Guðni Th. Jóhannesson mælist með 45,8 prósent fylgi í síðustu kosningaspánni sem gerð er fyrir forsetakosnignarnar á morgun. Halla Tómasdóttir mælist nú með 18,2 prósent fylgi og hefur síðan kosningaspáin var birt síðast, 16. júni, bætt við sig rúmlega sex prósentustigum á kostnað Guðna.
Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason eru með nánast jafn mikinn stuðning í embætti forseta. Davíð mælist nú með 15,7 prósent og Andri Snær með 15,2 prósent. Munurinn á milli þeirra er innan vikmarka.
Í kosningunum á morgun benda allar vísbendingar sem finna má í kosningaspánni til þess að Guðni Th. Jóhannesson verði kjörinn forseti. Stærsta spurningamerkið er hins vegar við kosningaþátttökuna. Kjörsóknin mun að öllum líkindum skekkja kosningaspána í samanburði við kosningaúrslitin sem kynnt verða á sunnudagsmorgun.
Erfitt er að áætla hversu margir muni skila sér á kjörstað. Sé söguleg kosningaþátttaka í forsetakosningum skoðuð sést að þegar valinn hefur verið nýr forseti þá hefur þátttakan verið nokkuð góð eða yfir 82 prósent. Í þau þrjú skipti sem forseti hefur verið endurkjörinn hefur kosningaþátttakan hins vegar verið minni.
Í forsetakosningunum árið 2012 var kjörsókn 69,3 prósent og árið 2004 var hún 62,9 prósent. Í bæði skiptin var Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn forseti Íslands. Þegar hann sóttist eftir embættinu í fyrsta sinn árið 1996 greiddu 85,9 prósent kosningabærra íslendinga atkvæði. Áður hafði Vigdís Finnbogadóttir sóst eftir endurkjöri árið 1988. Kosningaþátttakan var þá 72,8 prósent.
Í nýlegum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að kosningaþátttaka ungs fólks hefur minnkað hraðar á undanförnum árum en meðal þeirra sem eldri eru. Séu niðurstöður íslensku kosningarannsóknarinnar á kosingahegðun Íslendinga í síðustu fjórum Alþingiskosingunum skoðaðar, þá sést að yngstu aldurshóparnir draga kjörsóknarhlutfallið niður.
Í kosningunum á morgun verður sjötti forseti Íslands kjörinn. Sveinn Björnsson ríkisstjóri var fyrst kjörinn af Alþingi árið 1944. Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri var kjörinn í fyrstu almennu forsetakosningunum árið 1952. Árið 1968 var Kristján Eldjárn þjóðminjavörður kjörinn. Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri tók við embættinu 1980 og var endurkjörin 1988. Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður var kjörinn árið 1996 og endurkjörinn 2004 og 2012.
Fjórir turnar skipta með sér 94%
Fylgi við framboð Guðna, Höllu, Davíð og Andra Snæ er samtals 94,4 prósent í kosningaspánni sem gerð var í dag. Aðrir frambjóðendur skipta restinni með sér. Sturla Jónsson mælist með 2,5 prósent fylgi, Ástþór Magnússon er með 1,1 prósent og Elísabet Jökulsdóttir er með eitt prósent. Guðrún Margrét Pálsdóttir og Hildur Þórðardóttir eru með 0,3 prósent og 0,2 prósent fylgi, samkvæmt kosningaspánni.
Áhugavert er að líta á þróun fylgis frambjóðendanna. Þar ber helst að nefna ris Höllu Tómasdóttur úr tveimur prósentum um miðjan síðasta mánuð. Á rúmum mánuði hefur stuðningur við hana aukist gríðarlega og er hún nú með 18,2 prósent. Guðni Th. Jóhannesson var með 66 prósent fylgi þegar kosningaspáin var gerð fyrst fyrir forsetakosningarnar þann 13. maí. Hann hefur síðan tapað nokkuð miklu og mælist nú með 45,8 prósent.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er gerð í fyrsta sinn fyrir forsetakosningar í ár. Í þessari síðustu spá fyrir kosningar þá voru þrjár nýjustu kannanirnar vegnar:
- Skoðanakönnun Gallup fyrir RÚV 20. til 24. júní (vægi 52,9%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 19. til 22. júní (vægi 28,3%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 21. júní (vægi 18,8%)
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.