„Ég tapaði öllu sem ég átti á heimavistinni. Það sem ég sakna mest er kjóll sem ég fékk í afmælisgjöf. Núna óska ég þess heitast að ég hefði skilið hann eftir heima hjá mömmu.“
Sauda Nangbobi er sjö ára. Hún er meðal þeirra nemenda í Bupadhengo-stúlknaskólanum norður af Viktoríuvatni í Úganda sem misstu allt í eldsvoða sem varð á heimavist skólans 26. janúar.
Já, Sauda er á heimavist. Þrátt fyrir að vera svona ung. Það sama á við um tugþúsundir barna í Úganda. Sum þeirra eru send að heiman jafnvel fimm ára gömul. Algengast er þó að börnin fari í heimavistarskóla um tíu eða tólf ára aldurinn.
Neyðin þröngvar flestum foreldrum til að taka þessa ákvörðun. Að senda börnin sín frá sér. Þetta er ekki svo fjarlægt okkur Íslendingum því aðeins fáir áratugir eru síðan að heimavistir voru við marga barnaskóla í sveitum. Líkt og á Íslandi eru langar vegalengdir helsta ástæðan.
Önnur er sú að foreldrar vilja að börn þeirra fari í betri skóla en eru næst heimilum þeirra og sú þriðja er langur vinnudagur þeirra sjálfra. Þegar leggja þarf af stað til vinnu fótgangandi um klukkan 5 á morgnanna og ekki komið heim fyrr en löngu eftir myrkur er erfitt að sinna börnunum ef ættingi eða nágranni getur ekki litið til með þeim. Þá eru fá úrræði önnur í boði en heimavistarskólar.
„Mikið er dásamlegt að heyra í börnunum aftur,“ sagði nágranni minn í fjölbýlishúsinu á Kololo-hæð í Kampala, mánudaginn 10. janúar er göturnar fylltust af skríkjandi sælum börnum á leið í skólann, sum með skólatöskur á bakinu en önnur með bækurnar undir handleggnum.
Það hefur verið hljótt hérna við húsið síðustu mánuði, hélt nágranninn áfram. Sunnanmegin blokkarinnar er grunnskóli sem hafði staðið tómur í 95 vikur, tæp tvö ár, en var nú loks aftur fullur af lífi. Glaðleg hróp og köll barna í eltingaleik, barna í fótbolta, barna að skrafa saman og skellihlæja ómuðu á ný frá skólalóðinni.
Hvergi í víðri veröld voru skólar jafnlengi lokaðir vegna faraldursins en í Úganda. Milljónir barna og ungmenna urðu af menntun enda aðeins brot foreldra sem hafði efni á því að greiða fyrir einkakennslu.
Heimavistarskólar hafa verið þekktir í Úganda í áratugi en á síðustu árum má segja að sprenging hafi orðið í fjölda þeirra. „Þegar börnin þurfa að ganga fleiri kílómetra á dag til að komast í skóla er þetta oft eina úrræðið sem foreldrar hafa,“ segir kennari þegar ég spyr hann út í þróunina.
Það eru engir skólabílar. Örfáir einkabílar. Gangan langa getur líka verið hættuleg. Vegirnir og slóðarnir sem börnin fara um eru ekki upplýstir í borgum og bæjum, hvað þá í þorpunum úti á landsbyggðinni. Stúlkur eru sérstaklega berskjaldaðar og mörg dæmi eru um að þær neyðist til að hætta námi.
En heimavistirnar eru heldur ekki alltaf öruggur dvalarstaður fyrir börnin þótt þær séu vissulega misjafnar. Þar er oft þröng á þingi, stundum börn á ýmsum aldri á sömu vistinni og lítil hjörtu geta orðið enn minni þegar mömmu og pabba nýtur ekki við.
„Að minnsta kosti fjórir nemendur á aldrinum sex til sjö ára létust og einn slasaðist alvarlega í eldsvoðum á tveimur heimavistum grunnskóla á laugardagsmorgunn.“
Fréttir úganskra fjölmiðla sunnudaginn 16. janúar voru sláandi. Tæp vika var liðin frá því að skólarnir voru opnaðir aftur. Nokkrum dögum síðar kviknaði svo eldur á vistinni sem hin sjö ára gamla Sauda dvaldi á. Enginn lést en eigur barnanna urðu eldinum að bráð.
„Ég tapaði ferðatöskunni minni og lyklakippu sem ég hafði fengið í afmælisgjöf,“ segir Prima Atugonza, sjö ára. „Það er enn sárt að hugsa til þess.“
Prima litla er meðal þeirra barna sem deila með barnablaði dagblaðsins Monitor þeim verðmætum sem þau misstu í eldsvoðanum.
Þetta er nokkuð hefðbundið barnablað, svipað uppbyggt og Barnablað Morgunblaðsins. Í því er að finna þrautir, leiki og teikningar barna. Þar má einnig sjá forvitnilegt fræðsluefni. „Vissir þú að það eru aðeins kvenkyns moskítóflugur sem bíta?“
En samanburðurinn við Barnablað Morgunblaðsins nær svo ekki lengra. Forsíðan er lögð undir myndir af stúlkunum af heimavistinni og sögum þeirra.
„Eldurinn og reykurinn var mjög mikill,“ segir Vivan Mwogeza, fimm ára. „Þegar búið var að slökkva eldinn sá ég að nýja rúmdýnan mín og moskítónetið hafði brunnið til ösku.“
Rihanna Poni er orðin tíu ára og hún er miður sín yfir þeim verðmætum sem hún tapaði. „Geturðu ímyndað þér,“ segir hún, „allir peningarnir sem ég hafði safnað mér í útgöngubanninu, 1.200 shillings, urðu eldinum að bráð.“
1.200 shillings eru 42 íslenskar krónur.
„Þegar ég minnist skónna minna og vatnsflöskunnar sem ég tapaði í eldinum þá græt ég,“ segir hin sex ára gamla Macrena Nalutaaya. „Eldurinn eyðilagði allt.“
Enn er verið að rannsaka hvað olli eldsvoðanum. Þeir eru tíðir í skólum og á heimavistum og oftast hefur lögreglan skellt skuldinni á brennuvarga sem svo engar vísbendingar finnast um. Sjaldan er því einhver dreginn til ábyrgðar en stundum hafa skólastjórendur verið handteknir og jafnvel ákærðir. Skólastjórnendur sem hafa oft svo lítið fé á milli handanna að þeir geta ekki keypt borð, stóla og skólabækur, hvað þá tryggt eldvarnir á heimavistunum sem sífellt meiri ásókn er í.
Víðast er lenskan sú að hafa rimla fyrir gluggum heimavistanna og læsa hurðum að innanverðu, jafnvel með hengilás. Þetta er gert í öryggisskyni, svo enginn utanaðkomandi komist inn, en er tvíeggjað sverð. Því í fáti því sem verður í eldsvoða geta þær mínútur og jafnvel sekúndur sem tekur að opna læsta hurð eða glugga kostað mannslíf. Og það hefur einmitt oftsinnis gerst.
Tala má um faraldur eldsvoða á heimavistum og í skólum í Úganda síðustu ár. Og enn eru þeir ítrekað að eiga sér stað. Foreldrar krefjast úrbóta og sumir treysta sér ekki lengur til að hafa börn sín á vistunum. Þá eykst hættan á því að skólagöngu barna, sérstaklega stúlkna, ljúki.
Sauda og skólasystur hennar urðu að fara heim eftir eldsvoðann. Það verður vonandi aðeins tímabundið. Menntun stúlkna hefur sem betur fer stóraukist síðustu ár og auðveldara aðgengi að skólum er sannarlega stór áhrifaþáttur.
„Christine mun ekki fara á heimavist fyrr en hún verður tíu ára,“ segir Laban vinur minn. Einkadóttir hans er orðin sex ára og byrjaði í skóla fyrir nokkrum vikum. Eldri börnin hans fjögur eru öll í heimavistarskólum. Þetta eru einkaskólar en þó engan veginn á pari við það sem við Íslendingar setjum flestir í það orð.
Það kostar skildinginn að hafa börn í einkareknum skólum og Laban leggur mikið á sig við að tryggja börnum sínum þá bestu menntun sem fjárhagur hans leyfir. Hann keyrir frá morgni til kvöld með farþega á skellinöðrunni og leggur hvern aur sem hann getur fyrir. Hann segir vissulega erfitt að vera aðskilinn vikum og jafnvel mánuðum saman frá sonum sínum. „En þeir verða að mennta sig,“ segir hann ákveðinn.
„Þetta er alltaf mjög sorglegt og ég er oft áhyggjufullur,“ heldur hann áfram um eldsvoðana tíðu í skólum landsins. „En yfirvöld í skólum drengjanna eru að leggja sig fram við að tryggja öryggi þeirra.“
Laban hafði áður sagt mér að Christine langaði að verða læknir. Hann veit þó sem er að í landi þar sem fátækt og atvinnuleysi er útbreitt eiga draumar það til að verða að engu. En hvatning mömmu og pabba er svo einlæg í tilfelli Christine og bræðra hennar að það er ekki annað hægt en að fyllast bjartsýni fyrir þeirra hönd.
Draumar geta nefnilega ræst.