Í aldanna rás hafa íslenskar þjóðsögur og munnmælasögur verið sagðar fólki til skemmtunar. Þjóðsögurnar voru uppfullar af kynjaverum sem stundum voru notaðar til að útskýra hin ýmsu fyrirbæri náttúrunnar sem fólk átti erfitt með að skýra út með öðrum hætti.
Þannig voru jarðskjálftar arkandi tröllkarlar og kynlegir klettar á borð við Reynisdranga steingerðar tröllskessur sem stirðnuðu þegar sólin gægðist yfir sjóndeildarhringinn.
En Ísland er ekki eina landið þar sem náttúrufyrirbæri voru skýrð með yfirnáttúrulegum verum. Á Havaíeyjum í Kyrrahafi eru eldgos afar tíð og þar trúðu frumbyggjar eyjanna á eldfjallagyðjuna Pele. Öfugt við það sem margir hefðu haldið var þessi gyðja elds og eldgosa ekki táknmynd eyðileggingar heldur sköpunar þar sem hún var ábyrg fyrir stöðugri sköpun nýs lands á eyjaklasanum.
Pele var því dýrkuð og dáð af eyjaskeggjum en aðdáunin var óttablandin því Pele var einnig ástríðufull og skapmikil og átti til að skeyta skapi sínu á nærstadda. Og merkilegt nokk, þá skírðu frumbyggjar Havaí ýmis eldfjallafyrirbæri eftir hinni máttugu eldfjallagyðju og má þar nefna hár Pele og tár Pele.
Nornahár
Hár Pele (e. Pele‘s hair) eru örfínir hraunþræðir sem finnast afar sjaldan í náttúrunni. Þessi hárfínu þræðir, sem á íslensku kallast nornahár, myndast í hraunflæðigosum þegar þunnfljótandi basaltkvika þeytist upp úr gígnum, splundrast og fýkur með vindinum (eða fram af brún) og dregst út í örfína þræði, um 0,0001-0,01 mm í þvermál. Erfitt er að meta lengd nornahára enda eru þau afar brothætt og viðkvæm og molna fljótt. Af þeim sökum þykir jarð- og eldfjallafræðingum yfirleitt mikið til þess koma þegar þeir finna nornahár.
Nornatár
Tár Pele (e. Pele‘s tears), sem á íslensku nefnast nornatár, eru hraundropar sem stundum myndast í öðrum enda nornaháranna. Nornatárn eru enn sjaldgæfari en nornahár en hins vegar ekki jafn viðkvæm og því finnast þau stundum ein og sér þó nornahárin hafi þegar veðrast og molnað.
Merkilegt nokk hafa nornahár fundist í námunda við gosið á Fagradalsfjalli. Þau eiga það til að fjúka um alllangan veg frá gígbörmunum og því hvetjum við fólk til að hafa augun opin þegar gengið er upp að og í kringum gosstöðvarnar. Hver veit nema þú getir orðið heppinn eigandi nornahárs úr Fagradalshrauni. Og ef það bregst er alltaf hægt að komast í tæri við nornahár og nornatár hjá Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.