„Ísland er fallegt land en það er hægt að gera það enn fallegra“
Ung kona flutti til Íslands fyrir 14 árum síðan frá heimalandi sínu, Úganda. Hún hefur fundið fyrir fordómum frá Íslendingum þessi ár sem lýsa sér í fyrirframgefnum hugmyndum um hana og athugasemdum sem hún fær iðulega vegna útlits eða uppruna. Telur hún að þrátt fyrir að gott sé að búa hér á landi þá séu möguleikar til að gera enn betur.
Eftir að Brenda Asiimire flutti til Íslands hefur hún stundum upplifað sig sem þriðja flokks þegn í samfélaginu. Hún segir að margt megi betur fara þegar kemur að innflytjendamálum hér á landi, allt frá viðhorfi og samhygð heimamanna, réttindum erlends launafólks og viðurkenningu á menntun þeirra. Brenda settist niður með blaðamanni Kjarnans og lýsti sinni eigin reynslu af þessum fjórtán árum.
Ísland öruggur staður til að vera með börn
Brenda er með gráðu í blaðamennsku frá háskóla í Úganda og B.A.-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands. Hún segist hafa litið á það sem mikið tækifæri að koma til Íslands á sínum tíma. Fjölskylda hennar var ekki rík og taldi hún að eftir námið gæti hún unnið fyrir sér í framandi landi og sent peninga heim til systkina sinna, en foreldrar hennar voru báðir látnir.
Rétt áður en hún útskrifaðist úr blaðamannanáminu þá fékk hún vinnu í sjónvarpi og segist hún hafa notið starfsins mikið. Aftur á móti hafi hún ekki fengið nægilega góð laun en hún þurfti að sjá fyrir systkinum sínum. „Svo þegar ég fékk tækifæri til að koma hingað þá reiknaði ég það út að ef ég færi til Íslands að vinna í ár og þá myndi fjölskylda mín verða vel sett. En eins og lífið er stundum þá ílengdist ég,“ segir Brenda.
Fyrsta árið eftir að hún kom til Íslands var hún dugleg að vinna og sendi peninga heim til Úganda. Hún segist ekki hafa náð að safna eins og hún ætlaði sér á árinu og dvaldi hún því lengur en hugur stóð til. Hún kynntist íslenskum manni og eignaðist með honum barn og síðar annað. Nú eru fjórtán ár liðin og lítur hún svo á að Ísland sé öruggur staður til að ala upp börn. Svo hún heldur kyrru fyrir, barnanna vegna.
Aðgengi að menntun og lág glæpatíðni kostur
Brenda segir að löndin tvö séu gríðarlega ólík. „Við ólumst upp á mjög opnu heimili, þar sem gestir fengu alltaf hlýjar móttökur. Við bjuggum í litlu húsi með tveimur svefnherbergjum og stofu. Við erum fjögur systkinin en móðir mín var þannig gerð að hún opnaði dyr sínar fyrir öllum sem þurftu á að halda. Svo á heimili með tveimur svefnherbergjum voru stundum fimmtán manns. Þetta var daglegt líf okkar,“ segir hún og hlær.
Alltaf þegar hún kom heim úr skólanum var húsið fullt af fólki sem dvaldi í mislangan tíma. Hún segir að þetta líf hljómi hugsanlega ekki sem skemmtilegt en þarna hafi hún lært hversu gefandi það er að hjálpa öðru fólki. Hún var 15 ára þegar móðir hennar lést og faðir hennar hugsaði um börnin þangað til hann féll frá. Brenda segir að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að koma þeim systkinunum í gegnum nám, það hafi skipt hann máli.
Hún telur að menntun á Íslandi sé mun betri en í Úganda vegna þess að allir hafa sama aðgengi að menntun. Í Úganda séu gæði grunnmenntunar mjög misjöfn milli skóla. Aðeins á háskólastigi sé samræmi í menntun.
Brenda telur að helsti kostur þess að búa á Íslandi, fyrir utan aðgengi að menntun, sé lág glæpatíðni. „Ég ólst upp við þann veruleika daglega. Hér hugsum við ekki svo mikið um glæpi,“ segir hún.
Myndi gjarnan vilja vinna við blaðamennsku
Áhuginn fyrir blaðamennsku byrjaði þegar Brenda var í efri bekkjum grunnskóla, að hennar sögn. „Ég hitti vin sem þekkti blaðamann sem skrifaði iðulega í eitt elsta dagblaðið á svæðinu. Ég kunni við skrif hans og las mikið eftir hann. Það kom síðan á daginn að hann bjó ekki svo langt frá skólanum sem ég gekk í og ég fékk tækifæri til að hitta hann,“ segir hún. Þetta veitti henni mikinn innblástur og varð hún harðákveðinn í að verða blaðamaður. „Hann gaf mér kraftinn til þess.“
Mín reynsla er sú að þegar fólk lítur á mig þá detti því ekki í hug að ég sé menntuð.
Brenda segir að hún myndi gjarnan vilja vinna við það sem hún lærði en möguleikarnir séu ekki margir. Hún segist ekki tala fullkomna íslensku og hafi það verið henni hindrun. „Ég hef enn ekki fundið leið til að nýta menntun mína sem skyldi,“ segir hún og bætir við að ef tækifæri gæfist til að skrifa á ensku þá myndi hún stökkva á það. „Mig dreymir um það.“
Þrepaskipting meðal útlendinga á Íslandi
Að mati Brendu er þrepaskipting meðal útlendinga á Íslandi. Ef þú kemur frá Bandaríkjunum eða Bretlandi þá ertu í fyrsta þrepinu. Ef þú kemur frá Evrópusambandinu þá ertu í öðru þrepi. Þegar þú kemur frá Asíu eða Afríku þá ertu í því þriðja. „Mín reynsla er sú að þegar fólk lítur á mig þá detti því ekki í hug að ég sé menntuð,“ segir hún. Hún telur að fólk ætli sér ekki að vera dónalegt en það ætti að hugsa sig betur um.
„Þegar ég leita að vinnu þá segir fólk iðulega við mig að kanna hvort ræstingastörf séu laus hjá hinu og þessu fyrirtæki. Aldrei er spurt hvað ég vilji gera eða starfa við. Eða spurt hvaða menntun ég sé með,“ segir hún. Þetta eigi ekki við um íslenska fólkið sem vantar vinnu og þannig sé viðhorf til þeirra mjög ólíkt. Aldrei muni fólk draga þá ályktun að Íslendingurinn vilji vinna við ræstingar sem fyrsta val.
Ónærgætnin oftast ómeðvituð
„Takið eitt andartak til að viðurkenna að ég sé manneskja og einblínið ekki á að ég sé frá Afríku. Spyrjið mig hvað ég hafi áhuga á að gera, hvaða reynslu ég hafi og hvaða menntun ég hafi, áður en þið ákveðið eitthvað um mig,“ biður hún. Brenda segir að þetta hafi iðulega hent hana og að stundum finnist henni það jafnvel fyndið. Vegna þess að fólk er svo ónærgætið að það fattar það ekki einu sinni.
Brenda telur að fólk finni afsakanir fyrir þessari hegðun og fyrir litlar rasískar athugasemdir; að fólk viti ekki betur. Þessi umræða í kringum frásagnir kvenna af erlendum uppruna í sambandi við #metoo er aftur á móti farin að segja til sín, að hennar mati. Fólk geri sér ekki grein fyrir þessu þegar það geri athugasemdir varðandi bakgrunn hennar og minni hana á að hún sé frá Afríku. Sumt þurfi ekki að láta út úr sér, t.d. niðrandi athugasemdir sem virðast saklausar.
Spyrjið mig hvað ég hafi áhuga á að gera, hvaða reynslu ég hafi og hvaða menntun ég hafi, áður en þið ákveðið eitthvað um mig.
Hún segir að fólk á Íslandi líti niður á útlendinga. „Ekki endilega viljandi en það er alltaf þessi aðgreining. Þú kemur frá Afríku,“ segir hún.
Hún segist finna fyrir miklum samhljóm við sögurnar sem erlendu konurnar hafa deilt á lokaðri Facebook-síðu. Hún bendir á að í stóra samhenginu sé ljóst að kerfið sé að bregðast þessum konum.
Menntun nýtist ekki
Brenda reyndi að komast í Háskóla Ísland í ein þrjú ár. Menntun hennar frá Úganda var ekki tekin gild fyrr en eftir mikla mæðu. Hún vildi bæta við sig menntun til að geta starfað við það sem hún hefur áhuga á. Svarið lá í því að ná sér í B.A.-gráðu frá HÍ. Viðbrögðin við þeirri hugmynd voru þó dræm, að hennar sögn. Hún segir að margir hafi haft efasemdir um að gráða myndi hjálpa henni að fá vinnu en hún hélt sínu striki. Hún taldi að víst annað fólk gæti farið í háskólann og fengið vinnu eftir námið, þá gæti hún gert slíkt hið sama.
Henni þótti miður að hún hefði ekki verið hvött til að afla sér meiri menntunar eins og aðrir. Þegar yngri sonur hennar var 6 mánaða gamall komst hún loks inn í skólann og bjó hún á stúdentagörðum á meðan hún var í námi.
„Ég tel að samfélagið sé sátt við gjörðir sínar. Það getur staðfest menntun frá Evrópu en ekki Asíu og Afríku. Það mun kosta aðeins meira peninga og tíma að staðfesta menntun þaðan en við erum hér nú þegar. Nýtið okkur!,“ segir hún.
Stéttarfélögin verða að standa sig betur
Brenda gagnrýnir stéttarfélögin harðlega fyrir að huga ekki betur að verkafólkinu sem vinnur láglaunastörf á Íslandi. Langflestir séu útlendingar sem þekkja ekki réttindi sín eða hvert þeir eiga að leita ef eitthvað kemur upp á. Hún segir að vinnutíminn sé langur og aðstaðan víða slæm. Sumir verði hreinlega háðir vinnuveitenda og það sé alls ekki gott.
„Þau eru hrædd vegna þess að ef þau segja frá þá er möguleiki á að þau missi vinnuna,“ segir hún. Brenda telur að stéttarfélögin geti vel lagt örlítið meira á sig þegar kemur að því að upplýsa launafólk og að ná til þessa viðkvæma hóps. Ef náð er til þeirra sé möguleiki á að koma í veg fyrir ýmiss konar vandamál. Birgja brunninn áður en barnið fellur í hann.
Þau eru hrædd vegna þess að ef þau segja frá þá er möguleiki á að þau missi vinnuna.
Hún bendir einnig á að gott væri að auka fjölbreytni innan stéttarfélaganna, þ.e. að fá fleiri útlendinga til starfa þar. Með því skapist traust milli samfélagshópa. „Við vitum að Íslendingar vilja hjálpa en við eigum erfitt með að treysta þeim,“ sagir hún og bætir við að þeir viti raunverulega ekki af þjáningum þeirra. Þeir geti hlustað á það sem Brenda segir og jafnvel skilið hana en þeir geti ekki almennilega náð þessu. Þess vegna væri upplagt að ráða útlendinga til að ná til annarra útlendinga, til að mynda hjá stéttarfélögunum og fleiri stöðum. „Gerið okkur að þátttakendum í því sem er að gerast.“
„Fjölbreytnin er falleg. Ísland er fallegt land en það er hægt að gera það enn fallegra,“ bætir hún við.
Fólk hrætt við að viðurkenna vandamálið
Brenda segir að erfitt geti reynst fyrir fólk að viðurkenna vandamálið og ranglætið. „Ísland er hið fullkomna land, að sögn sumra. Og fólk er hrætt við að viðurkenna að svo sé ekki. En að viðurkenna mistök gerir landið ekki slæmt. Það veki fólk hins vegar til vitundar,“ segir hún. Að viðurkenna mistökin og halda síðan áfram. Það sé svo einfalt.
Útlendingastofnun er ágæt stofnun, að hennar mati, en bregst þó erlendu fólki að einhverju leyti. „Þegar ég ákvað að skilja við eiginmann minn þá hafði ég mínar ástæður. Ég átti þá einn son sem var fjögurra ára. Ég hafði unnið síðan ég kom til Íslands og hafði græna kortið á þessum tíma og sótt um ríkisborgararétt. En þegar ég sótti um skilnað þá fékk ég viku síðar bréf frá Útlendingastofnun þar sem þau báðu mig að skila græna kortinu,“ segir hún. Þetta hafi verið áfall fyrir hana og segir hún að margar aðrar leiðir hefðu verið til í stöðunni. En þegar kerfið sé svona hugsunarlaust þá gerist svona hlutir. Nauðsynlegt sé í aðstæðum sem þessum að líta á heildarmyndina.
Við erum ekki að biðja um mikið. En þetta er okkar veruleiki. Konur búa enn við hryllilegar aðstæður og þær þurfa að vita að þær geti komist út úr þeim.
Hún bendir á að konur í slæmum hjónaböndum muni ekki greina frá reynslu sinni. Ein ástæðan fyrir því sé að þær eru hræddar við að verða reknar úr landi. Þetta sé ennþá erfiðara þegar börn eru komin í spilið. Margir menn hóti að taka börnin frá þessum konum og að þeim verði vísað úr landi. „Þess vegna tala þær ekki,“ segir hún. Þetta hafi bersýnilega komið í ljós við lestur #metoo-frásagnanna enda hafi þær sem komust út úr slæmum hjónaböndum getað látið í sér heyra. Brenda segist vita um margar konur sem geti það aftur á móti ekki af hræðslu við afleiðingarnar. Þær búi við slæmar aðstæður og hafi engan stað til að leita skjóls.
„Þær þurfa hjálp. Við erum ekki að biðja um mikið. En þetta er okkar veruleiki. Konur búa enn við hryllilegar aðstæður og þær þurfa að vita að þær geti komist út úr þeim,“ segir hún. Þær þurfi að vita að hlustað sé á þær og að mál þeirra verði skoðuð með heildarmyndina í huga.
Af hverju að kjósa?
Margir útlendingar eru lítið upplýstir um kosningarétt sinn á Íslandi. Brenda segir að mikilvægt sé að talað sé til allra, þar á meðal útlendinga, með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. „Hvað ætlar ríkisstjórnin eða sveitarfélagið að gera fyrir mig?“ spyr Brenda. Hún bendir á að auðvitað séu ákveðin mál sem komi öllum við, til að mynda skóla- og heilbrigðismál, en að lítið sé gert til að höfða til minnihlutahópa. Hún segir að margir útlendingar hugsi sem svo að það sé óþarfi að kjósa vegna þess að ekkert sé hvort sem er gert fyrir þá. Ekki þurfi mikið til, til að fá fólk að kjörkössunum. Aðeins smá athygli og samtal.
Við þurfum fjölbreyttar raddir og skoðanir.
Hún bendir á að útlendingar séu margir á Íslandi með kosningarétt og því ætti það að vera hagur stjórnmálamanna að reyna að ná til þessa hóps. Hún vill sjá útlendinga í flokkunum tala þeirra máli. „Við þurfum fjölbreyttar raddir og skoðanir,“ segir hún. Einnig vill hún sjá fleiri venjulega Íslendinga í pólitík, ekki einungis þá sem vel eru settir. Með fjölbreyttari hóp sé hægt að hlusta betur á fólkið. „Nálgastu það þar sem það er. Ekki þar sem þú heldur að það sé,“ segir hún.
Umburðarlyndi þarf að sjást í verki
Brenda telur að munur sé á sjálfsmynd Íslendinga og hvernig þeir eru í raunveruleikanum. „Til þess að vera umburðarlyndur þarftu að sýna það í verki,“ segir hún. Brenda þekkir til margra erlendra verkamanna sem vinna á allt of lágum launum á meðan eigendurnir maka krókinn. Þetta kallist að nýta sér aðstæður fólks og sé lítilmannlegt. „Ég hef séð yfirmenn líta niður á undirmenn sína í staðinn fyrir að hjálpa þeim,“ segir hún. Hennar reynsla er sú að yfirmenn komi mun betur fram við undirmenn sína sem eru íslenskir en þá sem eru erlendir.
„Það er einungis hugmynd í hugum fólks að það sé umburðarlynt,“ segir hún. Þegar fólk hagi sér ekki eftir hugmyndunum eða sýni það í verki þá sé það fordómafullt í raun. Hún telur að mikilvægt sé að viðurkenna þetta og að fólk sem búsett er hér sé ekki jafnt. Hér ríki ekki raunverulegt jafnrétti.
Aðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar
Brenda er sæmilega bjartsýn fyrir hönd útlendinga á Íslandi. Hún segist vona að hlutirnir breytist á næstunni en að það sé erfitt að sjá það fyrir. „En ef við mótmælum og komum með lausnir til að hjálpa til þá er von um að á endanum muni hlutirnir breytast,“ segir hún.
Viðbrögðin við frásögn kvennanna eru áhugaverð, að mati Brendu. Hún segir að ákveðin þögn hafi ríkt og að fólk hafi hreinlega verið að átta sig á þessu öllu saman og hver væru réttu viðbrögðin við frásögnunum. Auðvitað sé gott að fólk sé meðvitaðra um hvað sé að gerast í heimi erlendra kvenna en nauðsyn sé á aðgerðum stjórnvalda. Stjórnmálamenn séu þeir sem geti breytt lögum og þar af leiðandi aðstæðum þessa fólks. En Brenda spyr sig hversu langt þeir séu tilbúnir að ganga í þágu málstaðar erlendra kvenna og karla. Og að viðurkenna að stofnanir séu að bregðast þessu fólki.
En ef við mótmælum og komum með lausnir til að hjálpa til þá er von um að á endanum muni hlutirnir breytast.
Hún á þessa tvo drengi, fjögurra og níu ára, sem eiga íslenska feður og þekkja ekkert annað en að búa á Íslandi. „Það sem ég vil ekki er að börnin mín þurfi að velja á milli þess að vera Íslendingar eða frá Úganda. Ég vil að þau geti valið að segjast vera frá báðum löndum,“ segir hún. Hvorugt ríkisfangið skilgreini hver þau eru.
Brenda segir að þetta land gæti verið það besta til að búa á. Að það sé það að vissu leyti. En það gæti verið enn betra.
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi