„Venusaur, Charizard, Blastoise, Pikachu og fleiri Pokémon-skrímsli hafa fundist á jörðu.“ Svona er hinn geysivinsæli Pokémon Go-leikur kynntur á AppStore-verslun Apple í snjallsímunum. Leikurinn er orðinn að einskonar „költi“ og það er ekki í fyrsta sinn sem Pokémon nær slíkum vinsældum. Risa stór mót eru haldin á fólkvöngum og fátt annað virðist komast að í umfjöllun fjölmiðla, nema þá kannski stöku valdarán og hvítabirnir.
Leikurinn kom út í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja Sjálandi 5. júlí síðastliðinn og varð strax feykivinsæll; svo vinsæll raunar að vefþjónarnir sem hýsa leikinn höfðu ekki undan umferðinni svo ákveðið var að fresta útgáfu leiksins í Evrópu og víðar. Leikurinn hafði verið sóttur 7,5 milljón sinnum 11. júlí og spilarar skráðu sig inn í að meðaltali 43 mínútur á dag.
Leikurinn varð svo aðgengilegur í íslenskum appverslunum rétt fyrir helgi. Blaðamanni Kjarnans hefur hins vegar ekki tekist að prófa leikinn því enn anna vefþjónarnir ekki umferð.
Það kemur ekki að sök hér, enda hefur verið nóg rætt um gang leiksins og hvernig ungmenni virðast ráfa stjórnlaust um allt í leit að Pokémon-skrímslum til að veiða. Skrímslin birtast á skjánum hjá þeim sem veiðir. Veiðimennirnir hafa þá þegar fundið þau á korti og þurfa að leita leiða til að komast að felustað skrímsisins.
Raunveruleikaviðhengi
Leikurinn er þess vegna eins konar viðbót við raunveruleikann og snjallsíminn orðinn að glugga inn í veröld sem við sjáum ekki með berum augum. Niantic, fyrirtækið sem framleiðir leikinn, hefur áður fengist við svipað viðfangsefni í snjallsímaleiknum Ingress sem kom út árið 2013. Í þeim leik virðast yfirnáttúrlegir hlutir hafa gerst á jörðinni og er það hlutverk spilarans að púsla saman vísbendingum og komast að leyndardóminum.
Niantic varð til sem nýsköpunardeild innan Google árið 2010. Þá hafði John Hanke, yfirmaður í kortadeild hugbúnaðarrisans, lýst áhuga sínum á að róa á önnur mið og halda áfram að búa til nýja hluti. Í stað þess að missa Hanke úr fyrirtækinu var ákveðið að búa til nýja deild í kringum hann þar sem hann gæti sinnt hugðarefnum sínum og búið til nýjar vörur með mátt Google á bak við sig.
„Ég er búinn að gera allt sem hægt er til að stilla þessu upp eins og nýsköpunarfyrirtæki,“ sagði Hanke í viðtali við Fastcompany.com árið 2013 um það leyti sem Ingress kom fyrst út. Það sem var óvanalegt við þetta nýsköpunarverkefni innan stórfyrirtækis var að honum var frjálst að gera hvað sem honum langaði, án þess að það væri tengt þeim vörum sem Google þurfti til að halda sínum stalli í tækniheiminum.
Þetta sprotafyrirtæki innan Google byrjaði þess vegna án vöru. Hanke hafði einungis hugmynd um hvað honum langaði að gera. Fyrst urðu til verkefni sem byggðu á kortagrunni Google, kannski eðlilega miðað við fyrra starf Hanke sem yfirmaður kortadeildarinnar. Field Trip-appið lét ferðalanga vita þegar þeir fóru framhjá merkilegum stöðum eða kennileitum og birti á skjánum fróðleik um það sem fyrir augum bar.
„Leiðarvísirinn þinn að töff, földum og einstökum hlutum í heiminum umhverfis þig,“ segir einhverstaðar í kynningarefni fyrir Field Trip. Gögnin sem hver notandi bjó til í því appi urðu á endanum mikilvæg fyrir Google til að fullkomna kortin á Google Maps og til að læra á gönguhegðun fólks.
En þegar eignarhald Google var endurskipulagt undir nafninu Alphabet í september árið 2015 fékk Niantic sjálfstæði frá skapara sínum. Stuttu síðar var komin stór fjárfesting frá Google, Nintendo og The Pokémon Company svo Niantic gæti haldið áfram að þróa raunveruleikaviðhengið sitt.
Hvað er málið með Pokémon?
Fjárfestingin nam 30 milljónum dollara, eða því sem nemur rúmlega 3,7 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar hefur íslenska sprotafyrirtækið Plain Vanilla fengið ríflega fjögurra milljarða króna í fjárfestingar frá stofnun fyrirtækisins. Leikurinn er frír í appverslunum en notendum býðst að eyða peningum í appinu með því að kaupa sér PokéCoins, einskonar spilapeninga, sem gjaldgengir eru í leiknum.
Leikurinn er þegar farinn að hafa áhrif á hlutabréfaverð eigenda leiksins. Japanski tölvuleikjaframleiðandinn Nintendo á 32 prósent hlut í verkefninu en hlutabréfaverðið hefur hækkað um 49 prósent síðan leikurinn kom út. Nintendo hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár eftir að snjallsímaleikir náðu yfirhöndinni á tölvuleikjamarkaðinum.
Pokémon er hins vegar mun eldra hugtak en snjallsíminn. Fyrir um 20 árum spiluðu ungmenni og safnarar með Pokémon-spil, og gera raunar enn. Pokémon Go-leikurinn bætir við nýju lagi af raunveruleikanum í þennan farsæla leik.
Leikurinn, hvort sem það er með spilum, á Nintendo Game Boy-leikjatölvu eða í snjallsímanum, hefur flesta þá hvata sem góður tölvuleikur þarf til að vera ávanabinandi og kalla á meiri spilun. Quatric Foundry, fyrirtæki sem greinir tölvuleiki og notkun þeirra, greinir þessa hvata sem: aðgerðir, félagsþátttaka, leikni, einbeiting, sköpunargáfa og viðurkenning fyrir afrek.
Þetta síðasta hefur einstaklega mikið að gera með vinsældir leikja og annarra snjallforrita. Margir þekkja fryggðina sem fylgir því að ná settu skrefatakmarki á dag, hvort sem það er á þar tilgerðu armbandi eða í sérstökum skrefamæli í snjallsímanum. Það sama er með Pokémon þar sem fólk er verðlaunað fyrir að fara víða og safna skrímslum og hvað eina. Þetta má jafnvel heimfæra á aðra útivist; hvers vegna förum við í fjallgöngur eða í golf nema til að ná einhverju takmarki.
Höfundur Pokémon-hugmyndarinnar, Satoshi Tajiri, þótti til dæmis ofboðslega gaman að veiða skordýr þegar hann var ungur drengur í úthverfi Tokyo á sjöunda og áttunda áratugnum. Það er raunar uppruna Pokémon að finna; í skordýraveiðum.
Framtíð snjalltækjatölvuleikja er spennandi því það þykir nær augljóst að fleiri leikir fylgi fordæmi Ingress og Pokémon Go og noti alla tækni snjallsímanna í leikinn. Ætli kortatenging Pokémon Go sé bara brella eða hugsanlega framtíðin í snjallsímatölvuleikjum? Slíkt verður tíminn að fá að leiða í ljós.