Í vikunni sauð uppúr á alþjóðlegu ráðstefnunni um líffræðilegan fjölbreytileika: COP15. Kom ekki á óvart að rifist var um peninga. Peninga til hvers? Að vernda það sem við höfum ekki drepið nú þegar í vistkerfum jarðar og endurheimta það sem mikilvægt er. Þessi deila er bergmál frá loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi þar sem á endanum náðist eins konar samkomulag um að þeir sem mengað hefðu mest af loftslagi, sameiginlegri auðlind lífs á jörðinni, og valdið tjóni með hlýnun jarðar, yrðu að bæta tjónið.
Það er sem sagt komið að skuldadögum. En hver eru rökin og hvert er samhengið?
Sögulega samhengið
Líklega átta sig flestir á því að þeir sem fyrstir voru til að iðnvæðast hafa spúð út mestu af gróðurhúsalofttegundum í sögulegu samhengi. Lýsingar á kolareyknum yfir rísandi stórborgum Englands á 19. öld eru ekki félegar. Þá þegar voru menn byrjaðir að spá því að hlýnun loftslags yrði óhjákvæmileg en mörgum fannst það ekki sem verst, það yrði bara hlýrra og notalegra á norðlægum slóðum.
Þá sáu menn ekki annað en að andrúmsloftið væri óþrjótandi auðlind. Nú vitum við (99,99% vísindamanna telja svo) að ekki er hægt endalaust að dæla út CO2 og öðrum gróðurhúsalofttegundum. Og að andrúmsloftið er sameiginleg auðlind alls sem lífsanda dregur. Ekki bara manna. Það eitt og sér er ný vídd í umræðunni og snertir rifrildið um að verja líffræðilegan fjölbreytileika.
Skoðum sögulega losun eins og hún er sýnd í World data. Fjögur ríki eru ábyrg fyrir helmingi af allri losun í sögunni, Bandaríkin, Kína, Rússland og Þýskaland. Og svo kemur fjöldi iðnvæddra ríkja með nánast allan afganginn. Heimild: Our world in data
Í bókinni minni Heimurinn eins og hann er set ég þessa þróun í beint samhengi við nýlendustefnuna og segi:
Söguleg losun gróðurhúsaefna skiptist svona:
Hnattræna norðrið: 92%.
Hnattræna suðrið: 8%.
Andrúmsloftið er hin nýja nýlenda.Tuttugu ríkustu menn heims losa 8.000 sinnum meiri mengun en milljarður manna á botninum.”
Þetta síðasta er mikilvægt. Þótt talað sé um samninga ríkja á alþjóðlegum vettvangi eru breyturnar innan ríkja ekki síður mikilvægar: Misskipting auðs og valda. Á vorum dögum hafa ógnarlegir peningatankar þeirri ofurríku ekkert ríkisfang. Þeir eru ofan og utan við þetta sem við köllum daglegt streð við að bjarga heiminum. Hugtakið skúffufyrirtæki fær nýja merkingu Það eru hreint ekki allir á því að almennir skattgreiðendur eigi að gera upp reikningana þegar þeir örfáu og ofurríku valda mestu tjóni utan við samfélagssáttmála. Þetta eru einnig rökin fyrir skuldadögum.
Hröðunin mikla
Meira kemur til. Stór hluti af þessari sögulega losun gróðurhúsalofttegunda gerðist á undraskömmum tíma. Frá því að ég var framlínumaður í hinu nýja neyslusamfélagi á Íslandi og sendill í Vogahverfi, fjórfaldaðist heimshagkerfið, matvælaframleiðsla jókst um 300% og mannfjöldinn á jörðunni fór úr 2,3 milljörðum í átta. Enda sést það á línuritinu frá Our world in data.
Losunin þýtur upp eins og flugeldur á gamlárskvöldi. Og nú sést að æ fleiri taka sér hlutdeild í losuninni og samhengið við hrun vistkerfanna er alveg ljóst: Um leið og örin þýtur upp kringum 1950-1960 og æ hraðar fram á okkar daga hopar allt villt líf. Niðurstaðan er að 70% af dýrum og plöntum sem við þekkjum í daglegu tali hafa týnt tölunni. Ein milljón tegunda af átta á jörðinni er í útrýmingarhættu. En fleira kemur til og flækir málið frekar. Ég lýsi því í bók minni og tek inn nýja breytu, sem er Velsældarvísitala Sameinuðu þjóðanna (Human development index):
Þar á að sýna velsæld í víðu samhengi, ekki bara hagsæld heldur einnig félagsauð og framfarir – og samhengið er alveg ljóst. Þau ríki sem hæst skora í velsæld skora líka hæst í sjálftöku jarðlegra gæða. Beint samhengi er á milli þess að blása út gróðurhúsalofttegundum og koma vel út á velsældarvísitölunni. Hið sama á við um önnur eyðingaröfl sem ógna mannkyni og vistkerfum. Þetta er fegurðin í framförunum og feigðin samtvinnaðar.
Þessari þversögn má lýsa með einföldum hætti: Útblástur rýkur upp, velmegun þeirra sem menga margfaldast, vistkerfin hrynja - en þau eru undirstaða áframhaldandi velsældar.
Hið ógnarflókna samhengi
Hér er komið samhengið í rifrildinu á alþjóðlegu ráðstefnunum. Það snýst ekki bara um hver á að borga hverjum og hve mikið. Það snýst að hluta til um hver á ennþá inni mengunarkvóta á sameiginlegum reikningi í loftslaginu. (Indland ætlar sér svo sannarlega ekki minni hlut en Kína, sem myndi eitt og útaf fyrir sig steypa öllum áformum um samdrátt á hvolf). Og munum að Afríka í heild, næstum 20% mannkyns, hefur bara blásið út 4% af loftslagstegundum. Eitthvað eiga hún inni? Og svo eru það vistkerfin. Ef á í alvöru að bjarga vistkerfum eins og regnskógunum, sem eru svo sannarlega heildarhagsmunir mannkyns, eiga þá Brasilía, Indónesía og fleiri lönd að blæða fyrir oftöku annarra að taka efnahagslegan ,,skell” af vernd? Ekki finnst þeim það. Og hvað með okkur litla eyþjóð norður í ballarhafi við ystu mörk? Hlýnun á norðurslóðum er fjórfalt meiri en að meðaltali í heiminum. Hafið sem umlykur litla Ísland súrnar æ meira og ógnar auðlindum okkar - ekkert snýr því við nema ALLIR dragi úr losun CO2.
Bótasjóður á bótasjóð ofan?
Hugmyndir um nýjan bótasjóð verða til. Og úr því að við minnumst á skell. Nú gerðist það í fyrsta sinn frá mælingum að Velsældarvísitala mannkyns tók dýfu og lækkaði. Sem þýðir bara eitt: Greiðsluvilji þeirra ríku minnkar og var nóg komið: Stríð, plága og mesta matvælakreppa í 70 ár.
Stefán Jón Hafstein er höfundur bókarinnar Heimurinn eins og hann er og hefur unnið upp úr henni greinaflokk fyrir Kjarnann í samhengi við alþjóðlega viðburði síðustu vikna:
Orsakir fyrir hruni vistkerfanna
Á öskuhaugum samtímasögunnar