Fyrir tæpum mánuði var seldur hlutur ríkisins í Íslandsbanka með hætti sem allt bendir til að standist ekki frekari skoðun. Um var að ræða lokað útboð með svokallaðri tilboðsleið þar sem 207 fjárfestar fengu að kaupa 22,5 prósent hlut með 2,25 milljarða króna afslætti af markaðsvirði. Hópurinn sem fékk að kaupa innihélt meðal annars starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, litla fjárfesta sem rökstuddur grunur er um að uppfylli ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlenda skammtímasjóði sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir hafa engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, aðila sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og svo auðvitað föður fjármála- og efnahagsráðherra.
Könnun sem Fréttablaðið birti í gær sýnir að 83 prósent þjóðarinnar er óánægð með söluferlið. Meginþorri þess hóps er mjög óánægður. Einungis þrjú prósent voru mjög ánægð. Enginn marktækur munur er á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða menntun. Eina sýnilega frávikið er að kjósendur Sjálfstæðisflokksins, sem mælist með rúmlega 20 prósent fylgi, eru marktækt ánægðari með söluna en kjósendur allra annarra flokka, en alls segjast 30 prósent þeirra vera sáttir en 44 prósent ósáttir.
Aðrir kjósendur eru sammála um að söluferlið hafi verið fúsk. Spillt. Óboðlegt.
Tilraun til að lækka í suðunni
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsakar nú hvort kröfum um hæfi fjárfesta hafi verið fylgt eftir af þeim fjármálafyrirtækjum sem sáu um sölu á hlut ríkisins. Þá eru til athugunar mögulegir hagsmunaárekstrar einstakra söluaðila við kaup starfsmanna eða tengdra aðila á hlutum í bankanum. Auk þess er Ríkisendurskoðun, sem er reyndar án kosins ríkisendurskoðanda, að framkvæma stjórnsýsluúttekt á söluferlinu og á að skila henni af sér í júní.
Þar komust þau að þeirri niðurstöðu að hentugasta skjólið sé í handarkrika svokallaðrar armslengdar milli þeirra sem bera pólitíska ábyrgð og stofnunarinnar sem framkvæmdi söluferlið í umboði stjórnmálamanna.
Lausnin var að leggja niður Bankasýslu ríkisins. Reyna að gera hana ábyrga fyrir klúðrinu.
Lagaleg ábyrgð er skýr
Til eru sérstök lög um Bankasýslu ríkisins. Þar eru verkefni hennar talin til. Þau eru níu talsins og snúa flest að því hvað stofnunin eigi að gera á meðan að hún fer með eignarhluti ríkisins í bönkum. Tvö síðustu snúa svo að því hvert hlutverk Bankasýslunnar er þegar selja á þá hluti. Í fyrsta lagi á hún að leggja fram tillögur til fjármála- og efnahagsráðherra um hvort og hvenær eignarhlutir í ríkisbönkum verði boðnir til sölu. Í öðru lagi á hún að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í bönkum.
Bankasýsla ríkisins tekur því engar endanlegar ákvarðanir heldur leggur fram tillögur. Það er ráðherra sem tekur ákvarðanir byggðar á þeim tillögum.
Það er staðfest í öðrum lögum, þeim sem fjalla um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í fjórðu grein þeirra segir að Bankasýsla ríkisins annist sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra. „Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“
Svo eru auðvitað stjórnsýslulög í landinu. Samkvæmt þeim ber ráðherra alltaf að leggja sjálfstætt mat á tillögu sem felur í sér stjórnvaldsákvörðun, eins og það að selja hlut í ríkisbanka. Ef ráðherra stendur ekki undir því að taka ákvörðun sína að vel ígrunduðu máli, þannig að hann hafi til dæmis kynnt sér hvort brotalamir hafi verið í framkvæmd sölunnar, þá brýtur hann gegn 10. grein stjórnsýslulaga sem fjallar um hina svokölluðu rannsóknarreglu. Þar segir að stjórnvald, í þessu tilviki fjármála- og efnahagsráðherra, skuli „sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“
Gildandi lög eru því kýrskýr: ábyrgð á sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum er hjá fjármála- og efnahagsráðherra. Engum öðrum.
Framkvæmt í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst
Líkt og rakið hefur verið áður á þessum vettvangi er það þó, að minnsta kosti enn sem komið er, pólitískur ómöguleiki að Bjarni Benediktsson axli þá ábyrgð með því að stíga frá. Tilvera ríkisstjórnarinnar hvílir á pólitísku sambandi hans við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Það var enda hún sem mætti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fjölmiðla í gær til að verja verkin. Bjarni var í vari erlendis.
Línan sem formenn stjórnarflokkanna komu sér saman um að leggja á fundi sínum á mánudag var að taka þá skyndiákvörðun að leggja niður stofnunina sem hélt utan um framkvæmdina svo það þyrfti ekki að leggja niður stjórnmálaferil þess sem bar ábyrgð á henni. Og vonast svo til að rannsóknir sem standi fram á sumarið geri það að verkum að það fenni yfir mestu óánægjuna, eða kaupi að minnsta kosti tíma til að drepa málinu frekar á dreif. Þangað til er ekki tilefni til stjórnarslita eða að ráðherra víki, samkvæmt forsætisráðherra.
Í hraðsoðnum rökstuðningi í yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna sem birt var í kjölfarið sagði að „þeir annmarkar sem í ljós hafa komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi.“ Þetta er eins loðið og það gerist.
Stjórn og starfsmenn Bankasýslunnar virðast hafa lesið um það í fjölmiðlum að störf þeirra verði lögð niður. Stjórnin, sem er öll skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra, sendi frá sér tilkynningu á þriðjudag, eftir að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar ákváðu að stofnunin yrði ekki mikið lengur til.
Þar sagði meðal annars: „Framkvæmd útboðsins fór eins fram og því hafði verið lýst af hálfu stofnunnar frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru.“
Þar sagði einnig að stjórnvöld, sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru, hafi ekki sett fram neina formlega gagnrýni á framkvæmd útboðsins.
Niðurstaða stjórnar Bankasýslunnar er því, réttilega, sú að það séu stjórnvöld sem beri ábyrgð á sölunni. Hún hafi framfylgt vilja þeirra.
Valkvæð ábyrgð
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hingað til ekki færst undan því að axla ábyrgð á sölu á hlut í Íslandsbanka ef henni fylgir jákvæð ára. Það sást til að mynda þegar hann tók við verðlaunum frá Innherja í lok síðasta árs, ásamt forstjóra Bankasýslunnar og bankastjóra Íslandsbanka, þegar fyrsti fasi sölu Íslandsbanka var útnefndur sem viðskipti ársins. Hægt er að lesa frétt um þetta á vef Sjálfstæðisflokksins hér. „Ég lagði mikla áherslu á að fá þetta í gegn og þegar við loksins tókum ákvörðun um að láta til skara skríða var tímaramminn þröngur,“ sagði Bjarni við þetta tilefni.
Nú er honum tíðrætt um að horfa þurfi á heildarmyndina, svo ekki sé horft á það sem aflaga fór. En þjóðin er að horfa á fúskið og klúðrið. Hún hefur þá skoðun að þarna hafi gæðum í almannaeigu verið úthlutað með hætti sem sé ekki boðlegur.
Traustið á bankasölunni er farið. Það verður ekki endurheimt með því að leggja niður stofnun. Það verður ekki endurheimt með því að einvörðungu hengja söluráðgjafa sem mögulega brutu lög. Það verður ekki endurheimt með því að boða óljósa endurskipulagningu á ferlum sem notaðir eru til að selja eignir almennings.
Traust verður endurheimt ef almenningur skynjar að pólitísku valdi, sem er skýrt samkvæmt lögum, fylgi ábyrgð. Ef sá sem heldur á valdinu misfer með það, hvort sem það er viljandi eða óvart, þá þarf hann að axla þá ábyrgð.
Það er einungis gert með því að víkja til hliðar.