Eftir seinni heimsstyrjöldina var ljóst að Evrópa yrði aldrei söm. Skýr skil voru dregin milli áhrifasvæða Vesturveldanna og Sovétríkjanna, sem Winston Churchill líkti við Járntjald sem dregið hafði verið í gegnum álfuna endilanga „frá Stettin (Szczecin) við Eystrasalt niður að Trieste við Adríahaf“.
Í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, sem voru í raun leppríki Sovétríkjanna, komust til valda karlar (og bara karlar) sem sóttu umboð sitt oftar en ekki til Moskvu og Stalíns ekki síður en til almennings eða flokksapparata í eigin landi.
Einn slíkur var Enver Hoxha (lesið Hodsja), sem stýrði Albaníu með harðri hendi um fjögurra áratuga skeið.
Hoxha fæddist árið 1908 í ætt landeigenda sem voru íslamstrúar, í suðurhluta Albaníu, sem þá tilheyrði Ottómanaveldinu (hlekkur). Faðir hans var vefnaðarvörukaupmaður sem ferðaðist víða um heim, en menningarheimurinn sem Ever hinn ungi fæddist inní var afar karllægur og byggðist á óskrifuðum reglum, Kanun, þar sem blóðhefndir, Gjakmarrja, voru meðal annars ríkur hluti af daglegu lífi. Segja margir að það hafi haft varanleg áhrif á persónugerð Hoxha.
Þegar hann var 22ja ára gamall, árið 1930, fékk hann styrk til að halda til náttúruvísindanáms við háskólann í Montpellier í Frakklandi. Þar komst Hoxha í kynni við starf franska kommúnistaflokksins og lét námið reka á reiðanum, enda hafði hann engan áhuga á náttúrufræði. Svo fór að hann var sviptur námsstyrknum en hann flutti sig svo yfir til Parísar þar sem hann ætlaði að nema heimspeki við Sorbonne-háskóla, en heyktist líka á því og fór að skrifa fyrir L‘Humanité, rit Kommústistaflokksins. Hann skrifaði pistla undir dulnefni, meðal annars um málefni heimalands síns í pistlum, þar sem Zog I Albaníukonungur (sem var eiginlega leppur Mússólínís einræðisherra Ítalíu) var meðal þeirra sem fengu reglulega að heyra það.
Á árunum 1934-36 var Hoxha ritari á albönsku ræðismannsskrifstofunni í Brussel en var rekinn úr starfi eftir að upp komst að hann var enn að lesa Marxísk fræði. Hann sneri því aftur heim þar sem hann fór að kenna í skóla, en var líka virkur í starfi kommúnistaflokksins. Ítalía gerði innrás í Albaníu í upphafi stríðs, árið 1939, og eftir að Hoxha hafði neitað að ganga í Fasistaflokkinn var hann rekinn úr starfi.
Hoxha tók virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni gegn fasistum og þýskum nasistum. Þar tóku kommúnistar saman höndum við and-kommúnista í þeim sameiginlega tilgangi að frelsa land sitt.
Meðal annars unnu Albanir með skæruliðum Títós (hlekkur) í Júgóslavíu, en vinslit urðu vegna deilna um Kosovohérað.
Árið 1944 tók And-fasíska frelsishreyfing Albaníu við stjórnartaumum í landinu undir forystu Hoxhas, sem var forsætisráðherra, aðalritari Verkamannaflokksins og allsherjarleiðtogi Albaníu allt til dauðadags. Mánuði síðar, hinn 29. nóvember var Albanía opinberlega orðin frjáls undan oki fasisma (þrátt fyrir að annars konar ok hafi þó beðið almennings).
Hallað sér að Stalín og Sovétríkjunum
Eftir stríð lýsti Hoxha yfir miklum stuðningi við Jósef Stalín og tók að breyta þjóðfélagsgerð Albaníu í takt við Marx-Lenínisma, þar sem jarðir stórlandeigenda voru þjóðnýttar og afhentar smábændum í samyrkjubúum. Talsvert átak var unnið í menntunar- og heilbrigðismálum og blóðhefndir voru bannaðar með lögum.
Á þessum fyrstu árum nýrrar heimsskipanar trosnuðu enn frekar böndin milli Albaníu og Júgóslavíu, Hoxha hafði rökstuddan grun um að Tító vildi gjarna innlima Albaníu, og það olli mikilli spennu innan kommúnistaflokksins þar sem margir voru hallir undir nánari samvinnu við Tító. Það kallaði á fyrstu hreinsanir Hoxhas. Í kjölfar þess að sambandi við Júgóslavíu var slitið árið 1948 var helsti talsmaður tengsla Albaníu við Tító, Koçi Xoxe, rekinn úr flokknum og síðar hengdur.
Eftir það voru Albanir nær alfarið komnir upp á náð Sovétríkjanna hvað varðar fjárhagsaðstoð til nauðsynlegra umbóta á innviðum landsins. Náið persónulegt samband var milli Stalíns og Hoxhas og fráfall Sovétleiðtogans árið 1953 var mikið áfall fyrir albanska kommúnista. Hoxha lýsti yfir 14 daga þjóðarsorg fyrir Stalín, „hinn ástkæra föður og frelsara“ sem var lengri tími en í Sovétríkjunum sjálfum.
Valdataka Níkíta Krúsjeffs, arftaka Stalíns, markaði talsverða stefnubreytingu í samskiptum Albaníu og Sovétríkjanna. Dregið var úr fjárstuðningi og hvatt til þess að Albanía myndi taka þátt í sérhæfingarvæðingu Krúsjeffs, þar sem einblínt yrði á ákveðna tegund framleiðslu í hverju landi á kostnað fjölbreytni og sjálfbærni sem Hoxha hafði stefnt að.
Enn harðnaði í ári eftir að Krúsjeff fordæmdi í frægri leyniræðu (hlekkur) hina gegndarlausu persónudýrkun sem Stalín hafði ræktað á sínum tíma, auk þess sem hann fór að vinna að bættum samskiptum Sovétríkjanna við Júgóslavíu. Auk þess var stefnubreyting Krúsjeffs í átt að „friðsamlegri sambúð“ stórveldanna, í ætt við villutrú að mati Hoxha, sem vitnaði í Lenín sem lagði áherslu á alþjóðahyggju öreiganna, en ekki friðsama sambúð. Eftir þetta gerðist Hoxha sífellt gagnrýnni á það sem hann taldi endurskoðunarstefnu á – og afslátt af – kenningum Karls Marx.
Þó að staða Hoxhas innan Albaníu væri sterk, var þó farið að örla á áhyggjum af meintum lýðræðisskorti í starfsemi kommúnistaflokksins og aukinni foringjadýrkun i anda Stalíns heitins.
Árið 1961 slitnaði endanlega upp úr nánu samstarfi Albaníu og Sovétríkjanna. Hoxha fordæmdi Sovétríkin og Krúsjeff sjálfan í ræðu í nóvembermánuði. Þar sagði hann Stalín hafa verið síðasta alvöru leiðtoga Sovétríkjanna. Fjórum dögum síðar höfðu öll Austur-Evrópuríkin slitið tengsl við Albaníu og ríkinu var útskúfað úr Varsjárbandalaginu.
Eftir það hallaði Hoxha sér að Kína að miklu leyti, en upp úr því slitnaði líka eftir að Kína bauð Richard Nixon Bandaríkjaforseta í opinbera heimsókn árið 1971. Svoleiðis kapítalistadaður þóttu ekki merkilegar tvíbökur í bókum Hoxhas og eftir margra ára kergju hætti Kína öllum stuðningi við Albaníu árið 1978.
Einangrun og ofsóknir
Einangrunin var orðin nær alger, en Hoxha hafði nokkrum árum áður bannað erlendar lántökur og erlenda fjárfestingu í Albaníu. Gríðarlega mikið var lagt upp úr landvörnum og á annað hundrað þúsund varðturnum var komið fyrir við landamærin.
Hoxha hafði líka hert tökin innanlands þar sem hann réði lögum og lofum. Almenningur bjó undir sífelldri ógn af öryggislögreglunni Sigurimi, sem handtók þúsundir borgara á valdatíð Hoxhas og beitti pyntingum óspart. Margir hurfu og áttu aldrei afturkvæmt.
Hoxha var að sögn afar klókur stjórnmálamaður sem gat bæði verið stimamjúkur og viðkunnanlegur, en líka ósveigjanlegur, þrjóskur og ósvífinn. Hann passaði líka uppá að losa sig reglulega við þá undirmenn sína sem honum þótti vera að færa sig upp á skaftið.
Hann var víðlesinn menntamaður, en ekki rykfallinn kerfiskall eins og svo margir kaldastríðsleiðtogar. Hann klæddi sig líka glæsilega, sem gæti hafa treyst ímynd hans í huga almennings að mati rithöfundarins Ismails Kadare.
„Hann klæddist fínum fötum og var fágaður í framkomu … Allir aðrir kommúnistaleiðtogar voru svo óheflaðir, meira að segja þeir frönsku. Fyrir albanskan almenning, sem hefur alla tíð verið nokkuð veikur fyrir elítum, var það nokkuð mikilvægt.“
Þegar komið var fram á níunda áratuginn lagðist Hoxha í enn eina hreinsunina. Árið 1981 lést forsætisráðherrann Mehmet Shehu, sem hafði verið hægri hönd Hoxhas í 40 ár. Opinbera skýringin var að Shehu hafði verið föðurlandssvikari sem hafi svipt sig lífi, en stöðugur orðrómur hefur verið uppi um að Hoxha hafi látið ráða hann af dögum.
Þarna var talsvert dregið af Hoxha sjálfum sem hafði glímt við margs konar sjúkdóma, meðal annars sykursýki, en árið 1985 lést hann, 76 ára gamall, af völdum hjartabilunar.
Eftirmaður hans var Ramiz Alia sem hafði í raun haldið um stjórnartaumana um nokkra hríð í veikindum Hoxhas.
Hoxha var einn þaulsetnasti leiðtogi Kalda stríðsins og hlaut sennilega skárri örlög en margir kollegar hans í kommúnistaflokkum Austantjaldslandanna. Hægt er að þakka honum ákveðna framþróun Albaníu fyrstu árin, en um langa, langa hríð einkenndist þjóð- og efnahagslíf landsins af ofríki, ofsóknum, mannréttindabrotum, stöðnun og fátækt. Eftir að járntjaldið féll hafa eftirmæli hans þó verið svipuð og annarra einræðisherra af sama meiði.