Ofbeldi gegn konum á sér ekki einungis griðastað í íþróttum. Við kjósum ofbeldismenn á þing, kaupum tónlistina þeirra og störfum fyrir þá víða í atvinnulífinu. Við hlæjum að bröndurunum þeirra því þeir þora að tala tandurhreina íslensku, og við stöndum með þeim því þeir eru hressir og skemmtilegir menn. Það þýðir þó ekki að draga dulu yfir það að hefðbundnar hugmyndir um karlmennsku eitra íþróttir fyrir öllum sem að þeim koma. Þar á meðal körlum.
Eitruð karlmennska elur af sér eitraða íþróttamanninn (toxic jock). Í bandarískum háskólum eru íþróttamenn sem keppa á vegum skólanna einungis 3.7% af körlum sem stunda þar nám, en þeir eru meintir gerendur í 19% af kvörtunum sem skólayfirvöldum berast vegna kynferðisofbeldis. Þar af má rekja 67% að íþróttamönnum í hópíþróttum, þótt þeir séu einungis 30% af körlum sem keppa fyrir hönd skólanna.
Víða hafa rannsóknir sýnt að margir þjálfarar í hópíþróttum byggja hópefli sitt að miklu leyti á orðræðu stríðs og átaka, kynferðis og kynhneigðar til að stuðla að árásarhneigð, með það að markmiði að ýta undir árangur. Það er augljóst hversu slæm áhrif þetta hefur á konur í umhverfi íþrótta en það sem margir eiga erfitt með að viðurkenna er hversu illa þetta fer með karlmennina sjálfa. Því ofbeldið er svo innbyggt í kúltúrinn að ef það er yfirhöfuð sjáanlegt, þá er forðast að taka á því til að auka ekki á það.
Partur af leiknum
Við karlmenn mótum stigveldi í kringum íþróttaiðkun í menningu okkar. Þeir sem falla neðarlega eða utan píramídans gjalda fyrir það tilfinningalega, félagslega og líkamlega. Nær enginn karlmaður, háttsettur eða lágtsettur sleppur undan einhverri tegund ofbeldis. Oftast er það útskýrt sem „partur af leiknum“.
Þeir sem eru ofarlega í píramídanum sleppa ekki heldur. Í hópíþróttum sérstaklega er mikil pressa á að verða samdauna menningunni. Góðu hlutum hennar og þeim slæmu. Þeir sem vita betur láta undan, þar sem þeir óttast að missa pláss, stöðu, upphefð og atvinnu. Afreksíþróttamenn eru ekki ónæmir fyrir kvíða og þunglyndi, eða öðrum kvillum eins og átröskun og vímuefnaneyslu. Þvert á móti eru þeir jafnvel útsettari fyrir þeim. Til að mynda út af banterinum sem er hannaður til að niðurlægja.
Þetta getur breyst
Góðu fréttirnar eru að rannsóknir í Bandaríkjunum hafa reynt að kanna hvort viðhorf ungs íþróttafólks samsvari staðalímyndum eitraða íþróttamannsins. Sumar gefa til kynna að ungir karlmenn vita betur. Sérstaklega þegar þeir þurfa bara að eiga skoðanir sínar við spurningakönnun. Vandinn blossar upp þar sem menningin er eitruð og það er erfitt að synda gegn straumnum. Eðlilega mátar íþróttafólk á öllum tímum sig við menninguna sem er til staðar í sínu umhverfi.
Þó eru ástæður til að leyfa sér bjartsýni. Ungt fólk á Íslandi hefur náð að breyta stórum hlutum sem þóttu sjálfsagðir fyrir ekki svo löngu. Við vitum öll og finnum hvernig áfengis-og vímuefnaneysla unglinga hefur til að mynda farið úr því að vera mjög algeng yfir í að þykja óeðlileg á stuttum tíma. Það er góð vísbending um að ungt fólk þarf ekki að taka við kynslóðatráma foreldra sinna í arf. Það getur afþakkað skömm og kvilla sem hafa þjakað forfeður sína, eins og ungar konur hafa verið að gera undanfarin ár á framúrskarandi hátt. Sé hlustað má einnig vel greina undiröldu meðal ungra karlmanna sem hafa fengið nóg. Þegar slíkt gerist er auðvitað viðbúið að skrímsli fortíðar rísi upp á afturendann. En það er nú þannig að þau þrífast illa í nútímanum.
Pabbinn
Þjálfarar hafa gríðarlega mótandi áhrif á ungt fólk. Góðir þjálfarar geta bókstaflega bjargað lífum. Í þjálfaramenntun og íþróttasálfræði hafa fræðin öll borið á sama stað niður undanfarin ár. Að minna þjálfara á uppeldishlutverk sitt og aðgæsluskyldu. Að líta ekki á íþróttamanninn sem leið að markmiði heldur markmiðið sjálft, með heildrænni hæfileikamótun. Nútímaviðhorfum til þjálfunar.
En það eru þó aðrir aðilar sem hafa langmestu áhrifin. Það eru foreldrar. Gagnvart ungum karlmönnum í íþróttum er sú hegðun, virðing og framkoma sem þeir sýna að miklu leyti háð samþykki þeirra. Foreldrar höfðu mikil jákvæð áhrif á breytingar á lífstíl unglinga, og þeir munu hafa allt um það að segja hvaða viðhorf synir þeirra hafa til kvenna og ofbeldis. Sérstaklega pabbinn, sem þeir reyna sífellt að spegla sig í. Hann þarf að kenna að íþróttir eru mikilvægar, en konur eru mikilvægari.
Af hverju eru börn í íþróttum?
Þegar börn og unglingar eru spurð að því hvers vegna þau eru í íþróttum eru helstu svörin, félagsskapurinn, að þeim þyki þær skemmtilegar og að þau vilji ná árangri. Foreldrar segja að þau vilji að krakkarnir sínir læri samvinnu, kunni að setja sér markmið, geti tekist á við mótlæti og læri nýja hæfni.
Aðspurðir segja þjálfarar nær undantekningarlaust að helsti kosturinn sem þeir leiti að í ungu fólki sé karakter. Það er loðið hugtak en þýðir þó líklega oftast að sýna ástundun og dugnað, leggja sig fram og gefast ekki upp þótt á móti blási. Þetta er brot af ýmsu sem er kallað hugarfarsstyrkur. Á honum eru hinsvegar til dökkar hliðar þar sem er farið yfir mörk þess sem telst gott og eðlilegt líkamlega og andlega. Hvar annars staðar en í íþróttum er til dæmis fólki hrósað fyrir alvöru karakter að fá ítrekað heilahristing í vinnunni og halda bara áfram eins og ekkert sé? Á dökku hliðinni er einnig verðlaunað fyrir meðal annars einelti, hópþrýsting, hlýðni við einræði og ofbeldi.
Mikki Mús má bíta
Við afsökum íþróttamenn sem skara framúr því þeir skipa svipaðan sess í samfélagi okkar og Mikki Mús. Þeir gera hið ómögulega mögulegt og skemmta okkur um leið. Yfir þeim er heillandi ævintýraljómi, sérstaklega fyrir börn sem klæðast búningum eins og Spider Man, Anna í Frozen og íþróttafólk. Nú skal ekki fullyrt um hvort Mikki Mús sé flekklaus, en ef hann væri í Liverpool mætti hann bíta fólk og ef hann væri í Manchester United væri ekki spurt að því af hverju hann kæmi ekki með til Bandaríkjanna.
Heimildir um eitraða karlmennsku og ofbeldi í íþróttum má meðal annars finna í mörgum rannsóknum Dr. Eric Anderson frá Háskólanum í Winchester.
Höfundur er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, yfirmaður knattspyrnuþróunnar í HK og doktorsnemi í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.