Í stjórnmálalegri umræðu hefur hópur sem staðsetur sig á hægri vængnum slegið eignarhaldi sínu á hugtakið frelsi. Út frá því ímyndaða eignarhaldi reynir hann ítrekað að skilgreina hvað felist í sönnu frelsi og hvað ógni því, sérstaklega þegar stutt er til kosninga og setja þarf upp kosningagrímuna.
Þær skilgreiningar eru að uppistöðu þröngar og fyrirsjáanlegar. Oftar en ekki eru þetta endurteknar klisjur sem hópurinn hrópaði upp í ungliðahreyfingum. Og hefur kyrjað af trúarlegri sannfæringu alla tíð síðan.
Á einfaldan hátt má segja að frelsi sé annars vegar frelsi manna til að gera eitthvað, og hins vegar frelsi þeirra frá því að verða fyrir einhverju. Það er vítt og tekur mið af aðstæðum.
Þar af leiðandi er illa hægt að sjóða það niður í þá slagorðasúpu sem sumir íslenskir hægri menn velja að gera.
Frelsi til að skaða sig og ráða yfir eigin líkama
Frelsið, samkvæmt henni, virðist til að mynda ekki ná yfir frelsi fólks til að skaða sig sjálft, til dæmis með fíkniefnaneyslu. Árum saman hefur verið unnið að því á Alþingi að afglæpavæða neysluskammta af fíkniefnum. Tilgangurinn er að hætta að refsa veiku fólki og taka stórt skref í átt að því að skilgreina fíknisjúkdóma sem heilbrigðis- og félagslegt mál, ekki glæp. Þetta mál fékkst ekki afgreitt út úr nefnd í lok þings og ýmsir sjálfskipaðir boðberar frelsis innan stjórnmálastéttarinnar lögðust gegn því.
Það nær heldur ekki til frelsis kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þegar lögum um þungunarrof var breytt með þeim hætti að slíkt yrði heimilt fram á 22. viku meðgöngu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki, þá kusu átta þingmenn Sjálfstæðisflokks gegn frumvarpinu. Á meðal þeirra var formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sem sagði í ræðu að kvenfrelsi gæti „ekki trompað hvert einasta annað álitamál sem kemur upp í þessum efnum“.
Frelsi til að halda alvöru lýðræðisveislu
Eitt mikilvægasta frelsi sem lýðræðið tryggir fólki er rétturinn til að hafa áhrif á mótun samfélagsins sem við búum við. Grundvallaratriði í því frelsi er kosningarrétturinn.
Samt er það bara ekkert gert, vegna andstöðu þeirra flokka sem hagnast á kerfinu. Þeirra á meðal er t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, sem undanfarna mánuði hefur stært sig af því að halda lýðræðisveislu vegna mikillar þátttöku í prófkjörum hans. Lýðræðislegu veisluhöldin virðast hins vegar einungis vera ætluð flokksmönnum í innanflokksstarfi, ekki öðrum né á annars konar vettvangi.
Frelsi til að mynda ólýðræðislega ríkisstjórn
Í aðdraganda komandi kosninga hefur verið bent á með óyggjandi hætti að núverandi kosningakerfi tryggi ekki lengur samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta. Í síðustu kosningum hefur það þýtt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa fengið fleiri þingmenn en atkvæði þeirra segja til um.
Í ljósi þess að öll líkindi standa til þess að afar naumur þingmannafjöldi muni ákvarða samsetningu næstu ríkisstjórnar gæti þessi ólýðræðislega kerfisskekkja ráðið úrslitum um hvernig hún verði. Ríkisstjórnarflokkarnir, meðal annars sá sem skilgreinir sig sem flokk frelsis, höfðu engan áhuga á að laga þessa skekkju. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að misvægi atkvæða væri „óheppilegt“ en að það stæði ekki til að gera neitt í því. Hann vildi frekar horfa til þess að fjölga kjördæmum, jafnvel tvöfalda fjölda þeirra, en að ráðast í þá eðlilegu aðgerð að í þessari örþjóð, sem telur jafn marga og litlar borgir í flestum Evrópulöndum, sé eitt kjördæmi þar sem hvert atkvæði gildir jafn mikið.
Frelsi til að vera tekinn alvarlega
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 lá fyrir Alþingi frumvarp um að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Ef frumvarpið yrði að lögum hefðu um níu þúsund nýir kjósendur fengið rétt til að taka þátt í þeim kosningum. Öruggur meirihluti var fyrir málinu á þingi.
Málþóf þingmanna þriggja flokka sem mældust með með minni stuðning hjá ungu fólki en almennt, meðal annars úr hinum frelsiselskandi Sjálfstæðisflokki, kom í veg fyrir samþykkt frumvarpsins, og hafði þar með frelsið til að taka þátt í mótun samfélagsins af níu þúsund íbúum.
Frumvarp sem lagði til að kosningaaldur í öllum kosningum yrði lækkaður í 16 ár var lagt fram í fyrra af þingmönnum þriggja stjórnarandstöðuflokka. Það var svæft í nefnd.
Frelsi til að kyssast, knúsast og ferðast
Undanfarna mánuði hafa helstu varðmenn frelsis farið mikinn gegn tímabundnum aðgerðum sem skerða athafna- og ferðafrelsi og eftir atvikum mannréttindi sem við teljum sjálfsögð. Tilgangurinn er að verja frelsi fólks til lífs og heilbrigðis. Það var val lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda, valin í frjálsum kosningum, að almannahag væri betur borgið með þessum hætti. Alveg eins og stjórnvöld skerða frelsi fólks með ýmsum öðrum hætti með sömu rökum, t.d. með því að skylda landsmenn til að notast við bílbelti eða takmarka hraða á þjóðvegum. Það val nýtur yfirgnæfandi stuðnings almennings.
Í afstöðu þeirra sem líta á þetta sem aðför að frelsinu felst aðallega sú skoðun að alvöru frelsi, það frelsi sem skiptir mestu máli, sé frelsi þeirra sjálfra til að njóta lífsins án takmarkana. Að þau sem einstaklingar geti grætt peninga, drukkið, borðað, ferðast, knúsast og kysst grímulaust án tillits til afleiðinga á annað fólk.
Frelsi til að segja hvað sem er um aðra
Málfrelsi er frelsiselskandi fólki í stjórnmálum og þjóðmálaumræðu líka afar hugleikið. Það kvartar yfir því að niðrandi orðræða um konur, kynsegin fólk og ýmsa minnihlutahópa sem einu sinni var samfélagslega umborin sé það ekki lengur. Það kvartar yfir því að umræða um flóttamenn og aðra innflytjendur sem byggir á röngum staðhæfingum og hræðsluáróðri fái ekki að fljóta um óáreitt.
Frelsi þeirra sem verða fyrir barðinu á þessum úr sér gengnu karllægu og afturhaldssömu hugmyndum um málfrelsi til að svara fyrir sig eða frá frið fá þeim virðist minna virði. Þeir eru sagðir ofurviðkvæmir og húmorslausir. Að endingu er þolandinn gerður að geranda og hvíti karlinn sem er fastur í því að allt sem honum finnst fyndið feli í sér að gera lítið úr einhverjum öðrum málar sig sem fórnarlamb eineltis slaufunarmenningar og snjókornanna sem fyrir henni standa.
Frelsi til að græða peninga með því að halda öðrum niðri
Þá komum við að atvinnufrelsi. Í huga sjálfskipaðra eigenda frelsisskikkjunnar felst það aðallega í því að skattar og álögur, sérstaklega á ríkt fólk og valin vinsamleg fyrirtæki, séu lágir, að eftirlit sé lítið sem ekkert og að ríkið sé almennt ekkert að skipta sér að því hvernig mennirnir reka fyrirtækin sín og græða sína peninga.
Nema þegar aðstæður skapast þar sem rekstrargrundvöllur vinveittu fyrirtækjanna brestur, eins og í alþjóðlegri fjármálakreppu eða heimsfaraldri. Þá á hið óþarfa ríki að stíga fast inn og bjarga með peningum skattgreiðenda. Hagnaðurinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.
Skattar og álögur, sem hafa á nokkrum áratugum hækkað á þá sem minna hafa á milli handanna en lækkað á þá eignamestu, tryggja hins vegar sterkari grunngerð samfélagsins og tækifæri fyrir fleiri en bara útvalda til að leysa úr læðingi krafta hæfileika sinna. Með því að jafna tækifæri þá eiga fleiri möguleika á góðu og innihaldsríku lífi. Þótt kökunni sé skipt jafnar þýðir þó ekki að hún geti ekki, og eigi ekki, að stækka líka. Þvert á móti.
Sterkt eftirlit í örsamfélagi eins og því íslenska tryggir aukið frelsi gegn fákeppni, einokun, strokuspillingu stjórnmálanna og hvítflibbaglæpum sem gagnast fámennum valdahópi en rýrir lífsgæði allra annarra. Það er ekki hindrun heldur nauðsyn.
Frelsi til að láta suma búa við heftandi gjaldmiðil
Þegar stjórnmálamenn sem standa í raun fyrir lítið annað en afturhaldssama vörn fyrir ríkjandi valdakerfi fara að tengja frelsi einstaklinga á Íslandi við sjálfstæðan gjaldmiðil þá er tilefni til að fara að brosa. Eða gráta.
Krónan, sem þrífst ekki nema í höftum, og sveiflast eins og lauf í vindi þrátt fyrir endalaus inngrip Seðlabankans (ein evra kostar nú 20 prósent meira en hún gerði í aðdraganda síðustu kosninga, þrátt fyrir að krónan hafi styrkst um tæp 12 prósent gagnvart henni síðastliðið ár) er án efa stærsta ástæða þess að erlend fjárfesting í öðru en mengandi stóriðju og rafmyntagreftri er sáralítil hérlendis í öllum samanburði. Hún er ástæða þess að vextir eru hærri hérlendis en í helstu samanburðarlöndum. Hún er helsta ástæða þess að illa gengur að laða hingað til lands erlenda sérfræðinga til starfa. Hún er helsta ástæða þess að erlend þjónustufyrirtæki sjá sér ekki hag í að fara í samkeppni við þau íslensku, og verndar þannig fákeppnismarkaðinn sem við búum við. Og svo framvegis.
Það er þó bara venjulegt launafólk sem þarf að búa við krónuna. Flest stærstu fyrirtæki landsins eru fyrir löngu hætt að nota hana í annað en að greiða fólki á Íslandi laun og stóreignafólk hefur lært að það er hægt að auka auð með því að færa hann inn og út úr hagkerfinu á réttum tíma, og taka þannig út mikinn gengishagnað.
Frelsi til að sjúga frelsið úr fjölmiðlum
Svo er auðvitað fjölmiðlafrelsi. Það hefur hrunið á Íslandi á vakt frelsismanna. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn að nýju árið 2013 hefur Ísland farið úr áttunda sæti á lista yfir samtakanna Blaðamanna án landamæri um fjölmiðlafrelsi í 16. sæti. Á sama tíma raða hin Norðurlöndin: Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk, sér í efstu fjögur sæti listans ár eftir ár. Í þeim öllum hafa stjórnvöld beitt sér með markvissum hætti til að styrkja rekstrarstoð sjálfstæðra fjölmiðla.
Á Íslandi hafa stjórnvöld hins vegar staðið fyrir kerfisbundinni veikingu fjölmiðla og samhliða reynt að grafa undan trúverðugleika þeirra með óboðlegri orðræðu. Tilgangurinn virðist sá að gera einkarekna fjölmiðla háða meðgjöf úr vasa ríkra einstaklinga í nálægð við valdið, á sama tíma og reynt er að svelta aðra til hlýðni.
Frelsi til að spinna
Afleiðingarnar eru þær að frá 2013 hefur þeim sem starfa í fjölmiðlum á Íslandi fækkað úr 2.238 í 876. Það þýðir að fjöldi þeirra sem starfa við að upplýsa almenning, meðal annars um athafnir og verk stjórnvalda, eru nú tæplega 40 prósent af því sem þeir voru fyrir átta árum.
Á sama tíma hafa verið byggðar upp upplýsingafulltrúahersveitir sem kosta hundruð milljóna króna á ári til að skrifa „fréttir“ sem eru ekki fréttir heldur aðallega áróður til að láta ráðamenn líta vel út. Stjórnmálaflokkar hafa hækkað eigin framlög úr ríkissjóði upp úr öllu hófi og nota þá fjármuni meðal annars til að framleiða efni, t.d. hlaðvörp eða skrifaðar „fréttir“, sem er svo dulbúið sem eðlilegt fjölmiðlaefni. Lobbýistar hafa nýtt sér þessa stöðu og tekið til sín dagskrárvaldið í samfélaginu með sífellt skýrari hætti til að ganga erinda þröngra sérhagsmuna.
Þegar einhver viðleitni er loks sýnd til að laga þessa stöðu sem hefur sogið frelsið úr fjölmiðlum á Íslandi þá stóðu talsmenn frelsis í vegi fyrir að það yrði almenn og sanngjörn aðgerð. Það gerðu þeir með því að breyta styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla þannig að 150 milljónir króna verða færðar frá um 20 minni fjölmiðlum til þriggja stærstu, sem munu líklega fá 75 prósent allra styrkja.
Frelsi eins getur verið ánauð annars
Þeir sem tala mest um frelsi, og hafa slegið eignarhaldi sínu á hugtakið í íslenskri þjóðmálaumræðu, eru mest megnis loddarar. Áhugafólk um raunverulegt frelsi ætti að leita annað eftir fulltrúum til að koma hugmyndum sínum á framfæri á hinu stjórnmálalega sviði.
Þeirra frelsi felst að uppistöðu í því að þeir stjórni og geti í krafti þess skammtað sjálfum sér og öðrum gæðum. Það felst í ákalli um afskiptaleysi svo þeir geti áfram grætt peninga á grundvelli aðgengis að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra á sama tíma og kerfislegar hömlur eru settar á annað hæfileikaríkara athafnafólk að koma hugmyndum sínum í verk. Þetta er frelsi sumra, ekki frelsi flestra. Og sannarlega ekki frelsi allra.
Fólk ber að taka trúarþulunni, sem endurtekin er af þeim sem hana þylja eins og maríubæn í gegnum ævina, um frelsisást í aðdraganda kosninga með miklum fyrirvara.
Frelsi eins getur nefnilega auðveldlega verið ánauð annars.