Hæstiréttur vísaði í gær frá dómstólum kröfu lögmannsins Vilhjálms H. Vilhjálmssonar þess efnis að Arnfríður Einarsdóttir Landsréttardómari viki sæti vegna vanhæfis á þeim grundvelli að hún hafi ekki verið skipuð með réttum hætti í embætti. Kjarninn fjallaði um niðurstöðuna hér.
Dómur Hæstaréttar er ekki með öllu skýr um hvers vegna ákveðið er að vísa málinu frá, það er að segja hvað dómurinn telur ekki nægilega skýrt í kröfugerð lögmannsins, hvaða leið hann hefði þá frekar átt að fara og hver eru þá hin réttu næstu skref í málinu.
Þeir lögmenn sem Kjarninn hefur rætt við í dag eru ekki á sama máli hvaða skilaboð Hæstiréttur er að senda með niðurstöðu sinni.
Dómarinn ekki persónulega vanhæfur
Í dómnum segir að þær ástæður sem gefnar eru upp fyrir kröfunni um vanhæfi innihaldi ekki neitt af þeim atriðum sem valdið getur vanhæfi eftir lögum um meðferð sakamála.
Í lögunum segir að dómari sé vanhæfur til þess að fara með mál, meðal annars ef fyrir hendi eru „önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.“ Þetta er g-liður 6. gr. laga um meðferð sakamála - svokallað ruslakistuákvæði - þar sem undir falla ekki sérstæk vanhæfis tilvik, eins og til dæmis ef dómarinn er skyldur aðila eða tengist til dæmis vitni í málinu, heldur einfaldlega ef einhver atvik eða aðstæður geta valdið því að dómarinn sé ekki hlutlaus í málinu.
Vilhjálmur byggði í málflutningi sínum, bæði í munnlegum málflutningi fyrir Landsrétti og skriflegri greinargerð fyrir Hæstarétti á þessu ákvæði. Sem sagt að skjólstæðingur hans gæti vegna þess hvernig hún var skipuð dregið óhlutdrægni Arnfríðar Einarsdóttur í efa.
Hæstiréttur segir hins vegar um þessa 6. grein laganna að þau atriði sem þar eru upp talin, og engin önnur, geti orðið til þess að dómari víki sæti í málinu ef aðili telur að eitthvert atriðanna eigi við um dómara og krefjist þess. Og telur greinilega að í þessu máli falli það hvernig staðið var að skipun Arnfríðar ekki undir ruslakistuákvæðið.
Dómurinn segir að í röksemdum Vilhjálms sé hvergi haldið fram nokkru því sem valið gæti eftir 6. greininni að landsréttardómarinn Arnfríður Einarsdóttir teldist vanhæf til að fara með mál þetta og bæri af þeim sökum að víkja sæti í því, „heldur snúa röksemdir varnaraðila í hvívetna að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þessa dómara.“
Síðan segir Hæstiréttur: „Jafnvel þótt á það yrði fallist gæti það samkvæmt framansögðu aldrei orðið til þess að krafa varnaraðila yrði tekin til greina. Hefur hann því í málatilbúnaði sínum klætt það álitaefni, sem hann í raun leitar úrlausnar um, ranglega í búning kröfu um að dómarinn víki sæti í málinu.“
Þannig hafi úrskurður Landsréttar, sem var kærður til Hæstaréttar og niðurstaða réttarins fjallar um, ekki með réttu snúist um ágreining um það efni og geti af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar, samkvæmt lögum um meðferð sakamála, en þar er kveðið á um það að í 211. gr. að úrskurðir Landsréttar um hvort dómari við réttinn víki sæti í málinu skuli sæta kæru til Hæstaréttar.
Óhagræðið augljóst
Vilhjálmur segist í samtali við Kjarnann ekki sammála forsendum Hæstaréttar. „Það er grunnregla í réttarfari og að rök og mótmæli eiga að koma jafn fljótt fram og kostur er. Þess vegna taldi ég rétt að vekja strax athygli á hæfisskorti Landsréttar í máli og gera kröfu um það að dómurinn yrði rétt skipaður. Samkvæmt dómi Hæstiréttar virðist sem að það sé þá enginn leið til þess að óbreyttum lögum að fá úr því skorið strax hvort að sá dómurinn sem valinn er til setu í hverju máli í Landsrétti sé hæfur og rétt skipaður heldur þurfi að bíða efnisdóms og freista þessu svo að fá þeim dómi hnekkt með áfrýjun til Hæstaréttar. Óhagræðið af þessu er augljóst. Bæði hvað réttindi sakbornings og skilvirkni réttarkerfsins.“
Vilhjálmur segist telja að eins og „ruslakistuákvæðið“ sé orðað að það sé ákærði og ákærði einn sem geti ákveðið það hvort að hann telji að atvik og aðstæður séu með þeim hætti að hann megi með réttu draga óhlutdrægni dómara í efa. Það sé síðan dómstóla að skera úr um það hvort þau rök sem ákærði tefli fram til stuðnings kröfu sinni eigi að leiða til þess að dómari víki sæti eða ekki og taka þannig efnislega afstöðu til sjónarmiða ákærða og segist vera á þeirri skoðun að Hæstirétttur hafi átt að gera það í þessu tilviki.
„Kröfugerðin í þessu máli var með hefðbundum hætti og uppfyllti öll formskilyrði sakamálalaga. Það er auðvitað jafnframt þannig að héraðsdómur kvað upp úrskurð í málinu. Úrskurðurinn varðaði hæfi eins dómara í málinu og það er skýrt kveðið á um það í lögunum að slíkir úrskurðir sæti kæru til Hæstaréttar. Ákvæðið hljómar reyndar þannig að úrskurðir Landsréttar um það hvort að ,,dómari Landsréttar víkji sæti í máli" sæti kæru til Hæstaréttar. Það má hugsanlega velta því upp hvort að Hæstiréttur sé með þessum dómi að segja að viðkomandi dómari sé ekki dómari Landsréttar þar sem hún var ekki skipuð samkvæmt lögum og þess vegna sé ekki kæruheimild til staðar.“
Vilhjálmur segir næstu skref verða þau að Landsréttur boði til flutnings þar sem málið verður efnislega flutt. „Síðan kemur dómur. Að honum gegnum þarf að taka afstöðu til hvort að rétt sé að freista þess að áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Þar mætti eftir atvikum hafa uppi þá kröfu að dómur Landsréttar yrði ómerktur þar sem einn dómarinn sem dæmdi málið hefði ekki með réttu verið handhafi dómsvalds. Nú ef Hæstiréttur synjar um áfrýjunarleyfi þá er dómur Landsréttar endanlegur. Þá er eftir atvikum hægt að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. En það er síðara tíma mál,“ segir Vilhjálmur.
Hljóti að vera mistök
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir í samtali við Kjarnann að niðurstaðan hljóti að vera mistök hjá Hæstarétti. Hann fær ekki séð að dómurinn hafi unnið rétt úr kröfu Vilhjálms, sem geri í sinni kröfu allt sem til þurfi.
„Þeir eru að gefa það í skyn að hann sé bara að leita eftir höggi á dómsmálaráðherra, þegar hann er að útskýra vanhæfiskröfuna og setja hana í samhengi við ákveðna atburðarás sem varð í samfélaginu og mér finnst alveg rétt hjá honum að gera það,“ segir Ragnar
Aðspurður um hvaða skilaboð felist í þessum dómi og hvort þetta þýði að rétta leiðin sé sú að fá efnislega niðurstöðu í málinu frá Landsrétti og gera síðan kröfu um ómerkingu fyrir Hæstarétti á þeim grundvelli segir Ragnar að það skilji nú þegar hver maður á hvaða grunni lögmaðurinn byggi dómkröfu sína.
Það að fara þessa löngu leið sé andstætt reglunni um að gera eigi það sem heppilegast sé í hverju tilviki til að fara stystu leiðina í réttarfari en ekki þá lengstu. „Þetta er stysta leiðin og þessi leið er alveg fullkomlega rétt til þess að leysa úr ágreiningsefninu að mínu viti.“
Ekki vanhæfi heldur ólögmæti
Arnar Þór Stefánsson lögmaður segir að í dómnum sé Hæstiréttur aðeins að fjalla um vanhæfi í þröngum skilningi þess hugtaks, það er að segja hvort viðkomandi dómari hafi einhver tengsl við aðila málsins eða hvort fyrir hendi séu einhver atvik sem valdi því að hann sé ekki persónulega hæfur, til dæmis eitthvað sem dómarinn hafi sagt eða gert eða eitthvað í þá veru, sem eigi ekki við í þessu tilfelli.
„Hæstiréttur segir ekkert slíkt vera fyrir hendi en til að svara spurningunni um lögmæti skipunarinnar á viðkomandi dómurum, eða gildi þeirrar skipunar þá verður að leysa úr því undir efnishlið málsins og þá undir áfrýjun. Þar myndi rétturinn þá fjalla um hvort skipunin sé ógild eða ógildanleg með þeim afleiðingum að dómur sem viðkomandi hefur setið í sé í reynd ólögmætur,“ segir Arnar.
Hann segir að það kunni að verða niðurstaða Hæstaréttar að þó að það hafi verið annmarki á skipun dómaranna þá sé það ekki endilega sjálfgefið að slíkur annmarki haggi skipuninni sem slíkri. „Þá ertu komin í ógildingarfræðin í stjórnsýsluréttinum og það þarf að svara spurningunni, hversu alvarlegur þarf annmarki að vera til að það valdi ógildingu á skipuninni? Í því efni er það einnig svo að mjög mikið tregðulögmál er í þeim fræðum við því að hagga skipunum í opinber embætti. Einnig yrði horft til ákvæða stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir lögmætum dómstól og að skipun dómsvaldsins verði ekki ákveðin nema með lögum.“ Sé það mat Hæstaréttar að annmarkinn á skipuninni sé nægilega alvarlegur til að hnekkja skipuninni og/eða fyrir sé að fara broti gegn stjórnarskrá yrði dómur sem viðkomandi dómari sæti í í ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar tillögmætrar meðferðar fyrir réttilegum skipuðum dómurum.
Ef Hæstiréttur hins vegar taki ekki undir kröfuna þá sjái samt sem áður ekki fyrir endann á málinu þar sem það sé alveg ljóst að einhver lögmaður muni láti á það reyna fyrir Mannréttindastól Evrópu í Strassborg og þá út frá ákvæðinu í mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.
Arnar segir að í raun hvíli skylda á öllum lögmönnum út frá réttarríkis- og réttarörygissjónarmiðum að láta reyna á þessi grunnatriði um lögmæti skipunarinnar og afleiðingar af hugsanlegu ólögmæti.
„Það hafa þegar fallið efnislegir dómar í einhverjum málum þar sem þessir fjórir einstaklingar eru dómarar. Það þarf að láta reyna á þessi prinsip og ég tel að sú skylda hvíli einfaldlega á fyrsta lögmanninum í röðinni hvort sem það verður minn ágæti kollegi Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, ég eða einhver annar, að sækja um áfrýjunarleyfi á þessum grundvelli og láta reyna á þetta,“ segir Arnar og bætir við að þetta þurfi að gerast sem fyrst til að eyða réttaróvissunni.
Réttaróvissan heldur áfram
Niðurstaðan er því að öllum líkindum sú að Hæstiréttur mun ekki taka afstöðu til þess efnislega hvort aðferðin við skipun dómaranna fjögurra við Landsrétt valdi því að dómar þeirra séu ólögmætir fyrr en einhver gerir kröfu þess efnis við áfrýjun Landsréttardóms.
Með niðurstöðu Hæstaréttar í gær er ljóst að sú óvissa mun halda eitthvað áfram, þó gera megi ráð fyrir að einhver innan lögmannastéttarinnar láti mjög fljótlega á þetta reyna. Hæstiréttur mun að öllum líkindum veita hverjum sem er slíkt áfrýjunarleyfi ef beðið verður um það á þessum grundvelli.
Eins og áður hefur komið fram gæti niðurstaða Hæstaréttar orðið með þeim hætti að þrátt fyrir þá annamarka sem rétturinn hefur þegar gefið út að séu á skipuninni valdi það því ekki að dómar sem dómararnir fjórir fella séu ólögmætir. Þá kemur til þess að einhver lögmaður fari með slíkt mál fyrir erlenda dómstóla. Slíkt ferli gæti tekið hátt í þrjú ár og því hætta á að þessi óvissa muni vara í lengri tíma. Og því má ekki gleyma að fari svo að málið endi fyrir erlendum dómstólum sem komist að þeirri niðurstöðu að skipanirnar hafi verið ólögmætar gætu allir þeir dómar sem þessir dómarar fella í millitíðinni talist ólögmætir.