Áður en ég byrja að tjá mig hér um sjómennsku fornaldar vil ég taka það fram að ég hef lítið vit og enga persónulega reynslu af henni. Ég hef aldrei verið til sjós og byggi skoðanir mínar algjörlega á lestri og samtölum við mér lærðara fólk. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér
Eins og byggð á Íslandi er landfræðilega háð skipasamgöngum þá hafa samt aldrei fundist neinar fornleifar haffærra skipa hér frá fornöld og tel ég ástæðuna þá að þau áttu aldrei neina höfn hér heldur komu hingað með réttlausan vinnulýð og sigldu tilbaka með afurðir. Upplýsingar um skipakost úr fornsögum eru takmarkaðar og óáreiðanlegar og mig grunar að margt hafi þar verið skrifað og skáldað af mönnum sem aldrei höfðu verið til sjós og þekktu nákvæmlega ekkert til siglingafræði víkingatímans enda mest af þessu skrifað af klausturmunkum sem aldrei höfðu migið í saltan sjó. Meira verðmæti finnst mér í fornleifarannsóknum á þeim skipum sem fundist hafa.
Á færi ríkra höfðingja
Hin tegundin af algengum skipum var knörr. Þau voru líka misjöfn að stærð eins og langskipin en talsvert látlausari, ristu dýpra og höfðu hærri byrðing. Byrðingur er ss. skipshlið. Þau voru styttri og breiðari en langskipin og of þung til að hægt væri að róa þeim og voru því eingöngu knúin seglum. Knerrirnir voru smíðaðir sem flutninga- og birgðaskip en ekki herskip þótt þau væru kannski oft hluti af herleiðöngrum og ránsfengurinn fór um borð í þau. Svo voru þau varin af langskipunum þegar sigld var heim með góssið í enda velheppnaðra ránsferða.
Það er líka vert að hafa í huga að það var alls ekki á færi hvers sem er að standa í skipasmíði. Það voru bara ríkir höfðingjar sem höfðu efni á slíku enda einhver mesta fjárfesting sem hægt var að ráðast í. Það var ekki nóg að smíða skipin. Það þurfti traustan mannskap til að sigla þeim, kosta viðhald og varnir gegn öðrum sem langaði í einmitt svona skip. Hvert skip hefur verið álitinn dýrgripur sem krafðist bæði umhyggju og aðhalds. Það hefur ekki kostað neina smáræðisvinnu að vefa seglin, til dæmis eða útbúa alla naglana sem fóru í eitt skip. Höfðingjar gátu átt nokkur skip en það hefur bara verið á valdi stórhöfðingja að stunda útgerð.
Í myndrænni framsetningu og þegar verið er að endurgera norræn skip sem sigldu hingað eða til Norður Ameríku er yfirleitt notast við langskip, hlaðin árum og yfirleitt skreytt skjöldum og drekahausum. Þau þykja spengilegri og flottari en hinir belgmiklu og klunnalegu knerrir. Þótt flest þessi skip séu glæsilega smíði þá finnst það frekar ósanngjarnt gagnvart knörrunum og þeirra merkilegu sögu því það er næsta öruggt að það voru þau sem gerðu mönnum kleift að sigla lengst út á og yfir Atlantshafið. Ekki langskipin.
Teslur og jeppar
Landnám, atvinnustarfsemi og iðnaður hér hefur verið grundvallaður á reglulegum skipasamgöngum. Þær siglingar hafa alfarið verið með knörrum. Að sigla hingað á langskipi frá Noregi væri svipað því og að velja sér Teslu til reglulegra ferða í Þórsmörk. Það er kannski hægt en það meikar ekki mikið sens. Jeppi er betri.
Mér finnst líka oft gert mjög lítið úr siglingakunnáttu landnámsfólksins. Því er oft haldið fram að þau hafi villst af leið og rekið hingað fyrir slysni eða hreinlega ætt út á úfið hafið í tómri fífldirfsku og hugsunarleysi. Þótt slíkt hafi kannski gerst þá held ég að það hafi heyrt til undantekninga og flestir verið með það nokkuð á hreinu hvert þeir voru að fara og hvernig þeir ætluðu að komast þangað. Í sögunum eru menn jafnvel látnir fleygja spýtnadrasli í sjóinn og sigla svo á eftir því. Ég hef enga trú á sögunni um Ingólf Arnarson sem henti öndvegissúlum sínum í sjóinn en mun ráðast sérstaklega á hann síðar. Hrafna Flóki notaði fugla til að finna land. Ég held að það sé örugglega tilbrigði við söguna af örkinni hans Nóa. Það getur verið að það hafi verið einhver dæmi um það í fornöldinni að menn hafi haft hrafna til að nota í neyðartilvikum en það byggði varla nokkur heilvita maður siglingar sínar á slíku. Svona bull er bara búið til af fólki löngu seinna sem vissi ekki betur en varð að segja eitthvað frekar en þegja. Það fólk sem stóð í siglingum hingað yfir Atlantshafið bjó yfir mikilli reynslu, vönduðum skipakosti, útsjónarsemi og flókinni siglingatækni. Þetta fólk studdist við himintunglin og ýmislegt annað. Það hafði yfir að búa þekkingu og tækni sem við skiljum ekki einu sinni fyllilega enn þann dag í dag. Þau notuðust við sólúr, reiknuðu út áttir og notuðu jafnvel silfurberg til að finna sólina þegar hún var hulin skýjum. Það var kallaður sólarsteinn.
Það hefur verið þrautþjálfaður mannskapur sem stóð í þessum siglingum en ekki einhverjir rammvilltir lúðar með spýtnadrasl og sjóveika fugla í búri.