Hér er staðurinn sem John Hanning Speke stóð á er hann barði, fyrstur manna, upptök Nílarfljóts augum.
Nokkurn veginn svona er áletrun á skilti skammt frá hinum horfnu Ripon-fossum norðan Viktoríuvatns í Úganda. Skiltið er nú yfirleitt á kafi í vatni og jafnvel horfið að eilífu. Enginn þarf að gráta það sérstaklega því auðvitað var það sem á því stóð kolrangt.
Hinn breski landkönnuður Speke kann að hafa fyrstur manna áttað sig á því hvar upptök lengstu áar heims voru að finna, staðar sem evrópskir landkönnuðir höfðu keppst um að verða „fyrstir til að sjá“ og komast þannig í sögubækurnar, en Speke var sannarlega ekki fyrsti maðurinn til að koma að upptökunum.
Í árþúsund hefur fólk búið við Viktoríuvatnið og upptök fljótsins mikla. Þar hefur það veitt og lifað á landinu á þeim stað á jarðríki sem sumir (meðal annars ég) vilja meina að sé einn sá gjöfulasti og þægilegasti að dvelja á í veðurfarslegum skilningi.
Nýlegra skilti er að finna á bökkum Nílar í dag þar sem segir að Speke hafi verið fyrsti Evrópubúinn til að sjá upptökin. Rétt skal vera rétt – eða því sem næst – því enn er deilt um hin raunverulegu upptök.
„Nílarfljót,“ endurtekur hún með sjálfri sér í sífellu. „Ég hef ekki heyrt það orð síðan í biblíusögunum í gamla daga!“
Ég er stödd á heimili íslenskrar konu á bökkum Nílar. Árið er 2013. Þetta er mín fyrsta heimsókn til „perlu Afríku“, líkt og Úganda er kallað í ferðabókum, og fyrir tilviljun komst ég að því að landa mín ræki hér gistiheimili og veitingastað. Við sitjum á svölum hvíta, fallega hússins hennar og dáumst að sólarlaginu sem hún segist aldrei fá leið á.
Níl hafði ekki beinlínis verið mér ofarlega í huga frá því í barnaskóla. Og já, þá var það vegna þess að ég heyrði að í sef við bakka árinnar hafi móðir lagt lítinn dreng í körfu fyrir margt löngu til að forða honum frá því að verða drepinn.
Eða svo segir sagan af Móses.
Líklega þess vegna er mér tamara að segja Nílarfljót en einfaldlega Níl. Og Díana Ellertsdóttir, nýja íslenska vinkona mín, veltir orðinu um á tungunni og segir það rómantískt og fagurt. Biblíusögurnar hafa þá ekki alveg verið til einskis.
Díana býr ekki lengur í Úganda þótt hún hafi ekki yfirgefið Afríku. Nú í minni sjöttu heimsókn til landsins við miðbaug finnst mér nokkuð tómlegt að heimsækja litla bæinn við upptök fljótsins, Jinja, vitandi að hún er ekki þar. Gistihúsið og veitingastaðurinn eru þar þó enn, þeir hinir sömu og Díana átti það til að dansa um og hlæja sínum grófa en smitandi hlátri. Kryppurnar suða enn er undursamlega birtu fer að leggja yfir allt um leið og Afríkusólin hnígur til viðar. Það berast enn hlátrasköll af barnum og á einum stað hangir íslenski fáninn enn í loftinu þótt flaska af Brennivíni sem þar var alltaf hægt að fá sopa af sé eflaust löngu tóm.
„Ef það er fótspor eftir flóðhest á flöt máttu færa kúluna til.“ Þetta er fyrsta reglan á skorkorti golfspilara á vellinum við Nílarfljót. Hún á eflaust enga sína líka í heimi hér en er völlurinn var stofnaður af bresku nýlenduherrunum árið 1912 var hann skammt frá heimkynnum flóðhesta við ána.
„Já, það mátti sjá þá hlaupa yfir völlinn annað slagið,“ segir aldraður karlmaður af indverskum ættum er ég spyr hann furðu lostin út í regluna þar sem ég sit á golfbarnum og sötra minn Nile Special-bjór. „En engar áhyggjur, þeir eru ekki hér lengur,“ flýtir hann sér að bæta við.
Engir flóðhestar í Jinja? Ekki alveg! Í einni ferð minni þangað sátum við Díana á svölunum líkt og svo oft áður og heyrðum hávært og ámátlegt baul. „Hvað er nú þetta?“ sagði Díana og var fljót að hringja í vin sinn í bænum og spyrja fregna. „Hann sást við brúnna,“ segir vinurinn, „þeir halda að hann fari fljótlega.“
Þarna var kominn óvæntur gestur, flóðhestur, líklega karldýr í ævintýraleit. Vel var fylgst með kauða næstu tvo dagana eða þar til hann synti svo sína leið niður ána.
En þetta eru auðvitað hans náttúrulegu búsvæði þótt hjarðirnar hafi fyrir löngu lagt á flótta undan athöfnum mannanna og fært sig neðar í fljótið þar sem síðar voru opnuð friðlönd fyrir þá. Menn og flóðhestar eiga nefnilega alls ekki skap saman enda tvær hættulegustu dýrategundir Afríku.
Þessi Níl. Þetta dásamlega Nílarfljót. Þar sem menn vilja fara í æsilegar flúðasiglingar en helst ekki hitta krókódíla á leiðinni. Þar sem menn hafa virkjað og vilja virkja enn meira en breyta þá um leið vistkerfum sem eru meðal þeirra fjölskrúðugustu sem til eru. Fljótið sem á arabísku kallast en-Nīl og Kiyira á lúganda, tungu fólksins við upptökin í Viktoríuvatni, þaðan sem það flæðir til norðurs, fellur með sprengikrafti um Murchison-fossana stórfenglegu og svo um tíu lönd til viðbótar áður en það loks rennur til Miðjarðarhafs. Fljótið sem hefur frá örófi alda verið og er enn lífæð alls þessa stóra svæðis, vöggu mannkyns og siðmenningar, og hefur ef til vill frekar en nokkuð annað vatnsfall á jörðinni virkjað kröftuglega ímyndunarafl okkar og sköpunargáfu. „Faðir alls lífs“ og „móðir allra manna“.
„Það tekur vatnið þrjá mánuði að renna frá Jinja og til Miðjarðarhafsins.“ Jouko Tahvanainen, sænski Finninn sem stal hjarta Díönu fyrir áratugum, sýpur á Tusker Malt, bjórnum með fílamyndinni á, er hann rifjar nýverið upp fyrir mér störf sín í virkjununum í Níl. Það var þetta starf hans sem varð til þess að þau settust að í Úganda á sínum tíma. Jouko snéri sér nær alfarið að rekstri hótels þeirra í borginni Entebbe fyrir nokkrum árum en fylgist vel með virkjanamálunum. Þær eru orðnar fimm virkjanir Úgandamanna í Níl og sú stærsta, sem verður álíka og Kárahnjúkar að afli, er í byggingu.
Sú fyrsta var gerð í nágrenni upptakanna í Jinja. Hvorki Owen-fossarnir sem virkjunin var kennd við í fyrstu né Ripon-fossarnir hafa sést síðan þá. Elísabet Bretlandsdrottning vígði virkjunina árið 1954. Þá var Úganda, hvers landamæri voru dregin einmitt af Bretum seint á nítjándu öld, nýlenda og Elísabet þjóðhöfðingi. Þeirri valdtöku lauk árið 1962 er Úganda fékk sjálfstæði. Var þá ætlast til að á fimmta tug ólíkra ættþjóða innan nokkurra fornra konungsríkja byggju í sátt og samlyndi við vestrænt stjórnkerfi. Það var þó eins og gefur að skilja fyrst og fremst ávísun á átök og ósætti eins og saga síðustu áratuga ber með sér.
En aftur að Níl, hinni sameiginlegu auðlind svo margra.
Auðvitað hafa önnur lönd sem Nílarfljót rennur í gegnum einnig virkjað og reynt að gera það samkvæmt samkomulagi sem ákveðið var fyrir einhverjum árum síðan. En þó hefur komið til mikilla deilna. Jafnvel hótanna um að sprengja stíflur – verði þær reistar. Egyptar eru til að mynda ekki par hrifnir af risastíflu Eþíópíumanna, virkjun sem verður sú aflmesta í Afríku og sú sjöunda stærsta í heimi. Vatnssöfnun er hafin í lóninu sem mun taka 4-7 ár að fylla.
„Fórstu í flúðasiglingu?“ spyr Jouko um stutta ferð mína til hins fagra bæjar Jinja er við höfum sagt skilið við úganska sem íslenska virkjanaumræðu. Ég fæ smávægilegan hroll en tekst að láta á engu bera. „Nei, ekki í þetta skipti,“ segi ég og hlæ taugaveiklunarhlátri. Ég legg það ekki á mínar nú viðkvæmu taugar að fara aftur í slíka í bráð, hugsa ég með mér.
Þetta var vissulega mikið ævintýri síðast. Að fara niður átta flúðir í félagi við ókunnugt en fjörlegt fólk víða að úr heiminum. „Það er viðbúið að þið fallið einu sinni eða tvisvar útbyrðis,“ hafði hin þrautþjálfaði flúðaleiðsögumaður varað okkur við í upphafi siglingar.
Ég flaug úr bátnum átta sinnum.
Í hverri einustu flúð.
Af því hlaust engin hætta. Kajakræðarar voru í fylgd gúmmíbátsins og fiskuðu mig upp úr eins og skot. Og það var allt annað en óþægilegt að fljóta um í volgri Níl. Að virða fyrir sér skógivaxna bakkana, heyra dyninn frá næstu flúðum og fá sólargeislana beint í augun nema þegar litskrúðugir fuglar flugu hjá og fönguðu athyglina.
Ég leysti þó engar heimsins gátur á þessu svamli mínu líkt og John Hanning Speke hafði gert á svipuðum slóðum 155 árum fyrr. En ég hafði þó áttað mig á að ólíkt flóðhestunum kunni ég best við mig á landi.