Guðni Th. Jóhannesson nýtur meiri stuðnings meðal kvenna en karla. Þetta sést ef rýnt er í niðurstöður könnunar Gallup sem gerð var dagana 8. til 15. júní. Könnunin var nokkuð umfangsmikil því auk þess að vera gerð yfir viku langt tímabil tóku 1.610 manns þátt. Í kosningaspá Kjarnans frá 16. júní fékk þessi könnun Gallup 47,5 prósent vægi.
Í gögnunum sem Gallup sendi frá sér eru niðurstöður könnunarinnar listaðar. Guðni nýtur samtals 51 prósent fylgis þeirra sem taka afstöðu í könnuninni. Davíð Oddsson fær 16,4 prósent, Andri Snær Magnason fær 15,5 prósent og Halla Tómasdóttir 12,5 prósent.
Gallup sendi einnig niðurbrot á fylgi frambjóðendanna eftir kyni, aldri, búsetu og menntun (auk fjölskyldutekna sem skiluðu ekki marktækum mun). Þá voru þátttakendur í könnuninni spurðir hvað þeir kusu í forsetakosningunum árið 2012 og hvaða flokk þeir hyggðust kjósa í Alþingiskosningum, ef kosið yrði í dag.
Athygli vekur að Guðni nýtur nokkuð jafns fylgis, heilt yfir alla þessa þætti. Fylgi við framboð hans er í flestum þáttum um eða yfir 50 prósent, eða á pari við heildarfylgi hans í könnuninni. Annað á hins vegar við þegar kemur að því hvað fólk ætlar að kjósa í Alþingiskosningum og hvað það kaus árið 2012. Aðrir frambjóðendur njóta ekki viðlíka stöðugleika milli lýðflokka.
Stuðningsmenn stjórnarflokka vilja Davíð
Guðni nýtur yfirburðafylgis fólks sem hyggist kjósa Viðreisn, Pírata, Bjarta framtíð, Vinstri græn eða Samfylkinguna. Þeir sem hugsa sér að kjósa stjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk, ætla hins vegar miklu frekar að kjósa Davíð Oddsson. Það eru hins vegar sára fáir stuðningsmenn annarra flokka sem ætla að kjósa Davíð. Ber þar helst að nefna fimm prósent stuðningsmanna Viðreisnar.
Andri Snær nýtur helst stuðnings þeirra sem hugsa sér að kjósa Bjarta framtíð, Vinstri græna, Samfylkinguna eða Pírata. Aðeins eitt prósent stuðningsmanna hvers stjórnarflokks ætlar hins vegar að kjósa Andra Snæ. Halla Tómasdóttir nýtur nokkuð svipaðs fylgis meðal stuðingsmanna allra flokka.
Rétt er að geta þess, til útskýringar, að á myndinni hér að neðan er sýnt hlutfall þeirra sem hugsa sér að kjósa einhvern flokk. Flokkarnir njóta hins vegar mismikils fylgis, eins og hægt er að lesa um í nýjustu kosningaspánni fyrir þingkosningar í haust.
Í forsetakosningunum árið 2012 hlaut Ólafur Ragnar Grímsson um 53 prósent atkvæða. Í könnun Gallup segjast kjósendur ÓIafs helst ætla að kjósa Guðna í ár, eða 44 prósent þeirra. Tæpur þriðjungur kjósenda Ólafs ætlar að kjósa Davíð. Þóra Arnórsdóttir hlaut 33 prósent atkvæða árið 2012. Lang flestir kjósendur hennar ætla að kjósa Guðna í þetta sinn, eða 62 prósent. Aðeins þrjú prósent kjósenda Þóru ætla að kjósa Davíð Oddsson.
Athygli vekur að stuðningur við Andra Snæ er minnstur meðal kjósenda Ólafs Ragnars, einungis 5 prósent. Meðal kjósenda annarra frambjóðenda árið 2012 nýtur Andri mun meiri stuðnings. Stuðningsmenn Höllu virðast ekki skiptast jafn áberandi eftir því hvernig þeir kusu árið 2012.
Yngri kjósendur vilja frekar Andra en Davíð – Þeir eldri vilja frekar Davíð en Andra
Sé fylgi frambjóðendanna skoðað eftir því hversu gamlir kjósendur eru virðast línurnar helst birtast í fylgi við Davíð og Andra Snæ. Fólk í yngsta aldurshópnum 18 til 24 ára ætlar mun frekar að kjósa Andra Snæ, eða 27 prósent, og átta prósent ætla að kjósa Davíð. Þessi staða er þveröfug meðal þáttakenda sem falla í elsta aldurshópinn, 65 ára og eldri. Þar eru aðeins sjö prósent svarenda sem ætla að kjósa Andra Snæ en 26 prósent ætla að kjósa Davíð.
Guðni er eftir sem áður með yfirburðafylgi í öllum aldursflokkum. Elstu kjósendurnir vilja hann frekar í embætti forseta en þeir sem yngri eru. 59 prósent þátttakenda í könnun Gallup í elsta aldurshópnum ætla að kjósa Guðna. Samanborið við, til dæmis, aldurshópinn 35-44 ára þar sem 46 prósent þátttakenda hyggjast kjósa Guðna.
Hópurinn sem ætlar að kjósa Höllu virðist hins vegar vera yngri frekar en eldri. Hún nýtur minna en níu prósent fylgis meðal þeirra sem eru eldri en 55 ára. Þá njóta aðrir frambjóðendur en þeir fjórir sem hér hafa verið taldir upp mest fylgis í aldurshópnum 45-54 ára, eða níu prósent.
Þeir frambjóðendur sem flokkaðir eru sem „aðrir“ í sundurliðun Gallup eru Ástþór Magnússon, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Sturla Jónsson, Elísabet Jökulsdóttir og Hildur Þórðardóttir. Öll eiga þau sammerkt að mælast með mun minna heildarfylgi en Guðni, Davíð, Andri Snær og Halla.
Menntun og kyn hefur ekki mikil áhrif á fylgi við Guðna
Þegar stuðningur við frambjóðendur er skoðaður eftir kyni sést að tvöfalt fleiri karlar en konur ætla að kjósa Davíð Oddsson samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup. Hann nýtur stuðnings 22 prósent karla en aðeins 11 prósent kvenna. Aðra sögu er að segja um stuðninsmenn Höllu Tómasdóttur en hún nýtur stuðnings 18 prósent kvenna en aðeins átta prósent karla.
Aðrir frambjóðendur njóta álíka mikils fylgis meðal kvenna og karla. Þannig ætla 15 prósent kvenna og 16 prósent karla að kjósa Andra Snæ. Guðni nýtur örlítið meiri stuðnings kvenna en karla; 53 prósent kvenna ætla að kjósa hann og 49 prósent karla.
Ekki er heldur mikill munur á fylgi við Guðna eftir því hversu vel menntaðir þátttakendur í könnun Gallup eru. Þar er hann með yfirburðafylgi hvort sem fólk hefur lokið grunnskólamenntun, framhaldsskólaprófi eða háskólaprófi. Línurnar skerpast enn þegar litið er á menntunarstig stuðningsmanna Davíðs og Andra Snæs.
Þannig segjast 21 prósent þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi ætla að kjósa Davíð en 10 prósent þeirra Andra Snæ. Þetta snýst við þegar stuðningur þeirra sem lokið hafa háskólaprófi er skoðaður. Þar segjast níu prósent ætla að kjósa Davíð en 22 prósent Andra Snæ. Meðal þeirra sem aðeins hafa lokið framhaldsskólaprófi ætla 18 prósent að kjósa Davíð og 15 prósent Andra Snæ.
Sé stuðningur við frambjóðendur skoður eftir búsetu má enn sjá mun á fylgi við Andra Snæ og Davíð. Andri nýtur mun meira fylgis í höfuðborginni en Davíð. Í sveitarfélögum á landsbyggðinni ætlar 22 prósent að kjósa Davíð og 10 prósent Andra Snæ. Í Reykjavík eru það 21 prósent sem ætla að kjósa Andra Snæ en 12 prósent Davíð.
Kosið verður til forseta laugardaginn 25. júní næstkomandi.