Frá áramótum og fram til 12. maí síðastliðinn sóttu 1.487 einstaklingar um vernd á Íslandi. Langflestir eru frá Úkraínu, eða 975 talsins, en Ísland hefur opnað landamæri sín fyrir einstaklingum þaðan vegna innrásar Rússlands í landið. Sá hópur fær úthlutað dvalarleyfi hérlendis án efnismeðferðar. Það var pólitísk ákvörðun að veita þeim hópi þá meðferð með því að virkja grein útlendingalaga. Hvítir Úkraínumenn eru velkomnir. Og er það vel.
Fyrir helgi var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins að flóðbylgja brottvísana þeirra sem sótt hafa hér um vernd sé framundan. Alls telur hópurinn tæplega 300 manns. Stærstur hluti þeirra á að fara til Grikklands. Í hópnum eru meðal annars börn.
Ástæða þess er regluverk sem segir að það eigi að sækja um vernd í fyrsta landi sem stigið er fæti í innan þeirra sem tilheyra Schengen-svæðinu, sem er heppilegt fyrir ríku löndin í Evrópu sem eru ekki með landamæri að straumnum frá Miðausturlöndum eða Norður-Afríku, Grikkland og Ítalía sitja hins vegar uppi með versta vandann. Og aðstæður flóttamanna þar eru eftir því. Mannúðarsamtök, meðal annars Rauði krossinn, segja aðstæður flóttamanna, sérstaklega í Grikklandi, vera með öllu óboðlegar.
Ef flóttamenn hafa þegar hlotið vernd í þeim löndum, sendir Ísland þá aftur þangað eftir efnismeðferð hér.
Met í fjöldabrottvísun
Erfitt hefur verið að vísa fólki í burtu frá Íslandi þótt meðferð mála þeirra sé lokið með neikvæðri niðurstöðu síðustu ár, sökum kórónuveirufaraldursins. Krafa var gerð um neikvæð COVID-19 próf í þeim löndum sem vísa átti fólkinu til og þegar það neitaði einfaldlega að fara í próf var ekkert hægt að gera. Þess vegna er hópurinn sem íslensk stjórnvöld vill burt orðinn svona stór.
Sumir þeirra sem vísa á úr landi hafa dvalið hér í á þriðja ár. Hluti er með vinnu, margir hafa lært íslensku og fest hér rætur. Aðstæðurnar eru um margt einstakar í ljósi þessa og góð rök sem hníga að því að þær útheimti sértæka niðurstöðu. Sérfræðingar hafa bent á að með brottvísununum sé verið að auka á áfallastreitu, afkomuóöryggi, heimilisleysi og hættu á að einstaklingar verði fyrir ofbeldi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi í gær að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um að framkvæma brottvísun fólksins, reglur væru skýrar og engar breytingar væru fyrirsjáanlegar á þeirri ákvörðun.
Samstaðan ekki til staðar
En reglurnar eru ekki skýrar. Og framkvæmd stefnunnar ræðst af pólitískri stefnumörkum hverju sinni. Það sást strax í tíu-fréttum RÚV þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra í sömu ríkisstjórn og Jón, sagði það rangt að samstaða væri um vegferð dómsmálaráðherra í málinu. Og að fleiri ráðherrar en hann sjálfur hefðu gert alvarlegar athugasemdir við hana.
Frá því að ný útlendingalög voru samþykkt á Alþingi árið 2016 hefur þeim ítrekað verið breytt og reglugerðir verið settar til að annað hvort herða framkvæmdina eða rýmka. Gera hana mannfjandsamlegri eða mannúðlegri. Stundum vegna þess að það er pólitísk hugmyndafræði sitjandi ráðherra málaflokksins, og stundum vegna þess að þrýstingur frá almenningi um breytta framkvæmd verður pólitískt óbærilegur.
Sigríður Á. Andersen, þá dómsmálaráðherra, setti til að mynda reglugerð árið 2018 sem fól í sér að Útlendingastofnun fékk heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum. Íslenska ríkið bjó með því til fjárhagslegan hvata fyrir flóttamenn að fara annað.
Þegar réttlætiskenndinni var misboðið
Um miðjan september 2017 féll ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar eftir nokkurra mánaða valdasetu og boðað var til kosninga í lok október sama ár. Eftir að stjórnin féll, en áður en kosið var, kom upp sú staða að vísa átti tveimur stúlkum úr landi, þeim Haniye Maleki, þá ellefu ára og ríkisfangslaus, og Mary Iserien, þá átta ára frá Nígeríu.
Málið var hápólitískt og formenn sex flokka á þingi: Vinstri grænna, Viðreisnar, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks og þingflokksformaður Pírata lögðu fram frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem heimiluðu þeim og öðrum börnum að vera á Íslandi. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Katrín Jakobsdóttir. Í þriðju og síðustu umræðu um málið flutti hún eftirfarandi ræðu: „Þegar framkvæmd laga sem varðar fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, börn, hefur það í för með sér að réttlætiskennd jafn margra er misboðið, þá er ástæða til að hlusta. Þegar UNICEF og Rauði krossinn biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta [...] Ég velti því fyrir mér hvort fulltrúar þess flokks sem ekki kýs að styðja þessa breytingu ættu ekki að hlusta. Ég segi já við þessari breytingu.“
Sá flokkur sem hún talaði um er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur meira og minna farið með völd í dómsmálaráðuneytinu, og þar með í útlendingamálum, frá því að ásókn útlendinga í að búa á Íslandi varð að raunverulegu úrlausnarefni. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna kusu gegn frumvarpinu. Alls 38 þingmenn úr hinum sex flokkunum sem voru á þingi á þeim tíma samþykktu það hins vegar. Haniye og Mary fengu að vera og breytingarnar höfðu áhrif á stöðu alls 80 bara í hópi hælisleitenda.
Framkvæmdin ekki meitluð í stein
Árið 2019 kom upp annað mál, þegar vísa átti tveimur afgönskum fjölskyldum úr landi. Þær höfðu fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi. UNICEF á Íslandi skoraði á stjórnvöld að taka móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd til endurskoðunar. Í tilkynningu frá samtökunum var bent á að alþjóðastofnanir höfðu upplýst með reglubundnum hætti um slæma stöðu barna á flótta í Grikklandi. Þá sendi umboðsmaður barna bréf til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar vegna málsins. Þórdís breytti reglugerð um útlendinga í kjölfarið sem heimilaði að taka hælisumsóknir barna, sem hlotið hafa vernd í öðru ríki, til efnismeðferðar ef liðið hafa meira en 10 mánuðir frá því að umsókn var lögð fram á Íslandi, svo lengi sem tafir á afgreiðslunni væru ekki barninu sjálfu að kenna.
Snemma árs 2020 ákvað Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá dómsmálaráðherra, að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir 16 mánuði. Ástæðan var yfirvofandi brottvísun Muhammeds Zohair Faisal sem hafði dvalið hérlendis í meira en tvö ár. Alls höfðu tæplega 18 þúsund manns skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að fresta brottvísun Muhammeds og fjölskyldu hans.
Ofangreind upptalning er til að sýna að framkvæmd útlendingalaga er ekki jafn meitluð í stein og sitjandi dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, vill meina. Reglurnar eru ekki skýrar eða ófrávíkjanlegar. Þær lúta pólitískri stefnumörkun ráðamanna hverju sinni. Ef pólitískur vilji er til staðar, þá er þeim einfaldlega breytt.
Ísland þarf fólk
Nokkuð ljóst er að Íslandi vantar fólk. Nýleg rannsókn Samtaka atvinnulífsins, sem greint var frá í mars, sýndi að á næstu fjórum árum verði til 15 þúsund störf hérlendis, en náttúruleg fjölgun vinnuafls verði einungis þrjú þúsund manns. Flest störfin sem skapast eru í mannaflsfrekum greinum eins og ferðaþjónustu, veitingaþjónustu og byggingageiranum. Auk þess eru Íslendingar að eldast hratt og aukin þörf verður á fólki í allskyns umönnunarstörf í náinni framtíð.
Því þarf tólf þúsund nýja íbúa til landsins á fjórum árum. Til lengri tíma litið þarf nokkra tugi þúsunda, ef horft er á dæmið út frá köldum hagfræðilegum forsendum þess að viðhalda lífskjörum og hagvexti.
Stjórnvöld hafa verið að grípa til aðgerða til að liðka fyrir möguleikum sumra til að koma til landsins. Þau eru til að mynda mjög áfram um að laða sérfræðinga til landsins til að bæta samkeppnisstöðu Íslands til að mæta óskum atvinnulífsins. Í Fréttablaðinu í dag boðar Áslaug Arna til að mynda aðgerðir til að bregðast við skorti á erlendum sérfræðingum í hugverkageiranum í ljósi þess að Samtök iðnaðarins telji að laða þurfi allt að níu þúsund manns til landsins á næstu fimm árum.
Þetta eru eftirsóknarverðu útlendingarnir að mati Sjálfstæðisflokksins. Og það eru fleiri sem njóta sérstakrar meðferðar.
Heimild ráðherra til að gefa út leynileg neyðarvegabréf
Þann 26. apríl undirritaði ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu reglugerð fyrir hönd dómsmálaráðherra. Reglugerðarbreytingin hafði það í för með sér að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra má nú óska þess að Útlendingastofnun gefi út vegabréf til útlendings „ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi“. Þá er sérstaklega tekið fram að hægt sé að láta útlending fá slíkt neyðarvegabréf jafnvel þótt hann sé ekki löglega búsettur hérlendis.Utanríkisráðherra má nú líka fela sendiskrifstofum Íslands og kjörræðismönnum að gefa út neyðarvegabréf til útlendings til allt að eins mánaðar.
Með reglugerðinni er verið að veita ráðherra svigrúm til að láta sérvalið fólk að erlendu bergi brotnu fá íslensk vegabréf án þess að hefðbundin skilyrði fyrir slíku séu uppfyllt. Geðþótti getur ráðið því hverjir hljóta náð.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um hversu mörg vegabréf hefðu verið gefin út á þeim tæpa mánuði sem liðinn var síðan að reglugerðin tók gildi og hvenær þau voru útgefin. Ráðuneytið neitaði að svara þeirri fyrirspurn.
Kjarninn hefur þegar kært synjunina, sem er farsakennd, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem er þó þekkt fyrir að taka marga mánuði í að komast að niðurstöðu í málum sem kærð eru til hennar. Meðalmálsmeðferðartími hennar var til að mynda 131 dagur í fyrra.
Neitun ráðuneytisins er enn sérkennilegri í ljósi þess að utanríkisráðuneytið hefur áður veitt persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga sem hafa fengið sérstök vegabréf. Það gerðist haustið 2005 þegar Mörður Árnason, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, um þá einstaklinga sem höfðu annars vegar diplómatísk vegabréf og hins vegar svokölluð þjónustuvegabréf. Geir birti einfaldlega lista með nöfnum allra þeirra einstaklinga.
Ónefnt Evrópuríki í hetjuhlutverki í New York Times
Tímasetning reglugerðarbreytingarinnar hefur eðlilega vakið athygli. Þann 11. maí birtist umfjöllun í New York Times um að íslenski listamaðurinn Ragnar Kjartansson, og frambjóðandi Vinstri grænna í síðustu kosningum, hefði aðstoðað hina rússnesku Mariu Alyokhina, aðgerðarsinna og liðskonu rússnesku pönkrokksveitarinnar Pussy Riot, á flótta sínum frá Rússlandi. Í umfjölluninni kom fram að Ragnar hefði fengið ónefnt Evrópuland til að gefa út ferðaskilríki sem veitti Alyokhina sömu stöðu og íbúar Evrópusambandsins. Ferðaskilríkjunum var smyglað inn til Hvíta-Rússlands svo hún gæti notað þau til að komast þaðan og yfir til Litháens.
Mbl.is og fleiri fjölmiðlar hefur sett reglugerðarbreytinguna sem var gefin út í apríl í samhengi við þetta mál.
Hvorki Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra né utanríkisráðuneytið hafa viljað tjá sig um hvort Ísland sé ríkið sem hjálpaði Alyokhinu með því að láta hana hafa ferðaskilríki sem veittu henni sömu stöðu og aðrir íbúar Evrópska efnahagssvæðisins.
Alyokhina notar nú þessi nýju ferðaskilríki til að Pussy Riot geti haldið tónleikaferð í Evrópu.
Breyting á lögum til að auðvelda brottvísanir
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem á að auðvelda stjórnvöldum að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi.
Alls fjórtán samtök sendu frá sér sameiginlega fréttatilkynningu fyrir skemmstu þar sem þau gagnrýndu stjórnvöld fyrir skort á samráði við breytingu á útlendingalögum. Þar á meðal voru Rauði krossinn og UNICEF.
Þegar frumvarpið var til umræðu á þingi nýverið brást Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, við óánægju stjórnarandstöðuþingmanns með því að segja „Telur háttvirtur þingmaður að við eigum að taka við öllum þeim sem hafa fengið vernd annarsstaðar? [...] Telur hún að hér eigi að vera alveg opin landamæri?“
Ekki verður annað séð á þessum málflutningi en að Vinstri græn styðji frumvarpið. Það rímar einnig við það sem Sjálfstæðismenn segja í einkasamtölum.
Nú þarf ekki lengur að hlusta þegar Rauði krossinn og Unicef tala líkt og þurfti haustið 2017.
Sumir útlendingar eru æskilegri en aðrir
Það er algjörlega ljóst að ráðamenn hverju sinni taka stefnumótandi ákvarðanir um túlkun laga um útlendinga hverju sinni. Við þurfum ekki að senda flóttamenn aftur til þeirra Evrópulanda sem þeir lentu í þegar þeir stigu fæti inn í álfuna, heldur kjósum við að gera það. Þetta er val.
Það er engum vafa undirorpið, þótt það sé ekki sagt upphátt, að sumir útlendingar, frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eru æskilegri en aðrir í augum íslenskra stjórnvalda. Sérfræðingar eru sérstaklega æskilegir. Úkraínumönnum er tekið opnum örmum. Og tilefni þótti til að setja reglugerð sem heimilar ráðherra að gefa út sérstök vegabréf fyrir sérstaklega sérstaka útlendinga. Svo sérstaka að almenningur má helst ekki fá að vita hverjir þeir eru.
Eina sem þarf er vilji
Það er því ekkert skrýtið að flóttafólk upplifi það að því sé mismunað. Líkt og Silja Bára Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, sagði í Silfrinu á sunnudag þá er óásættanlegt að mismunandi viðhorf séu til flóttafólks eftir upprunalandi. „Flóttafólk á að njóta sama réttar, sama hvaðan það kemur. Íslensk stjórnvöld hafa verið að herða sína útlendingastefnu. Við erum að taka upp stefnu sem er með því harðari, við erum að elta Norðurlöndin í þeirra hörðustu stefnum.“
Tímabært er að móta nýja útlendingastefnu hér á landi sem endurspeglar betur vilja og getu þorra Íslendinga til að taka á móti fleira fólki í neyð. Samhliða þarf að tryggja að fyrirsjáanleiki og skilvirkni sé til staðar gagnvart þeim sem uppfylli ekki skilyrði um vernd hérlendis og að auðvelda fólki utan Evrópu að koma hingað eftir öðrum leiðum en sem flóttamenn, vilji það búa hér og starfa.
Á sama hátt og það þarf ekkert annað en pólitískan vilja til að túlka gildandi lög þröngt og mannfjandsamlega þá þarf ekkert annað en pólitískan vilja til að breyta þeim.
Og setja öðruvísi þenkjandi fólk yfir málaflokkinn en hefur stýrt honum hingað til.