Pexels

„Lýðræði í verki hlýtur að þurfa að ná til allra en ekki bara sumra“

Til þess að byggja upp gott samfélag þarf að huga að öllum þegnum þess, ekki síst jaðarhópum á borð við þá af erlendum uppruna, að mati sérfræðings. Margar leiðir eru að markmiðinu en eitt það mikilvægasta er að huga að þeim yngstu og sjá til þess að allir fái sömu tækifæri til menntunar.

Með vaxandi fjölbreytileika íbúa þurfa samfélög að takast á við krefjandi aðstæður sem geta komið upp í kjölfarið. Til þess að allir fái jöfn tækifæri þá er mikilvægt að kanna hvernig Íslendingar standa sig í því að aðlaga skólakerfið að menningu og tungumáli þeirra sem flytjast hingað til lands. Samkvæmt nýlegri rannsókn er nauðsynlegt að skólar, kennarar og stjórnendur vinni saman til að miðla góðri þekkingu og aðferðum en því hefur verið ábótavant í íslenskum skólum. Einn rannsakendanna segir að Íslendingar geti ekki firrt sig ábyrgð og að allir skólir verði í sameiningu að axla ábyrgð á þessum málaflokki.

Nýlega var viðamikið rannsóknarverkefni unnið undir íslenska heitinu Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Frásagnir um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum. Rannsakaðir voru 27 skólar í fjórum löndum, þar af níu á Íslandi, þar sem vel hafði gengið í vinnu með börnum af erlendum uppruna. Rannsóknin stóð yfir í þrjú ár og lauk í lok árs 2015.

Meginmarkmið verkefnisins var að öðlast skilning á reynslu nemenda af erlendum uppruna á Íslandi og í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem átt hafa náms- og félagslegri velgengni að fagna og að kanna hvernig félagslegt réttlæti birtist í skólastarfi og öðru námsrými sem byggt er á margbreytileika og hefur jafnrétti að leiðarljósi.

Kennarar almennt ekki reiðubúnir

Hanna Ragnarsdóttir Mynd: Háskóli ÍslandsHanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og einn rannsakendanna, segir að skólar hafi verið valdir í verkefnið sem vitað var að hefðu gert góða hluti í þessum málum. „Almennt held ég að við getum sagt að þekkingin sé að aukast en aftur á móti er langt frá því að allir skólar séu tilbúnir til að taka á móti fjölbreyttum nemendahópum hvað þetta varðar,“ segir hún og bætir því við að hún telji að raunveruleikinn sé alls ekki sá að kennarar séu almennt tilbúnir. Hún bendir á að alhliða fræðslu þurfi og menntun varðandi þessi málefni.

Mikilvægt er að byggja á öllum tungumálum og styðja fjöltyngi með margvíslegum aðferðum, segir í niðurstöðum verkefnisins. Jafnframt að nauðsynlegt sé að fjölga móðurmálskennurum til að kenna og styðja við móðurmál innflytjendabarna. Foreldrasamstarf sé einn af lykilþáttunum í velgengni nemenda og í sumum skólum í rannsókninni skorti frumkvæði í samskiptum við foreldra en í þeim skólum þar sem slíkt frumkvæði var fyrir hendi hafði þróast afar farsælt starf með innflytjendabörnum og fjölskyldum þeirra.

Öll börn eiga rétt á menntun

Hanna segir að nauðsynlegt sé að allir skólar axli ábyrgð. Hún bendir á að þetta viðfangsefni snerti alla og í flestum bekkjum eða barnahópum séu börn af erlendum uppruna. Þannig sé samfélagið í dag. Ákveðna vitundarvakningu þurfi varðandi þessi mál.

Í fyrsta lagi snýst þetta um réttindi barna til menntunar, að sögn Hönnu. „Það þarf nú ekki að fara langt til að sjá þessi réttindi, þau eru í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í lögum um skóla á öllum stigum. Í okkar lagaumgjörð eru réttindi barna til menntunar mjög skýr. Í öðru lagi finnst mér þetta vera stórt samfélagslegt mál. Ef við sinnum ekki menntun ákveðins hóps þá sjáum við fram á mjög lagskipt samfélag, þar sem ákveðinn hópur verður á jaðrinum til lengri tíma. Við erum að nokkru leyti nú þegar farin að sjá það,“ segir hún og bætir því við að börn sem hafa ekki fengið nægilega góða menntun við hæfi, og þar sem ekki hafi verið brugðist nægilega vel við þeirra þörfum, lendi á jaðrinum í samfélaginu.

Ef við sinnum ekki menntun ákveðins hóps þá sjáum við fram á mjög lagskipt samfélag, þar sem ákveðinn hópur verður á jaðrinum til lengri tíma. Við erum að nokkru leyti nú þegar farin að sjá það.
Samkvæmt rannsókninni er nauðsynlegt að skólar, kennarar og stjórnendur starfi saman að því til að miðla góðri þekkingu og aðferðum.
Pexels

Íslendingar geta ekki firrt sig ábyrgð

Hægt er að finna fjölda dæma, bæði frá Íslandi og öðrum löndum, hvernig hægt sé að gera hlutina vel, að sögn Hönnu. „Þannig að við getum ekki firrt okkur ábyrgð,“ segir hún. „Við sjáum að þetta er hægt og það er fjöldi skóla sem er nú þegar að gera þetta vel, bæði á Íslandi og erlendis.“ Til þess að ná sem bestum árangri í þessum efnum er hægt að fara margar leiðir, að mati Hönnu, eins og hefur sýnt sig í fjölmörgum skólum á Íslandi.

Hún segir að sveitarfélögin séu sum að axla mikla ábyrgð og sýna gott frumkvæði. Þetta sé ekki einungis bundið lögunum heldur skipti stefnan og framkvæmdin í sveitarfélögunum miklu máli. Þau beri ábyrgð á leik- og grunnskólum og leggi þar af leiðandi línurnar. Svo sé það skólanna að taka við boltanum. „Þetta er náttúrulega svo löng leið, frá lögum og stefnu til framkvæmdar. Það verður að hugsa þetta alla leið til barnsins, þannig að þetta er ekki einfalt,“ segir hún. En á móti komi að Íslendingar búi í pínulitlu samfélagi og þess vegna telur Hanna að það séu forsendur til að gera þetta vel og að fólk geti lært hvert af öðru.

Mikilvægt að hvetja fólk til þátttöku

Í lokaskýrslu rannsóknarverkefnisins er bent á að til að miðla góðri þekkingu og aðferðum sé nauðsynlegt að skólar, kennarar og stjórnendur, starfi saman að því. Lítið hafi verið um slíkt í rannsókninni og hver skóli, og jafnvel einstakir kennarar, hafi virst þróa eigin þekkingu og aðferðir. Einnig sé mikilvægt að meira samtal og samstarf sé milli háskóla sem mennta og endurmennta kennara. Hanna segir að óþarfi sé fyrir alla að finna upp hjólið og byrja frá grunni. „Nú þarf að miðla, skólar og kennarar þurfa að læra hver af öðrum og styðja hvern annan,“ segir hún.

Það þurfi ennfremur að styðja alla til þátttöku og vera viss um að fólk sé upplýst og geti tekið þátt í ákvörðunum. „Lýðræði í verki hlýtur að þurfa að ná til allra en ekki bara sumra,“ segir hún.

Varðandi almenna samfélagslega þátttöku þá þarf bæði að hvetja fólk til að taka þátt og búa til svigrúm fyrir það, að mati Hönnu. Ekki tala það niður þar sem það er að leggja sig fram, til að mynda þegar fólk er niðurlægt fyrir að tala ekki tungumálið fullkomlega. „Það eru þessi viðhorf sem eru ekki í nógu góðu lagi hjá okkur. Það þarf að vera samstaða um að hvetja til þátttöku og bjóða fólk velkomið og ekki níðast á því þegar það reynir að taka þátt,“ segir hún að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar