Um þetta leyti fyrir réttum, tjah, eigum við að segja 1984 árum, lögðu nokkrar konur leið sína að gröf Jesús frá Nasaret sem hafði tveimur dögum fyrr verið líflátinn á krossi fyrir guðlast. Rak þær í rogastans þegar þær sáu að gröfin hafði verið opnuð og var tóm, en engill birtist þeim þar og tjáði þeim að allt væri í sóma og vel það, því að Jesú væri upprisinn. Frá þessu segir alltjent í guðspjöllunum, forsöguna og framhaldið kannast flestir við.
Sögurnar af ævi Jesús, afrekum hans, dauða og upprisu eru að sjálfsögðu trúarkenningar fremur en sannanlegar sagnfræðilegar heimildir, en hversu mikið af því sem sagt er að hafi gerst síðustu daga Jesús má gefa sér að sé staðreynd?
Var Jesú til?
Stutta svarið er: Að öllum líkindum.
Fyrir utan guðspjöll biblíunnar, sem voru skrifuð nokkru eftir að hann átti að hafa látist, er minnst á Jesú í að minnsta kosti tveimur sagnfræðiritum.
Sagnaritarinn Flavíus Jósefus minnist á Jesú á tveimur stöðum í riti sínu um sögu gyðingdóms, sem ritað var um árið 93 e.kr. samkvæmt gildandi tímatali (það er svo önnur pæling, hvort ártalskerfið rími fullkomlega við tímasetningu fæðingar Jesús). Þar er annars vegar minnst á dauða og upprisu Jesús og hins vegar talað um Jakob, „bróður Jesús, hins svokallaða Krists“. Margir hafa viljað meina að fyrrnefndi kaflinn sé seinni tíma viðbót þar sem afritari hafi brugðið jákvæðara ljósi á Jesú en var að finna í upprunalegu útgáfu Jósefusar.
Þá er Jesús einnig getið í annálum rómverska sagnaritarans Tacítusar. Hann getur þess að Jesú hafi verið tekinn af lífi á valdatíð Pontíusar Pílatusar í Palestínu, en hún er talin hafa staðið frá 26-36 e.kr. og passar það vel við það sem kemur fram í guðspjöllunum.
Þar að auki má nefna rit Plíníusar yngri, sem var landstjóri Rómar þar sem Tyrkland er í dag. Í bréfi hans til Trajanusar keisara, sem ritað er um 112 e.kr. minnist hann á kristna menn á umsjónarsvæði sínu og spyr hvernig eigi að refsa þeim fyrir einhverja ótilgreinda glæpi. Þó ekki sé minnst á Jesú beint, er þetta heimild um að fylgjendur hans hafi verið farnir að láta til sín taka á þessum tíma.
Þannig má teljast líklegra en ekki að maður að nafni Jesú hafi verið til í Palestínu, nokkurn veginn á þeim tíma sem um er rætt, þótt engar beinar sannanir liggi fyrir því.
Átti dauði hans og upprisa sér stað um páska?
Stutta svarið er: Já.
Þrátt fyrir að upprisan, líkt og önnur yfirnáttúruleg afrek Jesús, sé háð því að fólk trúi á kennisetningar kristni, er dauða hans getið í ofangreindum heimildum.
Sögurnar í biblíunni ganga út frá því að dauða Jesús hafi borið upp á páskahátíðinni, sem er forn hátíð sem Hebrear tengdu sauðburði, og gyðingar síðar flóttanum frá Egyptalandi.
Jesú reið, samkvæmt biblíunni, inn í Jerúsalem á pálmasunnudag og allt sem frá segir eftir það á að hafa gerst innan páskahátíðar gyðinga.
Hvað sem svo gerðist nákvæmlega þessa daga er ómögulegt að segja til um. Hins vegar ómar enn af þeim til dagsins í dag, og jafnvel þótt veraldlegur þankagangur og efahyggja hafi breytt eðli páskanna halda menn, konur og börn áfram að halda þá hátíðlega, sama hvað spurningunum hér að ofan líður.