Auglýsing

Í stjórn­mála­legri umræðu hefur hópur sem stað­setur sig á hægri vængnum slegið eign­ar­haldi sínu á hug­takið frelsi. Út frá því ímynd­aða eign­ar­haldi reynir hann ítrekað að skil­greina hvað felist í sönnu frelsi og hvað ógni því, sér­stak­lega þegar stutt er til kosn­inga og setja þarf upp kosn­inga­grímuna. 

Þær skil­grein­ingar eru að uppi­stöðu þröngar og fyr­ir­sjá­an­leg­ar. Oftar en ekki eru þetta end­ur­teknar klisjur sem hóp­ur­inn hróp­aði upp í ung­liða­hreyf­ing­um. Og hefur kyrjað af trú­ar­legri sann­fær­ingu alla tíð síð­an.

Á ein­faldan hátt má segja að frelsi sé ann­ars vegar frelsi manna til að gera eitt­hvað, og hins vegar frelsi þeirra frá því að verða fyrir ein­hverju. Það er vítt og tekur mið af aðstæð­um.

Þar af leið­andi er illa hægt að sjóða það niður í þá slag­orða­súpu sem sumir íslenskir hægri menn velja að ger­a. 

Frelsi til að skaða sig og ráða yfir eigin lík­ama

Frelsið, sam­kvæmt henni, virð­ist til að mynda ekki ná yfir frelsi fólks til að skaða sig sjálft, til dæmis með fíkni­efna­neyslu. Árum saman hefur verið unnið að því á Alþingi að afglæpa­væða neyslu­skammta af fíkni­efn­um. Til­gang­ur­inn er að hætta að refsa veiku fólki og taka stórt skref í átt að því að skil­greina fíkni­sjúk­dóma sem heil­brigð­is- og félags­legt mál, ekki glæp. Þetta mál fékkst ekki afgreitt út úr nefnd í lok þings og ýmsir sjálf­skip­aðir boð­berar frelsis innan stjórn­mála­stétt­ar­innar lögð­ust gegn því.

Það nær heldur ekki til frelsis kvenna til að ráða yfir eigin lík­ama. Þegar lögum um þung­un­ar­rof var breytt með þeim hætti að slíkt yrði heim­ilt fram á 22. viku með­­­göngu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki, þá kusu átta þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks gegn frum­varp­inu. Á meðal þeirra var for­maður flokks­ins, Bjarni Bene­dikts­son, sem sagði í ræðu að kven­frelsi gæti „ekki trompað hvert ein­asta annað álita­­mál sem kem­ur upp í þess­um efn­um“.

Frelsi til að halda alvöru lýð­ræð­is­veislu

Eitt mik­il­væg­asta frelsi sem lýð­ræðið tryggir fólki er rétt­ur­inn til að hafa áhrif á mótun sam­fé­lags­ins sem við búum við. Grund­vall­ar­at­riði í því frelsi er kosn­ing­ar­rétt­ur­inn. 

Auglýsing
Á Íslandi fær það þó að við­gang­ast að atkvæði sumra lands­manna hafa meira vægi en ann­arra, og að það ráð­ist af því hvar fólk búi. Atkvæði þeirra sem búa utan höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, þar sem ⅔ hlutar allra íbúa þess­arar 370 þús­und manna þjóðar búa, telja meira en atkvæði ann­arra. Þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla frá árinu 2012 sýnir að mik­ill meiri­hluti er fyrir því að breyta þessu og að 80 pró­sent íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins vilji slíkar breyt­ing­ar. 

Samt er það bara ekk­ert gert, vegna and­stöðu þeirra flokka sem hagn­ast á kerf­inu. Þeirra á meðal er t.d. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem und­an­farna mán­uði hefur stært sig af því að halda lýð­ræð­is­veislu vegna mik­illar þátt­töku í próf­kjörum hans. Lýð­ræð­is­legu veislu­höldin virð­ast hins vegar ein­ungis vera ætluð flokks­mönnum í inn­an­flokks­starfi, ekki öðrum né á ann­ars konar vett­vangi.

Frelsi til að mynda ólýð­ræð­is­lega rík­is­stjórn

Í aðdrag­anda kom­andi kosn­inga hefur verið bent á með óyggj­andi hætti að núver­andi kosn­inga­kerfi tryggi ekki lengur sam­ræmi milli atkvæða­magns og þing­sæta. Í síð­ustu kosn­ingum hefur það þýtt að Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur hafa fengið fleiri þing­menn en atkvæði þeirra segja til um. 

Í ljósi þess að öll lík­indi standa til þess að afar naumur þing­manna­fjöldi muni ákvarða sam­setn­ingu næstu rík­is­stjórnar gæti þessi ólýð­ræð­is­lega kerf­is­skekkja ráðið úrslitum um hvernig hún verði. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir, meðal ann­ars sá sem skil­greinir sig sem flokk frels­is, höfðu engan áhuga á að laga þessa skekkju. For­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins sagði að misvægi atkvæða væri „óheppi­legt“ en að það stæði ekki til að gera neitt í því. Hann vildi frekar horfa til þess að fjölga kjör­dæm­um, jafn­vel tvö­falda fjölda þeirra, en að ráð­ast í þá eðli­legu aðgerð að í þess­ari örþjóð, sem telur jafn marga og litlar borgir í flestum Evr­ópu­lönd­um, sé eitt kjör­dæmi þar sem hvert atkvæði gildir jafn mik­ið. 

Frelsi til að vera tek­inn alvar­lega

Fyrir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018 lá fyrir Alþingi frum­varp um að færa kosn­inga­aldur niður í 16 ár. Ef frum­varpið yrði að lögum hefðu um níu þús­und nýir kjós­endur fengið rétt til að taka þátt í þeim kosn­ing­um. Öruggur meiri­hluti var fyrir mál­inu á þingi.

Mál­þóf þing­manna þriggja flokka sem mæld­ust með með minni stuðn­ing hjá ungu fólki en almennt, meðal ann­ars úr hinum frels­iselsk­andi Sjálf­stæð­is­flokki, kom í veg fyrir sam­þykkt frum­varps­ins, og hafði þar með frelsið til að taka þátt í mótun sam­fé­lags­ins af níu þús­und íbú­um. 

Frum­varp sem lagði til að kosn­inga­aldur í öllum kosn­ingum yrði lækk­aður í 16 ár var lagt fram í fyrra af þing­mönnum þriggja stjórn­ar­and­stöðu­flokka. Það var svæft í nefnd. 

Frelsi til að kyssast, knús­ast og ferð­ast

Und­an­farna mán­uði hafa helstu varð­menn frelsis farið mik­inn gegn tíma­bundnum aðgerðum sem skerða athafna- og ferða­frelsi og eftir atvikum mann­rétt­indi sem við teljum sjálf­sögð. Til­gang­ur­inn er að verja frelsi fólks til lífs og heil­brigð­is. Það var val lýð­ræð­is­legra kjör­inna stjórn­valda, valin í frjálsum kosn­ing­um, að almanna­hag væri betur borgið með þessum hætti. Alveg eins og stjórn­völd skerða frelsi fólks með ýmsum öðrum hætti með sömu rök­um, t.d. með því að skylda lands­menn til að not­ast við bíl­belti eða tak­marka hraða á þjóð­veg­um. Það val nýtur yfir­gnæf­andi stuðn­ings almenn­ings.

Í afstöðu þeirra sem líta á þetta sem aðför að frels­inu felst aðal­lega sú skoðun að alvöru frelsi, það frelsi sem skiptir mestu máli, sé frelsi þeirra sjálfra til að njóta lífs­ins án tak­mark­ana. Að þau sem ein­stak­lingar geti grætt pen­inga, drukk­ið, borð­að, ferðast, knús­ast og kysst grímu­laust án til­lits til afleið­inga á annað fólk. 

Frelsi til að segja hvað sem er um aðra

Mál­frelsi er frels­iselsk­andi fólki í stjórn­málum og þjóð­mála­um­ræðu líka afar hug­leik­ið. Það kvartar yfir því að niðr­andi orð­ræða um kon­ur, kynsegin fólk og ýmsa minni­hluta­hópa sem einu sinni var sam­fé­lags­lega umborin sé það ekki leng­ur. Það kvartar yfir því að umræða um flótta­menn og aðra inn­flytj­endur sem byggir á röngum stað­hæf­ingum og hræðslu­á­róðri fái ekki að fljóta um óáreitt. 

Auglýsing
Það kvartar undan því að það megi ein­fald­lega ekki segja hvað sem er, um hvern sem er, hvar sem er án þess að þurfa endi­lega að færa rök fyrir því eða finna stað­hæf­ingum sínum stað í raun­veru­leik­an­um. Stað­reyndir verða þá teygj­an­legt hug­tak.

Frelsi þeirra sem verða fyrir barð­inu á þessum úr sér gengnu karllægu og aft­ur­halds­sömu hug­myndum um mál­frelsi til að svara fyrir sig eða frá frið fá þeim virð­ist minna virði. Þeir eru sagðir ofur­við­kvæmir og húmors­laus­ir. Að end­ingu er þol­and­inn gerður að ger­anda og hvíti karl­inn sem er fastur í því að allt sem honum finnst fyndið feli í sér að gera lítið úr ein­hverjum öðrum málar sig sem fórn­ar­lamb ein­eltis slauf­un­ar­menn­ingar og snjó­korn­anna sem fyrir henni standa. 

Frelsi til að græða pen­inga með því að halda öðrum niðri

Þá komum við að atvinnu­frelsi. Í huga sjálf­skip­aðra eig­enda frels­is­skikkj­unnar felst það aðal­lega í því að skattar og álög­ur, sér­stak­lega á ríkt fólk og valin vin­sam­leg fyr­ir­tæki, séu lágir, að eft­ir­lit sé lítið sem ekk­ert og að ríkið sé almennt ekk­ert að skipta sér að því hvernig menn­irnir reka fyr­ir­tækin sín og græða sína pen­inga. 

Nema þegar aðstæður skap­ast þar sem rekstr­ar­grund­völlur vin­veittu fyr­ir­tækj­anna brest­ur, eins og í alþjóð­legri fjár­málakreppu eða heims­far­aldri. Þá á hið óþarfa ríki að stíga fast inn og bjarga með pen­ingum skatt­greið­enda. Hagn­að­ur­inn er einka­væddur en tapið þjóð­nýtt.

Skattar og álög­ur, sem hafa á nokkrum ára­tugum hækkað á þá sem minna hafa á milli hand­anna en lækkað á þá eigna­mestu, tryggja hins vegar sterk­ari grunn­gerð sam­fé­lags­ins og tæki­færi fyrir fleiri en bara útvalda til að leysa úr læð­ingi krafta hæfi­leika sinna. Með því að jafna tæki­færi þá eiga fleiri mögu­leika á góðu og inni­halds­ríku lífi. Þótt kök­unni sé skipt jafnar þýðir þó ekki að hún geti ekki, og eigi ekki, að stækka líka. Þvert á mót­i.  

Sterkt eft­ir­lit í örsam­fé­lagi eins og því íslenska tryggir aukið frelsi gegn fákeppni, ein­ok­un, stroku­spill­ingu stjórn­mál­anna og hvít­flibba­glæpum sem gagn­ast fámennum valda­hópi en rýrir lífs­gæði allra ann­arra. Það er ekki hindrun heldur nauð­syn. 

Frelsi til að láta suma búa við heft­andi gjald­miðil

Þegar stjórn­mála­menn sem standa í raun fyrir lítið annað en aft­ur­halds­sama vörn fyrir ríkj­andi valda­kerfi fara að tengja frelsi ein­stak­linga á Íslandi við sjálf­stæðan gjald­miðil þá er til­efni til að fara að brosa. Eða gráta. 

Krón­an, sem þrífst ekki nema í höft­um, og sveifl­ast eins og lauf í vindi þrátt fyrir enda­laus inn­grip Seðla­bank­ans (ein evra kostar nú 20 pró­sent meira en hún gerði í aðdrag­anda síð­ustu kosn­inga, þrátt fyrir að krónan hafi styrkst um tæp 12 pró­sent gagn­vart henni síð­ast­liðið ár) er án efa stærsta ástæða þess að erlend fjár­fest­ing í öðru en meng­andi stór­iðju og raf­mynta­greftri er sára­lítil hér­lendis í öllum sam­an­burði. Hún er ástæða þess að vextir eru hærri hér­lendis en í helstu sam­an­burð­ar­lönd­um. Hún er helsta ástæða þess að illa gengur að laða hingað til lands erlenda sér­fræð­inga til starfa. Hún er helsta ástæða þess að erlend þjón­ustu­fyr­ir­tæki sjá sér ekki hag í að fara í sam­keppni við þau íslensku, og verndar þannig fákeppn­is­mark­að­inn sem við búum við. Og svo fram­veg­is.

Það er þó bara venju­legt launa­fólk sem þarf að búa við krón­una. Flest stærstu fyr­ir­tæki lands­ins eru fyrir löngu hætt að nota hana í annað en að greiða fólki á Íslandi laun og stór­eigna­fólk hefur lært að það er hægt að auka auð með því að færa hann inn og út úr hag­kerf­inu á réttum tíma, og taka þannig út mik­inn geng­is­hagn­að. 

Frelsi til að sjúga frelsið úr fjöl­miðlum

Svo er auð­vitað fjöl­miðla­frelsi. Það hefur hrunið á Íslandi á vakt frels­is­manna. Frá því að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sett­ist í rík­is­stjórn að nýju árið 2013 hefur Ísland farið úr átt­unda sæti á lista yfir sam­tak­anna Blaða­manna án landa­mæri um fjöl­miðla­frelsi í 16. sæti. Á sama tíma raða hin Norð­ur­lönd­in: Nor­eg­ur, Sví­þjóð, Finn­land og Dan­mörk, sér í efstu fjögur sæti list­ans ár eftir ár. Í þeim öllum hafa stjórn­völd beitt sér með mark­vissum hætti til að styrkja rekstr­ar­stoð sjálf­stæðra fjöl­miðla.

Á Íslandi hafa stjórn­völd hins vegar staðið fyrir kerf­is­bund­inni veik­ingu fjöl­miðla og sam­hliða reynt að grafa undan trú­verð­ug­leika þeirra með óboð­legri orð­ræðu. Til­gang­ur­inn virð­ist sá að gera einka­rekna fjöl­miðla háða með­gjöf úr vasa ríkra ein­stak­linga í nálægð við vald­ið, á sama tíma og reynt er að svelta aðra til hlýðn­i. 

Frelsi til að spinna 

Afleið­ing­arnar eru þær að frá 2013 hefur þeim sem starfa í fjöl­miðlum á Íslandi fækkað úr 2.238 í 876. Það þýðir að fjöldi þeirra sem starfa við að upp­lýsa almenn­ing, meðal ann­ars um athafnir og verk stjórn­valda, eru nú tæp­lega 40 pró­sent af því sem þeir voru fyrir átta árum. 

Á sama tíma hafa verið byggðar upp upp­lýs­inga­full­trúa­her­sveitir sem kosta hund­ruð millj­óna króna á ári til að skrifa „frétt­ir“ sem eru ekki fréttir heldur aðal­lega áróður til að láta ráða­menn líta vel út. Stjórn­mála­flokkar hafa hækkað eigin fram­lög úr rík­is­sjóði upp úr öllu hófi og nota þá fjár­muni meðal ann­ars til að fram­leiða efni, t.d. hlað­vörp eða skrif­aðar „frétt­ir“, sem er svo dul­búið sem eðli­legt fjöl­miðla­efni. Lobbý­istar hafa nýtt sér þessa stöðu og tekið til sín dag­skrár­valdið í sam­fé­lag­inu með sífellt skýr­ari hætti til að ganga erinda þröngra sér­hags­muna.

Þegar ein­hver við­leitni er loks sýnd til að laga þessa stöðu sem hefur sogið frelsið úr fjöl­miðlum á Íslandi þá stóðu tals­menn frelsis í vegi fyrir að það yrði almenn og sann­gjörn aðgerð. Það gerðu þeir með því að breyta styrkja­kerfi fyrir einka­rekna fjöl­miðla þannig að 150 millj­ónir króna verða færðar frá um 20 minni fjöl­miðlum til þriggja stærstu, sem munu lík­lega fá 75 pró­sent allra styrkja. 

Frelsi eins getur verið ánauð ann­ars

Þeir sem tala mest um frelsi, og hafa slegið eign­ar­haldi sínu á hug­takið í íslenskri þjóð­mála­um­ræðu, eru mest megnis lodd­ar­ar. Áhuga­fólk um raun­veru­legt frelsi ætti að leita annað eftir full­trúum til að koma hug­myndum sínum á fram­færi á hinu stjórn­mála­lega sviði.

Þeirra frelsi felst að uppi­stöðu í því að þeir stjórni og geti í krafti þess skammtað sjálfum sér og öðrum gæð­um. Það felst í ákalli um afskipta­leysi svo þeir geti áfram grætt pen­inga á grund­velli aðgengis að tæki­færum, upp­lýs­ingum og pen­ingum ann­arra á sama tíma og kerf­is­legar hömlur eru settar á annað hæfi­leik­a­rík­ara athafna­fólk að koma hug­myndum sínum í verk. Þetta er frelsi sum­ra, ekki frelsi flestra. Og sann­ar­lega ekki frelsi allra.

Fólk ber að taka trú­ar­þul­unni, sem end­ur­tekin er af þeim sem hana þylja eins og mar­íu­bæn í gegnum ævina, um frels­is­ást í aðdrag­anda kosn­inga með miklum fyr­ir­vara. 

Frelsi eins getur nefni­lega auð­veld­lega verið ánauð ann­ar­s. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari