Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefst með opnunarleik Frakka og Rúmena í París í dag. Ísland tekur þátt í Evrópumeistaramótinu í fyrsta sinn í knattspyrnusögunni. Það er því ekki að undra að þeir Íslendingar sem ekki fylgjast reglulega með fótbolta viti ekkert hvað við erum búin að koma okkur útí. Hér eru nokkrar algengar spurningar sem þú þorðir ekki að spurja og svör við þeim.
Hvernig fer mótið fram?
Alls hlutu 24 lið þátttökurétt á Evrópumeistarmótinu (EM) í ár. Mótið er leikið í fimm skrefum; riðlakeppni, 16 liða úrslitum, 8 liða úrslitum, undanúrslitum og úrslitum. Liðunum er skipt í sex riðla þar sem fjögur lið eru í hverjum riðli. Liðin fjögur leika svo öll þrjá leiki, einn við hverja þjóð í riðlinum, samtals sex leiki.
Þá tekur úrslitakeppnin við og gilda nú nýjar reglur ef lið standa jöfn eftir 90 mínútna leik. Þá tekur við framlenging og ef ekki tekst að finna sigurvegara í framlengingu þá er gripið til vítaspyrnukeppni. Tvö lið úr hverjum riðli komast í 16 liða úrslit auk fjögurra liða sem lentu í þriðja sæti í riðlunum sínum. Þar ræður árangur liðanna í þriðja sæti því hvort liðið komist áfram.
Sigurvegarar úr átta leikjum í 16 liða úrslitum komast þá áfram í 8 liða úrslit og fjögur lið þaðan áfram í undanúrslit. Sigurvegararnir úr þeim tveimur leikjum takast svo á í úrslitum 10. júlí.
Á Ísland séns á að verða evrópumeistari?
Það verður að teljast í besta falli mjög langsóttur draumur. En miði er möguleiki! Grikkir mættu til leiks árið 2004, léku allar stærstu knattspyrnuþjóðir Evrópu grátt með þaulskipulögðum varnarleik og stóðu á endanum uppi sem sigurvegari. Svo það er allt hægt.
Þeir sem eru að telja lukkudísirnar sínar, halda að himintunglin standi akkúrat rétt eða eru bara til í að eyða nokkrum krónum geta opnað uppáhalds veðbankann sinn og sett á Ísland til að sigra mótið. Ef Ísland vinnur svo má búast við að upphæðin 125-faldist. Þeir allra bjartsýnustu ættu samt að setja pening á Albani sem taldir eru ólíklegastir. Gróðinn verður samt fínn ef allt gengur upp; upphæðin mun ekki nema 500-faldast. (Miðað er við stuðla bet365 fimmtudaginn 9. júní).
Hvenær eru leikir Íslands?
Íslenska liðið hefur nú komið sér fyrir í bækistöðvum sínum í Annecy-le-Vieux í vesturhluta Frakklands. Liðið leikur alls þrjá leiki í riðlakeppninni og aldrei á sama stað. Það hefur reynst íslenskum stuðningsmönnum nokkur hausverkur, enda um nokkuð langan veg að fara milli leikja. Ísland er í F-riðli með Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi.
Keppnisstaðir Íslands eru merktir appelsínugulir. Aðrir keppnisstaðir eru merktir fjólubláir.
Ísland leikur fyrsta leik sinn þriðjudaginn 14. júní í Saint-Étienne, ekki langt frá Annecy-bækistöðvunum. Leikurinn hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma og munu okkar menn etja kappi við Portúgal. Með Portúgal leikur Christiano Ronaldo, einn besti leikmaður heims. Portúgal hefur aldrei orðið Evrópumeistari en varð í öðru sæti á eftir Grikkjum árið 2004.
Annar leikur Íslands í riðlakeppninni verður gegn Ungverjum laugardaginn 18. júní í Marseille í Suður-Frakklandi. Leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma. Ungverjar eru góðir í fótbolta og harðir í horn að taka enda skipa þeir nú 20. sæti á listanum yfir sterkustu fótboltaþjóðir heims. Ungverjaland hefur aldrei orðið Evrópumeistari en urðu í þriðja sæti árið 1964.
Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni er gegn Austurríki miðvikudaginn 22. júní í París. Leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma, svo gera má ráð fyrir að fótboltaunnendur muni vilja fara fyrr heim úr vinnunni þann daginn. Austurríki hefur aldrei unnið mótið enda aðeins tekið þátt tvisvar. Það voru tvö síðustu mót árið 2008 og 2012. Austurríki er 10 sæti yfir bestu fótboltaþjóðir í heimi og hefur aldrei farið hærra.
Hverjir eru sigurstranglegastir á mótinu?
Frakkar eru, áður en mótið hefst, taldir sigurstranglegastir í veðbönkum. Frakkar hafa tvisvar orðið Evrópumeistarar, fyrst árið 1984 og svo árið 2000. Þýskaland er sú þjóð sem er talin eiga næst mestan séns á að hreppa gullið, rétt á undan Spánverjum.
Hvaða stórstjörnur mæta til leiks?
Evrópa er mikil fótboltaálfa og þaðan koma margir af bestu leikmönnum heims. Þeir sem ekki fylgjast reglulega með fótbolta ættu samt að hafa heyrt nöfn á borð við Christiano Ronaldo, Wayne Rooney, Zlatan Ibrahimovich og Tomas Müller.
Hversu lengi stendur mótið?
Mótið stendur í heilan mánuð frá 10. júní til 10. júlí. Leikið er á tíu leikvöngum vítt og breitt um Frakkland og í öllum helstu borgum landsins. Ísland keppir 14. júní, 18.júní og 22. júní í Saint-Étienne, Marseille og París. Leikir Íslands gætu orðið fleiri komumst við í úrslitakeppnina.
Í hvaða litum spilar Ísland?
Ísland tekur tvo búninga með sér til Frakklands. Aðalbúningurinn er blár og varabúningurinn er hvítur. Markmennirnir spila hins vegar í öðruvísi treyjum. Þær geta verið eiturgrænar eða svartar, eftir því við hvaða þjóð kappi er att.
Hverjir unnu síðast og þar áður?
Keppnin fer fram á fjögurra ára fresti og hefur gert síðan 1960. Í síðustu tvö skiptin, árið 2012 og 2008, hefur Spánn staðið uppi sem sigurvegari. Fyrrum herraþjóð okkar, Danir, hafa einu sinni unnið árið 1992.