Fyrir rúmri viku voru frétta- og tökumenn hindraðir við störf þar sem þeir vildu greina, og sýna, frá því þegar stoðdeild lögreglustjóra flutti 15 umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi og til Aþenu í Grikklandi með leiguflugi. Í aðgerðunum keyrðu fjögur ökutæki í átt að fjölmiðlafólki og beindi kösturum að þeim, þar sem það var statt fyrir utan flugvallarsvæðið. Í næturmyrkri hafði það þær afleiðingar að ómögulegt var að sjá hvað fór fram á flugbrautinni.
Þegar frétta- og tökumenn færði sig til að losna undan þessu, þá voru ökutækin einfaldlega færð líka. Til að tryggja að það sem fram fór, fréttnæmur atburður sem átti mikið erindi við almenning, gæti ekki sést.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, orðaði alvarleika þessarar aðferða ágætlega í bréfi sem hann sendi til Ríkislögreglustjóra í kjölfar atburðanna þegar hann spurði: „Hvernig skilgreinir þú ríki þar sem lögregla beitir aðferðum sem þessum til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar sinni sínu lýðræðislega hlutverki, nefnilega fréttaflutningi og eðlilegu aðhaldi við stjórnvöld?“
Isavia svaraði fyrirspurn fréttastofu RÚV á fimmtudagsmorgun fyrir viku á þann veg að hefðbundnu verklagi hefði verið beitt þegar vart yrði mannaferða við flugvöllinn. Isavia dró síðan það svar tilbaka og sendi þess í stað frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að starfsfólk Isavia á svæðinu hafi fylgt fyrirmælum lögreglu á meðan að á aðgerðinni stóð. „Meðal þess sem lögregla fór fram á var að komið yrði í veg fyrir myndatökur af lögregluaðgerðinni. Það er ekki hlutverk starfsfólks öryggisgæslu flugvallarins að meta lögmæti fyrirmælanna, lögmæti þeirra eru á ábyrgð lögreglu.“
Frá þessari yfirlýsingu sögðu allir helstu fréttamiðlar landsins. Enda ríkisfyrirtæki að fullyrða um málavexti.
Þetta var engum að kenna
Á miðvikudag barst svo sameiginleg yfirlýsing frá embætti ríkislögreglustjóra og Isavia, sem var andstæð fyrri fullyrðingum. Í henni sagði að enginn hafi ætlað að hefta störf fjölmiðla. „Við yfirferð á framkvæmd aðgerðarinnar kom hins vegar í ljós að tilmæli voru ekki nægilega skýr og harma báðir aðilar að svo hafi verið. Ákveðið var á fundi fulltrúa embættis Ríkislögreglustjóra og Isavia í dag að taka ferli og verklag í aðgerðum af þessu tagi til gagngerrar endurskoðunar til að fyrirbyggja óskýrleika á vettvangi. Sú vinna mun hefjast nú þegar.“
Það ber enginn ábyrgð á ákvörðuninni
Á fimmtudagsmorgun fór fram fundur Blaðamannafélags Íslands með þremur stjórnendum hjá embætti ríkislögreglustjóra. Auk Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra voru þar samskiptastjóri og yfirlögfræðingur, sem kom að skipulagningu brottflutnings fólksins og fór sjálfur með leiguvélinni til Grikklands. Salurinn var þéttsetinn af blaðamönnum, ljósmyndurum og tökumönnum. Reglur fundarins voru þær að það mætti fjalla efnislega um það sem fram kom á honum en ekki hafa neitt beint eftir þeim sem sátu fyrir svörum. Það verður virt.
Á fundinum kom fram að lögreglan hefði beðið um að það yrði útbúið svæði á flugvellinum þar sem fólkið sem verið var að flytja úr landi gegn sínum vilja gæti til dæmis reykt eða farið á salernið í næði, og án þess að til þess sæist. Þessu var náð fram með því að leggja stóru ökutæki fyrir framan ákveðið svæði. Óumdeilt er að þessi beiðni barst munnlega, og henni var sinnt.
Í kjölfarið, þegar verið er að flytja fólkið um borð í vélina, var flóðljósunum svo beint að fjölmiðlum. Á fundinum á fimmtudag var fullyrt að ekkert hefði komið fram sem sýndi að embætti ríkislögreglustjóra eða lögreglan á Suðurnesjum hefði gefið skipun um að gera slíkt. Leitað hefði verið eftir því að funda með Isavia strax í lok síðustu viku en sá fundur hefði ekki fengist fyrr en á miðvikudag. Og niðurstaða hans virðist vera sú að enginn hafi tekið umrædda ákvörðun.
Sú niðurstaða var soðin saman í áðurnefnda sameiginlega yfirlýsinga ríkisfyrirtækis og lögregluembættis sem send var út eftir fundinn. Þar var því haldið fram að enginn beri ábyrgð á því að hafa veist að fjölmiðlafrelsinu með þessum hætti. Isavia hefur neitað að svara spurningum Kjarnans um ábyrgð á ákvörðunartöku eftir að lögreglan sór hafa af sér.
Þannig var þjóðaríþróttin ábyrgðarleysi valdhafa á teknum ákvörðunum, sem tröllriðið hefur íslenskum stjórnmálum síðastliðin ár, yfirfærð á atburðina á Keflavíkurflugvelli.
Ferlar sem gera störf fjölmiðla erfiðari
Þeir starfsmenn fjölmiðla sem oftast eru á vettvangi aðstæðna sem lögregla stýrir eru ljósmyndarar og tökumenn. Formaður Blaðaljósmyndarafélagsins flutti áhrifaríkt erindi á fundinum með starfsmönnum ríkislögreglustjóra á fimmtudag þar sem hann lýsti því hvernig samskipti þeirra við lögreglu hefðu versnað á undanförnum árum.
Þar ræddi hann meðal annars þá breytingu sem gerð var fyrir nokkrum árum þar sem fjölmiðlafólki var gert að klæðast sérstökum gulum vestum á vettvangi, sem áttu að veita þeim betri aðgang að vettvangi en almennum borgurum til að skrásetja mikilvæga samfélagslega atburði. Það hafi ekki orðið raunin og þess í stað eru vestin frekar notuð til að auðkenna fjölmiðlamenn svo hægt sé að bregða fyrir þá fæti í starfi. Listinn yfir umkvörtunarefni í samskiptum þeirra við lögreglu á vettvangi var mun lengri.
Niðurstaða fundarins var að reyna að koma þessum málum í betri farveg. Það breytir því þó ekki í hvaða farvegi þau eru nú. Farvegi sem flóðljósalýsingin endurspeglar fullkomlega.
Kerfisbundin veiking fjölmiðla
Sá farvegur er að stjórnkerfið, ráðamenn og stofnanirnar sem þeir ráða yfir, vinna kerfisbundið, meðvitað og ómeðvitað, að því á hverjum degi að veikja stöðu íslenska fjölmiðla. Það gera íslenskir stjórnmálamenn með aðgerðarleysi vegna rekstrarumhverfis fjölmiðla árum saman, sem leitt hefur af sér fordæmalausan spekileka úr greininni og tugprósenta fækkum starfandi fjölmiðlafólks á örfáum árum. Með aðgerðarleysi gagnvart því að sérhagsmunaöfl með milljarða króna til að eyða í að sópa til sín tökum á umræðunni dæla þeim í ósjálfbær fjölmiðlafyrirtæki til að verja sína hagsmuni. Það gera sumir ráðamenn með því að tala sífellt niður fjölmiðla og nafngreint fjölmiðlafólk, grafa undan þeim eða styðja opinberlega valdníðslu í þeirra garð. Aðrir eiga hlutdeild í vandanum með því að þegja þegar þeir eiga að standa upp fyrir lýðræðinu og fjölmiðlafrelsinu.
Þegar við bætist sú yfirburðastaða sem hagsmunagæsluöflin í Borgartúninu eru í gagnvart fjölmiðlum, í krafti stóraukins starfsmannafjölda og járausturs, er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að geta fjölmiðla til að sinna lýðræðislegu aðhaldshlutverki sínu er á miklu undanhaldi.
Aðgerðarleysi er val
Íslenskir fjölmiðlar eru fjarri því að vera fullkomnir. Þeir gera mistök eins og aðrir og þau mistök njóta þeirrar sérstöðu umfram flestar aðrar stéttir að þau eru fyrir augum allra samstundis eftir að þau eru gerð. Með flótta reynslumikilla blaðamanna úr stéttinni yfir í upplýsingamiðlun og ímyndaþróun fyrir stjórnvöld og aðra valdhafa aukast líkurnar á slíkum mistökum. Samhliða dregur úr getunni til að fjalla um allt það sem þarf að fjalla um.
Í vestrænu lýðræðisríki, sem tekur aðhaldshlutverk frjálsra fjölmiðla alvarlega, verður hins vegar að ganga út frá því að fjölmiðlar séu að uppistöðu að vinna af heilindum. Til þess verða þeir að hafa ráðrúm til að ákveða sjálfir hvað sé fréttnæmt og eigi erindi við almenning. Taki þeir rangar ákvarðanir um það eru siðanefndar- og einkamálafarvegir til staðar til að láta þá axla ábyrgð á mistökum sínum.
Enginn vafi er á að þetta ráðrúm er verið að skerða.
Ráðamenn virðast þó ekki sjá hlutina þeim augum. „Alþingi hefur viljað styrkja réttarstöðu fjölmiðla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi 22. september síðastliðinn. Þar sagðist hún hafa látið „verkin tala þegar skoðað er til dæmis þau lagaákvæði sem vitnað er til í þessari umræðu um vernd heimildarmanna“ og staðið að ákvæði sem komu árið 2011 inn í lög um fjölmiðla „þar sem réttarstaða blaðamanna var bætt verulega.“
Það má vel vera að hér hafi verið gripið til réttarstöðubóta fyrir fjölmiðla og blaðamenn í orði, en það sem er að eiga sér stað sýnir að það er svo sannarlega ekki þannig á borði.
Staða íslenskra fjölmiðla er að öllu leyti mun veikari í dag en þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum haustið 2017. Ekki hefur verið brugðist við augljósum markaðsbresti vegna ríkisreksturs og tekjuhirðingar alþjóðlegra samfélagsmiðla sem greiða ekki skatta á Íslandi, samkeppnisbjögun vegna uppihalds auðmanna á ósjálfbærum fjölmiðlafyrirtækjum í milljarða taprekstri og sívaxandi aðstöðumun fjölmiðla gagnvart þeim sem þeir eiga að veita aðhald. Fyrir vikið hefur Ísland hrunið niður alþjóðlega lista yfir fjölmiðlafrelsi.
Fjölmiðlar blindaðir til að blinda aðhald
Fjármunir sem settir hafa verið í að styðja við einkarekna fjölmiðla eru brotabrot af þeirri upphæð sem hefur verið sett í að styrkja tök valdaafla á umræðunni. Vernd heimildarmanna hefur ekki verið styrkt meira en svo að lögreglu þykir tilhlýðilegt að kalla blaðamenn til yfirheyrslu til að reyna að komast að því hverjir heimildarmenn þeirra séu, þrátt fyrir að það sé ólöglegt fyrir blaðamenn að gefa það upp.
Það er gert á grundvelli meintra brota á ákvæðum laga sem bætt var við hegningarlög í fyrra með þeim lagaskýringum að ákvæðunum skyldi ekki beitt gegn blaðamönnum fyrir að taka við gögnum sem eiga erindi við almenning.
Tilhneiging valdsins til að halda upplýsingum sem varða almannahagsmuni frá fjölmiðlum, með skipulögðum tafaraðgerðum og leyndarhyggju, hefur aldrei verið meiri en nú á tæplega tveggja áratuga löngum blaðamennskuferli þess sem hér skrifar.
Fyrir rúmlega viku var raunverulegum flóðljósum beint að fjölmiðlum til að blinda þá svo þeir gætu ekki sagt fréttir, eða sýnt frá fréttnæmum atburðum. Ofangreind upptalning sýnir svart á hvítu að þótt þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt gerist bókstaflega þá hafa yfirvöld verið að notast við ýmsar aðrar birtingarmyndir slíkra flóðljósa við að hindra fjölmiðla í störfum sínum árum saman, að því er virðist til að fría sig ábyrgð og aðhaldi.
Afleiðingin er að myndin sem almenningur fær verður brotakenndari. Og lýðræðið stendur veikara eftir.
Það er því eðlilegt að spyrja aftur þeirrar spurningar sem fréttastjóri RÚV spurði í bréfi til ríkislögreglustjóra fyrir rúmri viku, og vísað var til hér að ofan, en víkka hana út. Hvernig skilgreinum við ríki þar sem valdhafar beita aðferðum sem þessum til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar sinni sínu lýðræðislega hlutverki, nefnilega fréttaflutningi og eðlilegu aðhaldi við stjórnvöld?
Hver má svara því fyrir sig.