Íslenska landsliðið hefur leik á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu á þriðjudaginn þegar stelpurnar okkar mæta Frökkum í Hollandi.
Mikil stemmning er fyrir mótinu enda spilaði íslenska liðið frábæran fótbolta í undankeppni mótsins. Þetta er í þriðja sinn sem íslenska landsliðið tekur þátt í Evrópumeistaramótinu. Síðast náðu stelpurnar frábærum árangri en féllu úr leik í fjórðungsúrslitum.
Evrópumótið hefst í dag með leik Hollands og Noregs. RÚV verður með mikla umfjöllun um leikinn og sýnir frá öllum leikjum Íslands. Útsending frá opnunarleiknum hefst klukkan 15:30.
Hvernig gengur mótið fyrir sig?
Alls taka 16 lið þátt í keppninni í ár en aldrei hafa fleiri lið hlotið þátttökurétt í lokamóti Evrópumeistaramóts kvenna í fótbolta. Mótið er leikið í fjórum skrefum; riðlakeppni, 8 liða úrslitum, undanúrslitum og úrslitum. Liðunum er skipt í fjóra riðla þar sem fjögur lið eru í hverjum riðli. Liðin fjögur leika svo öll þrjá leiki, einn við hverja þjóð í riðlinum, samtals sex leiki.
Þá tekur úrslitakeppnin við og gilda nú nýjar reglur er lið standa jöfn eftir 90 mínútna leik. Þá tekur við framlenging og ef ekki tekst að finna sigurvegara í framlengingu þá er gripið til vítaspyrnukeppni. Tvö lið úr hverju riðli komast í 8 liða úrslit.
Sigurvegarar úr fjórum leikjum í 8 liða úrslitum komast áfram í undanúrslit og sigurvegarar úr tveimur leikjum taka svo þátt í úrslitaleik mótsins 6. ágúst.
Hvenær spilar Ísland?
Íslenska liðið leikur alls þrjá leiki í riðlakeppninni og aldrei á sama stað. Leikir Íslands í riðlakeppninni eru þó allir í sunnanverðu Hollandi og vegalengdirnar á milli takmarkaðar. Keppnisstaðir Íslands í riðlakeppninni eru merktir með rauðu á kortið hér að ofan. Íslenskir stuðningsmenn þurfa þess vegna að ferðast á milli borga til þess að styðja okkar konur. Ísland leikur í C-riðli. Þar leika einnig Frakkland, Austurríki og Sviss.
Fyrsti leikur Íslands verður gegn franska liðinu í borginni Tilburg, skammt frá landamærunum við Belgíu, hinn 18. júlí. Leikurinn hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Franska liðið er sterkt og er talið vera besta liðið í C-riðli. Besti árangur franska liðsins er hins vegar sá sami og íslenska landsliðsins, fjórðungsúrslit í síðustu keppni árið 2013.
Ísland tapaði 0-1 í leiknum gegn Frökkum og er með 0 stig þegar tveir leikir eru eftir í riðlakeppninni. Frétt Kjarnans um úrslitin.
Ísland mætir Sviss fjórum dögum síðar á Doetinchem-leikvanginum í De Vijverberg, í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Tilburg, laugardaginn 22. júlí. Leikurinn gegn Sviss hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma. Sviss er að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í fyrsta sinn.
Ísland tapaði 1-2 í leiknum gegn Sviss og er með 0 stig þegar einn leikur er eftir í riðlakeppninni. Frétt Kjarnans um úrslitin.
Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni verður svo gegn Austurríki miðvikudaginn 26. júlí. Sá leikur hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma og fer fram í Rotterdam. Austurríki hefur heldur aldrei tekið þátt í Evrópumeistaramótinu.
Hversu lengi stendur mótið?
Úrslitaleikur mótsins verður leikinn sunnudaginn 6. ágúst í Enschede austast í Hollandi. Þetta er sunnudagur um verslunarmannahelgi svo það er um að gera að finna góðan stað til að horfa á leikinn. Íslenski hópurinn á alveg möguleika á að komast í úrslitaleikinn!
Hverjar eru í liðinu?
Eftir að hafa leikið gríðarlega vel í undankeppni Evrópumótsins fékk íslenska liðið slæmar fréttir um að fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir yrði ekki með í lokakeppninni vegna meiðsla. Íslenski leikmannahópurinn er sterkur og lætur þetta ekki á sig fá. Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona, sagði í samtali við RÚV á dögunum að liðið væri óðum að ná fyrri styrk eftir öll meiðslin sem hrjáð hafa liðið.
Það verður Sara Björk Gunnarsdóttir sem ber fyrirliðabandið í stað Margrétar Láru í lokakeppninni. Hún fer fyrir öflugu liði sem ætlar sér langt í keppninni. Þetta verður þriðja lokamót Evrópukeppninnar sem Sara Björk tekur þátt í.
Lið Íslands er svo skipað:
Nr. | Staða | Leikmaður | Aldur | landsleikir | Mörk | Félagslið |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | Mark | Guðbjörg Gunnarsdóttir | 32 | 51 | 0 | Djurgården |
2 | Vörn | Sif Atladóttir | 31 | 63 | 0 | Kristianstad |
3 | Vörn | Ingibjörg Sigurðardóttir | 19 | 2 | 0 | Breiðablik |
4 | Vörn | Glódís Perla Viggósdóttir | 22 | 54 | 2 | Eskilstuna United |
5 | Miðja | Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir | 28 | 42 | 5 | Vålerenga |
6 | Sókn | Hólmfríður Magnúsdóttir | 32 | 110 | 37 | KR Reykjavík |
7 | Miðja | Sara Björk Gunnarsdóttir (c) | 26 | 106 | 18 | Wolfsburg |
8 | Miðja | Sigríður Lára Garðarsdóttir | 23 | 8 | 0 | Vestmannaeyjar |
9 | Miðja | Katrín Ásbjörnsdóttir | 24 | 13 | 1 | Stjarnan |
10 | Miðja | Dagný Brynjarsdóttir | 25 | 70 | 19 | Portland Thorns |
11 | Vörn | Hallbera Guðný Gísladóttir | 30 | 84 | 3 | Djurgården |
12 | Mark | Sandra Sigurðardóttir | 30 | 16 | 0 | Valur |
13 | Mark | Sonný Lára Þráinsdóttir | 30 | 3 | 0 | Breiðablik |
14 | Vörn | Málfríður Erna Sigurðardóttir | 33 | 33 | 2 | Valur |
15 | Sókn | Elín Metta Jensen | 22 | 28 | 5 | Valur |
16 | Sókn | Harpa Þorsteinsdóttir | 31 | 61 | 18 | Stjarnan |
17 | Miðja | Agla María Albertsdóttir | 17 | 4 | 0 | Stjarnan |
18 | Miðja | Sandra Jessen | 22 | 18 | 6 | Þór/KA Akureyri |
19 | Vörn | Anna Björk Kristjánsdóttir | 27 | 31 | 0 | Limhamn Bunkeflo |
20 | Sókn | Berglind Björg Þorvaldsdóttir | 25 | 27 | 1 | Breiðablik |
21 | Vörn | Arna Ásgrímsdóttir | 24 | 12 | 1 | Valur |
22 | Sókn | Rakel Hönnudóttir | 28 | 83 | 5 | Breiðablik |
23 | Sókn | Fanndís Friðriksdóttir | 27 | 84 | 10 | Breiðablik |
Hvaða lið er sigurstranglegast?
Sigurstranglegasta lið keppninnar er án efa Þýskaland. Þýskaland hefur staðið uppi sem sigurvegari í Evrópumótinu í síðustu sex skiptin sem það hefur verið haldið. Veðbankar telja þýska liðið einnig vera sigurstranglegast, þær fá líkurnar 2/1 á því að vinna mótið sem lýsir fáheyrðum yfirburðum þeirra vel. Frönsku konurnar eru taldar næst sigurstranglegastar, með 3/1.
Ísland á auðvitað möguleika á sigri, það fylgir miðanum á mótið að þær eiga séns á að lyfta dollunni. Til þess þurfa þær hins vegar að leggja sterkustu lið heims að velli.
Áfram Ísland!