Með hvaða aðferðum best er að meðhöndla Norður-Kóreu hefur verið verkefni alþjóðasamfélagsins síðan í lok seinni heimsstyrjaldar. Stjórnvöld í Pjongjang halda því fram að Kóreustríðinu sé í raun ekki enn lokið og gera þess vegna enn formlegt tilkall til allrar Kóreu.
Á undanförnum árum hefur norðurkóreski herinn gert tilraunir með kjarnorkuvopn og hefur tekist svo vel til að nú er talið að Norður-Kórea búi yfir langdrægum skotflaugum sem geta borið kjarnaodda alla leið yfir Kyrrahafið og til Bandaríkjanna. Tilraunin sem gerð var 4. júlí síðastliðinn, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, sannfærði umheiminn endanlega um þetta.
Valdajafnvægið í heiminum vó salt um leið.
Í þrískiptri umfjöllun Kjarnans um Norður-Kóreu verður reynt að svara eftirfarandi spurningum: Hvað er til ráða? Hvað hefur verið reynt? Og hvers vegna er ástandið svona? Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að rifja upp aðdraganda málsins.
Norður-Kórea verður til
Alþýðulýðveldið Norður-Kórea varð til í allt annari veröld en nú er. Eftir seinni heimsstyrjöldina var Kóreuskaganum skipt upp í tvö hernámssvæði, en Japan hafði hertekið skagann allan í stríðinu. Um það bil sömu aðferðum var beitt í Kóreu og í Þýskalandi; Sovétríkin fengu nyrðri helminginn og Bandaríkin syðri helminginn.
Stofnuð voru ríki í báðum hlutum Kóreuskagans sem gerðu bæði tilkall til allrar Kóreu. Sá ágreiningur leiddi til Kóreustríðsins í júní 1950 þegar norðanmenn réðust suður yfir landamærin.
Kim il-Sung, fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu, stjórnaði þá landinu í umboði og með aðstoð stjórnvalda í Moskvu. Kim komst alla leið syðst á Kóreuskagann en tókst aldrei að ná syðstu borginni Busan.
Stríð!
Sameinuðu þjóðirnar höfðu komið óviðbúnum Suður-Kóreubúum til aðstoðar þegar norðanmenn réðust yfir landamærin á 38. breiddargráðu. Kim hafði auðvitað stuðning bæði Stalíns í Moskvu og Maó í Peking og naut tiltölulega fullkominna hernaðargagna frá Sovétríkjunum.
Douglas MacArthur, hinn frægi pípureykjandi hershöfðingi úr bandaríska hernum, leiddi hernað Sameinuðu þjóðanna (þar sem Bandaríkin lögðu mest til mála). Hernaðurinn var gerður út á vegum Sameinuðu þjóðanna í krafti ákvörðunar Öryggisráðs SÞ sem gerð var að Sovétríkjunum fjarstöddum. Sovétmenn höfðu skrópað á fundi Öryggisráðsins til að mótmæla því að fulltrúar Taívan fengju sæti í ráðinu en ekki Kínverjar. Fljótlega eftir að Sovétmenn áttuðu sig á hvaða afleiðingar fjarvera þeirra gæti haft batnaði mæting þeirra.
MacArthur náði að snúa taflinu í hag sunnanmanna með því að koma hershöfðingjum Kim á óvart með innrás í borgina Incheon, stutt vestan við Seúl um miðjan skagann, 14. september 1950.
Fljótlega tókst her Sameinuðu þjóðanna að stöðva nauðsynjaflutninga suður eftir Kóreu úr norðri. Þannig tókst mótspyrnan vel og á tiltölulega skömmum tíma tókst að reka heri Kim aftur yfir 38. breiddargráðu, landamærin sem samið hafði verið um.
Það hefði hugsanlega mátt leyfa því að duga en raunin varð önnur. MacArthur fékk heimild frá yfirmönnum sínum að ráðist inn á yfirráðasvæði Norður-Kóreu. Það var gert með svo gríðarlegu ógnarvaldi að enn þann dag í dag er þessarar innrásar „bandarískra heimsvaldasinna“ minnst í Norður-Kóreu sem ástæðu hatursins í garð hins vestræna heims.
Her sunnanmanna með stuðningi Bandaríkjanna kastaði að talið er 635.000 tonnum af sprengjum úr lofti á Norður-Kóreu. Borgir voru lagðar í rúst, stíflur og mannvirki voru sprengd þannig að vatn flæddi yfir ræktarland með hryllilegum afleiðingum fyrir almenning. Til samanburðar þá köstuðu Bandaríkin um 503.000 tonnum af sprengjum í öllu Kyrrahafsstríðinu í seinni heimsstryjöldinni. Bandaríkin sprengdu svo mikið að yfirmenn í flughernum kvörtuðu undan skotmarkaleysi í Norður-Kóreu.
Maó, kommúnistaleiðtoginn í Kína, hafði lofað að senda kínverska hermenn yfir landamærin til Norður-Kóreu ef suðrið myndi ráðast norður yfir 38. breiddargráðuna. Þegar MacArthur hafði náð nánast allri Norður-Kóreu tókst Kínverjum að ýta sunnanmönnum til baka. Þegar hér er komið við sögu hafði Kóreu-stríðið staðið í um hálft ár.
Í byrjun árs 1951 reyndu Norður-Kórea og Kína að sækja suður og tókst að ná Seúl, áður en Suður-Kórea náði borginni aftur nokkrum mánuðum síðar. Norðanmenn, með stóra frænda sinn sér að baki, reyndu nokkrum sinnum að sækja suður en framsókn þeirra var sífellt stöðvuð við 38. breiddargráðuna.
Friðarviðræður hófust í júlí 1951 á meðan enn var barist. Það ástand ríkti meira og minna þar til í upphafi árs 1953 þegar Jósef Stalín lést og forysta Sovétríkjanna ákvað að hætta stuðningi við stríðsrekstur í Kóreu. Vopnahlé komst á 27. júlí það sama ár og stendur enn í dag, 14. júlí 2017.
Í stríðinu dóu meira en 2,5 milljónir manna, allt að helmingur þeirra óbreyttir Kóreubúar.
Kóreuskaginn skiptist í norður og suður
Tilraunastaðir með kjarnorkusprengjurnar eru merktir með hringdregnu T á kortið. Höfuðborgir eru stjörnumerktar.
38. breiddargráða
Landamæri ríkjanna liggja í dag eftir 38. breiddargráðu, þeirri sömu og samið hafði verið um í lok heimsstyrjaldarinnar. Bæði ríkin hafa miklar gætur á þessum landamærum og staðsetja þúsundir hermanna sitt hvoru megin við einskismannslandið milli ríkjanna.
Þar hafa hermennirnir staðið í störukeppni við frændur sína handan landamæranna í 64 ár.
Grimmdarverk knýja áróðursvélina
Í Norður-Kóreu hefur Kim-fjölskyldan ríkt síðan Jósef Stalín ákvað að skipa Kim il-Sung sem landstjóra í Norður-Kóreu. Kim ríkti svo ennþá sem leiðtogi þegar ríkið Norður-Kórea var stofnað 1948. Kim byggði vald sitt að mestu á egóinu, lét þjóðina hylla sig hvar sem hann kom fram og lét kenna börnum að það væri í raun og veru hann sem færði þeim brauð og klæði.
Hið rétta er að Norður-Kórea naut gríðarlega mikilvægs efnahagslegs stuðnings frá Sovétríkjunum. Þar til Sovétríkin leystust upp árið 1991 hafði Norður-Kórea aðgang að tækni, þekkingu og, síðast en ekki síst, efnahagslegum stuðningi til þess að geta rekið ríki sitt. Þannig komust Kimarnir til dæmis yfir kjarnorku á sjöunda áratug síðustu aldar.
Lögmæti valds síns tryggði Kim il-Sung með markvissum áróðri um ágæti sitt og ömurleika vestrænna afla, sérlega Bandaríkjanna. Grimmd Bandaríkjanna í Kóreustríðinu, þegar heimilum og lifibrauði þjóðarinnar í norðri var rústað árið 1950, er raunar enn notuð til þess að treysta völd Kim-ættarinnar í Norður-Kóreu.
Þegar leiðtoginn lést árið 1994 tók sonur hans við. Það var Kim nokkur Jong-il. Hann tók við skelfilegu búi. Eftir fall Sovétríkjanna var skrúfað fyrir alla efnahagslega aðstoð svo þjóðin var svöng og eymdin ofboðsleg. Kim Jong-il tókst raunar aldrei að laga það ástand í einangruðu ríki en horfði frekar á vandamál sem hann taldi stærra: Staða Norður-Kóreu í veröldinni.
Án þess að eiga valdamikla vini var Norður-Kórea skyndilega berskjölduð í alþjóðasamfélaginu. Kim Jong-il fyrirskipaði þess vegna aukinn kraft í framleiðslu kjarnorkuvopna. Þannig gæti Norður-Kórea knúið aðrar þjóðir til samstöðu með Norður-Kóreu.
Smíði sprengunar
Norðurkóreski herinn gerði fyrstu tilraunina með kjarnorkusprengju á haustdögum ársins 2006. Sprengjan var alls ekki stór, en nógu stór til að alþjóðasamfélagið beindi sjónum sínum af meiri alvöru að Kóreuskaganum. Þá hafði Norður-Kórea þegar dregið sig út úr afvopnunarsamþykktum með kjarnorkuvopn og viðurkennt að verið væri að þróa kjarnorkuvopn.
Í von um að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum yrði lyft var látið í það skína að stjórnvöld í Pjongjang væru tilbúin til að hætta öllu saman, ef kröfum yrði mætt. Eftir tilraunina árið 2006 var eftirlitsmönnum alþjóðlegu kjarnorkunefndarinnar leyft að kanna stöðuna í Norður-Kóreu. Í kjölfarið var viðurkennt að Norður-Kórea hefði hætt allri kjarnorkuframleiðslu og hjálparaðstoð barst til landsins.
Skrúfað var fyrir alla aðstoð árið 2009 þegar Norður-Kórea gerði tilraun með langdrægar skotflaugar og sprengdu enn stærri kjarnorkusprengju en árið 2006 í tilraunaskyni.
Kim Jong-il lést í desember 2011. Sonur hans Kim Jong-un tók þá við stjórnartaumunum í Norður-Kóreu.
Norðanmenn frestuðu kjarnorkuáætluninni aftur árið 2012 því „sex ríkja viðræðurnar“ gengu vel. Miklar vonir voru bundnar við nýjan leiðtoga. Kannski var hann mildari og alþjóðasinnaðari en faðir hans? Þetta vissi hins vegar enginn og getgátur réðu ferðinni þegar ráðið var hinn unga leiðtoga.
Bandaríkin ákváðu að senda takmarkaða hjálparaðstoð í ljósi þess að Norður-Kórea var að stíga skref í rétta átt, að því er virtist. Aðstoðin var hins vegar aldrei send því í apríl 2012 gerðu norðanmenn aðra tilraun með langdrægar skotflaugar. Ári síðar mældu jarðskjálftamælar jarðskjálfta að stærðinni 5,1 í Norður-Kóreu sem hafði gert þriðju kjarnorkusprengjutilraunina neðanjarðar.
Samtals hafa norðanmenn gerð fimm tilraunir með kjarnorkusprengjur og sex tilraunir með langdrægar skotflaugar. Síðustu tilraunirnar sem gerðar hafa verið með kjarnorkusprengjur voru gerðar í fyrra. Síðasta tilraunin var gerð í september 2016 þegar stærsta sprengjan til þess var sprengd.
Í byrjun þessa mánaðar tókst Norður-Kóreu svo að senda langdræga skotflaug á loft. Talið er að Hwasong-14 skotflaugin geti borið kjarnaodd alla leið til Bandaríkjanna.
Á morgun verður fjallað um viðbrögð alþjóðasamfélagsins við aukinni hættu frá Norður-Kóreu og mismunandi aðferðir reifaðar. Síðar verða þeir valmöguleikar sem standa alþjóðasamfélaginu nú til boða reifaðir.