Donald Tusk, forseti Evrópuráðs Evrópusambandsins, kynnti drög að áætlunum Evrópusambandsins (ESB) í aðdraganda viðræðnanna við Bretland í Kýpur í gærmorgun. Aðildarríkin 27 hafa fengið drögin send til umsagnar.
Drögin verða rædd og endurskoðuð á ráðstefnu forsætisráðherra aðildarríkjanna í lok apríl. Úr þeirri vinnu eiga fyrirætlanir Evrópusambandsins að vera samþykktar áður en viðræður hefjast við Breta um útgöngu þeirra úr ESB sem verður í síðasta lagi í mars 2019, hvort sem samningar hafa tekist eður ei.
Í drögunum má hins vegar finna margar vísbendingar um afstöðu ESB til hinna ýmsu mála sem orðið hafa til í kjölfar þess að Bretar ákváðu að yfirgefa sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sumar.
Svo gæti farið að með lögskilnaði Bretlands og ESB muni Spánn fá Gíbraltar aftur úr hendi Breta. Í áætlunardrögunum má finna klausu um að ESB ætli nú að styðja kröfu Spánverja um að hafa sitt að segja í málefnum Gíbraltar.
Í frétt The Guardian segir að með þessu sé Evrópusambandið í raun að gefa Spánverjum neitunarvald í öllum viðræðum Bretlands og Evrópusambandsins. Í reynd lítur Evrópusambandið þannig á málið að með því að yfirgefa ESB þá þurfi Bretar að semja upp á nýtt um landsvæðið sem tilheyrir Gíbraltar, og þá beint við Spán.
Þetta mun að öllum líkindum reita bresk stjórnvöld til reiði, enda hafa Bretar hafnað öllum kröfum Spánverja um að Gíbraltar verði aftur innan spænskra landamæra. Bretar tóku Gíbraltar yfir árið 1713 og íbúar þar hafa haft breskt ríkisfang síðan.
Skotar vilja kjósa um sjálfstæði
Heima í Bretlandi berjast Bresk stjórnvöld við annað risamál því nú hafa Skotar óskað eftir því formlega að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands. 59 þingmenn af 69 á skoska þinginu kusu með þeirri tillögu að óskað yrði eftir atkvæðagreiðslunni.
Í skoðanakönnunum er ekki hægt að greina á hvorn veg slík þjóðaratkvæðagreiðsla mundi fara, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit kusu Skotar heldur að vera áfram í ESB. 62 prósent skosku þjóðarinnar kaus gegn útgöngu. Það er því hugsanlegt að breska sambandsríkið liðist í sundur með útgöngu Breta.
Risaákvarðanir fram undan
Síðan Bretland hóf formlega þátttöku í Evrópusamvinnunni árið 1973 hefur gríðarlega margt breyst í breskri stjórnsýslu. Ýmis verkefni sem áður voru á könnu embættismanna í London hafa færst til Brussel og enn fleiri verkefni sem urðu til á síðustu áratugum hefur ávalt verið stjórnað frá Brussel eða Frankfurt.
Það mun því verða risavaxið verkefni fyrir bresk stjórnvöld að færa þessi verkefni aftur til London og koma þeim fyrir í bresku stjórnkerfi.
Átök eru þegar hafin um þetta mál í sölum breska þingsins. Lagafrumvarpið sem Brexit-ráðherrann David Davis hefur lagt fram hefur fengið nafnið „the Great Repeal Bill“, sem hægt er að kalla „Stóru afnámslögin“ á íslensku. Stjórnmálaskýrendur á Bretlandseyjum telja afnámslögin vera eina stærstu aðgerð stjórnvalda þegar kemur að útgöngu Breta.
Í frumvarpi stóru afnámslaganna er breskum stjórnvöldum gert kleift að ýta á bilinu 800 til 1.000 mismunandi lögum í gegnum þingið án þess að þau fái þinglega meðferð. Stjórnarandstæðingar og stjórnmálaskýrendur hafa bent á spillingarhættuna sem fylgir þessu, og tækifærunum sem bresk stjórnvöld fá til þess að auka völd sín gagnvart þinginu.