá nágrannalöndum okkar að lýðræðið styrkist og aðhaldið eykst.
Færa má sterk rök fyrir því að mun meiri lýðræðisógn felist í hræsninni, hrokanum, frekjunni, yfirlætinu og sérhagsmunagæslunni í Magnúsi Ragnarssyni og vinum hans hjá Símanum en af styrkjakerfi til að mæta markaðsbresti í rekstrarumhverfi fjölmiðla. Enn sem komið er eru þeir þó að vinna.
Á meðan svo er þarf almenningur að sjá um þetta. Hann er hvattur til að styðja við frjálsa fréttafjölmiðlun hvar sem hún birtist. Það borgar nefnilega alltaf einhver á endanum fyrir fréttir.