Menntamálaráðuneytið hefur á undanförnum tíu árum greitt 40 milljónir fyrir sýningarrétt á 12 kvikmyndum eftir íslenska leikstjóra í skólum landsins. Síðan 1988 hefur ráðuneytið greitt að minnsta kosti 80,4 milljónir fyrir kvikmyndasýningar í skólum.
Í ráðuneytinu liggja hins vegar ekki fyrir upplýsingar um kaup á kvikmyndum sem gerð voru fyrir árið 1988. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um útgjöld til kaupa á sýningarétti á kvikmyndum segir jafnframt að greiðslur fyrir kvikmyndir síðan 1988 gæti jafnvel verið hærri og sé að minnsta kosti 80,4 milljónir króna.
Daginn fyrir kosningar til Alþingis síðastliðið haust, hinn 28. október 2016, undirritaði Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, styrktarsamning sem ætlað var að mæta kostnaði við sýningar og kynningu á tilurð kvikmyndarinnar Eiðurinn fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla um land allt. Fyrir hönd framleiðandans – RVK Films – skrifaði Baltasar Kormákur, leikstjóri og aðalleikari í Eiðnum, undir styrktarsamninginn.
Samningurinn sem Illugi og Baltasar undirrituðu var að upphæð 10 milljónir króna og gildir í sjö mánuði eftir undirritun eða fram undir lok skólaársins 2016-2017. Þessar tíu milljónir voru greiddar fyrir sýningarrétt að myndinni og til styrktar kynningarstarfs.
Í frétt á vef ráðuneytisins sem birtist 3. nóvember 2016 segir að ástæða styrktarsamningsins sé að efla forvarnarstarf fyrir elstu nemendur grunnskóla landsins.
Í kvikmyndinni eftir Baltasar er fjallað um reykvískan lækni sem kemst að því að dóttir hans hefur hafið sambúð með skuggalegum manni, og að hún neyti eiturlyfja reglulega. Viðbrögð föðursins, sem leikinn er af Baltasar sjálfum, eru að reyna að slíta sambandi dóttur sinnar við hinn skuggalega náunga. Það verður svo ekki rakið hér hvernig það mál endar allt saman.
Baltasar hefur sjálfur ferðast um landið og fylgt sýningunum eftir og svarað spurningum skólabarnanna, eftir að sýningunum lýkur.
Friðrik fékk 30 milljónir fyrir 11 myndir
Menntamálaráðuneytið gerði sambærilegan samning síðast við Friðrik Þór Friðriksson árið 2007. Þá greiddi ráðuneytið 30 milljónir króna fyrir sýningarrétt á ellefu kvikmyndum eftir Friðrik Þór í 15 ár.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að í samningunum hafi falist réttur til opinberra sýninga í skólum landsins á tilgreindum kvikmyndum. Tilefnið samkomulagsins hafi verið að sýna kvikmyndir Friðriks við kennslu í íslenskum bókmenntum og kvikmyndafræðum.
Í svarinu er það hins vegar ekki tilgreint hvaða myndir það eru sem Friðrik Þór veitti sýningarrétt af. Myndir hans eru margar hverjar vel þekktar og teljast sumar til íslenskra klassíkera, ef svo má að orði komast.
Sérstaklega er minnisstæð myndin Börn náttúrunnar frá 1991, þar sem Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín fóru með aðalhlutverk. Myndin hlaut mörg verðlaun og var jafnframt tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki bestu erlendu kvikmynda árið 1992.
Fleiri þekktar myndir eftir Friðrik Þór eru til dæmis Djöflaeyjan, Englar Alheimsins og Bíódagar.
Samningar við Friðrik Þór renna út skólaárið 2021-2022.
Eldri samningar
Menntamálaráðuneytið hefur áður gert samninga á borð við þessa. Upplýsingar um kaup á kvikmyndum liggja ekki fyrir fram til ársins 1988 en síðan hefur ráðuneytið reglulega gert samning um sýningarétt á kvikmyndum í skólum
Árið 1988 var gerður samningur við Þorstein Jónsson um sýningarétt á Atómstöðinni og Punktur, punktur, komma strik. Fyrir þann samning greiddi ráðuneytið fimm milljón krónur fyrir sýningarréttinn.
Ráðuneytið gerði svo samning árið 1992 við F.I.L.M. um sýningarrétt á kvikmyndinni Lilju eftir Hrafn Gunnlaugsson. Gerðir voru tveir samningar við Hrafn sem runnu út árið 2004 og 2005. Samtals voru greiðslur fyrir þessa samninga frá ríkinu til Hrafns 7,9 milljón krónur.
Árið 1994 var gerður samningur við framleiðslufyrirtækið Tíu-tíu á tveimur kvikmyndum eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Myndirnar Á hjara veraldar og Svo á jörðu sem og himni mátti þá sýna í skólum landsins. Sýningarrétturinn kostaði ráðuneytið 7,5 milljónir króna en í svari frá ráðuneytinu kemur ekki fram hversu langan tíma samningurinn spannaði.
Síðasti samningurinn sem gerður var áður en samið var við Friðrik Þór var gerður árið 2005 þegar menntamálaráðuneytið keypti allt kvikmyndasafn Ósvaldar Knudsen og Vilhjálms Knudsen. Umsamið kaupverð var 20 milljónir króna. Ekki er sérstaklega fjallað um rétt til opinberra sýninga á því myndefni sem keypt var.
Þeir feðgar Ósvaldur Knudsen og Vilhjálmur sonur hans mynduðu öll eldgos á Íslandi frá árinu 1961 og eltu uppi jarðhræringar síðan í Surtseyjargosi. Myndasafnið sem ráðuneytið festi kaup á er því að öllum líkindum nokkuð stórt og verðmæt heimild um íslenskan veruleika.