Bandaríkin hafa greint fjórar færar leiðir þegar kemur að viðbrögðum við kjarnorkuógn frá Norður-Kóreu. Allar þessar leiðir eru slæmar og hafa í för með sér miður góða fylgifiska eða niðurstöður.
Á undanförnum árum hefur norðurkóreski herinn gert tilraunir með kjarnorkuvopn og hefur tekist svo vel til að nú er talið að Norður-Kórea búi yfir langdrægum skotflaugum sem geta borið kjarnaodda alla leið yfir Kyrrahafið og til Bandaríkjanna. Tilraunin sem gerð var 4. júlí síðastliðinn, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, sannfærði umheiminn endanlega um þetta.
Valdajafnvægið í heiminum vó salt um leið.
Í þrískiptri umfjöllun Kjarnans um Norður-Kóreu er hér reynt að svara eftirfarandi spurningum: Hvað er til ráða? Hvað hefur verið reynt? Og hvers vegna er ástandið svona?
Á sunnudag var fjallað um hvernig Norður-Kórea og vandamálið varð til. Í gær, mánudag, var fjallað um hvaða leiðir hafa verið farnar til þess að bregðast við kjarnorkuógninni á síðustu áratugum.
Í þessum síðasta hluta sérstakrar umfjöllunar Kjarnans um kjarnorkuógn Norður-Kóreu er fjallað um þá kosti sem alþjóðasamfélagið hefur gagnvart Norður-Kóreu.
Allir valkostir eru slæmir
Nú þegar Norður-Kórea er vígbúið langdrægum eldflaugum og kjarnorkuvopnum hefur kóreska vandamálið orðið enn flóknara.
Eftir að norðanmenn gerðu tilraun með langdræga skotflaug 4. júlí síðastliðinn hefur alþjóðasamfélagið brugðist við með því að herða viðskiptaþvinganir á hið fátæka og einangraða ríki Norður-Kóreu.
Kínverjar stóðu einir eftir sem bandamanna Norður-Kóreu eftir að Sovétríkin féllu í lok síðustu aldar. Nú hafa Kínverjar einnig snúið bakinu við Norður-Kóreu, að því er virðist, því ríkisrekna olíufélagið er hætt að selja olíu yfir landamærin.
Mest af eldsneytinu sem brennt er í Norður-Kóreu kemur frá Kína en einnig kemur eitthvað frá Rússlandi.
Rússar og Kínverjar hafa tekið höndum saman þegar kemur að samskiptum við Norður-Kóreu. Þannig ætla ríkin að tryggja öryggi sitt, enda eiga bæði lönd landamæri að Norður-Kóreu.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á við erfitt verkefni að etja. Hann er á margan hátt einangraður sem leiðtogi á alþjóðavettvangi, eftir að hafa dregið Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og sagst vilja endurskoða viðskiptasamninga við ríki heimsins.
Trump hefur einnig sagst vera þeirrar skoðunar að Bandaríkin eigi að loka herstöðvum sínum í Suður-Kóreu og í Japan, sem mundi gera þennan heimshluta mun veikari fyrir árás Norður-Kóreu en hann er nú.
Þetta hjálpar ekki þegar Trump þarf að taka ákvarðanir í sameiningu með bandalagsþjóðum gagnvart Norður-Kóreu, þe. Kína, Japan, Suður-Kóreu og Rússlandi, og afla stuðnings meðal Evrópuþjóða.
Hershöfðingjar í bandaríska hernum hafa tekið saman fjórar mögulegar aðferðir til þess að takast á við Norður-Kóreu. Fjallað er um þessar aðferðir í veftímaritinu The Atlantic. Nú er það í höndum Donalds Trump að velja.
Aðferðirnar eru eftirfarandi:
Allsherjarárás
Bandaríkin gera allsherjarárás og leggja vopnabúr Norður-Kóreu í rúst, fella stjórn Kim Jong-un og gera her landsins óstarfhæfan. Þetta mundi hafa það í för með sér að Kóreustríðinu myndi ljúka fyrir fullt og allt, og Kim-ættin myndi engu ráða lengur.
Þungt fyrsta högg bandamanna undir forystu Bandaríkjanna mundi valda dauða margra óbreyttra borgara. Kjarnorkuárás Norður-Kóreu mundi á hinn bóginn hugsanlega hafa verri afleiðingar.Þessi leið mun eflaust hljóma vel í eyrum stuðningsmanna Trump. Vandinn er hins vegar að svo þetta geti gerst þurfa Bandaríkin standa í stærri og meiri hernaði en í fyrsta Kóreustríðinu – og um leið kosta gríðarlega mikið af peningum.
Þungt fyrsta högg bandamanna undir forystu Bandaríkjanna mundi valda dauða margra óbreyttra borgara. Kjarnorkuárás Norður-Kóreu mundi á hinn bóginn hugsanlega hafa verri afleiðingar.
Eftir að stríðinu lýkur og Kim-ættinni hefur verið hrundið frá völdum taka við önnur vandamál, sem munu verða langvinnari og erfiðari við að etja; Sameining kóresku þjóðarinnar mun verða gríðarlega erfitt samfélagslegt vandamál. Á þeim rúmlega árum sem liðin eru síðan Kóreuskaganum var skipt upp hefur Suður-Kórea orðið efnahagslegt stórveldi í þessum heimshluta, á meðan frændfólkið í norðri lepur dauðann úr skel.
Jafnvel þó þetta sé í grunninn sama þjóðin hefur skiptingin eflaust haft djúpstæð áhrif. Þetta er sá veruleiki sem mun blasa við þeim öflum sem sigra í nýju Kóreustríði.
Tökin hert
Trump gæti fyrirskipað hefðbundna hernaðarárás, eða margar slíkar árásir yfir lengra tímabil, þar sem vopnum úr lofti og af sjó yrði beitt. Þessar árásir ættu að hafa það að markmiði að valda Norður-Kóreu nægilega miklum skaða svo Kim geti ekki beitt mætti hers síns og þjóðar.
Markmiðið væri að leyfa Kim Jong-un að stjórna en þvinga hann til þess að hætta kjarnavopnaþróun í Norður-Kóreu.
Þessi leið er flókin enda þyrftu árásirnar að vera þess eðlis að Kim gæti ekki, eða mundi ekki vilja, svara með árás á nágranna sína í suðri eða með kjarnorkuárás á Bandaríkin.
Í því liggur helsti galli þessarar leiðar; að hún má ekki valda ofboði meðal stjórnvalda í Pjongjang, en hún má heldur ekki valda því að hershöfðingjar Kim Jong-un telji bandamenn of raga til þess að gera árás. Ef þetta er ekki framkvæmt rétt gæti versta sviðsmyndin blasað við; Norður-Kórea gerir árás á Seúl og leggur höfuðborg Suður-Kóreu í rúst.
Norður-Kórea hefur ítrekað hótað því að leggja Seúl í rúst. Þar búa rúmlega tíu milljónir manna. Sérfræðingar eru ósamála um hversu mikil alvara býr að baki þessara hótana úr norðri, enda er það allt annað að ráðast á þéttbýla íbúabyggð en að ráðast á hernaðarvirki.
Annar galli þessarar aðferðar er að nær ómögulegt verður að stöðva það sem kemur í framhaldinu. Átökin munu eflaust stigmagnast og verða að nýju Kóreustríði á endanum. Lítið þarf út af að bregða svo það gerist.
Leiðtogaskipti
Bandamenn gætu einnig tekið ákvörðun um að afhöfða stjórnina í Pjongjang með því að taka Kim Jong-un og hershöfðingja hans úr umferð.
Það eru vísbendingar um að þetta hafi þegar verið reynt. Í mars tóku bæði bandarískir og suðurkóreskir hermenn þátt í æfingum sem snerist um eitthvað í þessa áttina. Dagblað í Suður-Kóreu sagði meira að segja fréttir af því að sérsveit sjóhers Bandaríkjanna (Navy SEAL) hafi æft fyrir þetta. Svo var það í maí að stjórnvöld í Pjongjang stærðu sig af því að hafa komið í veg fyrir morðið á leiðtoga sínum.
Það gæti þess vegna verið að Trump hafi þegar valið þessa leið fram yfir hinar sem eru taldar hér upp. Bæði leyniþjónusta Bandaríkjanna og Suður-Kóreu þvertaka fyrir að hafa lagt á ráðin um slíka árás.
Bandarískum hershöfðingjum og leyniþjónustufulltrúum er raunar bannað að taka erlenda leiðtoga „úr umferð“, ef svo má að orði komast. Þeim skipunum getur Donald Trump, eða hver sem ræður Hvíta húsinu, breytt.
Leiðtogaskipti í Norður-Kóreu leysa hins vegar ekki vandamálið sem steðjar að: Kjarnorkuvá. Nýr leiðtogi gæti tekið við völdum og verið mun hallari undir hugmyndir um að nota kjarnorkuvopnin sem búið er að smíða.
Morðið á Kim Jong-un gæti einnig orðið til þess að hreyfa við herforingjum sem myndu svara með hernaðarárás á nágranna sína í suðri.
Afhöfðun Norður-Kóreu fylgir þess vegna mikil áhætta og það er óskynsamlegt að taka áhættu þegar kjarnorkuvopn eru í spilinu. Búa verður um hnútana þannig að ljóst er hvað taki við eftir Kim.
Viðurkenning
Það virðist enginn hernaðaráætlun í tengslum við Norður-Kóreu vera fær. Svo það kann að vera besti kosturinn að viðurkenna að Norður-Kórea sé kjarnorkuríki.
Ef Norður-Kórea myndi nota kjarnorkuvopn sín, mundi það þýða að önnur ríki myndu bregðast snögglega við og gjörsigra Norður-Kóreu á skömmum tíma. Svarið yrði öflugt og algert.
Valdajafnvægið í heiminum var tvípólað fram eftir 20. öldinni. Börnum var kennd viðbrögð við kjarnorkuárás og hættan virtist yfirvofandi á tímabili. Til beinna átaka kom aldrei milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Kjarnorkuvaldið var hins vegar gagnkvæmt, ef eitt ríki mundi ráðast til atlögu myndi hitt ríkið tryggja tortímingu hins á móti.
Eftir að Sovétríkin féllu hefur valdajafnvægið í heiminum snúist um Bandaríkin sem, í krafti öflugasta kjarnorkuvopnabúrs í heimi, gæti tortímt hvaða ríki sem er, og veröldinni allri mörgum sinnum.
Í tilfelli Norður-Kóreu er kjarnorkuvaldið ekki gagnkvæmt, en ef Kim Jong-un mundi voga sér að beita kjarnavopnum yrði ríki hans tortímt.
Vandinn leystur eftir friðsælum leiðum
Kóreska vandamálið verður ekki leyst nema með friðsamlegum leiðum. Þeir hernaðarkostir sem í boði eru munu kosta of mörg mannslíf og valda of miklum óstöðugleika í heiminum til þess að hægt sé að leggja í þann leiðangur.
Kim Jong-un getur beitt kjarnavopnum sínum á friðsaman hátt og notað þau sem skiptimynt fyrir þá efnahagslegu aðstoð sem afi hans fékk í áskrift frá Sovétríkjunum á seinni hluta 20. aldarinnar. Faðir leiðtogans unga tók við erfiðu búi og tókst ekki að leysa vanda þjóðarinnar. En hann arfleiddi son sinn af öflugri spilamynt: Kjarnorkuvopnum.
Það er til mikils að vinna í Norður-Kóreu og staðan geysilega flókin. Það mun taka mörg ár og áratugi að tempra hættuna frá Norður-Kóreu.
Í þrískiptri umfjöllun um kjarnorkuvá Norður-Kóreu hefur verið útskýrt hvers vegna Alþýðulýðveldið Norður-Kórea hatast út í alþjóðasamfélagið, hvers vegna ríkið er einangrað og rakið hvernig ríki heims hafa brugðist við. Í þessari síðustu grein var svo fjallað um þá möguleika sem í boði eru. Allir eiga það sameiginlegt að vera slæmir kostir.