Píratar mælast með mest fylgi í nýjustu kosningaspánni og njóta stuðnings 26,9 prósent kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn er mælist með 23,8 prósent fylgi. Pírataflokkurinn hefur nú mælst stærstur í öllum kosningaspám í rúman mánuð, eða síðan fylgi við Sjálfstæðismenn tók að falla á ný í byrjun júní.
Vinstri hreyfingin grænt framboð mundi fá 15,6 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Það er örlítið minna en þegar kosningaspáin var gerð síðast 7. júlí; fylgi við flokkinn minnkar um heilt prósentustig. Fylgi við Vinstri græn minnkar þannig mest allra framboðanna sem hyggjast bjóða fram í alþingiskosningunum sem fyrirhugaðar eru í haust.
Kosningaspáin sýnir fylgið við Viðreisn, Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn hnífjafnt. Viðreisn og Samfylkingin mælast með 8,9 prósent fylgi hvort um sig og Framsóknarflokkur með 8,7 prósent. Ekki er marktækur munur á fylgi þessara framboða, eins og gefur að skilja.
Björt framtíð og önnur framboð mundu öll fá minna en fjögur prósent fylgi á landsvísu ef gengið yrði til kosninga nú. Björt framtíð mælist með 3,7 prósent fylgi og önnur framboð myndu fá samanlagt 3,5 prósent. Gera má ráð fyrir að framboð þurfi um fimm prósent atkvæða á landsvísu í kosningum til þess að ná kjöri. Ekki er enn farið að mæla stuðning við framboð til Alþingis eftir kjördæmum fyrir fyrirhugaðar kosningar í haust.
Nýjustu vendingar ekki með
Kosningaspáin tekur ekki tillit til nýjustu vendinga í stjórnmálunum enda var nýjasta könnunin sem keyrð var í spálíkanið var gerð á dögunum 15. til 22. júlí síðastliðinn. Í gær, 25. júlí, tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, svo endurkomu sína í stjórnmálin.
Í dag, 26. júlí, lýstu stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar, Vinstri græn og Samfylkingin því yfir að þeir sjái sér ekki fært að vinna með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn eftir kosningar, ef sú staða kemur upp. Þær Birgitta Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Oddný G. Harðardóttir gagnrýndu einnig skrif Sigmundar Davíðs. Forsvarsmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sögðust ekki geta útilokað hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf við neinn flokk.
Þess má vænta að áhrif yfirlýsinga Sigmundar og stjórnarandstöðuflokkanna muni hafa áhrif á fylgi framboðanna þegar kosningaspáin verður gerð næst. Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif yfirlýsingarnar hafa á bæði fylgi Framsóknarflokksins og hins vegar á fylgi stjórnarandstöðuflokkanna og Viðreisn.
Muni næsta könnun á fylgi stjórnmálaflokka sem verður birt taka til þessara tveggja daga gætu verið vísbendingar um hvernig kjósendur taka þessum vendingum. Að öllu óbreyttu munu breytingar á fylgi Framsóknarflokksins í næstu kosningaspá lýsa því hvernig almenningur tekur endurkomu Sigmundar Davíðs úr leyfi eftir Wintris-skandalinn sem skók íslensk stjórnmál í byrjun apríl. Sigmundi varð, eins og kunnugt er, ekki stætt í stóli forsætisráðherra eftir að málið kom upp.
Þá verður spennandi að fylgjast með því hvernig kjósendur bregðast við yfirlýsingum stjórnarandstöðuflokkanna og Viðreisnar. Þær yfirlýsingar gætu hugsanlega hafa áhrif á fylgi bæði Sjálfstæðisflokksins og hinna flokkanna.
Um nýjustu kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin var gerð 25. júlí og er byggð á fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboðanna sem hyggjast bjóða fram í kosningunum í haust. Nýustu tvær kannanirnar vega í þetta sinn ekki þyngst sökum stærðar könnunar Gallup sem birt var 3. júlí. Áður en könnun er bætt við í kosningaspána hlýtur hún vægi gagnvart öðrum fyrirliggjandi könnunum sem byggir meðal annars á lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda. Kannanirnar sem liggja til grundvallar kosningaspánni 25. júlí eru eftirfarandi:
- Skoðanakönnun MMR 15. júlí til 22. júlí (vægi 27,2%)
- Skoðanakönnun MMR 27. júní til 4. júlí (vægi 19,4%)
- Þjóðarpúls Gallup 26. maí til 29. júní (vægi 33,8%)
- Skoðanak. Félagsvísindast. HÍ f. Morgunbl. 19. til 22. júní (vægi 19,6%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.